« Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (3)Sendifulltrúi Evrópubandalagsins í Níkaragúa staðinn að ósannindum í dagblaðinu El Diario »

16.02.07

  08:52:17, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1340 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú, Guðrækni hins helgasta Hjarta Jesú í kirkju nútímans

Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (2)

1. 4. GRUNDVÖLLURINN: EINING PERSÓNU KRISTS

Hinn guðfræðilegi grundvöllur þessarar guðrækni sem tilbiður Persónu „út frá Hjartanu“ hvílir á tvenns konar sannindum: (1) Einingu Persónanna og (2) Hlutverki Krists sem Meðalgangara.

Með hugtakinu einingu Persónanna er skírskotað til verundar eingetins Sonar Guðs sem varð maður: Hann var einungis ein Persóna (hin guðlega Persóna) sem bjó yfir tveimur eðlum, öðru guðdómlegu en hinu mennsku. Píus páfi XII komst svo að orði: „Það er því afar brýnt á þessu stigi í kenningu sem er jafn mikilvæg og þessi og krefst slíkra hygginda, að sérhver og einn geri sér ljóst að sannleikur hins náttúrlega tákns þar sem hið líkamlega Hjarta Jesú skírskotar til Persónu Orðsins, hvílir að öllu leyti á grundvallarsannindum einingar Persónanna. Ef einhver heldur því fram að þetta sé ekki sannleikanum samkvæmt, þá reifar hann villukenningar sem kirkjan hefur fordæmt oftar en einu sinni vegna þess að þær ganga þvert á einingu Persóna Krists, þrátt fyrir að hin tvö eðli séu hvort fyrir sig fullkomin og aðgreind“ (gr. 105).

Sá heiður sem hinu Alhelga Hjarta er þannig auðsýndur er tilbeiðsla („latreia“) vegna þess að viðkomandi er að vegsama og skírskota til sjálfrar Persónu hins eingetna Guðsonar, annarrar Persónu hinnar blessuðu Þrenningar á æðsta sviði mennsku hans („Haurietis Aquas,“ gr. 26-27; Almenna kirkjuþingið í Efesus, kanon 8; Annað kirkjuþingið í Konstantínópel, kanon 9).

Í öðru lagi hvílir guðræknin á Hjarta Endurlausnarans einnig á hlutverki hans sem Meðalgangara, Hlutverk Krists sem Meðalgangara, það er að segja talsmanns sem Guð skipar milli mannkynsins og Guðs, er það sem sem er einstætt fyrir kristindóminn. Sjálfur opinberaði Kristur Föður sinn með eftirfarandi orðum: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til Föðurins nema fyrir mig“ (Jh 14. 6; 1Tm 2. 5; Heb 9. 15; 12. 24). Þrátt fyrir að það sé rétt að Guð elski að hlusta á okkur hvert og eitt með sínum hætti, þá elskar hann enn frekar að heyra okkur nálgast sig í hjartfólgnum Syni sínum sem hann sendi sjálfur í heiminn (Þetta er kjarni helgisiðabænanna). Í guðrækni hins Alhelga Hjarta nálgumst við Guð í ljósi þessa sannleika Biblíunnar, en séð út frá Hjarta Meðalgangarans (Sjá „Haurietis Aquas,“ gr. 105). Nýleg afstaða innan guðfræðinnar beinir athygli sinni að því, hversu „miðlægur“ Kristur er í allri fyrirhugun Guðs: Kristsmiðjuisminn. Þetta er ekki einfaldlega endurvakning á deilum Scotistanna og Tómasaristanna á mikilvægi Krists, heldur grundvallaraðferð til að túlka allt svið kenningafræðinnar með hliðsjón af Persónu Krists. Óháð því hvar við skipum okkur í flokk í þessari öldnu deilu og hvaða skilning við leggjum í Kristsmiðjuismann, þá er kjarni málsins ætíð sá sami: Elskan á Hjarta Krists. [2] Þetta er rökfræðileg og guðræknisleg þróun þessarar sömu hugsunar.

