« Útgefandi og stofnandi tímarits fyrir lesbískar blökkukonur snýr baki við samkynheigð til að „gefa Guði hjarta sitt og sál – eftir Meg JalsevacKlámvæðing stúlkubarna – eftir föður John Flynn »

28.02.07

  16:56:00, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2254 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú, Guðrækni hins helgasta Hjarta Jesú í kirkju nútímans

Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (12)

6. 13. FIMMTA TÍMASKEIÐIÐ (1956- ): NÚVERANDI TÍMASKEIÐ

Árið 1956 markaði straumhvörf í sögu guðrækni hins Alhelga Hjarta! Á þessu ári gaf Píus páfi XII út hið meistaralega skrifaða Hirðisbréf sitt „Haurietis Aquas – Um guðrækni hins Alhelga Hjarta,“ eftir að hafa talað um hið Alhelga Hjarta í fjölmörgum útvarpsþáttum sínum og annars staðar. Þar fjallaði hann ítarlega um grundvöll guðrækninnar í ljósi Ritninganna, kirkjufeðranna og helgisiðanna og hvatti fræðimenn til að rannsaka þetta efni nánar. Án þess að vanmeta hið mikla framlag hl. Margaret Marie Alacoque – sem hann sagði að skipaði „heiðurssæti“ fyrir að hafa glætt guðræknina – benti hann á þá staðreynd að bæði guðræknin og Hátíð hins Alhelga Hjarta hafi verið þekkt áður en hún kom til sögunnar.

Jafnframt því sem hennar afbrigði af guðrækninni (syndafórn, heilög stund, fyrstu föstudagarnir og helgun) væri mikilvægt, þá aðgreindi hann þetta frá kjarna guðrækninnar sem breytist ekki þó að birtingarmynd hennar gæti gert það. Hann benti á guðræknina sem æðstu játningu kristinnar trúar. Afleiðing Hirðisbréfs hans varð sú að bækur og greinar streymdu fram úr pennum fræðimanna og þeirra sem mátu guðræknina mikils. Nú er kristnum samtímamönnum okkar boðið upp á þann valkost að leggja rækt við guðræknina vegna vitrana hl. Margaret Marie, eða þá sökum þess að hún á rætur að rekja til Ritninganna, kirkjufeðranna og helgisiðafræðinnar, eða þá með því að samvefja þessa þætti saman.

6. 14. ER BOÐSKAPURINN Í GILDI ENN Í DAG?

Með því að hafa hliðsjón af breytingum hvað ytri birtingu áhrærir og hinnar myndrænu tjáningar telja þeir sem fjalla um þetta efni að boðskapur Krists til hl. Margaret Marie miðaðist ekki við að vera lausn á ósveigjanleika Jansenismans (þrátt fyrir að hann væri það einnig). Á þeim tíma sem sýnirnar og boðskapur þeirra var samþykktur að lokum, hafði Jansenisminn þegar misst allan meðbyr að mestu. Karl Rahner lítur á boðskapinn þannig að hann skírskoti til víðfeðmra og sívarandi aðstæðna sem hófust með frönsku byltingunni. Hann horfir til þessara aðstæðna sem veraldarhyggju (secularism) sem nær til margra þátta lífsins (samfélags, efnahagslífs, lista, vísinda og svo fr.), upprætingar kristinna gilda úr lífi nútímamannsins, uppgang guðsafneitunar og vantrúar með sinni ytri og innri „Guðsfjarlægð“ í lífi svo fjölmargs fólks og höfnunar ytri stuðnings trúarbragðanna í hinu andlega lífi. Þetta sé sá „kuldi, afskiptaleysi og fyrirlitning“ sem Guð kvartar yfir fyrir munn Krists í orðum þeim sem hann beindi til hl. Margaret Marie. Boðskapnum hafi verið beint til heims nútímans með „langtímamarkmið“ í huga. Þrátt fyrir að yfirbragð guðrækninnar geti tekið breytingum eins og hún hefur í reynd gert í kirkjunni í aldanna rás, þá gerir kjarni hennar það aldrei: Að skilja elsku Guðs eins og hún er opinberuð okkur í Kristi og að bregðast við Kristi sem Ástmögurnum og verður ekki aðnjótandi gagnkvæmrar elsku. [28]

Annað Vatíkanþingið fór ekki mörgum orðum um guðræknislegt líf kirkjunnar almennt og ekkert um einstök afbrigði guðrækni. Þessi þögn veldur sumum vonbrigðum og þetta var ekki útskýrt með einum hætti eða öðrum. En þingið var jú þögult hvað áhrærir margt annað sem heldur þó engu að síður áfram að vera mikilvægt í lífi kirkjunnar! Í skjölum þingsins er þó minnst á inntak elsku guðrækninnar nokkrum sinnum á ýmsa vegu, en ekki er vikið að sjálfri guðrækninni. Þingið vék þó vingjarnlegum orðum að guðrækni í skjölum sínum, svo framarlega sem hún væri til samræmis við fyrirmæli kirkjunnar og skírskotaði til helgisiðanna (Reglugerð um helgisiði, gr. 13).

Eftir þingið gerði Páll páfi VI öllum ljóst að guðræknin nyti enn æðstu hugsanlegu viðurkenningar kirkjunnar. Hann samdi tvö postulleg bréf til að glæða guðræknina: „Investigabiles Christi“ (6. febrúar 1965) og annað til ákveðins regluyfirboðara (5. maí 1965). Í hinu fyrra voru patríarkar, kirkjuhöfðingjar, erkibyskupar og byskupar kirkjunnar beðnir um að mæla með guðrækninni sem „áhrifaríkasta leiðin til að stuðla að andlegri og siðrænni endurnýjun heimsins sem Annað Vatíkanþingið hefði kallað eftir . . . “

Það er athyglisvert að Páll páfi VI kaus endurnýjun og sættir sem inntak hins heilaga árs 1975. Tímaskeiðið sem skilgreint var sem undirbúningur fagnaðar hins heilaga árs var jafnframt 300 ára aldarminning vitrana hl. Margaret Marie í Parya-le-Monial á árunum 1673-1675. Eins og þegar er ljóst hefur það afbrigði guðrækninnar sem verk hl. Margaret Marie glæddu lengi leitt til endurnýjunar með „helgun“ og sáttum að hluta til með „syndafórn . . .“

6. 16. UMMÆLI PÁLS PÁFA VI OG FRAMTÍÐIN

Í hugvekju á Hátíð hins Alhelga Hjarta (6. júní 1975) benti Páll páfi VI á að „hið þjóðfélagslega upplausnarástand og uppspretta sundurlyndis og siðrænnar hnignunar“ á okkar eigin tímum mætti rekja til skorts á að sannreyna elskuna. Hann beindi eftirfarandi hvatningarorðum til byskupa, presta og þjónustufúsra leikmanna: „Við verðum að glæða elskuna með okkur sjálfum eins og Páll: „Ég hef verið öllum allt, til þess að ég geti að minnsta kosti frelsað nokkra“ (1Kor 9. 22). Þetta er skylda okkar, köllun okkar, hin háleita og krefjandi ábyrgð okkar . . . Heimurinn er þjakaður sökum helkulda eigingirni og ótta og þarfnast þess að sannreyna þessa fullvissu sem endurnýjar og gerir hinn mikla sáttmála að raunveruleika fyrir öllum: „ . . . Drottinn lagði ást á yður og kjörði yður . . . sökum þess að Drottinn elskar yður“ (5M 7. 7-8).

