« Ritningarlesturinn 3. október 2006Ritningarlesturinn 2. október 2006 »

02.10.06

  07:27:01, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 186 orð  
Flokkur: Trúarljóð

Harmagrátur Meymóðurinnar

Hví öll þessi tár, heilaga Móðir?
Hvers vegna þessi harmagrátur
í upphafi þess mánaðar þegar
kirkjan heiðrar þig?

Hvers vegna þessi grátur?
Sonur minn! Ég græt vegna kveins
móðurinnar í Rama
sökum ekkasoganna í Sikkim
vegna brostins hjarta móðurinnar
í Pottaragötu.

Hermenn Heródesar
æða um myrk strætin
og myrða sveinbörn mín og meybörn,
þyrma engum og blóðið litar
Þjáningarveginn.

En að nýju verður faðir
heilags Sonar míns að söðla asnann
og leita skjóls í Egyptalandi
fyrir æði harðstjórans.

Og heilagir englar upphimins
taka undir harmagrát minn
á himnum berast ekkasog þeirra
til hásætis hins Hæsta.

Ég græt einnig sökum þess að
réttlætisarmur Sonar míns er orðinn
svo þungur, svo ógnarþungur,
ég megna ekki að halda lengur aftur af
heilagri reiði hans.

Ég græt sökum rústarsteinanna
og eldglæðnanna sem ég sé
brenna í musteri mínu
eyddu sökum höggs réttlætissverðsins.

Jón Rafn Jóhannsson

14 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég þakka ljóðið (er það eftir þig, Jón Rafn?).

Vil í því sambandi benda á merkilegar upplýsingar, um líkfund fjölda barna í Jerúsalem, á þessari vefsíðu JRJ.

02.10.06 @ 07:52
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Nei, það er blessunin hún María sem kenndi mér það í nótt.

02.10.06 @ 07:54
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér, Jón, ljóðið er enn betra þess vegna.
Ég mun sjálfur birta hér annað Rama-ljóð síðar.

02.10.06 @ 07:57
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég sé að ljóðið fer út í þá áherzlu, að réttlætishugsun Krists samansafni brátt heilagri reiði hans gegn ranglæti heimsins – og mér sýnist ljóðið óbeint gefa í skyn að það tengist flóðbylgju fósturdeyðinganna – en María vilji hins vegar “halda aftur af” þeirri reiði hans. Okkar lúthersku og evangelísku vinir munu trúlega skoða þetta sem allt of litla virðingu fyrir miskunn Krists – rétt eins og María Guðsmóðir sé miskunnarríkari. En miskunn Krists er vitaskuld miskunnsemi Guðs (og ef talað er um manninn Jesúm, “ólíkt” Guðssyninum eilífa, þá vildi hann hvergi draga úr verkum Guðs og veru). Getur verið, að María sé miskunnarríkari en Guð? Vitaskuld ekki. En getur þá verið, að Maríu sé fengið það hlutverk í hendur að starfa að miskunnarbænaverkum alla daga, jafnvel þótt það sé til að “halda aftur af” réttlátri reiði Guðs? Hugsanlega, en þá einungis vegna þess að Guð sjálfur vilji, að svo sé og verði. Miskunnsemdarhugsun hennar er því hans miskunnsemi, enda til einskis nýt, ef Hann er ekki í því verki.

En margir munu verða hissa á að sjá talað um “heilaga reiði” Krists. Það eru þá ekki menn, sem eru vel lesnir í sögu Lúthers. Hann upplifði Krist, framan af a.m.k., sem hinn stranga réttlætisdómara. Og hvað sjáum við í 25. kafla Mattheusarguðspjalls?! Lesum það, þá komumst við að raun um, að Kristur er ekki aðeins “árnaðarmaður” okkar og fyrirbiðjandi á himnum (gleymum því ekki, Jón Rafn) – skv. I.Jóh.2.1 og Hebr.7.22–25 – heldur er það einmitt hann sem er hinn réttláti dómari, sem á efsta degi mun bjóða sumum til eilífs fagnaðar með Guði, en vísa öðrum til eilífrar refsingar í helvíti. Og þetta er alvöru-kristindómur, ekki afsláttarhyggja þeirra selektífu.

