« TalnabandiðKynferðisglæpir innan kaþólsku kirkjunnar á Íslandi »

18.03.12

  13:33:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1738 orð  
Flokkur: Ýmsir höfundar

Heilagur Jósef - Verndari hinnar helgu fjölskyldu

Heilagur Jósef - Verndari hinnar helgu fjölskyldu
Æðstur dýrlinga á himnum
Vitnisburður vina heilags Jósefs

Heilagur Jósef stendur Himnadrottningunni næstur í vegsemd og virðingu, þar sem hann af Himnaföðurnum sjálfum var kjörinn verndari hennar og Sonar Guðs. Vegna þess heiðurs og þeirrar tignarstöðu sem hann gegndi í jarðnesku lífi, ber að heiðra hann og tigna meðal dýrlinga næst á eftir heilagri Guðsmóður.

Í guðspjöllunum er heilögum Jósef lýst sem “grandvörum” manni, sem hlýddi í einu og öllu bæði lögmálum og boðorðum Guðs og var grandvar í orðum og ræðu, dómum sínum og verkum. Vegna sinna mannkosta var Jósef kjörinn til að uppfylla æðsta hugsanlega hlutskipti dýrlings Drottni til dýrðar. Og ef við viljum taka hann okkur til fyrirmyndar og leitast við að líkja eftir Jósef í viðleitni til að lifa líku lífi þóknanlegu guði, þá leitum árnaðarbæna hjá honum, að okkur megi einnig auðnast sú náð að greiða leiðina til heilagleika og verða grandvör eins og hann.

Það er því í ljósi þess heilagleika, sem Jósef auðsýndi í orði og verki, að við hyllum þennan æðsta dýrling og biðjum að sú náð veitist okkur, að hann gerist verndari okkar og fjölskyldu. Í því tilefni helgum við honum einn dag í viku, miðvikudag í þeim mánuði sem við biðjum að verði helgaður honum líkt og við helgum maí mánuð heilagri Guðsmóður. Til þess að svo megi verða biðjum við hina hefðbundnu bæn: “Til þín Ó heilagur Jósef…” í kirkjunni okkar. Gefist ekki tækifæri til að biðja þessa bæn sameiginlega í kirkjunni, þá biðjum hana í einrúmi hvern dag í þessum mánuði, sem tileinkaður er heilögum Jósef.

Í bænabókum kirkjunnar er að finna margar aflátsbænir helgaðar heilögum Jósef, en þeir, sem hafa þróað hjá sér persónulegt og innilegt samband við verndara kirkjunnar og fjölskyldunnar, eiga sín eigin bænaorð sem streyma fram í elsku til hans, en slíkar bænir eru honum ekki síður til dýrðar og þóknanlegar en hefðbundin bæn.

Sem kjörinn verndari Jesúbarnsins, hyllum við hann einnig sem sérstakan verndara fjölskyldu okkar, því sem huggari og verndari stendur hann Drottningu huggunarinnar næst. Fjölmargar reglur og félagshópar hafa kjörið heilagan Jósef sem verndara sinn og eiga því velgengni sína honum að þakka. Enginn dýrlingur er honum ofar og því megnar enginn annar í þeirra röðum að hjálpa sem hann. Leggjum því öll okkar að mörkum að þessi mánuður, helgaður heilögum Jósef, verði okkur öllum til velfarnaðar. Til þess að svo megi verða biðjum öll níu daga bæn til heilags Jósefs, --höldum hátíð honum til heiðurs og verum staðföst í dyggðum og örlát á fórnir.

Leggið traust ykkar á heilagan Jósef

Næst á eftir bænastað til heilagrar Guðsmóður er ákall til heilags Jósefs um að mæta andlegum og veraldlegum þörfum okkar. Aðrir dýrlingar sinna tilteknum þörfum manna, sem milligöngumenn milli Guðs og manna, en heilagur Jósef hefur þá sérstöðu að hann geymir lykilinn að þeim andlega fjársjóði Jesú og Maríu, sem okkur á jörðu niðri stendur til boða að eignast hlutdeild í. Líkt og á jörðu niðri, þegar Jesús og María voru hjálparhellur Jósefs í lífi og starfi, þá eru Jesús og María reiðubúin að uppfylla óskir heilags Jósefs í hinu himneska veldi.

Helgisaga segir að innan marka Paradísar séu fjölmargir, sem ekki var hleypt inn fyrir tilstilli Lykla Péturs, heldur áttu þeir inngöngu sína og sess í himnaríki að þakka hollustu sína og tignun bjargvættarins heilags Jósefs. Þetta er aðeins helgisaga, en hún endurspeglar samt tiltrú manna á kraft og mátt heilags Jósefs, sem í skjóli Jesú og Maríu, megnar að leysa jafnvel hið óleysanlega. Hver sá, sem á í andlegu sálar- og trúarstríði ætti því að fela sig í umsjón heilags Jósefs.

