« "Á ég að gæta bróður míns?”Jesús lifir. Hann er með okkur. »

24.03.08

  10:39:23, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 550 orð  
Flokkur: Prédikanir

Hátíð hinnar guðlegu miskunnar

Á þessari hátíð hinnar guðlegu miskunnar minnumst við hins óendanlega kærleika og miskunnar Guðs, sem hann úthellir yfir heiminn.

Hátíð hinnar guðlegu miskunnar býður okkur að líta á Guð sem uppsprettu raunverulegs friðar, sem okkur stendur til boða fyrir upprisinn Drottin okkar Jesú. Benjar hins upprisna og dýrlega Drottins eru varanlegt tákn um miskunnsaman kærleika Guðs fyrir mannkyninu. Úr sárum hans streymir eins konar andlegt geislun sem varpar ljósi á samvisku okkar og veitir okkur huggun og von.

Í dag förum við, ásamt fjölda manns um allan heim, með orðin: "Jesús, ég treysti á þig!" Við þörfnumst þessarar guðlegu miskunnar, sem Drottinn útskýrði fyrir pólsku nunnunni, heilagri Faustínu Kowalska, fyrir meira en hálfri öld.………

……… Vegna dagbókar þessarar ungu pólsku nunnu, systur Faustínu Kowalska, fór sérstök guðrækni að breiðast um heiminn á fjórða áratug síðustu aldar. Eins og ávallt (þegar um persónulegar opinberanir sem Kirkjan hefur lagt blessun sína yfir er að ræða) er ekkert nýtt að finna í boðskap hennar. Boðskapurinn er öllu heldur áminning um það sem Kirkjan hefur ávallt kennt út frá ritningunni og erfikenningunni, það er að segja að:

••• Guð er miskunnsamur og sá sem fyrirgefur.
••• Við verðum líka að sýna samferðafólki okkar miskunn og fyrirgefningu.

Í guðrækninni um hina guðlegu miskunn fær boðskapurinn nýja og kröftuga áherslu, þar sem hann kallar fólk til dýpri skilnings á því að kærleikur Guðs er ótakmarkaður og stendur öllum til boða, einkum hinum mestu syndurum.

Systir Faustína var ómenntuð en í hlýðni við andlegan leiðbeinanda sinn skrifaði hún dagbók, um sex hundruð blaðsíður, þar sem hún greinir frá þeim opinberunum sem hún fékk varðandi miskunn Guðs. Jafnvel fyrir dauða hennar árið 1938 var guðræknin til hinnar guðlegu miskunnar þegar farin að breiðast út.

Boðskapurinn um miskunnina er sá að Guð elskar okkur - hvert og eitt okkar - burtséð frá því hversu stór synd okkar er. Guð vill að við áttum okkur á því að miskunn hans er meiri en synd okkar. Þannig vill hann að við áköllum hann með trausti, tökum við miskunn hans og látum hana flæða frá okkur til annarra. Á þann hátt munu allir eiga hlutdeild í gleði hans. Þetta er boðskapur sem við getum minnst, einfaldlega með því að muna eftir eftirfarandi.

• Biðja um miskunn Guðs. Guð þráir að við nálgumst hann stöðugt í bæn, iðrumst synda okkar og biðjum hann um að úthella miskunn sinni yfir okkur og heim allan.

• Vera miskunnsöm. Guð vill að við tökum við miskunn hans og látum hana flæða frá okkur til annarra. Hann vill að við sýnum öðrum kærleika og fyrirgefningu rétt eins og hann gerir gagnvart okkur.

• Að hafa algjört traust á Jesú. Guð vill að okkur sé ljóst að náð miskunnar hans er undir trausti okkar komið. Því meir sem við treystum á Jesú, því meir munum við öðlast.

No feedback yet