« Hverjir eru 200 sinnum líklegri til að fá AIDS en gagnkynhneigðir?Tveir merkisdagar í sögu kaþólsku kirkjunnar á Íslandi – og um starf St. Jósefssystra »

02.09.10

Skapaði Guð ekki heiminn? Stjarneðlisfræðingur ratar út á svið sem er handan eðlisfræðinnar

„Þyngdaraflið eitt sér er nægilegt til að skapa alheiminn úr engu,“ segir Stephen Hawking, hinn vinsæli vísindamaður, samkvæmt frétt Rúv í dag.

En þetta gengur gegn allri skynsemi og eðli hlutanna. Ex nihilo nihil fit er gömul vizka: úr engu verður ekkert til – nema því aðeins, að um nægileg utanaðkomandi áhrif sé að ræða af einstöku tagi, eins og á sér stað í þessu tilviki að mati fjölda heimspekinga – og vitaskuld kristinna manna líka.

Ef ekkert er til, hvernig getur þá ríkt þar þyngdarafl?! Þarf ekki eðlisfræðingur að fara í hugsunarkollhnís til að gera grein fyrir því? Samt ályktar hann af framangreindum þönkum sínum, að Guð hafi ekki skapað heiminn, af því að tilvist og sköpunarafl hans séu ónauðsynleg til skýringar á tilurð heimsins.

Fræðin um Guð og um sköpun hans tilheyra ekki stjarneðlisfræði, heldur annars vegar frumspekilegri (metafýsiskri) heimspeki, sem þegar tímar liðu var kölluð theodicée, og hins vegar eiginlegri guðfræði, sem byggir á opinberuðum frumforsendum (því að ef einhver getur verið til frásagnar um sköpun heimsins, þá er það skaparinn sjálfur í opinberun sinni).

Náttúruvísindamenn fara út fyrir sitt eiginlega svið, þegar þeir fara út í þessi fræði, sem heimspekingar Forn-Grikkja og margir aðrir síðari heimspekingar gerðu að rannsóknarefni sínu og skólaspekingar miðalda í kjölfar þeirra, sem og ýmsir helztu heimspekingar nýaldar (þ.e. frá því um 1500 til okkar daga).

15 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þeir, sem leggja hér inn athugasemdir um málið, eru beðnir að hafa þær á vísindalegum eða fræðilegum nótum, en ekki til dæmis persónulegum.

02.09.10 @ 11:28
Matti

> Ef ekkert er til, hvernig getur þá ríkt þar þyngdarafl?! Þarf ekki eðlisfræðingur að fara í hugsunarkollhnís til að gera grein fyrir því?

Er ekki ástæða til að kynna sér röksemdarfærslu Hawking áður en þú gerir ráð fyrir að hún standist ekki?

02.09.10 @ 11:51
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Jú, það er full ástæða til að kynna sér hana, en eins og megin-fullyrðing Hawkings í þessu efni var lögð fram í fréttinni að minnsta kosti, virðist hún margfalt ótrúlegri en flest sem t.d. kristnum mönnum er ætlað að trúa, því að hvernig getur þyngdarafl í algerri ekki-veröld skyndilega (og af hverju allt í einu í þeirri andrá?) orðið svo gífurlegt, að gríðarleg ofur-"sprenging” (og hvað er það?) eigi sér stað?

Að einhverjir leikmenn telji sig síðan “skilja", höndla og ná utan um þessa hugsun og telja hana “sannaða", er svo sérkapítuli út af fyrir sig, kannski enn eitt dæmið um áthorítetstrú (trú á kennivald þeirra, sem vizkuna eiga að hafa).

02.09.10 @ 12:07
Matti

> virðist hún margfalt ótrúlegri en flest sem t.d. kristnum mönnum er ætlað að trúa

Er þetta virkilega eitthvað ótrúlegra en að Jesús hafi breytt vatni í vín eða lifnað upp frá dauðum?

Mér þykir þetta bara töluvert sennilegra.

02.09.10 @ 13:09
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það er ekkert sennilegt við það, sem virðist mótsögn í sjálfu sér. En að almáttugur Guð geti breytt vatni í vín eða reist Jesúm upp frá dauðum, það er ekkert sem knýr skynsemina til að álykta, að það geti ekki átt sér stað.

02.09.10 @ 13:51
Eiríkur Örn

Mætti ekki allt eins spyrja: Ef ekkert er til, hvernig getur þá ríkt þar Drottinn?