Þótt heilagur Jósef sé sérstakur miðlari guðlegrar miskunnar, þá er hann einnig sértækur meðalgöngumaður góðrar heilsu og björgun úr lífsháska, eins og hans eigið líf bar vott um, er hann bjargaði lífi fóstursonar síns Drottins vors og móður Hans hinni Heilögu Guðsmóður. Hann er einnig verndardýrlingur námsmanna, enda kom í hans hlut og Móður Jesú að uppfræða drenginn, Jesú Krist.

Heilagur Don Bosco sagði eitt sinn, er hann var ungur maður, að “Ef þig fýsir að halda góðri heilsu og verða farsæll í lífi og starfi, þá leggðu hald og traust þitt á heilagan Jósef,” því hjá Guði nýtur hann mikillar náðar sem milligöngumaður. Svo hafi þér verið falið trúboð, þá beindu árnaðarbænum þínum að heilögum Jósef, hvort sem um er að ræða andlegar eða líkamlegar þarfir.

Segja má um heilagan Jósef, líkt og um heilaga Guðsmóður, að allt megna þau fyrir vilja og tilstilli Guðs. Við skulum því fela heilögum Jósef allar andlegu og veraldlegu þarfir okkar. Biðjum ekki bara okkur sjálfum til heilla, heldur einnig fyrir samfélagi okkar, trúboði og kirkjunni allri.

Eftirbreytni eftir heilögum Jósef

Ekki nægir að biðja árnaðar dýrlings einungis til að heiðra hann, því okkur ber einnig að leggja okkar að mörkum að við megum bænheyrð verða og leitast við að feta í fótspor hans með því að líkja eftir dygðum hans í orði og verki. Að undanskilinni Heilagri Guðsmóður, sem var sérstök sköpun Guðs án syndar, “full náðar,” eins og segir í Heilagri ritningu, þá bjó heilagur Jósef, eins og áður segir, yfir hvað mestum mætti til náðargjafa allra dýrlinga. Útvalinn að Guði, sem samboðinn eiginmaður og verndari Maríu Meyjar og Guðssonarins, var hann einnig sú fyrirmynd, sem veitir hvað styrkasta stoð öllum þeim sem leita framgöngu í dyggðum og andlegu lífi.

Þar sem hans eigið líf var helgað innri íhugun, hefur margt reglufólk valið sér hann sér til verndar og fyrirmyndar eins og fjölmörg dæmi eru um. Sem dæmi má nefna hinn margrómaða heilaga Francis de Sales, sem kaus heilagan Jósef sem sértækan verndardýrling reglu sinnar, sem ber heitið: “Heimsókn Maríu til Elísabetar.” Hver sá, sem mikið mæðir á og á í erfiðleikum með bænahald, hugleiðslu eða íhugun ætti að leita sér aðstoðar hjá heilögum Jósef. Í trúboði t.d. er lífinu lifað á eilítið frábrugðin hátt frá því sem hinir veraldlegu eiga að venjast og getur það oft reynst mörgum erfitt, þrátt fyrir bænalíf, að viðhalda góðum mannlegum tengslum. En þá er gott að leita stuðnings og þrautseigju hjá heilögum Jósef, sem þrátt fyrir sína miklu og erfiðu vinnu, var óþreytandi í að efla sífellt góð tengsl sín við Jesúm og Maríu.

Heilagur Jósef var auðmjúkur maður, sem okkur ber að taka til fyrirmyndar, því öll erum við, að meira eða minna leyti, undirorpin hroka. Einnig í þeim efnum getum við leitað fyrirmyndar Jósefs, sem sjálfur lifði fábrotnu lífi fátæks smiðs, sem vann í svita síns andlits að framfærslu fjölskyldunnar, þótt hann ætti ættir að rekja til tiginborins fólks. Tilvísun í heilagri ritningu til heilags Jósefs er af skornum skammti, einmitt af því hans hlutverk var að vera fyrirmynd þeirrar auðmýktar, sem er móðir allra dyggða, og sem ein varðar veginn til eilífs lífs --Via Humilitatis.

Hlýðum því fyrirmynd heilags Jósefs og tökum okkur hið fábrotna en iðjusama líf hans okkur til fyrirmyndar. Hlutskipti heilags Jósefs var að vera fyrirmynd allra vinnandi manna og því eru það ekki kraftaverk sem bera brauð á borð hans og fjölskyldu, heldur iðjusemi í fórnfýsi og hógværð. Þar voru engir englar að verki, heldur fyrirmynd hins vinnandi manns, sem var einn í anda með Guði.

