« Trúfræðsla „Faðir vor"Af læsi á kaþólskum síðmiðöldum »

14.12.19

  07:45:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 2626 orð  
Flokkur: Karmelnunnurnar Hafnarfirði

Heilagur Jóhannes af Krossi, vegvísir kærleikans

Í ritverkum sínum beinir Heilagur Jóhannes af Krossi, sem bar viðurnefnið hinn Dulræni Doktor eða Doktor hinnar myrku nætur, aðallega athygli sinni að: kærleika til Brúðgumans - Jesú Krists, og brúðarinnar- sem er sálin. Öll önnur efnistök sem hann tekur til umfjöllunar eru annaðhvort dregin af þessu megin efnisatriði eða þau vísa til þess. Jóhannes er djúpt snortinn af hinum óendanlega kærleika Guðs til manna, sem hann annaðhvort hafði sjálfur uppskorið í gleðivímu fyrir náð heitra bæna - eitthvað í líkingu við þá upplifun sem  ummyndun Krists á fjallinu framkallaði hjá postulunum (Mt 17:1-8), eða sem hann upplifði í myrkri sársaukafullrar reynslu.

Það var fyrir tilstilli þessarar formyrkvunar, að honum var endanlega gert kleift að skilja þá natni og umhyggju, sem Guð auðsýnir er Hann leitar mannsins til að leiða hann til þeirrar fullkomnunar að hann megi verða sem Guði líkastur. Það er endurlausnarverkum Jesú að þakka að gjáin, sem myndaðist fyrir tilstilli syndarinnar, var brúuð. Guð er óþreytandi að leitast við að beita menn margvíslegri lífsreynslu til að leiða menn til sín, en til þess þarf maðurinn sjálfur að hefja för sína í þeirri bjargföstu trú að Hann sé í raun og veru til. Í ritverkum sínum leitast Jóhannes ekki bara við að lýsa hinni sársaukafullu endurkomu úr myrkviði og efasemdum, heldur einnig gleðinni, sem er ávöxturinn. Í formálanum að hinum

Andlegu lofsöngum leggur hann hinsvegar sjálfur áherslu á að vera minnugur eftirfarandi: "Hver getur lýst með orðum þeim skilningi sem Hann veitir kærleiksríkum sálum, sem Hann dvelur í? Hver getur lýst með orðum þeirri reynslu, sem Hann miðlar viðkomandi? Hver getur, þegar allt kemur til alls, fyllilega lýst þeirri þrá, sem Hann kveikir í sálinni? Svo sannarlega getur það engin! Ekki einu sinni þær sálir sem verða fyrir upplifuninni. Af þeim sökum lýsa þessir einstaklingar eitthvað af reynslu sinni í orðaflaumi táknmynda til samanburðar og á líkingamáli, og úr auðlegð andans flæðir leynd og leyndardómar fremur en rökvís skilgreining.

Á íkoninu er heilögum Jóhannesi af Krossi lýst sem vegvísi á vegferð til Karmelfjalls. Karmelfjall er ekki bara ein af mörgum hæðum í Palestínu - það er vagga Reglu Hinnar Sælu Meyjar Maríu á Karmelfjalli. Öldum saman hefur það gegnt ákveðinni táknmynd, sem regla Karmels skilgreinir á dulrænan hátt. Í huga Jóhannesar af Krossi er Karmelfjall og leiðin upp á tind þess ímynd hinnar löngu vegferðar sálarinnar, sem hún þarf að þrauka til að samsamast  Guði - til algjörrar einingar Guðs og manna - hún leiðir til fullkomnun áætlunar Hans fyrir þann mann sem tekst hana á hendur. Jafnframt er þetta fjall táknmynd Jesú Krists sjálfs. Í anda þeirrar ímyndar snúa hinar berfættur Karmelnunnur sér að Maríu í heitri bæn og trausti þess að fyrir bænarstað hennar munu þær njóta velgjörða hennar á vegferð sinni upp á tindinn -"ad montem, qui Christus est" ("Megi hin ljúfa liðsemd hinnar sælu Meyjar Maríu Móður og Drottningu Karmels verða okkur til hjálpræðis, þess biðjum við Ó Drottinn, svo að styrktar af vernd hennar við megum megna að ná til fjallsins, sem er Kristur.")  

