« Í leyndum hjartans – Hugvekja á öskudag 1983 eftir Jóhannes Pál páfa IIGuðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (5) »

20.02.07

  09:31:20, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2295 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú, Guðrækni hins helgasta Hjarta Jesú í kirkju nútímans

Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (6)

4. 4. Í NÝJA TESTAMENTINU

(a) Kristselskan í guðspjöllunum

Nýja testamentið opinberar Guðdómseðlið með áþreifanlegum hætti sem „elsku“ (1Jh 4. 16), og þetta er einnig fullyrt í sálmunum – hið háleita inntak guðrækni hins Alhelga Hjarta – og það í síendurteknu mæli.

Í Nýja testamentinu sjáum við elsku hins holdgaða Guðs. „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf Son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf“ (Jh 3. 16). Í guðspjöllunum lesum við um þau mörgu kraftaverk sem gerð voru í krafti Kristselskunnar og samúðarinnar í garð mannanna vegna þess að engin hirti um það að biðjast hjálpar. Þetta var inntak frásagnarinnar af ekkjunni í Naim (Lk 7. 11-17), lækningunni á manninum sem haldinn var illum anda í Kapernaum (Mk 1. 23-28) og á manninum sem var fæddur blindur (Jh 9. 1-41).

Í dæmisögunum sjáum við fjölmörg dæmi um að inntak þeirra er elska Guðs á mannkyninu, eins og í dæmisögunni um góða hirðinn (Jh 10. 1-21), týnda sauðinn (Lk 15. 1-7), glataða soninn (Lk 15. 11-32) og svo mætti halda áfram.

Í boðskap Jesú kemur þessi sama elska Guðs og náungaelskan sífellt í ljós. Rétt eins og Guð auðsýndi öllum elsku, bæði þeim sem verðskulduðu hana og þeim sem gerðu það ekki, þannig bar fylgjendum hans einnig að bregðast við (Mt 5. 43-48). Rétt eins og Faðirinn fyrirgaf í sífellu áttu lærisveinarnir að bregðast eins við. Þegar Jesús var inntur eftir því hvert boðorðanna væri æðst, svaraði hann (Mt 22. 36-39):

Elska skalt þú Drottin, Guð þinn,
af öllu hjarta þínu,
allri sálu þinni og öllum huga þínum.
Þú skalt elska náunga þinn
eins og sjálfan þig.

Við síðustu kvöldmáltíðina dró Kristur saman boðskap sinn og þrár fyrir lærisveinanna með hjartnæmum orðum sínum (Jh 15. 9-13):

Ég hef elskað yður, eins og Faðirinn hefur elskað mig.
Verið stöðugir í elsku minni.
Ef þér haldið boðorð mín,
verðið þér stöðugir í elsku minni,
eins og ég hef haldið boðorð Föður míns
og er stöðugur í elsku hans.
Þetta hef ég talað til yðar,
til þess að fögnuður minn sé í yður
og fögnuður yðar sé fullkominn.
Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan,
eins og ég hef elskað yður.
Enginn á meiri kærleik en þann
að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.

Kristur sannaði dýpt sinnar eigin elsku með því að samþykkja ógnir dauða síns í hlýðni og af elsku til að frelsa mannkynið. Þegar skelfing og vonleysi þessa skelfilega (og dýrlega) dags vék undan fyrir skilningi og trú upprisunnar og Hvítasunnunnar, gengu postularnir út af djörfung til að útbreiða Fagnaðarerindið.

(b) Kristselskan í hinum postullegu skrifum

Straumur elskunnar heldur áfram sem fljót í gegnum hin postullegu skrif og Opinberunarbókina. Hl. Páll greinir okkur frá því hversu undursamleg þessi elska Guð er með eftirfarandi orðum: „Annars gengur varla nokkur í dauðann fyrir réttlátan mann, – fyrir góðan mann kynni ef til vill einhver að vilja deyja. – En Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum“ (Rm 5. 7-8).

Þessi elska sem okkur er opinberuð í Krists er mikill leyndardómur í huga Páls, en engu að síður afar áþreifanleg: „Í honum, fyrir hans blóð eigum vér endurlausnina og fyrirgefningu afbrota vorra. Svo auðug er náð hans, sem hann gaf oss ríkulega með hvers konar vísdómi og skilningi. Og hann kunngjörði oss leyndardóm vilja síns, þá ákvörðun, sem hann hafði með sjálfum sér ákveðið að framkvæma, er fylling tímans kæmi: Hann ætlaði að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi“ (Ef 1. 7-10). Og hann bætir við þessum orðum: „Til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika. Þá fáið þér ásamt öllum heilögum skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu, og náið að fyllast allri Guðs fyllingu“ (Ef 3. 17-19).