02.09.10 @ 14:43
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Áttu við, að Hann hafi þá ekkert til að ríkja yfir? Eða er merking þín sú, að ef sagt er, að ekkert hafi einhvern tímann verið til, þá feli það í sér, að Drottinn hafi heldur ekki verið til?

Það síðarnefnda er ekki það, sem átt er við með ekki-tilveru heimsins.

02.09.10 @ 15:12
Athugasemd from: Ómar Torfason, sjþj.
Ómar Torfason, sjþj.

Stephen Hawking var á sínum tíma uppfullur af því að afsanna á einhvern hátt afstæðiskenningu Einsteins og var allnokkur úttekt á ferli hans í Scientific American. Það hefur verið upp úr 1990. Ég skil ekki hvernig S.Hawking telur sig geta hafnað tilvist æðri veru út frá E=MC2 Mér sýnist hann uppfullur af menntahroka og eina leiðin fyrir hann að komast fram úr Einstein er að kippa út þeim guði(Guði) sem Einstein taldi grundvöll allrar tilveru.
Þetta er ekki andskotalaust.

02.09.10 @ 20:55
Athugasemd from: Sigurður Ragnarsson  
Sigurður Ragnarsson

Takk fyrir áhugaverðan pistil, Jón Valur. Á vefnum Amazon.com stendur, að útgáfudagur hinnar nýju bókar eftir Hawking sé 7. september, svo að þessi umræða er takmörkunum háð. Honum hefur víst fyrr skjátlast, til dæmis reiknað skammtafræðina skakkt varðandi svarthol, ef trúa má ensku Wikipediu, svo að alvitur er maðurinn varla talinn. Annars eru það engin tíðindi, að Guð sé að engu gerður. Því miður reynir fólk daglega að afreka það. Hefur ekki alltaf svo verið? Án þess þó að Guð hætti að sanna sig fyrir kristnu fólki. En fréttaflutningur um hluti, sem fjölmiðlar geta lítið sem ekkert vitað um og lesendur þeirra því síður kynnt sér fyrr en í fyrsta lagi 7. september, á ekki upp á pallborðið hjá mér.

02.09.10 @ 22:21
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kærar þakkir, Sigurður, fyrir gott innlegg, og gott væri líka að frétta meira af þér, ásamt því að fá hérna tengil á þitt ágæta vefsetur, þar sem ýmislegt fróðlegt má lesa.

03.09.10 @ 01:41
Athugasemd from: Davíð
Davíð

Það verður aldrei hægt að sanna að Guð sé ekki til og að sama skapi verður aldrei hægt að sanna að Guð sé til.
Þetta fer einungis allt eftir því hverju fólki kýs að trúa. Trú fólks á Guð hefur hjálpað og gert mörgum gott og er það vel. Svo er annað fólk sem efast og trúir jafnvel ekki á æðri máttarvöld og ber okkur þá ekki að virða þá skoðun fólks þó svo við séum ekki endilega sammála henni ?

03.09.10 @ 10:26
Sigurður Ragnarsson

Arno Penzias fékk Nóbelsverðlaun í eðlisfræði árið 1978 fyrir rannsóknir, sem oft eru álitnar sönnun fyrir miklahvelli. Hann skrifaði í New York Times 12. marz 1978: “Allar rannsóknir okkar sýna nákvæmlega það, sem stendur í Mósebókunum, Sálmunum og Biblíunni.” Þetta er sem sagt allgamalt umhugsunarefni. Vingjarnleg kveðja (þú sendir kannski línu, Jón Valur, það væri gaman að spjalla saman).

03.09.10 @ 13:23
Athugasemd from: Þorbergur  
Þorbergur

Merkilegar pælingar. Ég hef alltaf borið virðingu fyrir Steven Hawking. Þetta er málefni nærri mínu hjarta. Tel mig bæði fylgja vísindum svo langt sem þau ganga og er trúaður sjálfur. Las allt sem ég komst í um eðlisfræði og nútíma vísindalega kosmólógíu (nýrri vísindi en gömlu big bang kenninguna auðvitað líka) og las sköpunarsöguna með opnum huga á sínum tíma á mínum táningsárum er þetta voru stóru spurningarnar fyrir mig. Sé ekki að það þurfi að stangast á, þó það hafi tekið mig tíma að komast almennilega niður á þá niðurstöðu á sínum tíma.

