« Finnið elsku Guðs í Kristi krossfestum, segir páfiVissulega ber María Guðsmóðir umhyggju fyrir smælingjunum »

26.02.07

  12:59:14, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1601 orð  
Flokkur: Bænalífið, Hið Alhelga Hjarta Jesú, Guðrækni hins helgasta Hjarta Jesú í kirkju nútímans

Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (10)

6. 6. FJÓRÐA TÍMASKEIÐIÐ (1673-1956):
ÖLD HL. MARGARET MARIE ALACOQUE

Hl. Magaret Marie Alacoque (1647-1690) meðtók nokkrar vitranir þar sem Drottinn okkar opinberaði sig henni sem hið Alhelga Hjarta. Afleiðingin varð sú vegna þessara vitrana og boðskapar þeirra, að þessi aldagamla guðrækni tók á sig ákveðna mynd sem hefur haldist í því sem næst þrjár aldir. Sú ímynd sem birtist henni sjónum var Kristur íklæddur rauðum og hvítum kyrtli með Hjarta á brjóstinu sem varð að einhverri vinsælustu ímyndinni sem dregin hefur verið upp af Jesú í aldanna rás.

Inntak vitrananna (tilvitnanir). Sýnirnar af Kristi sem vitruðust hl. Margaret Marie Alacoque áttu sér stað í kapellu Paray-le-Monial klaustursins í Frakklandi á árabilinu 1673-1675 – eða fyrir ríflega 300 árum. Kristur opinberaði sig sérstaklega sem Guðmenni Hjartans! Á Hátíð hl. Jóhannesar árið 1673 opinberaði Kristur þessi orð: „Guðlegt Hjarta mitt elskar mennina af slíkri ástríðu, að það getur ekki lengur hamið loga þessarar brennandi elsku. Það verður að láta hana breiðast út með þinni hjálp og opinbera sig á meðal mannanna til að auðga þá með djúpstæðri auðlegð sinni sem felur í sér þá náð sem forðar þeim frá því að glatast að eilífu.“ Árið 1674 birtist Kristur og opinberaði hvað byggi í huga sér gagnvart vanþakklæti svo fjölmargs fólks: „Ég finn fyrir þessu með djúpstæðari hætti en öllum þjáningum písla minna. Ef það elskaði mig einungis með gagnkvæmum hætti, þá leiddi ég hugann ekki mikið að öllu því sem ég hef þegar gert fyrir það og myndi þrá að gera enn meira ef ég gæti. En það svarar löngunum mínum af kulda og fyrirlitningu.“ Það var við þetta tækifæri sem Meistarinn bað um að fólk færi til altaris og iðraðist á fyrsta föstudegi mánaðarins og héldi heilaga stund á hverjum fimmtudegi frá því klukkan ellefu til tólf sem syndafórn vegna fólks. „Opinberunin mikla“ kom svo í júní 1675. Kristur sagði: „Sjáðu þetta Hjarta sem elskaði mennina svo heitt að það lagði allt í sölurnar, allt til þess að örmagnast og brenna upp til að sýna þeim elsku sína. Í stað þessa fékk ég einungis vanþakklæti frá flestum mönnum með skeytingarleysi þeirra og guðlasti, kulda og fyrirlitningu á sakramenti elskunnar. En það sem særir mig jafnvel meira en þetta er að þetta gera þeir sem hafa helgast mér.“ Af þessum ástæðum bað hann um Hátíð hins Alhelga Hjarta og að fólk gengi til altaris á þessum degi og iðraðist. „Og ég heiti því að Hjarta mitt muni úthella í ríkum mæli mætti elsku sinnar yfir þá sem vegsama það og fá aðra til að auðsýna því vegsemd.“

6. 7. FYRIRHEITIN

Eftir því sem á opinberanirnar leið hét Jesús þeim margvíslegri blessun sem opna myndu hjörtu sín gagnvart Hjarta sínu. Systir Margaret greindi frá þeim í bréfaskriftum sínum, einkum „Fyrirheitinu mikla“ um að deyja í vináttu Krists og náð, ef sá hinn sami yrði við beiðninni um fyrsta föstudagstilbeiðsluna í níu mánuði samfleytt. Það var einungis síðar sem þessum fyrirheitum var safnað saman í samantekt þá sem varð svo kunn á síðari tímum.

Það var bandarískur kaupsýslumaður, Philip Kemper að nafni, sem lét þýða fyrirheitin á meira en 200 tungumál og dreifði þeim í miklum mæli. Fyrirheitin eru:

(1). „Ég mun veita þeim alla þá náð sem þeir þarfnast í aðstæðum sínum í lífinu.“
(2). „Ég mun glæða frið á heimilum þeirra.“
(3). „Ég mun hugga þá í þolraunum þeirra.“
(4). „Ég vil vera þeim öruggt skjól í lífinu, en um fram allt í dauðanum.“
(5). „Ég mun blessa allt sem þeir taka sér fyrir hendur.“
(6). „Syndarar munu finna takmarkalaust úthaf miskunnar í Hjarta mínu.“
(7). „Áhugalausar sálir munu verða brennandi í trúnni.“
(8). „Áhugasamar sálir munu skjótt rísa upp til mikils fullkomleika.“
(9). „Ég mun blessa alla þá staði þar sem mynd af Hjarta mínu er sett upp og heiðruð.“
(10). „Ég mun veita prestum þá náðargjöf að snerta við harð-svíruðustu hjörtum.“
(11). „Þeir sem stuðla að útbreiðslu þessarar guðrækni fá nafn sitt ritað í Hjarta mitt þaðan sem það verður aldrei afmáð.“
(12). „Ég gef ykkur það fyrirheit að í óþrjótandi gnægtum miskunnar minnar mun almáttug elska mín veita öllum þeim sem meðtaka Evkaristíuna á fyrstu föstudögunum í níu mánuði samfellt, náð endanlegrar yfirbótar. Þeir munu ekki deyja sviptir náð minni eða án þess að meðtaka sakramentin. Guðlegt Hjarta mitt mun verða þeim öruggt skjól á þeirra hinstu stundu.