02.10.06 @ 08:19
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Maríu Guðsmóður hefur verið falið einstætt verk á hendur sem Hinni fyrstu lifandi sáttmálsörk hins Nýja sáttmála, rétt eins og Örkin leiddi Hebreana um eyðimörkina forðum.

Ef lúterskum kemur þetta á óvart, þá ættu þeir eindaldlega að lesa Biblíuna sína betur. Ekkert er markleysa í fyrirhugun Guðs og Gamli sáttmálinn var nú einu sinni forgildi þess Nýja.

SJÁ:

02.10.06 @ 08:29
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég meðtek svar þitt, Jón. Upplýstu okkur betur um þetta hlutverk hennar sem Hin fyrsta lifandi sáttmálsörk hins Nýja sáttmála og um heimildirnar fyrir því – ég er greinilega ekki góður í þeim fræðum.

02.10.06 @ 08:33
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þú getur byrjað á því að kynna þér Tjaldbúð ljóss, lífs og elsku samkvæmt tilvísuninni hér að ofan. Því næst hina Svörtu tjaldbúð dauðans í áframhaldi af því. Í reynd fjallar rit mitt „Hið gullna hús Guðs: Eyðimerkurtjaldbúð Móse sem leiðsögn í bæn hjartans um þetta efni.

Á einu og hálfu ári hef ég fengið 80.000 gesti inn á þessa síðu og afar jákvæð ummæli erlendis frá vegna boðskapar þess. Ég segi gesti (visitors) vegna þess að „hit counter“ síðunnar er kominn í margar milljónir.

02.10.06 @ 08:54
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ekki sá ég á þessari síðastnefndu, tilvísuðu vefsíðu þinni beina sönnun fyrir þessu hugtaki, sem þú notar (og ekki bein, skýr, biblíuleg rök) og heldur ekki í Hugleiðingu 14, sem þar er vísað til, en þú kemst nær því í Hugleiðingu 18. Fulla virðingu ber ég fyrir Jóhannesi Damascenus, sem kemst einna næst því þarna að tala á þessa lund eða líka, og enn meiri virðingu ber ég vitaskuld fyrir Maríu Guðsmóður, og þegar hugsað er til líkamningar Krists og nærveru heilagleika Guðs sjálfs með Maríu, má þessi heiðurstitill hennar virðast réttilega hugsaður. En fróðlegt hefði verið að sjá kirkjulega yfirlýsingu þar um eða bein orð kirkjuföður og einkum beina og óvefengjanlega vísbendingu Heilagrar ritningar um þetta mál. Vera má, að þetta sé allt til staðar í Ritningunni, en þá máttu líka birta það hér. Og ég vil taka það fram, að ég er ekki að gefa það í skyn á neinn hátt, að þú sért að ganga of langt í Maríudýrkun, bróðir Jón.

02.10.06 @ 10:23
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Það kemur fram í heild í fyrstu tuttugu hugleiðingunum. Líttu einnig á:

http://www.catholicculture.org/docs/doc_view.cfm?RecNum=6811

02.10.06 @ 10:38
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér fyrir þetta, Jón. Það virðist mjög rökrænt að kalla sáttmálsörk Gamla testamentisins fyrirmyndan móðurkviðar Maríu, eins og þarna er í raun talað um í kirkjulegri yfirlýsingu (frá páfastóls-ráðinu fyrir sálgæzlu fólks í flutningum milli landa og á ferðalögum: The Shrine: Memory, Presence and Prophecy of the Living God [eins og skjalið heitir á ensku]). Hafi sáttmálsörkin hvergi verið talin fyrirmyndan Krists sjálfs, tel ég eðlilegt að tala um Guðsmóðurina sem slíka (fyrstu) lifandi sáttmálsörk hins Nýja sáttmála eða – það sem meira er – Immanúels : Guðs sjálfs meðal okkar manna.