Með krossinn í hægri hendi sér, líkt og staf, bendir heilagur Jóhannes í átt að leiðarlokum -að tindi fjallsins. Á hraðri göngu í átt að tindinum, líkt og honum liggi mikið á, bendir hann áhorfanda með vinstri hendi á opna bók í hægri hendi, en á hana er letrað skírum stöfum boðskapur, sem ekki er hægt að misskilja: "Í óskilorðsbundinni ást/Gildir það lögmál/Að sá sem elskar verður/ Eins og sá sem hann elskar" (Romance The Incarnation, p. 66). Sem þýðir: Ef þú vilt öðlast fullkomnun kærleikans, þá er aðeins ein leið - Jesús Kristur. Jóhannes fer þó ekki í grafgötur með það að: leiðin til að endurskapa sál þ.e. brúðurina í anda Jesú Krists þ.e. Brúðgumans, þá leiðir Brúðguminn um vegferð, sem er Hans lífi líkast, og því líkust vegferð krossins. Í Guðspjöllunum minnir Jesús á: "Gangið inn um þrönga hliðið og þrönga veginn," sem er eini vegurinn sem leiðir til konungsdæmi Hans. (Mt 7:13-14).  Jóhannes fylgir í fótspor Hans: "Því á þessum vegi er aðeins rými fyrir sjálfsafneitun og krossinn. Krossinn er sá stuðningsstafur sem léttir og auðveldar ferðalagið." (The Ascent of Mount Carmel II 7:7, p. 171) . Já, krossinn er hinn stöðugi ferðafélagi á sama hátt og hann er ávallt til staðar í lífi hvers manns. En sá, sem viljandi axlar hann, mun upplifa þversögn krossins; hann mun verða hans björgun. (Mt 16:25), hann mun reynast harðræði hans, en þó léttur, hann mun reynast ok, en samt létt ok, (Mt 11:30) því hann býður upp á hlutdeild í lífi Jesú, sem þegar í þessu jarðneska lífi veitir okkur hamingju. Samskonar viska endurómar í riti Jóhannesar: "Ef einstaklingar taka ákvörðun um að bera kross sinn, ef þeir af sjálfsdáðum finna hjá sér hvöt til að þrauka gegn freistingum á öllum sviðum allt fyrir kærleika til Guðs, munu þeir hinir sömu verða áskynja mikillar huggunar og ljúfleika.." (The Ascent of Mount Carmel II 7:7, p. 171) 

Silfurlitur lýsir upp krossins á íkoninu -fyrir Jóhannesi er það litur trúarinnar. Trúin á viðveru Guðs í öllum raunum manna, sem gerir að verkum að krossinn verður að nokkurskonar vegvísi. Trúin og krossinn mynda sameiginlega myrkvan reynsluheim en þjóna um leið sem öruggur áttaviti.

Hjarta Jóhannesar er lýst upp af blóðrauðri eldtungu sem tekur á sig dúfulíki Heilags Anda. Í samræmi við sálina - brúður lofsöngs Hans - ber dýrlingurinn vitni um að slíkur ástareldur er verk Guðs sjálfs, og að sálin verði að hlýða kalli Guðdómsins, hlýðinn vilja Hans: "Með ekkert annað leiðarljós eða vegvísi /en það sem brann í hjarta mér." (The dark Night, Stanza 3, p. 359)

Öll líkamsstaða dýrlingsins ber vott um mann á hraðferð og stefnufestu hans - lífið er of dýrmætt til að eyða til einskis svo mikið sem einu augnabliki og það á vegi, sem þegar hefur verið lagður og þar sem Guð í allri sinni Gæsku bíður - æðsta þrá og gleði mannsins. Smá viðsnúningur Jóhannesar í átt að áhorfanda sýnir að augnaráðið sem hann sendir honum er barmafullt af hvatningu og ákveðni. Hann virðist segja: "Það er þess virði að þola allt harðræði, því Guð er þess virði. Eldtunga er þess megnug að kveikja svo í hjarta þínu að það fær þig til að yfirgefa hinn þrönga heim eigin hvata og gefa þig algjörlega á vald þeirrar fegurðar og eilífðar sem fyrirhuguð er í kærleiksáætlun Hans þér til handa."

