« Um hrun Sovétríkjanna sáluguBæn Leós páfa XIII. »

26.01.06

  10:33:19, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 564 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Guðfræðiprófessor á hálum ís

Drottinn sagði við Pontíus Pílatus: „Til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni“ (sjá Jh 18. 37-38). Pílatus svaraði þessu fullur efasemda: „Hvað er sannleikurinn? Ef hann hefði orðað spurninguna rétt, það er að segja ekki HVAÐ heldur HVER, þá hefði hann fengið sama svarið og Drottinn gaf elskuðum lærisveinum sínum við síðustu kvöldmáltíðina og þannig öllum heiminum: „Ég er sannleikurinn“ (Jh 14. 6).

Hálærður prófessor við Háskóla Íslands sem aðhyllist endurskoðunarguðfræði póstmódernismans uppfræddi þjóðina í Ríkisútvarpinu í s.l. vika um að þjónn rómverska hundraðshöfðingjans og hann sjálfur (Mt 8. 5-10) hefðu iðkað hómósexualisma, og þrátt fyrir það hefði Drottinn grætt þjón þess síðarnefnda! Hann vitnaði til orðsins doulos í þessu sambandi orðum sínum til vægis. Í mínum Textus Receptus af Koina texta Nýja testamentisins stendur ekki orðið doulos heldur he pais-mou. Á koinagrískunni þýðir þetta þjónn minn, sveinn minn eða þræll minn. Á koinagrískunni þýðir orðið ho doulos hins vegar ánauðugur maður eða þræll og sögnin doulóo að glata frelsinu. Ekkert er vikið að kynhneigð piltsins í guðspjallinu, en af öllu samhengi textans frá upphafi má ráða að þessi rómverski hermaður var réttlátur og sannsýnn maður. Og Drottinn talaði við hann sem slíkan. Við þurfum einungis að lesa góða gamla Tacitus til að gera okkur ljóst, að slíka heiðursmenn var einnig að finna í röðum Rómverja.

Kristni heitnum Ármannssyni rector hefði ekki þótt röksemdafærsla prófessorsins góð latína forðum: „Ég hef séð gulan bíl. Ergo sum: Allir bílar eru gulir.“ En samkvæmt endurskoðunarguðfræði póstmódernismans má teygja og toga sannleikann líkt og teygjuband eða tyggigúmmi að vild. En látum svo vera að sveinninn hafi verið samkynhneigður eins og prófessorinn les út úr textanum, þá var græðsla Drottins ávallt skilyrt. Þetta lesum við í silfurtærri lind Orðsins þegar hann fyrirgaf konunni sem staðin var að hórdómi: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar“ (Jh 8. 11).

Hér erum við komin að kjarna málsins. Þeir sem flytja fagnaðarerindi mennsks og náttúrlegs kærleika leggja stein í götu Kristselskunnar. Þetta gildir um okkur öll, bersyndugt mannkynið: Líka þau okkar sem iðka hómósexualisma! Ég ráðlegg þeim sem tök hafa á að lesa hið nýja Hirðisbréð Benediktusar páfa um þetta efni: Deus caritas est.

Ég lýk þessum skrifum mínum svo með orðum hl. Teresu frá Avíla: „Sjáið, Drottinn býður öllum! Ef boð hans stæði ekki öllum opið, þá myndi hann ekki kalla okkur öll. Þar sem boð hans er ætlað öllum, þá er ég sannfærð um að allir þeir sem nema ekki staðar á veginum munu fá að bergja á þessu lifandi vatni.
Megi Drottinn sem gaf þetta fyrirheit í gæsku sinni veita okkur þá náð að leita þess eins og vera ber“ (Vegurinn til fullkomleikans 19, 14 - 15).

Drottinn Jesús Kristur, Guðsonur, miskunna okkur syndugum mönnum!

No feedback yet