« Svona ljótur er ég þó ekki!Uppnumning Maríu »

01.04.08

  21:25:04, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 310 orð  
Flokkur: Vegurinn, sannleikurinn og lífið

Hefur lífið einhvern tilgang?

Kafli úr bókinni VEGURINN, SANNLEIKURINN OG LÍFIÐ sem er trúfræðslurit um kaþólska trú (1981).

(1. k.)

……… Við farmiðasöluna stendur maður og biður um farmiða aðra leiðina á fyrsta farrými. Bara aðra leiðina á fyrsta farrými, annað ekki. Honum virðist vera sama hvaða leið verði farin og hvert. Bara að hann geti ferðast á fyrsta farrými! Maðurinn hlýtur að vera að gera að gamni sínu, hugsum við. En auðvitað skeður þetta ekki í alvöru. Samt er til fjöldi manna sem hagar sér svona í reyndinni. Þeim er það aðalatriði að vel fari um þá, að þeir njóti góðrar stöðu, að þeir hafi fastar tekjur - en þeim er alveg sama hvert leiðin liggur.

En samt eru þeir menn í miklum meirihluta, sem gera sig ekki ánægða með þetta. Þeir hika við að stíga upp í farartækið þótt á því standi "1. farrými" ef þeir vita ekkert annað. Þeir vilja fá að vita hvert ferðinni sé heitið og hvort það borgi sig, þegar á allt er litið, að fara þessa för.

En vitum við í raun og veru, til hvers við lifum hvert leið okkar liggur eða hvort líf okkar hafi í rauninni einhvern tilgang? Svörin, sem við fáum við þessum spurningum, eru margvísleg á okkar tímum og oft rekast þau hvort á annað.

Nútímamaðurinn ver skoðanir sínar af meira sjálfstæði en menn fyrri alda. En þótt furðulegt sé er hann um leið haldinn meiri óvissu þegar um er að ræða spurningarnar um lífið sjálft og tilgang þess. Þá leikur ekki aðeins vafi á, hverju svara skuli, heldur eru menn í vafa um, hvort hægt sé yfirleitt að svara slíkum spurningum. ………

No feedback yet