« Hvenær dey ég?Jóhannes Páll II »

04.03.08

  17:00:04, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 673 orð  
Flokkur: Greinar eftir Sr. Róbert Bradshaw (dó 1993)

Heilög Margrét María Alacoque

Í Burgundy héraði í Frakklandi fæddist lítið stúlkubarn árið 22. júlí 1647. Barnið var skírt Margrét María Alacoque.

Þegar hún var 23 ára gömul gekk hún í Paray le Monial klaustrið. Þegar Margrét María hafði verið um tvö ár í klaustrinu, varð hún fyrir undursamlegri reynslu: Jesús birtist henni. Þar sem hún kraup frammi fyrir ………

……… guðslíkamahúsinu, sá hún með augum sálar sinnar hið alhelga hjarta Jesú Krists, umkringt þyrnum og yfir því var kross.

"Hjarta mitt," sagði Jesús, "brennur svo heitt af kærleika til mannanna, að það getur ekki lengur hamið þessa loga kærleikans. Það verður að tjá sig mönnunum, til þess að þeir auðgist af þeim fjársjóði, sem í því býr. Ég hef valið þig til þess að framkvæma þetta stórvirki. Héðan í frá munt þú verða kölluð hinn elskaði lærisveinn hins alhelga hjarta míns."

"Sjá, þetta hjarta," sagði Jesús, " hefur elskað mennina svo mikið, en er samt svo lítið elskað í staðinn. Svo margir eru kaldir og vanþakklátir gagnvart mér. Það var vanþakklætið gagnvart mér sem særði mig meira en nokkuð annað sem ég mátti þola gegnum píslir mínar. Bara að mennirnir myndu endurgjalda eitthvað af þeim kærleika, sem ég ber til þeirra."

Meðal fyrirheitanna sem Jesús bað hana um að koma á framfæri við það fólk, sem vildi heiðra hið kærleiksríka hjarta hans, voru þessi: "Ég mun veita fjölskyldum þeirra frið. Ég mun veita þeim huggun í erfiðleikum þeirra. Syndugir munu finna takmarkalausa miskunn í hjarta mínu. Í hjarta mitt mun ég rita nöfn allra þeirra er útbreiða tilbeiðslu þessa, og munu þau aldrei afmást."

En þó gaf hann tvö mjög sérstök fyrirheit, sem hafa ef til vill orðið frægust af þeim öllum. Í örðu þeirra sagði Jesús: "Ég lofa af hinni miklu miskunnsemi, sem gagntekur hjarta mitt að ég mun veita þeim, sem meðtaka mig í hinu alhelga altarissakramenti fyrsta föstudag hvers mánaðar, níu mánuði í röð, þá náðargjöf að njóta hinstu iðrunar; það fólk mun ekki deyja í ósátt við mig né án þess að meðtaka sakramentin. Alheilagt hjarta mitt skal verða öruggt athvarf þeirra á hinstu stundu." Fréttirnar af þessu vegsamlega fyrirheiti breiddust út sem eldur í sinu um allan hinn kaþólska heim, og svo mátti heita að fólk streymdi að hverri kirkju til að verða við fyrirheitinu um "níu fyrstu föstudaga".

Í hinu fyrirheitinu sagði Jesús: "Ég mun blessa hvert heimili sem hefur til sýnis mynd eða styttu af mínu alhelga hjarta á áberandi stað og heiðrar það." Þetta fyrirheit gildir ekki eingöngu fyrir kaþólska, heldur alla sem þetta gera. Síðan á tímum þessara fyrirheita, hefur sú venja verið tekin upp á mörgum heimilum að hafa mynd af Jesú Kristi, þar sem hann sýnir hið alhelga hjarta sitt, til sýnis á áberandi stað. Það hefur líka orðið venja að hafa kveikt á litlum rauðum lampa fyrir framan myndina. Margar fjölskyldur efna til helgunarathafnar, þar sem heimilin og fjölskyldurnar á þeim helga sig hinu alhelga hjarta Jesú.

Systir Margrét María var aðeins 43 ára gömul þegar hún dó. Hún var útslitin og veik um tíma, en endirinn kom friðsamlega. Hún leit allt í einu upp, þar sem hinar nunnurnar lágu á bæn umhverfis rúmið hennar. Andlit hennar ljómaði og augu hennar lýstu í hrifningu. "Jesús, Jesús," hrópaði hún og á næsta augnabliki var hún komin í eilíft samfélag við hann.

Systir Margrét María Alacoque var opinberlega tekin í tölu heilagra árið 1920.

Hátíðisdagur hennar er 16. október.

No feedback yet