« Dagleg rósakransbæn fyrir mæðrum og ófæddum börnum!Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (8) »

23.02.07

  09:47:58, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 2011 orð  
Flokkur: Hið Alhelga Hjarta Jesú, Guðrækni hins helgasta Hjarta Jesú í kirkju nútímans

Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú í kirkju nútímans (9)

6. 1. HIN SÖGULEGA ÞRÓUN GUÐRÆKNINNAR

Guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú er ekki hugarfóstur 17. aldarinnar eða heilagrar Margaret Marie Alacoque. Í einni mynd eða annarri á hún sér rætur í frumkirkjunni. Sögu guðrækni hins Alhelga Hjarta Jesú má skipta í eftirfarandi tímaskeið, hvert með sínum bókmenntum, listum og helgisiðum: [12]

A. Þróunarskeið: Tímaskeið kirkjufeðranna til 800.
B. Fyrsta tímaskeiðið (800-1200): Vöxtur í klaustrunum.
C. Annað tímaskeiðið (1200-1400): Öld hinna miklu djúphyggjumanna.
D. Þriðja tímaskeiðið (1400-1673): Frá klaustrunum til leikmannanna.
E. Fjórða tímaskeiðið (1673-1956): Öld hl. Margaret Marie Alacoque.
F. Fimmta tímaskeiðið (1956- ): Núverandi tímaskeið guðrækninnar.

6. 2. ÞRÓUNARSKEIÐ: TÍMSKASKEIÐ KIRKJUFEÐRANNA TIL 800

Jafnframt því sem guðrækni hins Alhelga Hjarta verður sýnilegri á miðöldum, á hún engu að síður að baki lífrænan vöxt sem nær aftur til Ritninganna og arfleifðar kirkjufeðranna í fornkirkjunni. Grundvallarþættir guðrækninnar sem þegar voru fyrir hendi hjá kirkjufeðrunum þroskaðist í stigvaxandi mæli á þessu tímaskeiði þegar klausturlifnaðurinn og trúboðið stóðu í blóma. Bókmenntirnar á þessum tíma fólust að stærstum hluta í ritskýringum við Ritninguna og á afstöðu feðranna.

Helgisiðirnir. Þegar á þriðju öld beindist viðleitni kristinna manna í Róm að því að hugleiða síðusár Krists á níundu stundu (kl. 3 síðdegis) samkvæmt tilmælum Hippolýtusar. Jafnhliða því sem kirkjan barðist gegn villutrúarhugmyndum á þessu forna tímaskeiði, einkum gegn Aríanismanum, þróaðist hjartnæm guðrækni á blóði og síðusári Krists, einkum því síðarnefnda. Þetta sést með áþreifanlegum hætti í írsku, galísku og spænsku helgisiðunum. Á fjórðu öld ríkti einnig guðrækni á píslargöngunni, sárum og síðusári Krists í sýrlensku kirkjunni.

Listin. Þar sem kristnir menn til forna urðu að sæta ofsóknum í þrjár aldir, er list þeirra afar fábrotin. Inntak hennar fólst í frelsun og sáluhjálp og frásögnum líkt og af Nóa og örkinni, af Daníel í ljónagryfjunni og öðru þessu áþekku. Þeir máluðu einnig nokkrar myndir af góða Hirðinum, eins og þá sem var sýnd í deild Vatíkansins nýverið á Heimssýningunni í New York. Þessi mynd var af Jesú þegar hann hvarf af himnum til að bjarga mannkyninu. Síðar, eða með friðarsamningnum í Konstantínópel 313 birtist Kristur sem hinn sigrandi Drottinn ásamt postulunum og píslarvottunum í kirkjuhvelfingum.

6. 3. FYRSTA TÍMASKEIÐIÐ (800-1200): VÖXTUR Í KLAUSTRUNUM

Bókmenntirnar. Hin þrjú íhugunarefni kirkjufeðranna á síðusári Krists, heiðrun Jóhannesar postula og hugleiðingar á elskunni í „Ljóðaljóðunum“ eru ríkjandi í skrifum manna á þessu tímaskeiði. Nokkrir þeirra mikilvægustu meðal þeirra sem víkja að hinu Alhelga Hjarta í skrifum sínum eru sem „Who’ s Who? (Hver er maðurinn?)“ á þessum tíma: Hl. Beda hinn æruverðugi (d. 735), hl. Bernard frá Clairvaux (d. 1153), ábótinn William frá St. Thierry (d. 1148), Richard frá St. Victor (d. 1153), Gilbert frá Holyard (d. 1160), hl. Anselm frá Kantaraborg (d. 1109) og nokkrir aðrir. Þrátt fyrir að þessir höfundar skrifuðu ekki nein meiriháttar verk um Hjarta Jesú, var hugmyndin engu að síður almenn meðal þeirra.

