« McCain velur mikinn lífsverndarsinna og móður barns með Downs heilkenni sem varaforsetaefni sitt.Baldwin frá Ford (?-um1190), ábóti í sistersíanreglunni – Drottinn, fjarlægðu steinhjarta mitt »

28.08.08

  15:36:22, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 337 orð  
Flokkur: Bænalífið

Heil. Makaríus (?-405), eyðimerkurfaðir í Egyptalandi – Að vaka í bæn eftir komu Guðs

Til að biðja þörfnumst við hvorki svipbrigða, hrópa né að falla fram á ásjónur okkar. Sú bæn sem er bæði viturleg og brennandi er sú þegar beðið er eftir því að Guð komi til að vitja sálna okkar með alls konar hætti og fyrir milligöngu skynhrifanna. Nóg um þögn okkar, andvörp og tár: Við skulum ekki keppa eftir neinu öðru en að Guð umvefji okkur örmum.

Þegar við erum að vinna, grípum við þá ekki til allra hinna líkamlegu eiginda í þessari viðleitni? Taka ekki allir limir okkar samtímis þátt í henni? Við skulum láta sál okkar helga sig bæninni af öllum mætti og elska Drottinn. Megi henni auðnast að forðast einbeitingarleysið og láta hugsanirnar ekki draga sig fram og aftur. Megi henni auðnast að einbeita sér að Kristi. Þá mun Kristur upplýsa hana og kenna henni hina sönnu bæn og veita henni hlutdeild í þeim hreinu og andlegu andvörpum sem öðlast samsemd í Guði, tilbeiðslu í „anda og sannleika“ (Jh 4. 24).

Sá sem gerir viðskiptasamning er ekki einungis að keppa eftir ágóða. Hann leitast einnig við að að auka hann eins og kostur er með öllum tiltækum ráðum. Hann tekst jafnvel fleiri ferðir á hendur og lætur aðrar liggja á milli hluta sem honum virðist ekki skila honum nægilegum ábata. Hann leggur ekki af stað í ferðina nema í von um ábótasöm viðskipti. Rétt eins og hann skulum við gera okkur ljóst hvernig við getum leitt sál okkar áfram eftir ýmsum og vænlegum vegum. Þá – ó sanni og mikli ávinningur – munum við höndla þann Guð sem kennir okkur að biðja í sannleika.

Drottinn gerir sér bústað í þeirri sál sem er brennandi í anda. Hann gerir hana að hásæti dýrðar sinnar; hann gerir sér bústað hið innra með henni og dvelur þarna.

(Andlegar hugvekjur 33).

No feedback yet