Áður en vikið verður að fyrirheitunum sem hvíla á persónulegri opinberun verður að fjalla um opinberun sem slíka. Hvað áhrærir persónulegar opinberanir kemst Karl Rahner svo að orði „að þær geti og hafi leitt til endurskoðunar á hinni almennu opinberun (Ritningunum og hinni heilögu arfleifð) til að ganga úr skugga um hvort ákveðin boðskapur komi heim og saman við hina almennu opinberun og virki hvetjandi á mennska viðleitni eða glæði einhverja guðrækilega iðkun í kristinni trúariðkun. Eftir að persónuleg opinberun hefur verið vegin og metin í ljósi almennra lögmála dulúðarguðfræðinnar og sögulegra aðstæðna bendir trúverðug opinberun á „veginn sem kirkjan verði að ganga . . . Slíkur knýjandi boðskapur er hugsanlegur þrátt fyrir að við vitum vegna trúar okkar að margt annað sé samtímis gott og sannleikanum samkvæmt í sama mæli og nauðsyn. Þannig megi skilja persónulega opinberun sem himneska íhlutun og áminningu um hið raunverulega ástand í kirkjunni.“ [19]

Þar sen hin almenna opinberun er sett fram sem „trúarskylda“ samkvæmt boði Guðs verðum við að trúa henni – svo framarlega sem okkur er kunnugt um hana – til að vera Guði velþóknanleg og til að tryggja eilíft hjálpræði okkar. Persónulega opinberun má samþykkja „í mennskri trú með hliðsjón af reglum þeim sem mennsk hyggindi setja þegar þessar reglur segja að hún sé líkleg og trúanleg“ (Benedikt páfi XIV). En þær eru veittar sem sérstök náð til heilla mönnum almennt! Við getum öðlast sáluhjálp án hjálpar allrar sérstæðrar náðar Guð, en sú staðreynd að Guð stóð henni að baki vegna þess að hún var eða er gagnleg vegur þungt þegar hún er vegin og metin. Einmitt sú staðreynd að guðræknin á Kristshjartanu er órjúfanlega samofin kjarna kenninganna um endurleysandi kraft elsku Guðs sem opinberast okkur í Kristi felur í sér að við verðum að íhuga slíkt af enn meiri áhersluþunga og elsku.

Fyrirheitin angra sumt kristið fólk á okkar tímum. Sumir sem vinna að útbreiðslu guðrækninnar hafa lagt of mikla áherslu á þau og enn aðrir vísvitandi mistúlkað þau. Þeir telja sér trú um að „fyrirheitið mikla“ [20] hvað áhrærir fyrstu föstudagana sé einhvers konar aðferð til að ná valdi yfir Guði eða þeir líta á þau sem stökkpall ofdirsku gagnvart miskunn Guðs sem augljóslega gengur í berhögg við það sem Kristur ætlast til! „Þegar litið er á þau í heild,“ segir Karl Rahner og fleiri, „þá fullyrða þau ekki eða gefa fyrirheit um meira en það sem Drottinn gaf fyrirheit um í hreinni trú í guðspjöllunum (Mt 17. 20; 21. 21 og áfr.; Mk 16, 17 og áfr.; Jh 14. 12 og áfr.). Það sem er þannig „nýtt“ í þessum fyrirheitum er ekki nákvæmlega fyrirheitin, heldur það sem í grundvallaratriðum er forsenda fyrirheita Fagnaðarerindisins sjálfs sem nær þannig einnig til guðrækninnar á hinu Alhelga Hjarta. Sérhver sá sem leggur réttan skilning á guðræknina á hinu Alhelga Hjarta og leggur rækt við hana af þeirri djúpstæðu trúarfullvissu sem hún felur í sér mun ekki finna neina „nýja“ þætti í þessum fyrirheitum eða upplifa sérstaka erfiðleika hvað þau áhrærir . . . Þau eru einungis gefin þeim sem hefur gefist til fulls í skilyrðislausri trú og elsku á vald vilja Guðs sem þess eina algilda og þeirri elsku sem er okkur með öllu óskiljanleg. [21] Lokaniðurstaðan verður sú að venjulegur maður sér hversu mjög Kristur þráir elsku hans með þeim fyrirheitum sem hann gefur. Við eigum ekki að elska Guð fyrst og fremst sökum okkar eigin ávinnings, heldur einfaldlega vegna gæsku Guðs. En Guð gerir sér ljóst að það eru ekki allir sem hafa þennan fúsleika til að bera og þannig gefur hann fyrirheitin til að hvetja þá til að verða við ákalli Krists um að þeir elski hann.

[19]. Karl Rahner í „Heart of the Saviour,“ bls. 139-144; „Theological Investigations,“ vol. 3, bls. 338-339. Höfundurinn skrifaði einnig enn ítarlegra verk: „Visions and Phropecies.“
[20]. Ítarlega umfjöllun um „fyrirheitið mikla“ má finna í „Devotion to the Sacred Heart“ eftir Joseph Petrovits, sem fyrst var gefin út árið 1911 og endurskoðuð og útgefin af Newman Bookshop, Westminster, Md árið 1955. Þetta er athyglisvert rit, einkum bls. 131-198.
[21]. Karl Rahner í „Heart of the Saviour,“ bls. 154-155; „Theological Investigations,“ vol. 3, bls. 351-352.

No feedback yet