02.10.06 @ 11:06
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þeir guðfræðingar sem ég hef rætt við um þetta hlutverk Guðsmóðurinnar í hjálpræðisverkinu (einkum karmelítar) hafa ekki andmælt þessari guðfræði, enda segir Erzsebet Szanto að hin blessaða Mey muni tendra náð loga elsku Flekklauss Hjarta síns fyrst í Karmel.

En eins og ég segi, ég er að þýða rit hennar og mun það sjást á Karmelvefnum innan tíðar.

02.10.06 @ 11:33
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég gerði það mér til gamans að setja þennan texta í samhengi þar sem kaflaskil voru ekki gerð í Ritningunni fyrr en á tólftu öld. Því ber að lesa textann í samhengi:

Og musteri Guðs opnaðist, það sem á himni er, og sáttmálsörk hans birtist í musteri hans. Og eldingar komu og dunur og þrumur og landskjálfti og hagl mikið. Og tákn mikið birtist á himni: Kona klædd sólinni og tunglið var undir fótum hennar, og á höfði hennar var kóróna af tólf stjörnum. Hún var þunguð, og hljóðaði í jóðsótt með hörðum hríðum. Annað tákn birtist á himni: Mikill dreki rauður, er hafði sjö höfuð og tíu horn og á höfðunum sjö ennisdjásn. Með halanum dró hann þriðja hlutann af stjörnum himinsins og varpaði þeim ofan á jörðina. Drekinn stóð frammi fyrir konunni, sem komin var að því að fæða, til þess að gleypa barn hennar, þá er hún hefði fætt. Hún fæddi son, sveinbarn, sem stjórna mun öllum þjóðum með járnsprota. Og barn hennar var hrifið til Guðs, til hásætis hans. (Opb 11. 9-12.5)

Það er huggunarríkt að hin nýja Örk glataðist ekki sem hin fyrri, að minnsta kosti ekki fyrir kaþólskum. Þannig hefur María opinberast hvað eftir annað síðan í Vínarborg 1454 standandi á tunglinu.

Þar sem skírskotað er beinum orðum til Sonarins, Jesús, í textanum er ekki fjarri sanni að hið sama gildi um Maríu Guðsmóður, það er að segja sé skírskotun til persónu hennar. Sama gildir um drekann sem Jóhannes nefnir sem persónu nokkru síðar: Satan

Stjörnurnar tólf eru sannarlega postularnir tólf, eðalsteinar hinnar himnesku Jerúsalemborgar sem mynda kórónu konunnar, en María Guðmóðir er Drottning kirkjunnar. Því er ekki rétt þegar mótmælendur segja að María sé tákn kirkjunnar. Það eru stjörnurnar tólf sem skírskota til kirkjunnar.

Ég hyggst einnig taka saman og þýða fjölmörg ummæli kirkjufeðranna allt frá því á annarri öld þar sem þeir tala um Guðsmóðurina sem Sáttmálsörk hins Nýja sáttmála, þar á meðal nokkrir kirkjufræðaranna. Ég hyggst nota þau í formálsorðunum að bók Erzsebet þegar hún kemur út á íslensku.

BÆN;

Heil sért þú María, lifandi sáttmálsörk Guðs hins Hæsts. Ég bið um vernd þína gagnvart óvinum sálar minnar: Heiminum, djöflinum og holdinu. Ákalla Guð Föður fyrir mína hönd ef mér verður það á að sýna honum vanvirðingu. Vertu mér ætíð Móðir miskunsemdanna og uppspretta allrar náðar, þú sem ert full náðar. Amen.

02.10.06 @ 20:38
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hér að neðan hef ég safnað saman tilvitnunum úr skrifum kirkjufeðranna til að sýna fram á þá staðreynd, að í Biblíunni er María Guðsmóðir táknuð með sáttmálsörkinni og uppfylling annarra áþekkra forgilda Gamla testamentisins. Allflestar eru þessar tilvitnanir komnar úr riti sem er löngu uppselt: The Blessed Virgin in the Fathers of the First Six Centuries sem Thomas Livius samdi og kom út á vegum Burns og Oates árið 1893.

Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar endurómar þannig orð feðranna sem vitnað er til hér að neðan. Það er kaþólska kirkjan sem er arftaki þessara kristnu manna til forna. Sífellt endurtekur Trúfræðslurit kaþólsku kirkjunnar orðin sem hljómuðu til forna:

„María, sem Drottinn sjálfur hefur tekið sér bólfestu í, er persónugerð dótturinnar Síon, sáttmálsörkin, staðurinn þar sem dýrð Drottins býr“ (Í samfélagi við hina heilögu Móðir Guðs, 2676).

Heil. Hippólýtus (um 170-236):
„Á þessum tíma birtist Frelsarinn frá Meyjunni, örkinni, opinberaði sinn eiginn líkama í heiminum úr örkinni, en Orðið huldi hana hið innra með skíra gulli og hið ytra með Heilögum anda. Þannig blasti sannleikurinn við sjónum, örkin varð sýnileg“ – (S. Hippolytus, In Dan.vi., Patr. Gr., Tom. 10, p. 648) (Blessed Virgin, bls. 77).

Heil, Gregoríos Thaumaturgus (um 213-270):
Örkin er sannarlega hin heilaga Mey, skrýdd hið innra og ytra sem meðtók gersemar hinnar alheimslegu helgunar – (Orat. in Deip. Annunciat. Int. Opp. S. Greg. Thaumaturg) (Blessed Virgin, bls. 89). 

Heil. Aþanasíus (c. 296-373):
Þú sem ert full náðar, Frú vor, Drottning, Þjónustumey, Móðir Guðs og Örk helgunarinnar“ – (Orat. In Deip. Annuntiat, nn. 13, 14. Int. Opp. S. Athanasii) (Blessed Virgin, bls. 80). 

Heil. Aþanasíus frá Alexandríu (um 296-373):
„Ó göfuga Mey! Sannarlega ert þú meiri allri annarri hátign. Hver jafnast á við þig af mikilleika. Ó dvalarstaður Orðs Guðs. Ó Meyja, get ég borið þig saman við nokkuð annað af hinu skapaða? Þú ert því öllu meira ó örk sáttmálans sem íklædd ert hreinleika í stað gulls. Þú ert örkin þar sem kerið með hinu sanna manna er hulið, holdið sem Guðdómurinn hefur íklæðst“ – Hugvekja í Torínóhandritinu.

Hesychíus (um 300):
„Örkin er sannarlega Meymóðir Guðs. Ef þú [Drottinn] ert gimsteinninn, er hún örkin með fullum rétti vegna þess að þú ert sólin og því er Meyjan óhjákvæmilega himininn“ – (Hesychius, Orat. De Virginis laudib.  Biblioth. PP. Græco-Lat. Tom. ii. p. 423) (Blessed Virgin, bls. 89).

„Drottinn, rís upp til hvíldar þinnar, þú og Örk helgunar þinnar sem augljóslega er Meymóðir Guðs. Ef þú ert sannarlega perlan, þá er hún örkin“ –  (Serm. V. De S. Maria Deip. Patr. Gr. Tom. 93, pp. 460-4) (Blessed Virgin, bls. 227).  
 
Heil. Ephraim (um 306-373):
Því að í þessari örk, Maríu, var bók hulin sem kunngerði og boðaði sigurvegarann“ – (S. Ephrem, Rhythm iii, On the Nativity, Morris, p.20) (Blessed Virgin, bls. 66).

„Ó Meymóðir Guðs, himnahlið, örk, í þér öðlast ég öruggt hjálpræði. Bjarga mér í hreinni miskunn þinni, ó Frú mín“ – (Precat. ix. Opp. Gr. et Lat. Tom. iii. P. 522) (Blessed Virgin, bls. 294). 

Heil. Kýrillos frá Jerúsalem (315-387?):
Það er í musteri Meyjarinnar, sem orð Guðs gerði sér bústað rétt eins og í örkinni. „Í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa“ (Kol 1. 19), eins og Ritningin kemst að orði. En vitnisburðurinn í örkinni var Orð Guðs og viðurinn var óforgengilegur og hulinn skíru úrvalsgulli innt sem yst“ – (De ador. In Spir. Et Verit, p. 293). Heil. Maxímus frá Turin og aðrir feður láta orðið Örk sáttmálans skírskota til hinnar blessuðu Meyjar (Blessed Virgin, bls. 76).

