Flokkur: "Guð-fræði (bæði kristin og heimspekileg)"

15.10.15

Grein í Mbl. um heil. Teresu frá Avila

Merka grein og vel ritaða eftir Jón Viðar Jónsson, rithöfund og leiklistar­gagnrýnanda, er að finna í Morgunblaðinu í dag: Á fimm hundruð ára afmæli heilagrar Teresu frá Avila (1515-1582) – en í dag er messudagur hennar. Jón Viðar, sem kynnir sig sem kaþólskan leikmann, segir frá henni á áhuga­verðan hátt og tengir það klaustri reglu hennar hér á Íslandi, Karmelklaustri í Hafnarfirði, segir frá erfiðri baráttu heil. Teresu (og samherja hennar, heil. Jóhannesar frá Krossi) og ritum þeirra, sem Jón Rafn Jóhannsson hefur þýtt á íslenzku og fáanleg eru í klaustrinu, sem og með pöntun gegnum þennan vef: http://www.lulu.com/spotlight/jonrafn/ – Þar geta menn kynnzt einhverj­um mestu auðæfum kaþólskrar dulspeki (mystíkurinnar). Teresa var ekki aðeins tekin í tölu heilagra, heldur einnig (árið 1970) í tölu kirkjufræðara (doctores Ecclesiæ).

11.12.14

Úr Lilju Eysteins munks

Mikill er máttur Lilju. 62. og 69. erindi:

  • Hvað er tíðinda? Hjálpast lýðir. 
  • Hví nú? Því lét Jesús pínast.
  • Hvað er tíðinda? Hraktr er fjandinn. 
  • Hverr vann sigrinn? Skapari manna. 
  • Hvað er tíðinda? Helgir leiðast. 
  • Hvert? Ágæt í tígnarsæti. 
  • Hvað er tíðinda? Himnar bjóðast. 
  • Hverjum? Oss, er prísum krossinn. 
  • Máríu son, fyr miskunn dýra
  • manns náttúru og líkam sannan
  • kennstu við, að mín þú minnist,
  • mínn drottinn, í ríki þínu.
  • Ævinliga með lyktum lófum
  • lof ræðandi á kné sín bæði
  • skepnan öll er skyld að falla,
  • skapari minn, fyr ásjón þinni.
Hér segja útgáfur reyndar ýmist: með lyktum lófum eða með lyftum lófum.
Takið eftir, að hér er Jesús réttilega kallaður skapari manna (62,4; 69,8), sbr. Jóhannesarguðspjall, 1.3. – 'Skepnan öll': gervöll sköpunin, allt mannkyn.

10.03.14

  11:49:00, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 162 orð  
Flokkur: Bænamál, Miðaldafræði íslenzk, Ýmis skáld, Guð-fræði (bæði kristin og heimspekileg), Klaustur

Úr Lilju eftir Eystein munk (d. 1361)

 

María, vertu mér í hjarta,

mildin sjálf, því að gjarnan vilda' eg,

blessuð, þér, ef mætta' eg meira,

margfaldastan lofsöng gjalda;

lofleg orð í ljóðagjörðum

listilegri móður Christi

öngum tjáir að auka lengra:

Einn er drottinn Maríu hreinni.

 

Rödd engilsins kvenmann kvaddi,

kvadda af engli drottinn gladdi,

gladdist mær, þá er föðurinn fæddi,

fæddan sveininn reifum klæddi,

klæddan með sér löngum leiddi,

leiddr af móður faðminn breiddi,

breiddr á krossinn gumna græddi,

græddi hann oss, er helstríð mæddi.

 

Þó grét hún nú sárra súta

sverði nist í bringu og herðar,

sitt einbernið, sjálfan drottin,

sá hún hanganda' á nöglum stangast,

armar svíddu af brýndum broddum,

brjóst var mætt. Með þessum hætti

særðist bæði sonur og móðir

sannheilög fyrir græðing manna.

 

Fyrir Maríu faðm inn dýra,

fyrir Máríu grát inn sára

lát mig þinnar lausnar njóta,

lifandi guð með föður og anda.

Ævinlega með lyktum lófum

lof ræðandi á kné sín bæði

skepnan öll er skyld að falla,

skapari minn, fyrir ásján þinni.

      

02.09.10

Skapaði Guð ekki heiminn? Stjarneðlisfræðingur ratar út á svið sem er handan eðlisfræðinnar

„Þyngdaraflið eitt sér er nægilegt til að skapa alheiminn úr engu,“ segir Stephen Hawking, hinn vinsæli vísindamaður, samkvæmt frétt Rúv í dag.

En þetta gengur gegn allri skynsemi og eðli hlutanna. Ex nihilo nihil fit er gömul vizka: úr engu verður ekkert til – nema því aðeins, að um nægileg utanaðkomandi áhrif sé að ræða af einstöku tagi, eins og á sér stað í þessu tilviki að mati fjölda heimspekinga – og vitaskuld kristinna manna líka.

Ef ekkert er til, hvernig getur þá ríkt þar þyngdarafl?! Þarf ekki eðlisfræðingur að fara í hugsunarkollhnís til að gera grein fyrir því? Samt ályktar hann af framangreindum þönkum sínum, að Guð hafi ekki skapað heiminn, af því að tilvist og sköpunarafl hans séu ónauðsynleg til skýringar á tilurð heimsins.

Read more »

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution