« Staðreyndir um áhættuna sem fósturdeyðingar hafa fyrir táningsstúlkurFinnið elsku Guðs í Kristi krossfestum, segir páfi »

27.02.07

  10:31:37, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2517 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú, Guðrækni hins helgasta Hjarta Jesú í kirkju nútímans

Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (11)

6. 8. ÖLD ERFIÐRAR BARÁTTU

Erfiðustu hundrað árin í sögu guðrækninnar komu í kjölfar þessara vitrana! Hl. Margaret Marie þjáðist vegna þess að hún var misskilin í tíu ár áður en hennar eigin regla samþykkti þann boðskap sem Kristur hafði fært henni í hendur. Sjálfur gaf Drottinn til kynna, að það yrði blessaður Claude da Columbiere (1641-1682) og Félag Jesú (Jesúítarnir) sem myndu breiða guðræknina út með sérstökum hætti.

Andstæðan kom úr mörgum áttum í senn. Sumt mátti rekja til biskupa þeirra og presta sem aðhylltust Jansenismann með hinni einstrengingslega afstöðu sinni til Guðs. Sumt mátti rekja til vaxandi frjálshyggju, skynsemishyggju og guðleysis sem lífsafstöðu og þjóðfélagsviðmiðun, annað til þess að inntak guðrækninnar þarfnaðist í upphafi nákvæmari skilgreininga bæði í ljósi Ritningarinnar og guðfræðinnar. Sumt mátti rekja til þess að inntak vitrananna var túlkað frjálslega og annað til þess að „allt nýtt“ var litið tortryggnisaugum í kjölfar siðaskiptanna. Nokkrum sinnum kom það fyrir að hið heilaga Sæti vísaði á bug beiðnum um að guðræknin nyti opinberrar viðurkenningar á árabilinu 1697 til 1765. Engu að síður tóku leikmenn guðrækninni opnum örmum í persónulegu bænalífi sínu ásamt fjölmörgum prestum og meðlimum í trúarreglunum. (Leikmennirnir tóku engan þátt í andstöðu klerkastéttarinnar!).

Þáttaskil urðu hvað áhrærði guðræknina með plágunni sem geisaði í Marseilles snemma á átjándu öld. Byskupinn og borgarráðsmennirnir snéru sér til Guðs og borgin var helguð hinu Alhelga Hjarta 1720. Litanía hins Alhelga Hjarta var notuð í iðrunargöngum meðan á plágunni stóð. (Hl. Jóhannes Eudes og fleiri höfðu slíkar litaníur undir höndum allt frá því á árunum 1662-1668.). Fyrirmynd litaníu þeirrar sem höfð var um hönd í Marseilles sá dagsins ljós árið 1698 og að öllum líkindum að hluta komin frá hl. Margaret Marie sjálfri. Aðrar setningar voru fengnar úr litaníum sem gefnar höfðu verið út 1698 og 1691. Nunna nokkur, Madeleine de Remusat, samdi Mareilles-litaníuna.

Þann 2. apríl 1899 samþykkti Leó páfi XIII þessa litaníu sem opinbera helgisiðabæn fyrir alla heimskirkjuna. [22] Barmmerki með hinu Alhelga Hjarta urðu einnig vinsæl á sama tíma (Hl. Margaret Marie notaði þau sjálf sem svar við beiðni Krists um að hún bæri mynd af Hjarta sínu á brjósti sér. Þau voru fyrst notuð í almennum mæli í plágunni 1720 og voru nefnd „verndartákn“ (sauvegarde). Svo almenn varð notkun þeirra að byltingarstjórnin á tímum frönsku byltingarinnar leit á þau sem „tákn um ofstæki“ og sérstakt tákn um andstöðu gegn stjórninni. Eitt slíkt barmmerki kom við sögu í réttahöldunum yfir Marie Antoinette drottningu. Iðulega voru þau ættuð frá Trúboði bænarinnar og kennslusystur dreifðu þeim víða. Ljóst er að hl. Frances X. Cabrini dreifði þeim þúsundum saman þegar hún ferðaðist um meðal innflytjendanna í Chichago, New York, New Orleans og víðar. Á hennar tímum voru þau alls staðar orðin vel þekkt.