Heil. Hieronýmus (c. 345-420):
„Sjáið sannleiksvottinn, ambátt Drottins. Heilög er hún sem er án allra saurgunar, sjálfur einfaldleikinn . . . Brúður Krists er Örk sáttmálans hið innra sem hið ytra, skrýdd gulli, sú sem hlýðnast lögmáli Drottins. Rétt eins og gegndi um örkina var ekkert í henni nema sáttmálstöflurnar og þannig átt heldur ekki þú að huga að neinu hið ytra. Yfir þessu náðarsæti er Drottni þóknanlegt að sitja, eins og uppi yfir kerúbunum. Postularnir viku þannig að meyju að hún eigi að vera heilög líkamlega og í anda“ – (Epist. Xxii., Ad Eustoch. Nn. 18, 19, 21, 24) (Blessed Virgin, bls. 216).

Heil. Ambrosíus (um 330-397): 
„Spámaðurinn Davíð dansaði frammi fyrir Örkinni. Hvað getum við þá sagt annað en að Örkin sé heilög María? Í örkinni voru sáttmálstöflurnar, en María bar í lífi sínu erfingja þessa sama sáttmála. Sú fyrri geymdi lögmálið, sú síðari fagnaðarerindið. Önnur endurómaði orð Guðs, hin bar Orð hans. Örkin huldi dýrðarljóma hið innra, en heilög María ljómaði innst sem yst af dýrðarljóma meydómsins. Önnur var skrýdd jarðnesku gulli, hin því himneska“ – (Serm. xlii. 6, Int. Opp., S. Ambrosii) (Blessed Virgin, bls. 77).

Heil. Próklús (d. 446 eða 477): 
„María er heiðruð vegna þess að hún varð Móðir og ambátt, ský og bústaður, örk Drottins . . . Af þessum sökum skulum við segja við hana: ‚Blessuð ert þú á meðal kvenna’“ – (Orat.iv.and v. In Natal. Dom. P.G. Tom. 65, p.710) (Blessed Virgin, bls. 58). 

Heil. Venantius Fortunatus (um 530-c. 610):
„Hversu blessuð er ekki þessi Móðir, að hinn mikli himnasmiður sem felur jörðina og himininn í höndum sínum, þóknaðist að hvíla í henni sem örk sinni! Blessuð í þeim boðskap sem Gabríel bar henni, blessuð sökum áhrifa Andans“ – (Blessed Virgin, bls. 458). 

Heil. Meþodius (815-885):
„Háleitur er sá leyndardómur sannarlega sem lýtur að þér, Ó Meymóðir, þú hið andlega hásæti, vegsamleg gjörð sem verðskuldun Guðs . . . Og dúkbreiðurnar fyrir innganginum lukust upp sökum ákalla hrópendanna. Með þessu er skírskotað til forhengis musterisins sem skyggði á sáttmálsörkina sem táknar þig . . . Þar sem Guð auðsýndi örkinni sem var ímynd þín og forgildi heilagleika þíns svo mikla tign, að enginn nema æðsti presturinn gat nálgast hana eða var heimilt að bera hana augum handan forhengisins . . . Hversu mikinn heiður og virðingu ber okkur þá ekki að auðsýna þér sem stöndum þér langt að baki, þér sem sannarlega ert Drottning, þér sem sannarlega ert Lifandi örk Guðs, lögmálsgjafans, þér sem sannarlega hefur orðið að himni sem skartar þeim sem ekkert getur rúmað?“ – (St. Methodius, Orat. de Simeone et Anna ii. Patr. Graec. Tom. 18, p. 332. (Blessed Virgin, bls. 153). 

03.10.06 @ 18:34
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Fín samantekt og ljóð Jón. Bestu þakkir fyrir þetta.

04.10.06 @ 18:26