„Hæð“ og „dýpt“ elsku Krists varpar ljósi á að þrátt fyrir að „hann var í Guðs mynd fór hann ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi. Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra, til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu og sérhver tunga játa Guði Föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn“ (Fl 2. 6-10). Sökum þeirrar elsku og náðar sem meðtekin var í trú hvatti Páll til þeirrar helgunar og þjónustu sem hann boðaði með samlíkingunni við Krist. Hann varpaði jafnvel fram þeirri spurningu, hvort eitthvað gæti aðskilið okkur frá þessari Kristselsku. Hvort það gæti verið „þjáning eða þrenging, ofsókn, hungur eða nekt, háski eða sverð?“ Nei sagði hann, ekkert „muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs, sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum“ (Rm 8. 31-39). Þrátt fyrir að hl. Páll bendi ekki á Hjarta Jesú sem tákn þessarar elsku Krists Jesú, þá mat hann sannarlega og lifði fyrir þessa elskuverðu Persónu og þá miklu elsku sem hann auðsýndi okkur.

Í Títusarbréfinu 3. 4 var það gríska orðið „philanthropia“ sem Páll greip til með skírskotun til elskunnar: „En er gæska Guðs Frelsara vors birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann oss, ekki vegna réttlætisverkanna, sem vér höfðum unnið, heldur samkvæmt miskunn sinni.“ (Í arfleifð Austurkirkjunnar birtist þetta orð sem hluti helgisiðanna sem „Ástmögur mannkynsins.“). Sömu umfjöllunina um inntak elskunnar má sjá í Jóhannesarbréfunum. Þessi kafli væri ekki fullkominn án hjartnæmra orða hans þegar hann greinir frá þessari elsku:

Þér elskaðir, elskum hver annan,
því að kærleikurinn er frá Guði kominn,
og hver sem elskar er af Guði fæddur og þekkir Guð.
Sá sem ekki elskar þekkir ekki Guð,
því að Guð er kærleikur.
Í því birtist kærleikur Guðs meðal vor,
að Guð hefur sent Einkason sinn í heiminn
til þess að vér skyldum lifa fyrir hann.
Þetta er kærleikurinn: Ekki að vér elskuðum Guð,
heldur að hann elskaði oss og sendi Son sinn
til að vera friðþæging fyrir syndir vorar.
Þér elskaðir, fyrst Guð hefur svo elskað oss,
þá ber einnig oss að elska hver annan.
Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð.
Ef vér elskum hver annan,
þá er Guð stöðugur í oss
og kærleikur hans er fullkomnaður í oss.
Vér þekkjum, að vér erum stöðugir í honum og hann í oss,
af því að hann hefur gefið oss af sínum Anda.
Vér höfum séð og vitnum,
að Faðirinn hefur sent Soninn til að vera Frelsari heimsins.
Hver sem játar, að Jesús sé Guðs Sonur,
í honum er Guð stöðugur og hann í Guði.

Í þessum tilvitnunum sjáum við einmitt með augljósum hætti grundvallarþættina í guðrækninni á Hjarta Frelsarans, játningu og viðbrögð andspænis elsku Guðs sem opinberuð hefur verið í Kristi.

4. 5. MERKING ORÐSINS HJARTA Í BIBLÍUNNI

Ef við kynnum okkur nokkra orðstöðulykla við Biblíuna, þá gerum við okkur ljóst að „hjartað“ felur í sér blæbrigðaríkari merkingu á hebresku en á ensku. Samkvæmt semískri hugmyndafræði táknar það allt innra líf persónunnar: Tilfinningar, minningar, hugsanir, hugsanalífið og fyrirætlanir. Á hebresku er það einmitt hjartað sem er starfstæki hugsananna fremur en tilfinninganna (sem Hebrear töldu búa í nýrunum). Á grísku hefur orðið „hjarta“ einnig víðtæka merkingu.

Sagt er að hjartað sé glatt, fullt fögnuði, upphafið, sorgmætt, vonsvikið, dapurt, eirðarlaust, ráðvillt, áhyggjufullt, angistarfullt, reitt, hatursfullt, elskuríkt, óttaslegið, hugdjarft, harðúðugt (fullt þvermóðsku), uppspretta hugsana, langana, verka, visku, hygginda, hreinleika, einlægni, réttlætis og því um líkt.

Okkar blessaði Drottinn grípur til orðsins „hjarta“ í þessari fjölþættu merkingu: „Það sem fer út frá manninum, það saurgar manninn. Því að innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður, þjófnaður, manndráp, hórdómur, ágirnd, illmennska, sviksemi, taumleysi, öfund, lastmælgi, hroki, heimska. Allt þetta illa kemur innan að og saurgar manninn" (Mk 7. 20-23).