6. 9. OPINBER ANDSTAÐA LÍÐUR UNDIR LOK

Það voru tveir atburðir sem mörkuðu lok hinnar opinberu andstöðu. Í fyrsta lagi var það opinber heimild til að hafa Messu hins Alhelga Hjarta um hönd í Póllandi 1765. Á þessu sama ári ógilti hið heilaga Sæti allar fyrri yfirlýsingar sínar sem beint var gegn guðrækninni. Í öðru lagi var það svo hin harðorða fordæming á Jansenismanum sem fólst í dóminum yfir málamyndakirkjuþinginu í Pistoia í Hirðisbréfi Píusar páfa VI, „Auctorem Fidei,“ árið 1794. Páfinn samþykkti guðræknina að fullu og öllu og útskýrði jafnframt sumt í kenningalegum grundvelli hennar. (Lærdómurinn sem draga má af þessu er ef til vill sá, hversu klerkastéttinni brást bogalistin í að mæta þörfum leikmannanna og hversu fúsir þeir voru að verða við beiðni Krists í þessum efnum).

Allir páfarnir frá tímum Klemens XIII (1758-1769) samþykktu guðræknina og tugir milljóna hinna trúuðu lögðu rækt við þessa hjartnæmu guðrækni á hinu Alhelga Kristshjarta, tákni elsku Guðs sem okkur var opinberuð í Kristi.

Helgisiðirnir. Áður en Messa hins Alhelga Hjarta var heimiluð í Póllandi 1765 voru margir messutextar samdir sem notaðir voru í einstökum sóknum eða trúarsamfélögum. Yfirleitt eru þeir kenndir við inngangsorðin. Árið 1668 var þetta „Gaudeamus“ sem vék að elskunni. „Venite exultemus“ er frá 1688 sem víkur að píslargöngunni, „Miserebitur“ frá 1768 í Póllandi um hina miskunnsömu elsku og síðan kom „Venite ad me“ um 1771 um elskuna og „Egredimini“ árið 1778 um elskuna. Árið 1856 gerði Píus páfi IX þessa messu gilda í heimskirkjunni af „tvöföldu vægi.“ Leó páfi XIII hóf Hátíð hins Alhelga Hjarta upp í að hafa „tvöfalt vægi af fyrsta flokki. Síðar lýsti Píus páfi XI því yfir 1929 að messan „Cogitationes ejus“ hefði æðsta hugsanlega vægi, það er að segja „tvöfalt vægi af fyrsta flokki með áttadagabæn.“ Frá þessum tíma hefur Hátíðin ætíð æðsta vægis í helgisiðunum. [22] (Eins og við munum sjá síðar er þetta í fullu gildi í endurskoðun helgisiða Annars Vatíkansþingsins).

6. 10. AFSTAÐA PÁFANNA

Afstaða páfanna til guðrækninnar var mikilvæg og afgerandi! Árið 1899 helgaði Leó páfi XIII heimsbyggðina hinu Alhelga Hjarta Jesú og nefndi athöfnina „mikilvægasta atburðinn í páfadómi mínum.“ Hann undirbjó heiminn fyrir þetta með Hirðisbréfinu „Annum Sacrum“ sem einnig var birt 1899. Benedikt páfi XV leit svo á að guðræknin á Hjarta Evkaristíunnar væri afar knýjandi á þessum stríðshrjáðu tímum. Einungis tveimur dögum fyrir andlát sitt sagði hann: „Ég myndi breiða hana út sjálfur . . . Hún er gimsteinn guðrækninnar á hinu Alhelga Hjarta . . . Hún mun breiðast út um kirkjuna.“

Árið 1929 gaf Píus páfi XI út Hirðisbréfið „Miserentissimus Redemptor“ þar sem hann fjallaði um iðrunarfórnina með hliðsjón af hinu Alhelga Hjarta og bað um einlæga iðrunarfórn sem endurnýja ætti árlega. (Þessi iðrunarfórn sem hefst með orðunum „Ljúfasti Jesús sem úthellir elsku þinni . . .“ og helgunarathöfn Leós páfa XIII sem hefst á orðunum: „Ljúfasti Jesús, Endurlausnari mannkynsins . . . “ eru enn opinberar helgisiðabænir kirkjunnar og meðal þeirra fáu sem fela í sér aflátsákvæði.

