« Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (6)Benedikt páfi XVI áminnir okkur um „kristnu byltinguna“ »

19.02.07

  09:55:59, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1083 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú, Guðrækni hins helgasta Hjarta Jesú í kirkju nútímans

Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (5)

4. 1. HINN RITNINGARLEGI GRUNDVÖLLUR GUÐRÆKNINNAR

Innan þeirra marka sem krafa góðrar textarýni (exegesis) setur er mögulegt að finna allar grundvallarhugmyndirnar hvað áhrærir guðræknina á hinu Alhelga Hjarta á síðum Ritningarinnar. Þar sem notkun hjartans sem tákns um þá elsku Guðs sem okkur er opinberuð í Kristi er síðari tíma þróun innan guðfræðinnar og dulúðarinnar, þá rekumst við ekki á neina sérstaka tilbeiðslu á hinu líkamlega Hjarta hins holdgaða Orðs í heilögum Ritningum. Þessi kafli mun því fjalla um elsku Guðs í Ritningunum, þann skilning sem Biblían leggur í orðið hjarta, víkja að nokkrum atriðum hvað áhræra hinn komandi Messíah sem rættist í Nýja sáttmálanum og að tveimur afar þýðingarmiklum ritningarstöðum: Jh 7. 39-41 og Jh 19. 34.

4. 2. ELSKA GUÐS Í RITNINGUNUM

Þegar við lítum til sögu hjálpræðisins í heild gerum við okkur brátt ljóst, að hún varpar ljósi á elskuríkt samfélag Guðs og samskipti við mannkynið. Rekja má hinn rauða þráð elskunnar sem hefst við sköpun og fall mannsins, í útvalningu Abrahams og afkomenda hans sem barna sáttmálans, í hinum mikla sáttmála á Sinaífjalli í kjölfar brottfararinnar frá Egyptalandi, í upphefð og falli hins útvalda lýðs úr hæðum konungsríkis Davíðs til djúps herleiðingarinnar, endurreisninni meðal þeirra sem snéru til baka og með komu Krists í fyllingu tímans, dauða hans og upprisu og áframhaldinu á Hvítasunnunni. Þetta „leitmotif“ elskunnar er dregið saman með fögrum orðum í lofgjörð Sakaría: Blessunarorðunum: „Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, því að hann hefur vitjað lýðs síns og búið honum lausn . . . Þessu veldur hjartans miskunn Guðs vors“ (Lk 1. 68-79). Í stað orðsins elsku grípur Ritningin iðulega til orðanna „miskunnar“ og „gæsku“ eða þá „elskuríkrar gæsku.“ Í hvert sinn sem við sjáum þessi orð skírskota til Guðs í Biblíunni eða þá í tíðagjörðinni sjáum við elsku Guðs eða eina þeirra leiða þar sem hún opinberar sig (Við rekumst einnig á þessa ástartjáningu í þeirri Evkaristíubæn sem grundvallast einna mest á Biblíunni: IV).

4. 3. Í GAMLA TESTAMENTINU

(a) Hjá spámönnunum

Í Gamla testamentinu gegnir sáttmálinn veigamiklu hlutverki ásamt lögmálinu sem gerði mögulegt að lifa til samræmis við hann. Helsti þátturinn í því að halda sáttmálann grundvallaðist ekki á ótta við refsingu Guðs, þrátt fyrir að þetta væri einnig fyrir hendi, heldur á raunverulegri elsku! „Heyr Ísrael! Drottinn er vor Guð; hann einn er Drottinn! Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum. Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst“ (5M 6. 4-6).

Biblían grípur til ýmis konar tákna til að tjá elsku Guðs. Þau eru meðal þess fegursta sem verður á vegi okkar á síðum Ritninganna. Jesaja dregur upp mynd af Guði þar sem hann segir, að jafnvel þó að móðir gerði hið óhugsanlega og gleymdi barni því sem hún hefði fætt, myndi Guð ekki gera það (Jes 49. 14-15). Hósea líkir elsku Guðs við föðurelsku eða við eiginmann þegar kona hans hefur reynst honum ótrú, en elska Guðs hefði aldrei breyst (Hs 2. 9-27). Jeremía sér Guð gera nýjan sáttmála í sjálfu hjarta lýðs síns og ekki minnast synda hans framar (Jer 31. 31-34). Í Ljóðaljóðunum er elska Guðs tjáð sem elska í hjúskaparlífinu (Ll 7. 1-14). Þessi síðasta ímynd er einhver sú háleitasta í Gamla testamentinu. Þegar spámennirnir hrópa á fólkið að gera iðrun, var raunverulegt takmark þeirra að fá það til að snúa að nýju til elsku Guðs vegna þess að hann væri svo elskuríkur og miskunnsamur.

(b) Í sálmunum

Í sálmunum er elska Guðs iðulega tjáð með orðunum „miskunn“ eða „gæska.“ Stundum lýsa sálmarnir eigindum Guðs sem elskuríkum. Þetta sjáum við í sálmum 35, 36, 100 og 145. Í þessum síðasta sálmi (v. 8) er Guði lýst svo:

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,
þolinmóður og mjög gæskuríkur.
Drottinn er öllum góður,
og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.

Í öðrum tilvikum greina sálmarnir frá því hvernig Guð bregst við gagnvart elsku mannanna, líkt og í sálmum 18, 33 og 35. Í sálmi 18, 26 má lesa:

Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur,
gagnvart ráðvöndum ráðvandur.

Iðulega glæða sálmarnir trúnaðartraust mannsins einmitt vegna þess hversu ástríkur Guð er og miskunnsamur. Þetta sjáum við í sálmum 30, 33. 69. 117 og 119. Í sálmi 117, 1-2 sjáum við að það er elska Guðs sem er tilefni lofgjörðar:

Lofið Drottin, allar þjóðir,
vegsamið hann, allir lýðir,
því að miskunn hans er voldug yfir oss,
og trúfesti Drottins varir að eilífu.

Í sálmi 69, 17 erum við hughreyst með eftirfarandi orðum:

Bænheyr mig, Drottinn, sakir gæsku náðar þinnar,
snú þér að mér eftir mikilleik miskunnar þinnar.

Tilefni hryggðar mannkynsins er einnig elska Guðs og samúð. Þetta er boðskapurinn í sálmum 86, 103 og 145. Við lesum þessi orð í sálmi 103, 8-11:

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,
þolinmóður og mjög gæskuríkur.
Hann þreytir eigi deilur um aldur
og er eigi eilíflega reiður.
Hann hefir eigi breytt við oss eftir syndum vorum
og eigi goldið oss eftir misgjörðum vorum,
heldur svo hár sem himinninn er yfir jörðunni,
svo voldug er miskunn hans við þá er óttast hann.

Í þessum fögru „svarbænum“ Biblíunnar þar sem forsöngvarinn söng eða mælti versin af munni fram og söfnuðurinn söng eða endurtók andsvarið sjáum við enn einu sinni fjallað um elskuna. Þetta má ljóslega sjá í mörgum versunum í sálmum 118 og 136. Í 136. sálminum er andsvarið „ því að miskunn hans varir að eilífu,“ og í 118. sálminum hljóðar það: „Því að miskunn hans varir að eilífu!" Í 145. sálminum hljóðar bænin:

Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,
þolinmóður og mjög gæskuríkur.
Drottinn er öllum góður,
og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar.

No feedback yet