Fyrr á árum var iðulega gripið til eins hjartnæms vers úr Ritningunum til að renna stoðum undir guðrækni hins Alhelga Hjarta: „Lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur“ (Mt 11. 29). Guðfræðin boðar að bókstafleg merking þessa vers sé sú, að Kristur þrái að mennirnir verði lærisveinar sínir vegna þess að hann sé ekki eins og lögvitringar lögmálsins. Í hroka sínum töluðu þeir niður til fólksins, jafnhliða því sem Jesús benti á lítillætið sem ástæðu þess „að“ fólkið ætti að nema af honum. Ef við samþykkjum þessa guðfræði getum við gripið til þessa ritningarstaðar með það að leiðarljósi að mótast sjálf í mynd þessa lítillætis og auðmýktar Krists. Það kemur hvergi beint fram í þessari tilvitnun að vegsama beri hjartað, en þetta er ofur réttmæt ályktun.

Áður en við ljúkum umfjölluninni um þetta atriði er vert að gefa orðum Hugo Rahners gætur: „Á tungutaki Opinberunarinnar hefur hið háleita orð ‚hjarta’ og önnur þau orð sem standa því næst að merkingu (hebreska: leb, lebab, beten, me(j)im, kereb; gríska: kardia, koilia, spalanchna; latína: cor, venter, viscere) sömu frummerkinguna í öllum málunum. Í guðrækninni á hinu Alhelga Hjarta er orðið ‚hjarta’ haft um hönd í hinni biblíulegu merkinga og betra orð er einfaldlega ekki unnt að finna yfir innri persónuleika Krists.“ [6]

4. 6. NOKKRAR FULLYRÐINGAR UM MESSIAH
Í GAMLA TESTAMENTINU

Í Gamla testamentinu rekumst við á nokkrar vel skilgreindar fullyrðingar um innri afstöðu Messiah sem rennt er stoðum undir með markvissri notkun þeirra í Nýja testamentinu. Þær tilheyra upprunalegu inntaki og boðskap hinna innblásnu Ritninga. Þær lýsa Messiah sem hlýðnum gagnvart vilja Föður síns, fórnfúsum, alteknum dauðans angist, þolgóðum í þjáningum og fullum vonar á endanlegan sigri. Öll þessi reynsla og geðbrigði falla undir svið „hjartans.“ [7]

Í sálmi 40. 9 lesum við: „Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér [í hjarta mínu]." Í Hebreabréfinu 10. 5-7 eru þessi orð látin skírskota til Messiah eins og hér væri um bæn hans að ræða. Sjálfur lýsti Kristur afdráttarlaust yfir: „Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans“ (Jh 4. 34).

Í sálmi 22 sem hefst með orðunum „Guð minn, Guð minn, hví hefir þú yfirgefið mig?“ og píslarsagan lætur skírskota til Jesú, eru margar þjáningar þess sem er harmi lostinn í sálminum látnar gilda um Messiah. Þetta eru háðsyrði leiðtoga lýðsins, þorstinn á krossinum, gegnumnegling handanna og fótanna, skipting kyrtils hans og veðmálið um klæði hans, vonleysið og lokasigurinn.

Í sálmi 16. 9-10 sáu þeir Pétur og Páll ritningarstað sem þeir létu skírskota til upprisu Krists: „Fyrir því fagnar hjarta mitt, sál mín gleðst, og líkami minn hvílist í friði, því að þú ofurselur Helju eigi líf mitt, leyfir eigi að þinn trúaði sjái gröfina.“ Í Postulasögunni 2. 25-36 greip Pétur til þessa ritningarstaðar til að sannfæra þá sem hlustuðu á hann um, að upprisan hefði verið boðuð áður en til hennar kom. Þetta var staðfesting á því að Jesús væri „bæði Drottinn og Messiah“ þegar þetta gerðist. Páll grípur til þessa texta með sama hætti í P 13. 25.

Aðrir ritningarstaðir sem notaðir eru með þessum sama hætti eru Jer 30. 9; Jes 53. 12 og Jh 10. 17; Sl 68 (69), Jh 2. 17; 15. 25; Rm 15. 3 og P 1. 20.

Hugo Rahner komst svo að orði: „Þessi röð tilvitnanna úr spádómum Gamla testamentisins sem skírskota til hins komandi Messiah eru í öllum tilvikum staðfestar með því hvernig þær gegnu eftir í opinberuninni. Þær gefa okkur innsýn inn í „hjarta“ Endurlausnarans sem opinberaðist í mennskri mynd, innsýn sem í heild dregur upp fyrir okkur fullkomna mynd af innri afstöðu Messiah.“

[6]. Hugo Rahner, op. cit., bls. 17.
[7]. Sami, op. cit., bls 21, þróaði þessa afstöðu sína í langri grein í „Biblica“ (1941), bls. 22-29.

No feedback yet