Guðræknin á Persónu Krists þar sem Hjarta hans er tákn hinnar miklu elsku hans okkar í garð er réttilega ræktuð með grundvöll hennar í Ritningunum, kirkjufeðraguðfræðinni og helgisiðunum í huga. Með þetta að vegarnesti getum við tileinkað okkur það afbrigði hennar sem hl. Margaret Marie Alacoque gæddi hana, í einhverri hinna sögulega mynda hennar eða með innblæstri Andans og þróað afbrigði af guðrækninni sem mætir fullkomlega þörfum tímans. Kjarninn mun ekki breytast, en ásýndin getur ætíð tekið á sig nýja mynd.

6. 17. VIÐAUKI

Eins og ég tók fram í upphafi samdi Walter Knerr þessa umfjöllun árið 1973. En sama viðhorfið og áherslan og kemur fram hjá Páli páfa VI birtist bæði hjá Jóhannesi Páli páfa II og Benediktusi XVI. Í postullegu bréfi sínu til Raymond Seguy, byskups af Autun, Chalon og Macon þann 22. júní 1990 kemst Jóhannes Páll svo að orði:

„Heil. Margaret Marie nam þá náð að elska með hjálp krossins. Í þessari elsku færir hún okkur boðskap sem er ætíð mikilvægur. „Það er nauðsynlegt,“ segir hún, „að við verðum að lifandi eftirmyndum okkar krossfesta Brúðguma með því að tjá hann í öllum verkum okkar“ (Bréf frá 5, janúar 1689).

Hún hvetur okkur til að íhuga Kristshjartað, það er að segja að kynnast mennsku hins holdgaða Orðs, takmarkalaust ríkidæmi elsku hans á Föðurnum og öllum mönnum. Það er elska Krists sem gerir einhvern þess verðan að vera elskaður. Þar sem maðurinn er skapaður í mynd Guðs hefur honum verið gefið hjarta sem þráir elskuna og getur elskað. Elska Endurlausnarans sem græðir það af sárum syndarinnar hefur það upp til sonarafleifðarinnar. Ásamt með hl. Margaret Marie og eitt með Frelsaranum í píslum hans sem hann leið vegna elsku sinnar, skulum við biðja um þá náð að þekkja ósegjanlegt gildi sérhverrar manneskju.

Til að veita tilbeiðslunni á hinu Alhelga Hjarta þann stað sem því ber í kirkjunni er nauðsynlegt að hlíta leiðsögn hl. Páls að nýju: „Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var“ (Fl 2. 5). Allar frásagnir guðspjallanna ber að endurlesa með þessu hugarfari: Sérhvert vers ber að íhuga af elsku sem mun þannig opinbera þann leyndardóm sem hefur verið hulinn frá upphafi tíða og kynslóða, en hefur nú verið opinberaður fyrir augum okkar (Kol 1. 26). Þegar einkasonur Guðs holdgaðist öðlaðist hann mennskt Hjarta. Árum saman gekk hann um á meðal manna „hógvær og af Hjarta lítillátur“ (Mt 11. 29). Hann opinberaði auðlegð innra lífs síns með sérhverju geðbrigða sinna, útliti sínu, orðum og þögn sinni. Í Kristi Jesú rætist fylling boðorðs Gamla testamentisins: „Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu“ (5M 6. 5). Í reynd er það einungis Kristshjartað sem elskað hefur Föðurinn af óskiptri elsku.

Og heyr! Við erum kölluð til að öðlast hlutdeild í þessari elsku og meðtaka í Heilögum Anda þennan einstæða hæfileika til að elska. Eftir að lærisveinarnir stóðu frammi fyrir hinum Upprisna á veginum til Emmaus voru þeir furðu lostnir: „Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?" (Lk 24. 32). Já, mannshjartað tekur að brenna í snertingu sinni við Kristshjartað vegna þess að í þessari elsku á Föðurnum uppgötvar það allt það sem Drottinn hefur komið til leiðar, „allt það sem spámennirnir hafa talað! (Lk 24. 25).