"Ef einhver leitar Guðs, þá er Brúðguminn þegar að leita hans enn ákafar." (The Living Flame of Love 3:28, p. 684) Hann er ávallt Ljósið sem lýsir, jafnvel strax í upphafi vegferðar. (Jh 1:9). En augu sálarinnar þarfnast hreinsunar. Guð er "of" nálægur henni. Ljós Hans er of skært, að því marki að það byrgir jafnvel dapri sjón hennar sýn, þessvegna þrammar hún áfram í myrkri þar til sjónin hefur verið endurvakinn. Þessi leyndardómur Guðs, sem lýsir sér upphaflega í trúarlegri glámskyggni, er sýnt á táknrænan hátt með fölgulum lit stígsins upp á tindinn. Guli liturinn er svo nátengdur gyllta litnum að hann er stundum notaður í staðinn fyrir sjálft gullið. Gull á íkonum táknar hið Guðdómlega ljós. 

Karmelfjall er óvenjulega bratt og fullt af gjám. Við rætur þess eru þrjár uppgönguleiðir. Þær vísa til teikningar sem Jóhannes af Krossi notaði við kennslu sína. Teikningin sýnir þrjár leiðir til uppgöngu með eftirfarandi leiðbeiningum: leiðin til hægri vísar til þeirra sem leita veraldlegs ávinnings, sú til vinstri - leið þeirra sem leitast við að öðlast laun á himnum fyrir verk sín. Vegurinn í miðjunni - er vegur sjálfsafneitunar. Vegirnir tveir til hliðanna lokast og leiða ekki upp á tindinn. Þangað leiðir aðeins vegur þess sem leitar ekki "umbunar" krefst einskis, (The Ascent of Mount Carmel II 7:7, p. 171) sem í raun er einfaldlega eftirbreytni eftir Kristi: "sem, þótt Hann væri í Guðs mynd' (…)  svipti Hann sig öllu." (Phil. 2:6-7)

Krúna fjallsins er umvafin gullnum "bjarma." Tindurinn er flatneskja sem "teygir" sig í átt að hinni gullnu eilífð Guðs. Heilagur Jóhannes skýrir þetta með teikningu sinni: "Aðeins tignun Guðdómsins og heiður ríkir á því fjalli. Hér er enginn vegur lengur til staðar, því fyrir hinum réttláta ríkir ekkert lögmál; hann er orðinn eitt með lögmálinu." Margsinnis áréttar heilagur Jóhannes aðdáun sína á frelsi Guðs barna, sem þeir njóta sem hafa látið leiðast upp fjallið þar sem afneitun (hins veraldlega) verður að (andlegum) ávinningi, og af fúsum og frjálsum vilja tóku móti dauða (dauða sjálfselsku) - sem markast af byrjun á nýju lífi (í Guði). Hin Heilaga Guðs Móðir ríkir hér. Meðal skapaðra naut hún í fyllsta mæli frelsi í Guði fyrir tilstilli hins óskilorðsbundna "fiat,"-  "Sjá ég er ambátt Drottins. Verði mér eftir orðum þínum." (Lk 1:38) Í  faðmi hins helga hjarta hennar ríkir Jesús alfarið - María er lifandi hásæti Hans - og á sama tíma, ríkir Hann sem hin æðsta ímynd mannlegrar náttúru. María er fyrir okkur ímynd móður, miðlari og jafnframt fyrirmynd okkar. Ásýnd hennar er mótuð eftir styttu af Maríu frá Stella Maris klaustrinu á Karmelfjalli í Haifa. Jesúbarnið heldur á Karmel skapular - táknmynd um vernd Guðsmóðurinnar og áhrifaríka aðstoð við þá sem takast á við það harðræði, sem er áskapað þeim er takast á hendur hið andlega ferðalag til hins fullkomna kærleika í Guði. Liturinn á klæði Jesúbarnsins er í samræmi við lit eldtungunnar sem prýðir hjarta heilags Jóhannesar. Það er táknrænt fyrir samsömun kærleika Jesú og sálarinnar. Í riti Jóhannesar segir: "Kærleikurinn kallar fram þvílíka samsvörun við samruna elskendanna að segja má að, þeir verða hvor um sig  eins, báðir samsamast í eina heild. Ástæðan er að í samrunanum og ummyndun í kærleika, þá gefast þeir hvor öðrum algjörlega, hvor um sig gefur sig alfarið hinum." (The Spiritual Canticle 12:7, p. 518)