Hér er nokkuð af því sem ég nú geng út frá: 1) Sannindi geta ekki stangast á innbyrðis, sjónarhorn geta breytt sýn okkar, en sannindi gilda alltaf, séu þau sönn. 2) Vísindin eru ekki eina leið þekkingar fyrir okkur mannkynið, en standa ein og sjálfstæð. 3) Trúarreynslur, -sannindi og -þekking eru líka í grunninn ein og sjálfstæð en eru klædd frásagnarhulu þeirri sem við setjum á hana og eru “upplifanleg” en ekki “sannanleg", við þurfum að leita þeirra líkt og vísindamenn þurfa að leita á sínu sviði. 4) Vísindin standa á grunni frumsenda rökfræðinnar og stærðfræði og mælihafta og verður að taka ákveðna heimspekilega hluti sem gefna án sannana, og er það hollt fyrir vísindamenn og aðra að átta sig á því. 5) Sköpunarsagan er flóknari og dýpra plagg en það sem einfaldlega skrifað stendur og er í ritningarlegu samhengi. Hún er ekki endanlega full frásögn þó hún sé trúarleg ritning. 6) Heimurinn er mun flóknari en við getum vitað sem mannfólk. 7) Að taka afstöðu með eða móti tilvist Guðs er trúarstökk hvort sem er með eða á móti. Það er trúarstökk bæði vegna þess að vísindin standa á grunni “gefinna” frumsenda og ekki er hægt að leita handan þeirra vísindalega, og vegna þess að það er ekki hægt að afsanna tilvist Guðs. Afsönnun gengur ekki upp ef einhver finnur Guð, það er nóg að einn eða tveir vísindamenn finni Guð einhverntíma og þá fellur afsönnun um sjálfa sig.

Vísindamaður sem heldur hann geti útskýrt eitthvað í þessu samhengi er að taka grundvallar trúarstökk eins og sá sem trúir á tilvist Guðs. Munurinn ætti að vera sá að sá sem trúir að Guð gerir það vegna trúarreynslu eða innri löngun til að trúa, en sá sem ekki trúir ætti að gera það af trúarskoðun sinni að ekki sé til neitt æðra manninum, að heimurinn sé kalt efnistóm, eða af þekkingarleysi. Ég sjálfur trúi að heimurinn sé fullur af lífi, efnið beri í sér birtingu á sköpun Guðs, að heimurinn sé aðeins þekkjanlegur eftir þeim leiðum sem við beitum til að rannsaka hann og þær bindi hendur okkar sér hver á sinn hátt. Að Guð sé til og eðlisfræðin séu sannindin eins og þau séu best þekkt af okkar duglegustu hugsuðum og vísindamönnum. Guð er hinsvegar fyrir fleiri en slíka. Ég veit ekki neitt æðra manninum í okkar heimi en trúi samt að maðurinn sé skapaður í mynd Guðs, sem vekur margar spurningar um bæði Guð og manninn. Og þegar öllu sé á botninn hvolft sé ekki margt til að aðskilja heiminn, manninn og Guð, nema kanski við sjálf þó leiðin sé kanski ekki auðveld aftur til Guðs. Ég skil því trúleysi í sinni bestu mynd sem trú á manninn frekar en bara trú á ekki neitt eða þekkingarskort. Ég held því að ef ég væri af einhverjum undarlegum orsökum allt í einu alvitur og gæti séð allt, eða þannig væri sjálfur guð (yrði kanski að vera það skv. okkar skilningi á Guði), þá væri ég bara orðinn hreinn trúleysingi :-) .. En hér byrjar líka hobbí áhugi minn á hugvísindum austurlanda…

Svo má kanski hugsa það þannig að við mennirnir séum að hugsa og vísindalega vinna okkur áfram á virðingaverðan hátt, en séum að flækja málin um of, Guð er kanski mun einfaldari en svo að það þurfi allt þetta til þó rökhugsun sé kanski náðargjöf í sjálfu sér. Ef þú veist eitthvað og hefur af því reynslu, þarf jú ekki allt það til. Þar er nefninlega vegna þekkingarskorts okkar sem við erum jú að þessu öllu saman.

Ég er ekki mótfallinn því að vísindin færi spurningar sínar á víðara svið í síauknum mæli, en hversu langt sem þau ná að auka skilning okkar á efnisheiminum og frumkröftum eðlisfræðinnar, þá er það bara stærri skýjaborg byggð á trúarlegum grunni og mun aldrei í sjálfu sér ná að hagga öðrum borgum himins í þekkingarleit okkar mannfólksins. En einhvernveginn eru þær allar byggðar á sama landi.

03.09.10 @ 14:19
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir pistilinn Jón og einnig er vert að þakka fróðlegar athugasemdir, sérstaklega athugasemd Þorbergs sem er einkar fróðleg og upplýsandi.

21.09.10 @ 16:55
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér, Ragnar.

28.09.10 @ 22:06
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

free blog software