« Á aldrei að kasta perlum fyrir svín?Lög Megasar við Passíusálmana flutt í Hallgrímskirkju »

24.02.06

  21:03:37, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 273 orð  
Flokkur: Tilbeiðsla, Trúarleg tónlist og textar

Gunnar Þórðarson semur messutónlist

Morgunblaðið greindi frá því 23. febrúar síðastliðinn að hinn landsþekkti tónlistarmaður Gunnar Þórðarson hefði samið nýtt tónverk sem hann nefnir Brynjólfsmessu, í tilefni af 400 ára afmæli Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti. Brynjólfsmessan verður frumflutt Í Keflavíkurkirkju 25. mars. Flytjendur eru 25 manna hljómsveit, 100 manna kór, 50 manna barnakór auk söngvaranna Sigrúnar Hjálmtýsdóttur og Jóhanns Friðgeirs Valdimarssonar. Verkið verður svo flutt aftur 26. mars í Skálholtskirkju og 29. mars í Grafarvogskirkju og tekur verkið um 50 mínútur í flutningi.

Í viðtalinu kvaðst Gunnar vonast til að Brynjólfsmessan verði hljóðrituð til útgáfu og víst er að margir munu taka undir þá ósk með honum. Það er sérstakt fagnaðarefni að þessi ástsæli tónlistarmaður skuli taka að sér þetta verkefni. Gunnar notar hefðbundinn latneskan messutexta og eru kaflarnir Kyrie (miskunnarbæn), Gloria (dýrðarsöngur), Credo (trúarjátning), Sanctus (helgunarbæn), Benedictus (blessunarbæn) og Agnus Dei (ákall til Krists - Guðs lambs) og síðast en ekki síst Virgo Diva eða ákall til Maríu meyjar sem er eftir Brynjólf sjálfan, en hefð er fyrir því í kaþólskum messum að láta útgöngusálm vera til heiðurs meymóðurinni og rennir þessi sterka tilvísun Brynjólfs biskups til þeirrar hefðar stoðum undir kenningar um sérstöðu íslensku kirkjunnar gagnvart siðaskiptunum.

RGB/Heimild
"Notar Maríukvæði Brynjólfs í lokaþættinum". Bergþóra Jónsdóttir. Morgunblaðið 23. febrúar 2006. Bls. 56 (baksíða).

No feedback yet