« Torfi Ólafsson, sálmahöfundur og velgjörðarmaður kaþólskrar kirkjuObama heiðursdoktor í kaþólskum háskóla? »

26.07.09

  11:37:12, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 739 orð  
Flokkur: Kirkjusaga, íslenzk, Úr lífi og starfi kirkjunnar, Kaþólskir Íslendingar

Séra Halldór S. Gröndal er látinn

Halldór S. Gröndal

Sárt er að sjá eftir þeim góða manni, Halldóri Gröndal, sem var lifandi í trúnni og gaf sig allur henni á vald. Mikill öðlingur var hann og reisn yfir honum, og í hópi presta var hann sannur hugsjónarmaður. Sr. Halldór varð bráðkvaddur á heimili sínu að morgni fimmtudags 23. þessa mánaðar.

Sá, sem þetta ritar, kynntist honum fyrst sem Þjóðkirkjupresti, en betur sem kaþólskum bróður í trúnni, eftir að hann hafði snúið sér til móðurkirkjunnar og var í því efni jafnheill og í fyrra afturhvarfi sínu til Guðs. Hann hafði ungur gengið námsbraut verzlunarmanns,

faðir hans, Sigurður B. Gröndal, var þjónn og síðar yfirkennari við Hótel- og veitingaskóla Íslands, og Halldór, sem fæddur var í Reykjavík 15. október 1927, lauk námi frá Verzlunarskólanum og síðan í hótelrekstrarfræðum frá Cornell-háskóla í Bandaríkjunum árið 1952. Hann varð þjóðkunnur af forstöðu sinni með veitingastaðnum vinsæla Nausti við Vesturgötu, stofnaði til hans árið 1954 með nokkrum félögum sínum úr skóla og veitti honum forstöðu til ársins 1965. Þar voru glæsilegar innréttingar í þjóðlegum stíl og tengdar sjávarútvegi, og er eftirsjá að þeim stað, sem margir þjóðkunnir menn sóttu að jafnaði. Eitt af því, sem gerði hann sérstakan, var að þar hófust þorrablót á íslenzkum veitingastöðum, og var ekkert til sparað, að þær máltíðir yrðu eftirminnileg reynsla. Var um þetta fjallað í Morgunblaðinu fyrir fáeinum árum.

En Halldóri nægði ekki sitt veraldlega hlutverk. Hann fekk dýpri köllun til kristinnar trúar og þjónustu og fylgdi henni eftir, heill og sannur eins og hann var, lét af veitingamennskunni og hóf guðfræðinám við Háskóla Íslands, stundaði það af áhuga og lauk þaðan kandídatsprófi 1972. Hann vígðist sama ár sem farprestur Þjóðkirkjunnar, á 45. aldursári, og þjónaði á sögufrægum stað, Borg á Mýrum, í eitt ár. Árið eftir var hann kosinn sóknarprestur hins nýja Grensásprestakalls í Reykjavík og þjónaði þar um 24 ára skeið, allt til ársins 1997. Var hann í hópi trúarheitra presta og játningatrúrra fylgjenda Krists, sem heyra mátti á predikunum hans, en á þeim árum kynntust landsmenn á almennari hátt prestum okkar, af því að Útvarp Reykjavík var nánast eina útvarpsstöð landsins og hlustun á útvarpsmessur á helgidögum all-almenn, meðan menn biðu eftir sunnudagssteikinni.

Á þessum vettvangi hans í Grensáskirkju hitti ég hann fyrst, þegar ég kom á samkomur Ungs fólks með hlutverk, en séra Halldór hafði tekið þá hreyfingu upp á arma sína, veitti henni húsaskjól og aðstöðu til boðunar og vakningar meðal ungs fólks. Þar kynntist ég einnig hans ágæta samstarfsmanni, séra Friðriki Schram, einum leiðtoga þess hóps (miklu síðar, 1996, stofnaði hann sinn eigin söfnuð, Íslensku Kristskirkjuna).

Séra Halldór var maður, sem stundaði trú sína vel og hélt áfram að leita sannleikans, þótt hann hefði fundið hann. Þar kom þeirri leit hans, að hann fann lausnina í kaþólskri trú og kirkju, mörgum samferðamönnum hans til undrunar, en þessu fylgdi hann eftir af sama trúnaðinum og sínum fyrri sinnaskiptum.

Á vettvangi Kristskirkju í Landakoti kynntist ég honum upp frá því sem áhugasömum kristnum bróður, en hann tók þar af sannri þjónustusemi að sér að sjá um Biblíulestra í messum, m.a. á virkum dögum í síðdegismessunni, þar sem hann fann trú sinni góðan farveg, en einnig um margra ára skeið sem lesari í hámessu sunnudagsins. Þessu sinnti hann óaðfinnanlega, með skýrum og virðingarfullum upplestri þess manns sem greinilega þekkti Ritningarnar og réttar áherzlur þeirra, en það er beinlínis nauðsynlegt til að lestrarnir komist vel til skila.

Halldór var ljúfur maður í viðkynningu eins og þau hjónin bæði, en kvæntur var hann Ingveldi Lúðvígsdóttir Gröndal. Fallegt var heimili þeirra, þar sem ég kom, og það var gott að ræða við hann um kristin málefni, eins og við gerðum stundum eftir messur. Veit ég að vinur hans, séra Jurgen, sóknarprestur í Landakoti, mat séra Halldór afar mikils, heimsótti hann í hverri viku, þar sem þeir unnu saman að góðum verkefnum. Einnig var Halldór mikils metinn meðal kollega sinna í hinu virka félagi fyrrverandi sóknarpresta.

Hér var eftir að nefna móður Halldórs, hún hét Mikkelína María Sveinsdóttir, bónda í Hvilft í Önundarfirði, Árnasonar. Sigurður, faðir hans, var yfirkennari og rithöfundur, einn margra í ættinni, sonur Benedikts Þ. Gröndal, kennara, skálds og ritara í Reykjavík (yngsta), en hann var dóttursonur Sveinbjarnar Egilssonar, skáldsins góða og rektors Bessastaðaskóla, síðar Reykjavíkurskóla. Átti Sveinbjörn stóran þátt í íslenzkri endurreisn á 19. öld, meðal annars sem kennari hins mikla skálds, Jónasar Hallgrímssonar.

Góður maður og gefandi er nú kært kvaddur, maður sem í kirkjum sínum báðum hefur notið virðingar og ástsældar. Eftirlifandi eiginkonu Halldórs, börnum þeirra og ástvinum öllum vottum við innilega samúð okkar.

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Sjá einnig pistil um Halldór heitinn á vef Kristinna stjórnmálasamtaka: Leyndardómur bænarinnar.

30.12.10 @ 16:00
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

multiple blogs