« Gleðilegt ár! – og af frumkvæði Nonna í sjúkrahúsmálumJón Sveinsson, Nonni, í lifandi myndum! »

16.12.07

  04:54:31, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 341 orð  
Flokkur: Úr lífi og starfi kirkjunnar

Habemus episcopum!*

Hjartanlega fögnum við Kirkjunetsmenn tilkomu nýs biskups kaþólskra á Íslandi, herra Péturs Bürcher, en hann var settur inn í embætti í Kristskirkju í gær. Var athöfnin öll hin hátíðlegasta og naut þar m.a. fagurs kórsöngs [Karmelsystra í Hafnarfirði]. Kirkjan var skreytt fánaborðum Vatíkansins, Kaupmannahafnarbiskup gegndi þar leiðandi hlutverki, og einnig var okkar fráfarandi biskup, herra Jóhannes Geijsen, meðal þeirra helztu, sem töluðu, en þar voru fleiri biskupar viðstaddir (þótt veður hamlaði, að nokkrir kæmust í tæka tíð) og allnokkur fjöldi presta og reglufólks, þ.e. kaþólskra systra af ýmsum reglum og munka frá klaustrinu í Reyðarfirði. Ennfremur voru þar, auk fullrar kirkju leikmanna, biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, herra Geir H. Haarde forsætisráðherra, a.m.k. tveir aðrir meðlimir ríkisstjórnarinnar og borgarstjóri Reykjavíkur. En Reykjavíkurbiskup er hið opinbera starfsheiti herra Péturs Bürcher.

Maðurinn sjálfur er afar ljúfmannlegur, laus við öll stíf formlegheit, það sást vel á hans brosmildu framgöngu í prócessíu um dómkirkjuna og þegar hann vék af leið sinni til að klappa á kollinn á litlu barni sem stóð þar hjá.

Eftir messuna, sem stóð langt á aðra klukkustund, var fagnað í Oddfellow-húsinu, þar sem borið var fram heit súpa, kaffi og kökur. Kaþólski söfnuðurinn gleðst yfir sínum nýfengna biskupi, og sjálfur fekk sá, sem þetta ritar, að þrýsta hönd hans, bjóða hann velkominn, óska honum velfarnaðar í starfi og þiggja af honum blessunarorð.

Herra Pétur Bürcher var þegar vígður biskupsvígslu í heimalandi sínu Sviss, en hann gegndi þar embætti aðstoðarbiskups í Lausanne, Genf og Freiburg. Því varð athöfnin í Kristskirkju heldur skemmri en ella, eins og þeir skilja vel, sem viðstaddir hafa verið biskupsvígslu í öllum hennar hátíðleika með tilkomumiklum helgisiðum, bænaráköllum og fögrum sálmum.

Biskupinn okkar nýi er sérfræðingur í málefnum islams og Mið-Austurlanda, og kvað Kaupmannahafnarbiskup í ávarpi það feng mikinn fyrir bræður hans á hinni norrænu, kaþólsku biskuparáðstefnu, sem glíma þurfa við ýmis umhugsunarefni vegna fjölgunar múslima í löndum þeirra síðustu áratugina.

Með tilhlökkun horfum við til stjórnar og leiðsagnar þessa mæta, vel menntaða og umfram allt góðviljaða manns á biskupsstóli hér á landi.

* Við höfum [fengið nýjan] biskup!

4 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ekki má gleyma að frá árinu 2001 hefur hann einnig setið í Stjórnardeild samskipta við Austurkirkjuna og er þaulkunnugur málefnum hennar.

16.12.07 @ 08:54
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þennan fróðlega pistil Jón. Það hefði verið gaman að vera viðstaddur þarna og hlýða á kórsöng Karmelsystranna. Athyglisvert að forseti Íslands skyldi vera fjarverandi þar sem svo margir fyrirmenn voru saman komnir.

Líka er athyglisvert að RÚV “útvarp allra landsmanna” greindi í engu orði frá þessum atburði í aðal kvöldfréttatíma gærdagsins, hvorki í sjónvarpi né útvarpi. Sjá hér:
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4338518 og hér:
http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4364715. Áhugaleysi RÚV á málefnum kirkjunnar og sér í lagi kaþólsku kirkjunnar er þó ekki stílbrot á þeirra stefnu þegar horft er til síðustu ára og áratuga, þ.e.a.s. þegar horft er til annarra mála en hitamála í Þjóðkirkjunni. Það hefði varla skaðað nokkurn mann þó landsfólkið hefði verið frætt um þennan atburð með einni setningu.

