« Prestkonungar Adamskynslóðarinnar – 2Ljósið í hjörtum mannanna er eldur guðdómlegrar elsku – Denis karþúsi (1408-1471) »

21.08.07

  07:59:54, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 275 orð  
Flokkur: Bænalífið

Hátíð Maríu af hinu gullna hjarta

Í dag þann 21. ágúst minnist kirkjan opinberana hinnar blessuðu Meyjar í Knock á Írlandi (1879) og í Beuaraing í Belgíu 1933. Í Beuaraing opinberaðist hún skömmu áður en Hitler var kjörinn ríkiskanslari í Þýskalandi til að hugga börn sín. Í Knock á Írlandi var það í miðri hungursneyð. Þannig leiðir hún okkur fyrir sjónir að hún umvefur okkur stöðugt með vernd sinni meðan pílagrímsganga okkar á jörðu stendur yfir.

Engin hungursneyð er þó jafn átakanleg eins og sú sem rekja má til óvinar hjálpræðis okkar: Hins fallna verndarkerúba. Milljónir manna munu þannig hverfa til þess staðar þar sem grátur og gnístan tanna ríkir að eilífu. Enginn harðstjóri er jafn miskunnarlaus og höfðingi þessa heims sem leiðir sálirnar á kvalastaðinn.

Við skulum hins vegar minnast þeirra sálna sem fyrirbúin er himnavist en dvelja í hreinsunareldinum. Því skulum við biðja:

Heil sért þú María full náðar,
Drottinn er með þér.
Blessuð ert þú á meðal kvenna
og blessaður sé ávöxtur lífs þíns, Jesú!
Heilaga María Guðsmóðir,
bið þú fyrir oss syndugum mönnum
og úthell náð loga elsku þíns flekklausa hjarta
yfir sálirnar í hreinsunareldinum
svo að þær fái notið hins eilífa ljóss,
nú og á dauðastundu vorri. Amen.

Þetta ber okkur að gera daglega meðan við dveljum í hinni stríðandi kirkju á jörðu. Mikill er fögnuðurinn á meðal englanna á himnum þegar þessar sálir snúa heim til þess ríkis sem var þeim fyrirbúið frá eilífð.
 

No feedback yet