« Í einingu Heilags Anda er kirkjan kaþólsk og alheimsleg – Joseph Ratzinger kardínáli (Benedikt páfi XVI)Hl. Serafim frá Sarov – í ljósklæðum Heilags Anda »

08.05.08

  06:38:34, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 393 orð  
Flokkur: Bænalífið, Heilagur Andi

Heil. Pétur frá Damian – Um einingu kirkjunnar í Heilögum Anda

Heilög kirkja verður eitt í einingu Heilags Anda þrátt fyrir að hún taki á sig fjölþætta líkamlega mynd í ótöldum fjölda persóna. Ef hún virðist vera skipt meðal nokkurra fjölskyldna út frá náttúrlegu sjónarmiði, þá glatar hún engu af samsemd sinni í leyndardómi djúpstæðrar einingar sinnar „En vonin bregst oss ekki, því að kærleika Guðs er úthellt í hjörtum vorum fyrir Heilagan Anda, sem oss er gefinn“ (Rm 5. 5). Það leikur ekki á því nokkur vafi að þessi Andi er bæði einn og margir samtímis: Einn í kjarna hátignar sinnar; margir í náðargjöfum heilagrar kirkju sem fyllt er nærveru hans. Og það er þessi sami Andi sem gerir kirkjunni kleift að vera ein og söm í alheimslegri útbreiðslu sinni en engu að síður fyllilega nærverandi í sérhverjum meðlima sinna . . .

Ef þeir sem trúa á Krist eru þannig eitt, hvar sem hver og einn er svo staddur líkamlega, þá er öll kirkjan þar í leyndardómi sakramentisins. Og allt sem er við hæfi fyrir allan líkamann virðist við hæfi sérhvers meðlima hennar . . . Þannig er það þegar nokkrir hinna heilögu koma saman að þeir geta sagt: „Hneig eyra þitt, Drottinn, og bænheyr mig, því að ég er hrjáður og snauður. Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér, hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér“ (Sl 86. 1-2). Og þegar við erum ein með sjálfum okkur: „Fagnið fyrir Guði, styrkleika vorum, látið gleðióp gjalla Guði Jakobs“ (Sl 81. 2). Það er ekki illa til fundið að við segjum öll saman: „Ég vil vegsama Drottin alla tíma, ætíð sé lof hans mér í munni“ (Sl 34. 2) eða þegar ég er aleinn að ég segi: „Miklið Drottin ásamt mér, tignum í sameiningu nafn hans“ (vers 4) og ýmislegt þessu líkt. Einveran kemur ekki í veg fyrir að einhver geti talað í fleirtölu, rétt eins og mergð hinna trúuðu geti tjáð sig í eintölu. Kraftur Heilags Anda sem dvelur í sérhverjum hinna trúuðu og umvefur þá alla felur í sér að í síðara tilvikinu er um þéttskipaða einveru að ræða og því fyrra mikill fjöldi sem myndar einungis einn.

No feedback yet