1. 5. NOKKUR ANDMÆLI

Meðal þess sem haldið er á lofti gegn guðrækninni á hinu Alhelga Hjarta er sá ótti, að heiðra og skírskota til ákveðins hluta Drottins, hins líkamlega Hjarta óháð Persónu hans. Þetta eru gömul andmæli úr austri sem af og til skjóta upp kollinum. En hér er um misskilning að ræða þar sem þessi guðrækni er ekki útskýrð með réttmætum hætti. Endurtaka verður, að guðræknin á hinu Alhelga Hjarta Frelsarans er tilbeiðsla og skírskotun til Persónu Krists og Hjarta hans, Persónunnar og Hjarta hans, Persónunnar í ímynd Hjartans, Persónunnar út frá hjartamiðjunni, Persónunnar eins og hún er táknuð með Hjartanu, en aldrei að Hjartanu aðskildu frá Persónunni. Staðreyndin er sú að kirkjan hefur hvað eftir annað hafnað myndum og líkneskjum þar sem Hjartað hefur verið aðskilið frá brjósti Krists! Þrátt fyrir að það sé rétt að kirkjan hefur beint bænum til hins persónugerða Hjarta, þá telur hún þær beinast til Persónu Krists og um hann sem Meðalgangara til elskuríks Föður okkar (Nú um stundir gera sumir kröfu til þess að orðum til útskýringar sé bætt við með hliðsjón af þessum leyndardómi, auk hins hefðbundna hugtaks hið Alhelga Hjarta. Til dæmis mætti grípa til orðanna „Hjarta Krists,“ „Hjarta lambsins,“ „Hjarta Endurlausnarans“ og því um líkt. Meðal nýrra bæna sem samdar hafa verið sjáum við, að þeim er ekki einungis beint til hins persónugerða Hjarta, heldur einnig til Persónu Krists eða um hann til Föðurins. Til að mynda getur bænin hafist á orðunum: „Ó Jesús, en Hjarta þitt var gegnumstungið okkar vegna . . .“). Málið snýst alls ekki um að grípa til orðsins „Hjarta“ eins oft og hugsanlegt er,“ komst helgisiðafræðingurinn Josef Jungmann að orði við höfundinn í einkabréfi árið 1972, „heldur að skilja í tákni Hjarta Drottins okkar þá elsku sem Guð opinberar í Kristi. Í þessum skilningi á ‚guðræknin’ að setja mark sitt á allt okkar andlega líf.“

1. 6. SAMFÉLAG GAGNKVÆMRAR ELSKU

Píus páfi XII færði okkur í hendur einstætt framlag til að skilja guðræknina á Hjarta Endurlausnarans með íhugun sinni á sambandi hennar við Þrenninguna. „Vér teljum að athugasemdir vorar sem njóta ljóss fagnaðarerindisins hafi sannað að þessi guðrækni eins og hún er tjáð í heild sé ekkert annað en guðrækni sem beinist að mennskri elsku hins holdgaða Orðs og þeirrar elsku þar sem hinn himneski Faðir og Heilagur Andi auðsýna syndugum mönnum umhyggju sína“ (Haurietis Aquas, 90). Eftir að páfinn hefur grundvallað þessa guðrækni í elsku Persóna Þrenningarinnar hélt hann áfram og varpaði ljósi á hina þríþættu elsku Persónu Guðmennisins Jesú. Hér er um að ræða (1) Guðdómlega elsku sem hann deilir með Föðurnum og Heilögum Anda; (2) Andlega elsku vilja hans sem gagntekin var guðdómlegum kærleika og (3) Tilfinningalega ástúð mennsks eðlis hans. Okkar mennska elska er að sjálfsögðu eins og tvö síðari afbrigðin sem hér eru tilgreind.

Til að leggja enn frekari áherslu á það mikilvæga atriði að guðrækni þessi skírskoti einungis til Persónu Guðmennisins, hefur almennt verið horfið frá skilgreiningunni á „áþreifanlegu“ (formal) og „efnislegu“ inntaki og fyrri kynslóðir höfunda höfðu svo mikið dálæti á. Sökum hins einstæða og óskiptanlega eðlis persónunnar, hafa einstakir hlutar hennar einungis merkingargildi að svo miklu leyti sem þeir skírskota til og sameinast í „hjartamiðju“ persónunnar. Hvað áhrærir guðræknina á Hjarta hins upprisna Frelsara, þá er takmark guðrækninnar sú sama og að tilbiðja Persónuna: Persónu sem elskar af öllu Hjarta og elsku þessarar Persónu sem hefur og elskar af öllu Hjarta. Ef til vill hefur litli nemandinn í fjórða bekk barnaskólans varpað hvað bestu ljósi á Persónuna og táknræna merkingu Hjartans með eftirfarandi orðum: „Hjarta Jesú er spurningarmerki sem spyr mig að því hvort ég trúi því að Jesús elski mig af öllu Hjarta sínu og ég elski hann einnig af öllu mínu hjarta.“ Þessi orð varpar vissulega ljósi á það að takmark þessarar guðrækni er Persóna sem elskar og þráir að vera elskaður með gagnkvæmum hætti.

[2]. Michael Schmaus, „Dogma,“ vol. 3, „God and His Christ,“ Sheed and Ward, New York (1971), bls. 242-245; Ives Congar O. P., „Jesus Christ,“ Herder & Herder, New York (1966), bls. 148-150; John McIntyre, „The Shape of Christology,“ Westminster Press, Philadelphia (1968), bls. 9-11.

No feedback yet