6. 11. ÖNNUR GULLÖLD GUÐRÆKNI HINS ALHELGA HJARTA

Á þessu tímaskeiði hófst önnur gullöld guðrækni hins Alhelga Hjarta sem blómstraði og styrktist. Árið 1930 voru meira en fjörutíu trúarsamfélög til sem báru nafn hins Alhelga Hjarta. Þar sem mörg þeirra voru trúboðssamfélög og þjónustusamfélög báru þau rækt sína við guðræknina með sér um allan heiminn. Þegar stofnandi Trúboðs bænarinnar, faðir Henri Ramiere, andaðist árið 1884 voru meira en 35. 000 slíkar bænamiðstöðvar starfandi með meira en 13. 000. 000 meðlima. Í Bandaríkjunum voru það kennslusystur og sóknarprestar sem voru hvað atkvæðamest í að breiða guðræknina út til því sem næst allra kaþólikka í landinu. Jesúítareglan veitti aðstoð til að breiða guðræknina út um allt. Í reynd er ekki unnt að áætla þá blessun sem svo margar milljónir presta, systra og leikmanna urðu aðnjótandi með því að helga sig Persónu og Hjarta Krists.

Það væri allt of umfangsmikið mál að greina frá öllum þeim fjölda heilagra og áhrifamikilla einstaklinga sem lögðu rækt við og skrifuðu um þessa guðrækni á þessu tímaskeiði. Það verður ekki svo mikið sem leitast við það að telja hér upp allt það venjulega fólk sem öðlaðist heilagleika í lífi sínu með hjálp þessarar guðrækni. Ef til vill nægja örfáar tilvitnanir til að sýna fram á andlegt líf þessa fólks og guðrækni.

Hl. Peter Julian Eymard (1811-1868), prestur sem stofnaði trúarsamfélag til að glæða meiri áhuga meðal leikmanna og presta á helgisiðunum og hinu blessaða sakramenti komst svo að orði: „Finnið hið Alhelga Hjarta þar sem það er, lifandi, algæskuríkt og almiskunnsamt í Evkaristíunni. Illu heilli er þetta guðlega og elskuríka Hjarta ekki þekkt og elskað, jafnvel meðal guðrækins fólks sem leggur rækt við ýmsa aðra léttvæga guðrækni sem í sjálfu sér er af hinu góða, en vanrækir samtímis þá guðrækni sem ætti að vera líf og takmark allrar annarrar guðrækni, Hjarta Jesú sem færði okkur Krosshæðina og Evkaristíuna í hendur.“ [23]

Hl. Thérèsa frá Lisieux (1873-1897) tilheyrði einnig hópi þessa fólks. Þrátt fyrir að þessi karmelsystir byggi í samfélagi sem legði rækt við syndafórnina vegna réttlætis Guðs, íhugaði Thérèsa merkingu takmarkalausrar elsku Guðs sem þráir að úthella sér fullkomlega yfir mannkynið. Til allrar ógæfu er þessi ósegjanlega gæska lögð í fjötra, vanrækt og jafnvel hafnað af frjálsum vilja karla og kvenna. Af þessum sökum bauð hún sig Guði og hinu Alhelga Hjarta að fórn sem fórnardýr hinnar takmarkalausu gæsku. Hún hóf syndafórnina og helgunina upp í nýjar víddir þegar hún skrifar: „Það kemur mér fyrir sjónir að það væri æskilegt að þú þyrftir ekki að halda aftur af þessum flóðbylgjum takmarkalausrar gæsku sem búa í þér.“ Þannig lifði hún eins og sú eina sem hindraði Guð aldrei til þess að elska að minnsta kosti eina sál sem er það eina sem hann þráir að gera. [24]

Að lokum skrifaði Englendingurinn Henry Manning kardínáli (1808-1892) í „The Glories of the Sacred Heart of Jesus“: „Svo að allt sé dregið saman í fáeinum orðum og þar sem holdtekjan er lífsbók Guðs og þekkingin á Hjarta hans er útlegging og útskýringar við þessa bók, þá er allur leyndardómur Guðs og mannsins og samband Guðs við manninn í náð og dýrð ritað í hið Alhelga Hjarta. Þeir sem þekkja hið Alhelga Hjarta þekkja Guð. Þeir sem elska hið Alhelga Hjarta samlíkjast Guði. Þetta er yfirlit um öll hin guðdómlegu vísindi, um allan veg hjálpræðisins, alls Fagnaðarerindisins um hið eilífa líf.“ [25]

6.12. GUÐRÆKNIN EINS OG HÚN BIRTIST
UTAN RÓMVERSK KAÞÓLSKU KIRKJUNNAR

Fyrir utan latneska helgisiði rómversk kaþólsku kirkjunnar var guðræknin aðlaðandi fyrir aðra. Hún var einnig lífgefandi vöxtur innan Austurkirknanna kaþólsku og fyrir skilning Rétttrúnaðarkirkjunnar á „Philanthropia“ eða elsku Guðs á mannkyninu. Það er var ekki fyrr en á þessu tímaskeiði sem mynd af Hjartanu tók að birtast á heimilum sumra Orþodoxa. Einn höfunda Rétttrúnaðarkirkjunnar, úkraínski byskupinn Dimitri frá Rostov [26] skrifaði með hjartnæmum orðum um Kristselskuna á átjándu öld og þá blessun sem streymdi frá síðusári hans.

