« Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (9)Kirkjan er brúðurin sem mynduð var úr síðusári Krists, eins og Eva var sköpuð úr síðu Adams »

22.02.07

  09:31:05, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1336 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú, Guðrækni hins helgasta Hjarta Jesú í kirkju nútímans

Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (8)

5. 1. GRUNDVÖLLUR GUÐRÆKNINNAR HJÁ KIRKJUFEÐRUNUM

Tímaskeið kirkjufeðranna hefst við lok ritunar Nýja testamentisins og nær allt til tíma Gregors hins mikla páfa (d. 604) í Vesturkirkjunni og til hl. Jóhannesar frá Damaskus (d. 750) í Austurkirkjunni. Hugmyndir þeirra er það sem nefnt er kirkjufeðraguðfræðin. Þrátt fyrir að þessir höfundar bentu ekki á Hjarta Jesú sem tákns hinnar takmarkalausu elsku, þá fjölluðu þeir um allar þær lykilhugmyndir sem nærðu þessa guðrækni.

Af öllum fjölda skírskotana þeirra til síðusársins, þá kemur í ljós að þetta var eitt þeirra tákna sem þeir mátu einni mest. Þessi kafli mun snúast um túlkunina á Jh 7. 37-41, þá sérstöku guðrækni sem Jóhannesi postula var auðsýnd og inntak Ljóðaljóðanna. [11]

Túlkunin á Jh 7. 37-41:

Eftir að kirkjufeðurnir höfðu gengið út frá því sem vísu að Jesús „væri sannur Guð og sannur maður“ (sjá Haurietis Aquas,“ gr. 40) var mikið skrifað um Jh 7. 37-41 (hið lifandi vatn). Elsta saga guðrækninnar á Kristi sem ástmögur er í reynd saga túlkunar þessa ritningarstaðar.

Alexandríutextinn er það afbrigðið sem virðist gefa í skyn að hið lifandi vatn kæmi að innan frá hinum trúaða. Þrátt fyrir að það komi fyrst frá Kristi, þá er þessi texti ekki sá sem er hliðhollari þessari guðrækni.

Orígenes (185-253/254) færir okkur í hendur elstu ritskýringarnar við þennan texta. En umfjöllun hans gefur til kynna að hverfa beri frá hinu líkamlega til hins andlega. Hann vék að Hjarta Drottins sem innsta sjálf hans, en sem uppsprettu visku og hugmynda fremur en náðar og elsku og þannig bergi hinn sanni gnostíkeri á vatni viskunnar. Hl. Ambrosíus (340-397) og hl. Ágústínus (354-430) viku að báðum túlkununum, en fjölluðu þó að mestu um Alexandríutextann. Skrif hl. Ágústínusar höfðu mótandi áhrif á kristna guðrækni öldum saman.

Efesusarafbrigðið

Textinn boðar að það sé líkami Krists sem sé uppspretta hins lifandi vatns. Þessa túlkum má rekja frá einni heimild til annarrar því sem næst til þess hóps sem myndaðist umhverfis Jóhannes guðspjallamann!

Hippolýtus frá Róm (d. 235) er fyrstur til að skrifa með augljósum hætti um Efesustúlkunina. Kennari hans var Íreneus (d. 202) sem fyrir sitt leyti var lærisveinn Polýkarpusar frá Smyrnu (69/70-155/156) sem hafði séð sjálfan Jóhannes og heyrt um Fagnaðarerindið af vörum hans! Með þessum hætti er um bein tengsl að ræða til baka til Efesus og álykta má með réttu, að þetta sé hið sögulega baksvið lotningar fornkristinna manna og miðaldamanna á Hjarta Jesú!

Eftirfarandi feður skrifuðu um Efesustúlkunina: Hl. Íreneus, hl. Justin Martyr (d. 165), hl. Kýprían frá Karþagó (d. 258), Appollinarís frá Hieropolis (d. 258), hl. Kýrillos frá Alexandríu (d. 444), Rúfínus (d. 410), hl, Hieronýmus (d. 419), Marius Victorínus (d. 363), Seasaríus frá Aries (d. 542), hl. Ísidor frá Sevilla (d. 636) og hl. Gregor hinn mikli (d. 604).

Hl. Justin Martyr komst svo að orði: „Það er okkur gleðiefni að deyja sökum nafns hins dýrlega kletts. Hann lætur lifandi vatn streyma í hjörtu þeirra sem fyrir hann elska Föður alheimsins og hann svalar þeim sem þrá að bergja á þessu vatni lífsins“ (Samræðurnar 114, 4). Hl. Ambrosíus skrifaði þennan lofsöng í „Ritskýringunum við sálmana“ (1. 33):

Drekkið af Kristi vegna þess að hann er kletturinn
þaðan sem vatnið streymir.
Drekkið af Kristi vegna þess að hann er lífsuppsprettan.
Drekkið af Kristi vegna þess að hann er fljótið
sem færði borg Guðs gleði með straumi sínum.
Drekkið af Kristi vegna þess að hann er friður.
Drekkið af Kristi vegna þess að straumur lifandi vatns
streymir frá líkama hans.

Sem dæmi um afstöðuna til Ljóðaljóðanna eru þessi skrif hl. Gregors hins mikla: „Stattu upp, vina mín, fríða mín, æ kom þú! Dúfan mín í skoru klettsins, í gati veggjarins. Með skorum klettsins á ég við sárin á höndum og fótum Krists þar sem hann hékk sjálfviljugur á krossinum. Með gatinu í veggnum á ég við sárið á síðu hans eftir spjótslagið . . . Eins og dúfan á klettinum finnur einföld sál þá næringu í þessu sári sem mun styrkja hana. Einnig má segja að kletturinn tákni sakramentin“ (Ritskýringar við Ljóðaljóðin).

5. 2. SÍÐUSÁRIÐ SEM UPPHAF KIRKJUNNAR

Í „Stjórnskipun kirkjunnar (gr. 3) víkur Annað Vatíkanþingið að því að það sé síðusár Krists sem marki upphaf kirkjunnar. Þetta er hrein kirkjufeðraguðfræði. Feðurnir sáu í Evu sem mynduð var úr síðu Adams tákn um upphaf kirkjunnar í síðusári Krists þar sem hann hékk á krossinum. Í þeirra huga varð kirkjan til á þessu andartaki eins og á Hvítasunnunni. (Við sjáum grundvöll þessarar hugmyndar í Biblíunni í: P 3. 15; 1Kor 15. 45 og í 2 Kor 11. 2-3). Sumir feðranna sáu jafnvel hið lifandi vatn í öllum náðargjöfum Krists: Náð kirkjunnar, trú og sakramentum – einkum skírnarsakramentinu.

Sumir feðranna sem skrifuðu í þessum anda eru: hl. Íreneus, hl. Justin Martyr, hl. Jóhannes Chrysostomos (d. 407), Tertúllían (d. 250), hl. Kýrillos frá Jerúsalem (d. 386), hl. Ágústínus og hl. Pétur Chrysologus (d. 450) og enn fleiri.

Tertúllían komst svo að orði: „Ef Adam var forgildi Krists, þá var svefn Adams forgildi svefns Krists sem svaf í dauða sínum, þannig að hin sanna móðir lifenda, kirkjan, yrði mynduð úr síðu hans með sárinu“ (Um sálina 43). Hl. Jóhannes Chrysostomos skrifaði: „Spjót hermannsins opnaði síðu Krists og sjá,með þessu síðusári myndaði Kristur kirkjuna, rétt eins og hin fyrsta móðir, Eva, var mynduð úr Adam“ (Um Jóhannesarguðspjallið LIX).

5. 3. HEIÐRUNIN Á JÓHANNESI POSTULA

Loks setti það mark sitt á hugmyndir kirkjufeðranna hvað áhrærir þetta efni að líta á Jóhannes postula sem fyrirmynd þeirra sem drekka af þessu lifandi vatni. Hann er sérstakur verndardýrlingur þeirra.

Við rekumst á slíkar hugmyndir í skrifum Orígenes (d. 253-254), hl. Gregoríosar frá Nyssa (d. 395), hl. Ágústínusar, hl. Paulínusar frá Nola (d. 431) og hjá fleirum. Hl. Paulíus skrifaði: „Jóhannes sem hvíldi í uppljómun við brjóst Drottins okkar var ölvaður af Heilögum Anda. Úr Hjarta hinnar alskapandi speki varð hann aðnjótandi skilnings sem rís hærra en allra skapaðra vera“ (Bréf 21, 4). (Þetta er einhver víðkunnasti textinn um hið Alhelga Hjarta vegna þess að hann grípur til orðsins „hjarta“ með beinum hætti. Án þessa orðs viku feður Austurkirkjunnar að philanthropia Guðs, elskunni á mannkyninu.)

Í sem fæstum orðum rituðu þessir miklu feður um alla þá mikilvægustu þætti sem birtust í guðrækninni á hinu Alhelga Hjarta á miðöldum. Síðari tíma þróun var lífrænn vöxtur vínviðar þeirrar guðrækni sem átti sér rætur í Biblíunni og hjá kirkjufeðrunum. Nú hefur þessi guðrækni farið heilan hring og er aftur komin til uppsprettu sinnar hjá kirkjufeðrunum í hinu nýja forgildi hins Alhelga Hjarta í rómversku messunni:

Hafinn hátt upp á kross
fórnaði Kristur oss lífi sínu,
svo mjög elskaði hann oss.
Úr síðusári hans streymdi blóð og vatn,
uppspretta lífs sakramentanna
í kirkjunni.
Frelsarinn býður öllum mönnum til þessa opna Hjarta
til að sækja vatn fullir gleði til uppsprettu
hjálpræðisins.

[11]. Margaret Williams, „The Sacred Heart in the Life of the Church,“ Sheed & Ward, New York (1957), bls. 15-29; Hugo Rahner, op. cit., bls. 37-58.

No feedback yet