« En armar krossins merkja ást GuðsSjá, yngismær verður þunguð og fæðir son »

25.03.06

  09:47:39, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 563 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Guð mun vel fyrir sjá

Í barnslegu trúartrausti sínu trúði sóknarpresturinn í Ars [1] á forsjá Guðs í öllum efnum. Enginn gerði sér ljóst hvernig hann fór að því, en hann rak stórt heimili fyrir munaðarlausar stúlkur, alls 60. Og vitaskuld nefndi hann þennan griðarstað sinn „La Providance“ (Forsjónina).

Árið 1829 var svo komið að allt kornið var því sem næst gengið til þurrðar, einungis ein handfylli korns var eftir. Þetta voru erfiðir tímar þar sem uppskeran hafði brugðist. Þeir sem höfðu séð sóknarprestinum fyrir korni voru orðnir þreyttir á kvabbinu í honum og hann veigraði sér við að fara enn einu sinni á fund þeirra. Satt best að segja var sóknarpresturinn jafnvel búinn að ganga fram af verndardýrlingum sínum með látlausum bænum sínum. Ástandið var orðið svo alvarlegt að það hvarflaði jafnvel að sóknarprestinum að senda stúlkurnar sínar á brott.

Þá datt honum allt í einu í hug að snúa sér til hl. Francis Regis sem hann bar djúpstæða lotningu fyrir. Meðan þessi heilagi maður lifði á jörðinni hafði hann hvað eftir annað séð hinum snauðu fyrir fæði með kraftaverkum, þannig að engin ástæða var til þess að ætla, að hann myndi ekki halda því áfram af himnum.

Sóknarpresturinn fór upp á kornloftið og sópaði því litla korni sem eftir var í haug, faldi helgar menjar hins heilaga manns undir korninu og lét síðan stúlkurnar sínar biðja. Að nokkrum stundum liðnum sagði hann Jeanne-Marie Chanay sem sá um eldhússtörfin og ofninn að fara upp á loft og ná í það litla sem eftir var af korninu.

Hún varð við beiðni hans, þrátt fyrir að hún gerði sér ljóst „að það væri með öllu tilgangslaust.“ Þegar hún reyndi að ljúka hurðinni upp stóð hún föst, engu var líkara en að þungt farg hvíldi á henni að innanverðu. Loksins þegar hurðin lét undan átti Jeanne-Marie erfitt með að trúa eigin augum. Kornið flæddi út og niður stigann og herbergið var fullt af korni upp í þakrjáfrið. Hún hljóp niður stigann og greindi sóknarprestinum frá því sem borið hafði að höndum.

Hann varð hálf hissa, reyndar ekki svo mjög, og sagði við litlu munaðarleysingjana sína: „Ég treysti ekki á gæsku Guðs, elsku smælingjarnir mínir og ætlaði að fara að senda ykkur í burtu. Vissulega hefur hann veitt mér ráðningu.“ Fólk sagði að kornið hefði verið óvenjulegt á litinn. Þannig fyllir trúin geymslur manna með hinni himnesku uppskeru.

GUÐ MUN VEL FYRIR SJÁ!

[1]. Fullu nafni hét hann Jean Baptiste Marie Vianney (1786-1859). Hann var fæddur í Lyonhéraðinu. Þar sem „gáfnaljósin“ sem stóðu að baki frönsku byltingarinnar höfðu bannað fólki að biðja, fór hann iðulega með foreldrum sínum í hlöðu eina til að vera við messu. Allir prestar voru í felum og þegar þeir náðust voru þeir umsvifalaust hálshöggnir. Það var þá sem Jean Baptiste litli tók þá ákvörðun að gerast prestur.

No feedback yet