« Mannshjartað er þungt og forhertJólaprédikun 2007 »

31.01.08

  22:15:47, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 872 orð  
Flokkur: Lífsvernd

Heilög Gianna Beretta Molla (1922-1962)

Gianna Beretta fæddist í Magenta, Mílanó, á Ítalíu 4. október árið 1922.

Strax sem ung stúlka tók hún á móti gjöf trúarinnar af fúsum vilja, svo og hinni ágætu kristnu fræðslu sem hún hlaut hjá sinum góðu foreldrum. Þetta átti sinn þátt í því að Gianna leit á lífið sem einstaka gjöf frá Guði. Þá leiddi þetta til þess að hún öðlaðist sterka trú á guðlega forsjón og varð sannfærð um nauðsyn og áhrifamátt bænarinnar.

Gianna stundaði framhalds- og háskólanám sitt af kostgæfni. Samhliða náminu iðkaði hún trú sína af ósérhlífni í postullegu starfi í þágu barna og unglinga svo og í góðgerðarstarfsemi meðal aldraðra og þurfandi. Þetta starf vann hún sem félagi í samtökum heilags Vincent de Paul. Þegar Gianna hlaut háskólagráðu í læknisfræði (skurðlækningum) frá háskólanum í Pavía árið 1949, opnaði hún læknastofu í Mesero, nærri Magenta, árið 1950.

Gianna sérhæfði sig í barnalækningum við háskólann í Mílanó árið 1952. Eftir það sinnti hún að aðallega mæðrum, börnum, öldruðum og fátækum.

Samtímis lækningastarfinu, sem Gianna leit á sem lífsköllun sína, fór hún að auka þátt sinn í starfi meðal unglinga og sérstaklega meðal ungbarna. Á þessum tíma birtist lífsgleði hennar og elska til sköpunarverks Guðs í skíðaiðkun og fjallaklifri. Í sínum eigin bænum og eins í bænum annarra, fór hún að velta köllun sinni fyrir sér, en hún leit á hana sem gjöf Guðs. Köllun hennar lá innan vébanda hjónabandsins. Þeirri köllun sinnti hún af brennandi áhuga og helgaði sig algerlega því að mynda sanna kristna fjölskyldu.

Gianna trúlofaðist Pietro Molla og hún geislaði af gleði og hamingju meðan á trúlofun þeirra stóð. Fyrir þetta þakkaði hún Guði og lofaði Hann. Gianna og Pietro giftust 24. september árið 1955. Sér til mikillar gleði, ól Gianna son, sem fékk nafnið Pierluigi, í nóvember 1956. Í desember 1957 eignaðist hún Mariolinu og í júlí 1959 kom Laura í heiminn. Með látleysi og einfaldleika, ásamt jafnvægi, samræmdi hún þarfir móðurinnar, eiginkonunnar, læknisins og hins ástríðufulla áhuga hennar á lífinu.

Í september árið 1961 bar Gianna fjórða barn þeirra hjóna undir belti. Rétt fyrir lok annars mánaðar meðgöngunnar fór Gianna að finna fyrir óþægindum og verkjum. Í ljós kom að æxli var komið í legið.

Áður en til nauðsynlegrar skurðaðgerðar kæmi og meðvituð um hættuna sem fylgdi meðgöngunni, sárbændi hún skurðlækninn um að bjarga lífi barnsins sem hún bar, en lagði eigið líf algerlega í hendur Guðs og treysti á mátt bænarinnar. Lífinu var bjargað og var hún Guði þakklát fyrir það.

Þá sjö mánuði sem eftir voru af meðgöngunni, lifði Gianna með óviðjafnanlegum andlegum styrk og óþreytandi trúmennsku við skyldur sínar sem móðir og læknir. Hún óttaðist að barnið í kviði hennar myndi þjást við fæðinguna, og hún bað Guð að koma í veg fyrir það.

Nokkrum dögum áður en barnið skyldi fæðast, var Gianna, þrátt fyrir traust sitt á forsjón Guðs, reiðubúin að fórna lífi sínu ef það gæti bjargað lífi barnsins hennar. Hún sagði: “Ef þú verður að velja á milli mín og barnsins skaltu ekki hika: veldu barnið – ég krefst þess. Bjargaðu því.”

Morguninn 21. apríl árið 1962 kom Gianna Emanuela í heiminn. Þrátt fyrir allar tilraunir til þess að bjarga lífi bæði móður og dóttur dó móðirin þann 28 apríl. Hún leið ólýsanlegar þjáningar. Gianna endurtók orðin: “Jesús, ég elska þig! Jesús, ég elska þig!” Síðan leið hún útaf og yfirgaf þennan heim. Gianna var 39 ára gömul. Jarðarför hennar var þrungin djúpri sorg, trú og bænaranda.

“Meðvituð fórnargjöf”. Þetta hugtak notaði Páll páfi VI þegar hann lýsti gjörð blessaðrar Giönnu. Þetta gerði páfi þegar hann minntist hennar 23. september 1973. Páfi sagði ennfremur: “Ung móðir úr biskupsdæmi Mílanó, sem fórnaði eigin lífi með “meðvitaðri fórnargjöf” svo að dóttir hennar mætti lifa”. Hér er hin Heilagi Faðir augljóslega að vísa til Krists á krossinum og Altarissakramentisins.

(Þetta æviágrip er þýðing af
heimasíðu Vatikansins.)

Jóhannes Páll páfi annar tók Giönnu Berettu Molla í tölu blessaðra 24. apríl 1994. Sami páfi tók hana svo í tölu heilagra (dýrlinga) 16. maí 2004.

Messudagur hennar er
28. apríl ár hvert.

No feedback yet