Bláleit silfur uppspretta skýst upp frá hlíðum fjallsins og hverfur síðan niður í gjá. Íkonið afhjúpar þannig aftur fyrir ásjónu okkar takmarkaðan skilning okkar á víðfeðmi trúarinnar, sem Jóhannes líkir við "kristal uppsprettu - með silfruðu yfirborði." (comp. The Spiritual Canticle 12:4, p. 516) Í þessu lífi megnar þráin eftir að sameinast Guði aðeins að uppfyllast í trúnni. Hún "gefur og veitir okkur Guð sjálfan, sem er okkur hulinn af silfraðri slikju  trúarinnar…Því það sem við leggjum trúnað á núna í krafti silfurhjúpi trúarinnar, mun okkur opinberast að fullu við endurfæðingu til nýs lífs og við munum njóta hennar í krafti opinberunar hinnar gullnu trúar. (The Spiritual Canticle 12:4, p. 516)  Ímynd uppsprettunnar vísar einnig til ljóðs eftir heilagan Jóhannes af Krossi Ég þekki vel uppsprettuna. Það fjallar um "söng sálarinnar sem fagnar því að þekkja Guð fyrir trú." Guð sjálfur er Uppsprettan - hinn eilífi og órannsakanlegi leyndardómur, Upphaf og Endir allrar sköpunar, Óviðjafnanleg og Eilíf Fegurð - í stuttu máli: hinn eini og dýrmætasti fjársjóður sem sálinni getur hlotnast (Mt 13:44)  og sem njóta má og færa sér í nyt hér á jörðu niðri. En sálin nýtur hans einungis í hinni "leyndu uppsprettu" og "í miðri nóttu" trúarinnar, því hún þekkir Brúðguma sinn ekki aðeins að hluta til (comp. 1 Cor 13:12), heldur finnur hún  einnig oft fyrir fjarveru Hans. Þessvegna, eins og íkonið gefur í skyn, þá hverfur uppsprettan, sem áður skaust ríkulega  fram frá sprungu í kletti, aftur niður í hinar dularfullu gjár lífsins. Þessi ófullnægði reynsluheimur er okkur nauðsynlegur aflvaki til þess að við megum vaxa í kærleika, von og trú.

Plönturnar í hlíðum kærleiksfjallsins "sem teygja rætur sínar að uppsprettunni" (Jer 18:7-8) vísa til guðdómlegu dygðanna þriggja. Táknmyndir þeirra eru rósarunni, liljan og granattré.

Rósin er táknmynd kærleikans. Sálin, í magnþrungnum ljúfleika sínum, þráir að færa hana Brúðguma sínum í glæsilegum rósavendi. Þessi blóm eru sprottin af  gagnkvæmum kærleika þeirra hvors til annars - hollustu hennar og náðar Hans, "en án Hans náðar og velgjörðar hefði hún ekki megnað að efla með sér þessar dygðir og bera þær fram fyrir Hann." (The Spiritual Canticle 16:8, p. 541)

Liljan er táknmynd vonar um að tengjast Brúðgumanum. Vonin hvetur sálina til að ná því marki og örvar hana til að leggja allt sitt traust á Guð. Sá sem veitir fuglum jarðarinnar  fæði og klæðir liljur vallarins (Mt 6:26-28) mun einnig sjá sálinni fyrir fullkomnum samskiptum kærleikans. Vonin um fögnuð Hans hvetur sálina einnig áfram. Hann mun gleðjast í henni eins og garði skrýddum liljum dygðarinnar, sem Hann sjálfur hefur sáð. (The Spiritual Canticle 17:10, p. 545)

Að lokum eru Pomgranat eplin táknræn fyrir Guðlega leyndardóma og visku í dómum Guðs. (The Spiritual Canticle 37:7, p. 617) Sálin, sem öðlast hefur skilning á þeim fyrir trú, kynnist Guði sjálfum og það eflir í enn ríkara mæli kærleika hennar til Hans, þar af leiðir að hún megnar að upplifa kærleika Hans í á áhrifaríkari hátt líkt og þegar menn teygja safa úr pomgranat epli. (The Spiritual Canticles 37:8, p. 617)

Í öllum þessum táknmyndum undirstrikar Jóhannes samvinnuna milli sálarinnar og Guðs. Og þetta skýrir hinar fíngerðu skrautmyndir plantnanna í fjallshlíðinni, sem gefur um leið til kynna að á vegferð sálarinnar, starfar Jesús, smám saman, svo dyggilega í sálinni að það verður þeim báðum til ánægju.