En þetta andvaraleysi RÚV er þó ekki bara bundið við kaþólsku kirkjuna. Sunnlendingar verða áþreifanlega varir við þetta líka en segja má með stílfærðum hætti að það efni sem héðan berst í gegnum RÚV séu fréttir af afbrotum, gæsluvarðhöldum og jarðskjálftum en þó bara þeim af stærri gerðinni. (Suðurland er t.d. eini landshlutinn þar sem ekki er rekin deild eða svæðisútvarp). Varla er mögulegt að atburður af þessari gerð geti farið fram hjá árvökulum fréttamönnum, jafnvel þó hugsanlegt sé að fréttatilkynningar hafi ekki verið sendar út.

En sé það ástæðan, þ.e. að kirkjan hafi ekki gætt þess að kynna atburðinn nægjanlega þá er það vonandi eitthvað sem mun breytast með tilkomu hins nýja biskups því að þótt auðmýktin sé bæði eftirsóknarverður og aðdáunarverður eiginleiki þá er hlédrægnin það ekki endilega líka. Þá getur varla verið heppilegt fyrir kirkjunnar menn að setja ljós sitt undir mælistiku þá daga sem ljós þeirra á að skína sem skærast - hafi það verið gert sem ég vona ekki.

16.12.07 @ 10:04
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kærar þakkir fyrir þessi innlegg, Jón Rafn og Ragnar, og biðst ég afsökunar á seinum svörum. Mér þykir það vitneskja af betra taginu, að biskup okkar hefur setið í Stjórnardeild samskipta við Austurkirkjuna. Hér fjölgar nú fólki í orþódoxu kirkjunni, þótt ekki sé það í sama magni og fjölgun í okkar kirkju, sem hefur verið margföld á síðasta áratug.

Já, merkilegt er það, sem þú segir, Ragnar, um áhugaleysi RÚV og Sjónvarpsins á þessari hátíðlegu innsetningarathöfn nýs biskups. Veraldarhyggjumenn á þeirri stofnun hygg ég ráði mestu í þeim efnum.

Þetta sama átti reyndar líka við um Moggann minn, fátæklegri gat fréttin naumast verið en þessi stutti texti, sem birtist á bls. 2 í sunnudagsblaðinu (og var raunar að sumu leyti rangur, í frásögn af hlutverki Stokkhólmsbiskups við athöfnina, en hann komst ekki til landsins fyrr en eftir hana, síðdegis í gær, og fleiri biskupar náðu ekki hingað vegna óveðurs; þessi villa í Morgunblaðinu fekk mig, óvissan, til að ‘leiðrétta’ þessa vefgrein í morgunsárið í dag og aðra nánast samhljóða, sem ég birti á Moggabloggi mínu [þar eru einnig hlýleg viðbrögð lesenda minna ókaþólskra við komu þessa nýja biskups]; en ég hef nú lagað mismæli mín á báðum stöðum).

Í dag var yndislegt að vera við biskupsmessu, þar sem þeir voru báðir, okkar fráfarandi og nýi biskup, herra Jóhannes Geijsen og hans herradómur Pétur Bürcher, ásamt Hubertus Brandenburg, fyrrverandi Stokkhólmsbiskupi, og fleiri góðum mönnum. Einn ræddi ég lengi við frá Þýzkalandi, monsignor Ansgar Lüttel prófast, sem er forseti Kaþólska sóknasambandsins í Bremen, en hann sat þar í kirkjukaffinu með biskupi Brandenburg. Almennt eru menn hér glaðir og reifir vegna okkar nýja og ljúfmannlega biskups.

16.12.07 @ 21:31
Athugasemd from: Eyþór Franzson Wechner  
Eyþór Franzson Wechner

Vil taka það fram að hinn fagri kórsöngur karmelsystra var í raun fagur söngur kórs Landakotskirkju. Ég sjálfur spilaði á orgelið í umræddri messu.

02.01.08 @ 13:56
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution CMS