« Byskup hvetur kaþólska stjórnmálamenn til að verja lífiðGuðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (2) »

17.02.07

  08:03:31, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1479 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú, Guðrækni hins helgasta Hjarta Jesú í kirkju nútímans

Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (3)

2. 1. MERKING „HJARTANS“

Orðið „hjarta“ er auðugt að merkingargildi. Það hæfir Drottni okkar einstaklega vel.

Við heyrum orðið „hjarta haft um hönd í daglegu máli. Fólk segir: „Hún er hjartahlý,“ „hann leggur hjartað í það sem hann gerir,“ „hún lýtur stjórn hjartans, “ „ekki glata eldmóð hjartans,“ „hversu hjartanlegur er hann ekki,“ „hjarta hennar er úr gulli,“ „ég elska þig af öllu hjarta.“ Allt skírskotar þetta til einhvers sem er djúpt hið innra.

Fólk sannar það með framkomu sinni að orðið hefur ekki glatað merkingu sinni. Það gengur með hjartalagaða skartgripi. Það skiptist á Valentínusarkortum með myndum af hjörtum til að tjá ást sína. Litlu börnin draga upp grófgerðar myndir af hjartanu til að tjá ástúð sína. Skreytilist og auglýsingar grípa til hjartans. Enn í dag er það Amor sem skýtur ástarörvum sínum í hjartastað. Hjörtu eru grafin á trjáboli til að tjá æskuástina. Iðulega er gripið til hjartans í skjaldarmerkjum (og hjartað er tákn Lúters og lúterskunnar enn í dag).

Þessi hugmynd einskorðast ekki við vestræna menningu, heldur er hún einnig alþekkt í Austurlöndum og verður á vegi okkar meðal Semíta, Egypta, Hellena til forna og í skreytilist gyðingdómsins, í grísk-rómverskri menningu og nú á tímum hjá Hindúum og Íslam, jafnt í Evrópu sem Afríku.

Löngu áður en kom að því að orðið „hjarta“ væri haft um hönd sem tákn í trúrækni og helgisiðum er iðulega gripið til þess í Biblíunni. Á síðum Ritninganna fræðumst við um að það skírskotar til alls hins innri manns: Tilfinninga hans, minninga, hugsana, skynsemi og áætlana. Kristur sagði: „Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. Af gnægð hjartans mælir munnur hans“ (Lk 6. 45). Í gegnumstunginni síðu Krists sá Jóhannes guðspjallamaður sögulegt tákn. Í samhljóðan við guðspjallamanninn horfðu kirkjufeðurnir og kristnir miðaldamenn inn í síðusárið til að fræðast um þann fjársjóð sem leyndist hið innra (sjá Jh 19. 34).

Við getum sagt að orðið „hjarta“ [3] sé eitt af lykilorðum mennskrar tungu vegna þess að ekki er unnt að benda á neitt heppilegra hugtak til að skilgreina það. Þar sem hjarta okkar tekur að slá hraðar þegar við sjáum vin sem við höfum ekki séð lengi eða ástvin, þá er það ekki einungis hlaðið vitrænni merkingu, heldur einnig tilfinningalegri. Lokaniðurstaðan verður sú að lýsa má hjartanu sem miðju verundar mannsins, sem uppsprettu samskipta hans, helgidóm samviskunnar, þann „stað“ þar sem Guð miðlar náð sinni og dómum.

Gildi orðsins sem tákns til að tjá veruleika Krists var boðskapur páfanna. Í Hirðisbréfi sínu fyrir hið heilaga ár 1900 (Annum Sacrum) komst Leó páfi XIII svo að orði: „Í hinu Alhelga Hjarta má sjá tákn, nei, tjáningarríka ímynd hins takmarkalausa kærleika Jesú Krists sem fær okkur til að elska hann með gagnkvæmum hætti.“ Hálfri öld síðar skrifaði Píus páfi XII: „Hjarta hans um fram aðra hluti líkama hans er hin eðlilegu ummerki og tákn takmarkalausrar elsku hans á mannkyninu“ (Haurietis Aquas, 22).

2. 2. TÁKN HJARTANS SEM ÁMINNING UM ELSKUNA

Jafnframt því að viðurkenna að við eigum að játa hina miklu ást Krists okkar í garð halda sumir kristnir menn nú á dögum því þvert á móti fram, að við getum vegsamað hinn dýrlega Jesú án þess að grípa til ímyndar Hjartans, hvort sem það sé svo með sýnilegum eða ósýnilegum hætti. Enginn hefur rétt til að hafna því án sannana, að einhver sé fær um slíkt. Það væri vissulega fróðlegt að komast að raun um að einhverjum hafi auðnast að viðhalda guðrækninni í djúpinu í ákveðinn tíma án þessa tákns Hjartans. Það virðist alltént afar erfitt, ef ekki útilokað með öllu.