Blóm eru einnig táknræn fyrir alla þá auðlegð sem sálin getur notið jafnvel enn á jarðvistar sviði. Hinsvegar, þar sem hjartað er frjálst og uppfullt af hugrekki með augun vandlega beint að Brúðgumanum, þá segir hún: "Í leit minni að Ástinni minni mun ég ekki tefja við að safna að mér blómum, svo þau verði mér ekki til trafala á vegferð minni." (The Spiritual Canticle, Stanza 3)

Í einu horni íkonsins eru myndlíkingar af: doktorshöfuðfati og fjöðurstaf sem hvíla á kletti. Staðsetning þeirra eilítið til hliðar er engin tilviljun. Ritverk heilags Jóhannesar, sem liggja til grundvallar kirkjulegri doktorsnafnbót hans, voru honum ekki hugleiknust, heldur fremur léttvæg í hans huga. Honum lá meira á hjarta að sinna köllun sinni til munkalífernis,  sem fól í sér sameiginlegt bænahald og vinnusemi (ora pro nobis). Það var við daglega iðkun þessa hversdagslega lífernis sem honum opinberaðist ríkulega hin dulræna reynsla - Guð-Kærleikur, sem samverkaði í honum í þessu jarðneska lífi fyrir kraft Skaparans og Frelsara vors.

Nánari eftirgrennslan á ímynd hins heilaga Jóhannesar brýtur í bága við hina stöðluðu ímynd af honum sem ströngum, meinlæta manni, því umfram allt er hann Doktor í kærleiks sambandi  brúðar/brúðguma: Orðfæri hans "ekkert" vísar til eigin hollustu við Guðdóminn -að "Ekkert er þess megnugt að hindra sambandið, því ég elska þig af allri sálu minni og ég mun aldrei leyfa augnaráði mínu að víkja að neinu sem ekki  samræmist vilja þínum --ekki eitt einasta augnablik!"

Frá ritverkum hans, og einnig frá íkoni því, sem hér er lýst, streymir ímynd af hlýrri viðkvæmri sál, sem á í kærleikssambandi við Guð. Með kærleikshug sínum, sem beinist einnig til manna, þráir heilagur Jóhannes af öllu hjarta að öllum veitist sú náð að öðlast hlutdeild í Guðlegri visku - að þeir megni að nýta sér þá auðlegð sem hulin er í Kristi og upplifa þannig hans óviðjafnanlega kærleika. Og þetta er það sem maðurinn sífellt leitar að, þótt villist oft af vegi. Vitrun hans af áætlun Guðs, allur sannleikurinn um lífið, sem Jóhannes ber vitni um, er of magnaður, hrífandi og ómetanlegur til að eyða  lífinu til einskis í forgengilega hluti. Af þeim sökum nýtir hann sér öll þau tækifæri sem lífið hefur upp á að bjóða til að ná takmarki sínu. Á sama tíma er honum umhugað um að tendra eld í hjörtum eins margra og mögulegt er með kjarnyrtum orðum. Í þessari þrá sinni líkist hann þrá Jesú er hann biður: "Faðir ég vil að þeir sem þú gafst mér, séu hjá mér þar sem ég er." (Jh 17:24)

Trúboð heilags Jóhannesar af Krossi lifir með okkur enn í dag. Það mun vera okkur að liði allt til enda veraldar, og fyrir tilstilli fyrirbæna hans og ritverka, sem hann lét eftir sig, mun hann lýsa upp hjörtu manna með Guðlegum kærleika eins og orð hans á síðustu ævidögum ber vott um: "Ég leiddi þig inn í land Karmel  svo þú megir verða aðnjótandi bestu ávaxta þess." (Lýsing á teikningu Jóhannesar)

  Íkonið "Heilagur Jóhannes af Krossi, Vegvísir kærleikans," hannað í Karmel, Hafnarfirði, Íslandi. 

Ofanskráð er ritað árið 2009 af Berfættri Karmelnunnu frá Íslandi í tilefni af 70 ára minningarhátíð stofnunar klausturs í Hafnarfirði, á Ísland og 25. minningarhátíð í tilefni af komu pólskra nunna til Íslands.

.www.karmel.is

Þýðandi: Dr. Gígja Gísladóttir No feedback yet