Listin. Býsanska íkonan sem nefnist „Pantokrator“ var algeng ímynd Krists á þessum tíma. Á henni má sjá Krist hefja hægri hendina á loft í blessunarskyni og vinstri hendina hvíla á guðspjallabókinni. Íkonan var aðlöguð ýmsum áherslum á Kristi einfaldlega með því að mála ritningarvers á guðspjallabókina. Þegar vikið var að honum sem ástmögur mannkynsins (Philanthropia) var gripið til þessara orða: „Komið allir til mín.“ Á tólftu öld naut róðukrossinn nægilegrar útbreiðslu sem almenn ímynd Krists til að sjást á altarinu. Það var ekki fyrr en í lok miðalda sem lögboðið var að hafa róðukrossinn á altarinu. Róðukross rómantísku stefnunnar á þessum tíma sýndi báðar hliðar dauða og upprisu páskaleyndardómsins með því að forðast of naturalíska mynd af Kristi. Jesús er sýndur því sem næst standandi með þyrnikórónu sem líktist konungskórónu og lendarklæði með mjúkum línum og ávöxtur dauða hans og upprisu í mynd móður hans og Jóhannesar.

Helgisiðirnir. Þegar Sýrlendingar urðu páfar á áttundu öld innleiddu þeir guðrækni sína á píslum Krists, sárum og síðusáru í rómversku helgisiðafræðina. Ummerki þessa má sjá enn í dag í „afneitunarorðunum“ í guðsþjónustunni á föstudaginn langa, jafnvel í hinum endurnýjuðu helgisiðum. Þar sem reglur helgisiðanna gerðu ríkari kröfu til þess að róðukrossinn væri sýnilegri á altarinu, sjáum við jafnhliða þessu vaxandi guðrækni á píslum, dauða og sárum Krists. Meðal þeirra sára sem nefnd eru á nafn eru síðusárið og Hjartað.

Tilvitnun frá þessa tíma: „Hvers vegna ætti Hjartað ekki að ljúkast upp sökum sársins? Hvað skín út frá sárum þínum af meiri vissu nema sá sannleikur að ‚Drottinn er miskunnsamur og fullur samúðar?’ Enginn hefur meiri miskunnsemi til að bera en að leggja lífið í sölurnar, ekki fyrir vini sína heldur fjandmenn, dauðadæmda menn“ (Hl. Bernard frá Clairvaux, d. 1153). [13]

6. 4. ANNAÐ TÍMASKEIÐIÐ (1200-1400):
ÖLD HINNA MIKLU DJÚPHYGGJUMANNA

Bókmenntir. Á þessu tímaskeiði komust leikmenn í kynni við þessa guðrækni með sambandi sínu við klaustrin, eins og við getum séð af því að minnst er á Hjarta Krists í „veraldlegum“ bókmenntum á þessum tíma. En það sem vegur þyngst er það sem streymir frá guðfræðingum sem samfléttað er guðrækni djúphyggjumannanna. Til viðbótar hugmyndum kirkjufeðranna koma hjartnæmir þættir sem krossferðariddararnir báru með sér. Þar sem þeir voru svo nýlega komnir frá Landinu helga stuðluðu þeir að almennri heiðrun á þjáningum og upprisu Krists. Þegar Kristslíkamahátíðin (Corpus Christi) var innleidd 1264 mynduðust sterk tengsl á milli guðrækninnar á Evkaristíunni og hins Alhelga Hjarta.

Sumir þeirra víðkunnu einstaklinga þessa tíma sem skrifuðu eða töluðu um Hjarta Meistarans eru: Hl. Frans frá Assisí (d. 1226), hl. Klara frá Assisí sem heilsaði alltaf Hjarta Krists þegar hún gekk fram hjá hinu blessaða sakramenti, hl. Boneventura (d. 1274), hl. Albert hinn mikli (d. 1280), Jóhannes Tauler (d. 1361), Meistari Eckhart (d. 1327), blessaður Heinrich Suso (d. 1295) og fjölmargir aðrir minna þekktir höfundar. [14]

Listir. Á gotneska tímaskeiðinu var það hinn þjáði Kristur á krossinum sem var hin ríkjandi ímynd af Jesú og hefur verið það allt til okkar tíma. Þegar dregin er upp mynd af Kristi með þessum hætti hvarf upprisa páskaleyndardómsins svo að segja í skuggann. Í málverkum af krossfestingunni má sjá athyglisverða áherslu. Því sem næst ávallt má sjá blóð streyma úr síðu Krists, og engil eða einhvern hinna heilögu halda á kaleik undir blóðtaumnum. Við getum kallað þetta óbeinar myndir af hinu Alhelga Hjarta vegna þess að blóðtaumurinn úr Hjartanu er notaður í skilningi kirkjufeðranna sem blessun sem streymi frá sárinu og Hjartanu hið innra.