Þrátt fyrir að deila megi um það hvort þessir meðlimir Austurkirkjunnar þróuðu þetta innsæi með hliðsjón af sinni eigin arfleifð eða vegna áhrifa frá latnesku helgisiðunum, þá löðuðust þeir engu að síður að inntaki hins Alhelga Hjarta. Einstakar fjölskyldur mótmælenda tóku einnig að hafa myndir af hinu Alhelga Hjarta uppi á heimilum sínum. Þrátt fyrir að Charles Wesley (1707-1788) víki ekki beinum orðum að Hjartanu, þá samdi hann marga sálma fyrir Meþódista sem snúast um þessa guðrækni: Elsku Guðs sem opinberast í Kristi. Einn þessara fögru sálma er: „Jesus, Lover of My Soul.“ [27]

Listir. Tvær myndir af hinu Alhelga Hjarta urðu því sem næst einráðar innan hins kaþólska heims: (1) Mynd Besevils af hinu Alhelga Hjarta í barokkstíl og (2) Mynd Capoltis: „Krisur birtist hl. Margaret Marie.“ Eftir því sem gipsmyndir og síðar plastikmyndir streymdu milljónum saman úr steypumótunum og prentsmiðjurnar framleiddu ódýrar – og iðulega lélegar – myndir af hinu Alhelga Hjarta, var ekkert horft til hins listræna gildis fremur en ríkjandi stefna í myndlist. Það var einmitt vegna þess hversu barokkstíllinn var einráður að margir tengdu og jafnvel samkenndu guðræknina við þessa listastefnu. Þegar sjálf stefnan komst úr tísku töldu þeir hið sama gilda um guðræknina. Meðan sumir risu upp og kröfðust betri mynda, var að mestu ekkert hirt um þetta sökum líflegrar sölu á gamaldags myndum og líkneskjum. Einnig má kenna um algjörum skorti á listrænu uppeldi í prestaskólum og klaustrum sem létu glepjast af framboði verslana með trúarlega muni og auglýsingabæklingum.

Listrænir hæfileikar voru lítils metnir meðal bandarískra Evrópumanna og kaupenda í trúboðsstarfinu. Með hliðsjón af verðlagningunni hefði auðveldlega verið unnt að gera nýjar myndir! (Hið Alhelga Hjarta höfðaði til sumra hinna stóru í samtímalist. Þannig málaði Georges Roualt Hjarta á tréplötu sem síðar aflaði sér vinsælda (1973). Í Safninu um trúarlega samtímalist í Vatíkaninu mátti sjá ágætlega gert olíumálverk eftir Odilon Redon í þessu sambandi sem nú er í eigu Louvresafnsins í París). Lítt þekktir listamenn gerðu um tylft ágætra mynda, en vinsældir þeirra voru iðulega staðbundnar og því hurfu þær brátt af sjónarsviðinu.

[22]. Messutextinn í „Cor Jesus,“ Casa Editrice Herder, Róm (1958), vol. I, bls. 62-94. Höfundurinn varð síðar forseti Stjórnardeildar helgisiða: Annibale Bugnini, kardínáli.
[23]. „Immaculata,“ Kenosha, Wis., vol. 19, no. 2, 1969, bls. 51.
[24]. „History of a Soul,“ Autobiographical Manuscripts,“ Cerf-Desclee de Brouwer, 1972, Manuscript A.
[25]. Henry Cardinal Manning, „Glories of the Sacred Heart,“ Sadlier (1885), bls. 11.
[26]. Bertrand de Margerie, S. J., „Heart of the Lamb of God,“ General Office of the Apostleship of Prayer, Róm (1972), bls. 23 og athugasemd.
[27]. „Methodists Hymnal,“ Methodist Publishing House, Nashville, Tenn. (1966).

No feedback yet