Öllum hæfileikum heilags Jósefs var varið til umhyggju fyrir Jesú Drottni vorum og Guðsmóðurinni. Í þeirri helgu tileinkun hans og fórnfýsi, finnum við fyrirmynd að okkar guðssambandi, sem einnig á að endurspegla ást okkar á Guði og viðleitni til að heiðra Hann. Því er rétt, með hliðsjón af fyrirmynd heilags Jósefs, að við tökum til endurskoðunar endrum og eins, hvort við sýnum Guði sama áhuga og hann, sama kærleika í orði og verki, og sér í lagi hvort við helgum okkur Kristi Drottni vorum í hinu allra helgasta altarissakramenti í kirkjunni okkar, sem okkur ber að sækja reglulega í það minnsta á sunnudögum.

Heilagur Jósef hafði að markmiði að leitast við að auka á velferð og hamingju Jesú og Maríu Meyjar í hvívetna. Á sama hátt ber okkur að leita fyrirmyndar heilags Jósefs og tigna þau og virða af sama eldmóði trúarinnar. Við skulum því biðja heilagan Jósef ásjár að við öðlumst guðrækilega ást á Móður Guðs og Syni hennar og hneigjumst til siðprýði og umhyggju fyrir þeim sem okkur er falið að annast eins og maka, börn og foreldra.

Einnig á sviði skírlífis er heilagur Jósef mikil og góð ímynd, því honum var falin umsjón hinnar hreinu meyjar Maríu af Guði sjálfum. Sá sem, á þessu sama sviði, helgar sig heilögum Jósef, mun vissulega hljóta þann styrk, sem til þarf, til að efla þessa dygð og þroska hana með sér.

Helgisaga ein segir að dag einn hafi prestur nokkur mætt hálf ótútlegum bónda, sem var þó mjög andlega og trúarlega þroskaður og vitur. Presturinn spurði hann, hvernig hann vissi svona mikið um Guð og trúarleg efni. Bóndinn svaraði því til, að hann hefði enga aðra kennslu hlotið en hjá heilögum Jósef, en fyrir bænastað hans, handleiðslu og innblástur hefði honum hlotnast viska og þekking.

Heilagur Jósef verndari alheims

Heilagur Jósef er aldrei of mikill heiður sýndur. Rétt eins og margir dagar eru helgaðir hátíðum tileinkuðum Maríu Guðsmóður, eru einnig fjölmargar hátíðir tileinkaðar heilögum Jósef.
Minnisstætt er, þegar hinn heilagi faðir Pius IX lýsti heilagan Jósef verndardýrling allrar hinnar kaþólsku alheims kirkju. En það sama ár hafði Kirkjuþingi Vatikansins borist fjölda tilmæla frá öllum heiminum um að þetta yrði gert og varð sú tilskipun að veruleika á hátíðisdegi óflekkaðs getnaðs Maríu 8. desember árið 1870.

Heilagur Jósef er verndardýrlingur allra vinnandi stétta þjóðfélagsins, en sér í lagi handverksmanna og þeirra klaustur reglna og kirkna, sem draga nafn sitt af honum og eru honum því sérstaklega kærar, en hann er einnig verndardýrlingur allra þeirra fjölmörgu einstaklinga sem kjósa hann sem sinn verndardýrling eða heiðra hann sérstaklega með bænum sínum og óspilltu, heiðvirðu líferni.

Sem verndardýrlingur alheimskirkjunnar er heilagur Jósef einnig verndari trúboða í Kína, en hann var útnefndur sérstakur dýrlingur þeirra þegar árið 1678 af Innocent XI Páfa. Heilagur Jósef er einnig verndardýrlingur Afríku, en hugmyndin að þeirri ákvörðun á sér rætur að rekja til dvalar heilags Jósefs í Egyptalandi.

Heilagur Jósef veitir vernd öllum sem til hans leita í vanmætti sínum og erfiðleikum. Látum oss biðja að hann veiti okkur ávallt og um alla framtíð vernd sína er við frá innstu hjartarótum áköllum hann: “Veit oss heilagur Jósef þá náð að lifa ávallt helgu lífi og megum við til þess njóta alltaf verndar þinnar.”

Tilvísun í grein bl. Josephs Allamano (1851-1926)
Þýtt og endursagt af Dr. Gígju Gísladóttur. [Birt með leyfi þýðanda. Aths. RGB]

No feedback yet