Helgisiðirnir. Það voru fyrst Fransiskanar og síðan Dóminíkanar sem breiddu guðræknina á Hjarta Jesú út á meðal leikmanna. Sem áþreifanlega sönnun þessa rekumst við á messusöngsbækur á bókfellum og messuhandbækur um píslirnar og hinn fimm sár og notaðar voru í einstökum sóknum og klausturkirkjum. Frá árinu 1353 finnum við fyrsta dæmið um leyndardóm Kristshjartans í helgisiðum messunnar. Þetta er hluti þeirrar messu sem Innocentíus VI páfi innleiddi fyrir allt rómverska keisaradæmið þegar súltaninn skilaði hinu heilaga spjóti. Í þessari áhugaverðu messu má sjá að þrisvar sinnum er vikið að hinu gegnumstungna Hjarta. Þrátt fyrir að aðrar messur þar sem minnst var á píslirnar og hin fimm sár væru til, þá voru þær að mestu staðbundnar, iðulega við þá kirkju sem stóð fyrir gerð hinnar handskrifuðu messusöngsbókar.

Hinir miklu djúphyggjumenn á miðöldum skrifuðu um Hjarta Jesú þegar þeir lýstu persónubundinni reynslu sinni af Guði. Núna veitti Kristur þeim áþreifanlega innsýn í Hjarta sitt sem tákni um elsku sína á mannkyninu og sem hvatningu til gagnkvæmrar elsku. Meðal þeirra fyrstu sem greindi frá birtingu Krists þar sem hann opinberaði Hjarta sitt var hl. Lutgard frá St. Trond (d. 1246). Síðar birtist Kristur og opinberaði þremur heilögum konum sem bjuggu í sama stóra sistersíanaklaustrinu í Helta í Þýskalandi. Þrátt fyrir að rekja mætti guðrækni þeirra á Hjarta Ástmögurs þeirra til skrifa hl. Bernards frá Clairvaux, þá gáfu þessar birtingar henni einstætt og áhrifaríkt inntak. Sú fyrsta sem Kristur vitraðist var hl. Gertrude hin mikla (d. 1302). Sumt af því innsæi sem hún varð aðnjótandi af náð birtist í riti hennar „Legatus Divinate Pietatis.“ Þessi bók var prentuð hvað eftir annað jafnvel allt fram á okkar tíma og varð til þess að útbreiða mjög guðræknina á hinu Alhelga Hjarta. Jesús vitraðist Mecthildu frá Magdeburg og Mecthildu frá Hackenborn hvað eftir annað. Rita mætti heilu bækurnar um innsæi þessara heilögu kvenna og þann þátt sem þær áttu í fyrstu gullöld guðrækninnar á hinu Alhelga Hjarta. Smám saman tók sífellt fleira fólk að iðka guðræknina með markvissum hætti og það ekki einungis með hliðsjón af hinum fimm heilögu sárum, heldur sakir hennar sjálfrar. Eftir að hafa íhugað Hjartað sem stað hvíldar og styrks, varð Hjartað að tákni alls ríkidæmis Persónu Krists, rétt eins og náðar hans.

Tilvitnun frá þessum tíma: „Hvers vegna var hann særður á síðunni svo nærri Hjartanu? Það var til þess að við þreyttumst aldrei á því að íhuga Hjarta hans.“ „Drottinn okkar vökvaði garð kirkjunnar með blóðinu úr síðu sinni og Hjarta vegna þess að með þessu blóði lét hann sakramentin streyma úr Hjarta sínu.“ [15] (Báðar eru þessar tilvitnanir eru komnar frá hl. Albert hinum mikla sem varð fyrstur til að tengja guðræknina á hinu Alhelga Hjarta við hið blessaða sakramenti.)

[12]. Margaret Williams, „The Sacred Heart in the Life of the Church,“ Sheed & Ward, New York (1957), bls. 15-24; Hugo Rahner, op. cit., bls. 37-57.
[13]. „Predikun um Ljóðaljóðin,“ LXI, P. L. CLXX-XIII, 1070.
[14]. Sumir höfundar hafa bent á að hl. Tómas frá Akvínó minnist ekki á hið Alhelga Hjarta, þrátt fyrir að kennari hans, hl. Albert hinn mikli, skrifaði oftar en einu sinni um Kristshjartað. Patrick O’ Connel vitnar í þessi ummæli hl. Tómasar án þess að tilgreina heimildir: „Kristur úthellti blóði sínu úr síðusári sínu og Hjarta til þess að gera hjörtu lærisveina sinna sem voru fullir efasemda brennandi ásamt með mörgum annarra sem voru orðin köld og því sem næst dauð í trúnni. Og eftir að hafa endurvakið þá til lífs, þá vill hann eins og sært hjartardýr stika fyrir þá veginn til himins með blóði sínu.“ Finna má þessa tilvitnun á bls. 113 í „Devotion to the Sacred Heart, the Essence of Christianity and the Centre of the Divine Plan of Redemption,“ John English & Co., Ltd., Wexford, Ireland (1951).
[15]. „On John’ s Gospel,“ 20, 20. „On the Eucharist,“ d. 2. tr. 2 c 5, og „On the Sacrifice of the Mass,“ III 4, B 38.

No feedback yet