Þegar til alls kemur hefur mannkynið sífellt gripið til tákna til að tjá og minna sjálft sig á djúpstæð andleg sannindi. Og hérna erum við að fjalla um þann veruleika sem er djúpstæðari en allt annað, sjálft verundardjúp persónuleika Krists! Einnig væri fróðlegt að komast að raun um hvernig unnt sé að varðveita einstætt inntak þessarar guðrækni, án þess að hún verði þokukennd og óljós með tímanum. Kristnar bókmenntir eru uppfullur af skrifum um Krist sem Fræðara, Meistara, Konung, Dómara, Almætti, andlegan Vin og því um líkt, en færri bækur virðast vera á boðstólum um hann sem Ástmögur: Það sem aðgreinir þessa guðrækni frá annarri. Þessi hugmynd virðist alls ekki liggja svo ljóst fyrir án einhvers konar tákns til að minna okkur á þetta.

Karl Rahner leggur fram önnur rök fyrir nauðsyn lykilorðs (og tákns). Hann minnir lesendur sína á að maðurinn leitar í sífellu leiða til að finna samsemd milli fjölbreytileika lífsins og þeirrar trúar sem hann sannreynir. Þetta er kristnum mönnum unnt að gera í Kristi. Hl. Páll skrifar: „Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega, hásæti og herradómar, tignir og völd. Allt er skapað fyrir hann og til hans. Hann er fyrri en allt, og allt á tilveru sína í honum. Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar, hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu. Þannig skyldi hann verða fremstur í öllu. Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa og láta hann koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi“ (Kol 1. 16-20; Ef 1. 3-10).

Í leit sinni að einingu leitar maðurinn lykilorðs og tákns til að tjá einingu alls, jafnvel auðlegð sáluhjálplegs samfélags síns við Krist. Jafnframt því sem Rahner skorar á lesendur sína að finna eitthvað annað orð, skrifar hann: „Hvar er þá annað orð að finna í stað þessa orðs, ‚hið Alhelga Hjarta,’ sem er þess umkomið að lýsa Drottni sem þeim sem leiðir einn og sérhvern til einingar og leiðir sjálft til samsemdar hið innra með sálinni til fyllingar þess sem það skírskotar til í þessum skilningi. Ekkert orð hefur enn verið mælt af vörum sem býr yfir þessum mætti, nema orðið ‚hið Alhelga Hjarta’ . . . Það gegnir því hlutverki að lýsa því stigi þegar mennskur leyndardómur umbreytist í leyndardóm Guðs.“ [4]

Allar spurningarnar um notkun orðsins og táknrænt merkingargildi þess hafa verið leystar með boðskap sjálfs Krists til hl. Margaret Marie Alacoque í annarri opinberuninni (1674). Eftir að hafa beðið eftir því að maðurinn uppgötvaði þessa niðurstöðu sjálfur og í undursamlegri varúð gagnvart reisn mannsins „sagði hann mér,“ skrifaði dýrlingurinn í bréfi, „að heiðra ætti Hjarta sitt í mynd hjarta úr holdi, en mynd þess vildi hann að yrði gjörð og ég ætti að bera á hjarta mínu.“ Sama bónin fólst í einu „fyrirheita“ hins Alhelga Hjarta Jesú: „Ég mun blessa sérhvern þann stað þar sem mynd af Hjarta mínu er höfð uppi og heiðruð.“

Lokaorðin verða því þau að það blasir við sjónum hversu lengu kirkjan hefur stuðst við hjartað sem tákn allrar persónunnar. Ein af elstu helgisiðabænum kirkjunnar gerir þetta einmitt! Hún er hluti af samræðum prestsins og hinna trúuðu og er að finna í upphafi forgildis Evkaristíunnar: „Hefjið upp hjörtu yðar.“ Þar sem hjartað getur og táknar allt það sem persónan er, þá er einkar vel við hæfi að láta það skírskota til Krists Jesú. Það er sannarlega upplýsandi og hvetjandi orð og tákn sem skírskotar til Persónunnar, en einkum innra lífs hennar. Þetta er það sem „Hjartað“ táknar í guðrækninni á Hjarta Jesú.

[3]. Hugo Rahner í „Heart of the Saviour,“ bls. 17-19; Karl Rahner, einnig í „Heart of the Saviour,“ bls. 132-139; „Theological Investigations,“ vol 3., bls. 331-333, 342-343; vol 8., 217-247; „Christian in the Market Place,“ Sheed & Ward, New York (1968) bls. 105-118; „Servant of the Lord,“ Herder & Herder (1968), bls. 107-119.

[4]. „Theological Investigations,“ vol 8, bls. 221-222.

No feedback yet