Í Hirðisbréfi sínu „Deus caritas est“ (Guð er kærleikur) víkur Benedikt páfi XVI einnig að þessari elsku: „Guð er kærleikur, og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum“ (1Jh 4. 16). Þessi orð úr Fyrsta Jóhannesarbréfinu tjá með einstaklega ljósum hætti hjarta trúar kristindómsins: Hin kristna ímynd af Guði og jafnframt ímynd mannkynsins og örlög þess. Í þessu sama versi dregur heilagur Jóhannes svo að segja saman hið kristna líf: „Vér þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á oss, og trúum á hann.“ (1)

Nokkru síðar segir hinn heilagi Faðir: „Jafnvel þó að eros sé í upphafi krefjandi og upphefjandi, heillist af hinu mikla fyrirheiti um hamingju, hugsar hún sífellt minna um sig sjálfa þegar hún dregst að hinum og leitast sífellt meira við að gleðja hinn, hugsar sífellt meira um hinn elskaða, missir tökin á sjálfri sé og þráir að „vera þarna“ fyrir hinn. Þannig kemur inntak agape til sögunnar í þessari elsku vegna þess að öðru vísi verður eros snauðari og glatar jafnvel sínu eigin eðli. Hins vegar getur maðurinn ekki lifað einungis í fórnandi elsku sem leitar niður á við. Hann getur ekki einungis gefið stöðugt, hann verður einnig að meðtaka. Sérhver sá sem þráir að gefa elsku verður einnig að meðtaka elsku að gjöf. Vissulega er það svo, eins og Drottinn segir okkur, að við getum orðið að uppsprettu lifandi vatns (sjá Jh 7. 37-38). En til þess að verða að slíkri uppsprettu verðum við sífellt að drekka úr upphaflegu uppsprettunni sem er Jesús Kristur, en elska Guðs streymir fram úr gegnumstungnu Hjarta hans (sjá Jh 19. 34). (7)

Innskot. Vinur minn kemur í heimsókn. Hann lítur í kringum sig í litlu stofunni minni og segir svo undrandi: „Ertu virkilega ekki með mynd eða líkneski af hinu Alhelga Hjarta Jesú?“ „Jú,“ segi ég og bendi á róðukrossinn minn. Þetta er einn af þessum fögru róðukrossum frá Tékklandi og á honum má sjá sárin fimm sem blóðtaumar liggja frá: Sárin á höndunum, fótunum og síðusárið. Þetta er mín ímynd af hinu Alhelga Hjarta, bendill, sem minnir mig sífellt á elsku Drottins.

Benedikt páfi XVI virðist hafa sömu afstöðu því að einkunnarorð hans á þessum föstutíma eru: „Þeir munu horfa til hans, sem þeir stungu" (Jh 19. 37). Páfi sagði:

„Læisveinninn elskaði varð vitni að því ásamt Maríu, Móðir Jesú, og hinum konunum þegar spjótið stakkst í síðu Krists þannig að blóð og vatn kom út.
Þetta verk ókunns rómversks hermanns sem átti að falla í gleymsku greyptist í hjarta postulans sem greinir frá þessu í guðspjallinu. Hversu mörg afturhvörf hafa ekki átt sér stað í aldanna rás, einmitt vegna þess háleita boðskapar elskunnar sem sá verður aðnjótandi sem íhugar Jesú krossfestan!“

Þetta er kjarni guðrækninnar á hinu Alhelga Hjarta Jesú: FYRIR HANS HEILAGA BLÓÐ ERUM VIÐ HÓLPIN ORÐIN, BLÓÐSINS SEM STREYMDI FRAM ÚR ALHELGU KRISTSHJARTANU Á FÓRNARHÆÐ KROSSINS.

Við skulum því signa okkur fimm sinnum á þessum föstutíma í minningu hinna fimm heilögu sára eins og kristnir menn hafa gert frá örófi alda og biðja:

Alhelga Hjarta Jesú, miskunna okkur syndugum mönnum!

[28]. Karl Rahner, „Theological Investigations,“ vol. 3, bls. 339-340.

No feedback yet