« Oratoría um hl. Sesselju frumflutt í HallgrímskirkjuTexas: Forstöðukona hjá útibúi Planned Parenthood hættir »

15.11.09

  21:32:40, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 402 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Guðlastsákvæði íslenskra laga þarf að afnema sem fyrst

Í íslenskum lögum er að finna ákvæði sem bannar guðlast. Svipað ákvæði er í dönskum lögum en því var ekki beitt þegar ólgan varð í tengslum við Múhameðsteikninganar í Jyllandsposten. Að líkindum hefur tilvist þessa lagaákvæðis stuðlað að því að gera ástandið verra því sumum danskra múslíma hefur eflaust fundist að beita ætti ákvæðinu. Guðlastsákvæði íslenskra laga er því best að afnema og jafnframt tryggja tjáningarfrelsi í nýrri íslenskri stjórnarskrá.

Ef dönsk lög hefðu ekki verið með guðlastsákvæði á þessum tíma heldur ákvæði sem tryggði tjáningarfrelsi má gera ráð fyrir að lagaleg staða þeirra sem birtu myndirnar hefði verið sterkari. Í því ljósi hefðu danskir múslímar ekki átt neina kröfu um aðgerðir á vegum danska ríkisins, kröfu sem aldrei var komið til móts við og því var hægt að túlka aðgerðaleysi dönsku stjórnarinnar sem hindrun í vegi múslíma að ná fram rétti sínum.

Í þessum pistli hérna færði ég rök fyrir því að íslenskt löggjafarvald þurfi að taka ákvörðun um hvað gera beri í þessum málum. Í rauninni eru tveir kostir í boði, að halda guðlastsákvæðunum inni eða afnema þau.

Fyrri kosturinn kallar óhjákvæmilega á að guðlastsákvæðunum verði beitt, annað væri ekki réttlætanlegt í ljósi jafnræðisreglu. Sjá umræðu um málið hér. Í þessari umræðu kemur í ljós fáránleiki þess að hafa óvirk guðlastslög en jafnframt virk samkeppnislög sem setja tjáningarfrelsinu líka töluverðar skorður.

Ef málin þróast á þann veg að guðlastsdómar fari að láta á sér kræla, sem flest bendir til að muni verða á næstu árum eða áratugum, er hætt við að mönnum gengi illa að sætta sig við að mega ekki segja neitt opinberlega hérlendis sem gæti verið hægt að túlka sem last gegn trúarbrögðum.

Það er því heppilegast að guðlastslögin íslensku víki og í fyrirhuguðum stjórnarskrárbreytingum verði sett ákvæði um tjáningarfrelsi sem er jafngilt "First Amendnment" ákvæðinu við stjórnarskrá Bandaríkjamanna.

Guð þarfnast ekki verndar mannanna og trúarsannfæring fólks þarfnast heldur engrar verndar. Kristin trú og raunar engin trú þarfnast guðlastsákvæða og hún hefur aldrei þarfnast þeirra þrátt fyrir langa sögu þessara ákvæða. Trúarbrögðin þarfnast fyrst og fremst frelsis. Gleymum því ekki að Jesús Kristur var líflátinn vegna meints guðlasts. Það hefur sýnt sig að það er leitun að stað þar sem trúarbrögðin dafna betur en í Bandaríkjunum þar sem frelsið fær að njóta efans.

Sjá einnig pistil Bernardo Cervellera á Asianews þar sem hann fjallar um guðlastslög Pakistans og nýlegan dóm Evrópudómstólsins sem bannar krossmörk í Ítölskum skólum: http://www.asianews.it/index.php?l=en&art=16822&geo=&theme=&size=A

No feedback yet