« Heil. Antoníus frá Padúa (um 1195-1231), fransiskani og kirkjufræðari – Um áhrif SannleiksandansLjós Maríu í hinni myrku nótt móður Teresu frá Kalkútta – Hvernig hin blessaða Mey huggaði „dýrling göturæsanna.“ »

26.04.08

  04:59:35, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 425 orð  
Flokkur: Bænalífið

Heil. Polýkarp (69-155), byskup og píslarvottur – í þýðingu Reynis K. Guðmundssonar

„Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður.“ – ófædd og varnarlaus börn Guðs ekki undanskilin
.


Sleppum aldrei taki á honum sem er von okkar og fyrirheit um hjálpræði; ég á við Jesúm Krist sem „bar sjálfur syndir vorar á líkama sínum upp á tréð; sem drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans“ (1Pt 2.22, 24); sem staðfastlega leið allt fyrir okkur til að við mættum eiga líf í honum. Breytum eftir þessu mikla þolgæði hans, og þó svo við þjáumst fyrir nafn hans skulum við ekki fást um það heldur lofa hann. Því þetta er fordæmið sem hann gaf okkur í eigin persónu og sem við höfum lært að setja traust okkar á.

Ég biðla nú til sérhvers ykkar að heyra og hlýða kallinu til heilagleika og að iðka það fullkomna stöðuglyndi sem þið hafið með eigin augum séð þá gera hina sælu Ignatíus, Sósímus og Rúfus; og ekki aðeins þá heldur fjölmarga bæjarbúar ykkar –svo ekki sé minnst á Pál sjálfan og hina postulana. Þið getið verið fullvissir um að sú braut sem þessir menn lögðu á var ekki farin af lítilsvirðingu heldur af trúmennsku og kostgæfni og að þeir hafa náð að komast til Drottins eins og þeir verðskulda en í píslum hans áttu þeir hlutdeild. Ekki átti þessi heimur hugi þeirra (2Tm 2. 10) heldur hann sem dó fyrir okkur og var reistur upp aftur af Guði . . . 

Megi Guð og Faðir Drottins okkar Jesú Krists og hinn eilífi æðsti prestur, Jesús Kristur sjálfur, Sonur Guðs, hjálpa ykkur að þroskast í trú og sannleika, í staðfastri mildi og geðprýði, langlundargeði og umburðarlyndi og í rólyndi og hreinleika. Megi hann gefa ykkur hlutdeild í lífi dýrlinga sinna sem og okkur og öllum þeim sem á jörðu eru og koma til með að trúa á Drottin okkar og Guð Jesúm Krist og á Föður hans sem reisti hann frá dauðum.

Biðjið fyrir öllum börnum Guðs. Biðjið einnig fyrir þjóðhöfðingjum okkar og fyrir öllum landsstjórum og yfirvöldum. Biðjið fyrir hverjum þeim sem hefur ofsótt ykkur eða lagt fæð á ykkur; og einnig fyrir óvinum krossins. Þannig verður ávöxtur trúar ykkar öllum augljós og ykkur mun verða fullkomnunar auðið í honum.

No feedback yet