« Án ljóss Krists nægir ljós skynseminnar ekkiHeilög Lúsía, mey og píslarvottur »

11.12.05

  22:25:01, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 704 orð  
Flokkur: Þjóðfélagsrýni

Baráttan gegn jólunum

WASHINGTON, D.C., 3. des., 2005 (Zenit.org).- Að nefna jólin er ekki lengur talið óviðeigandi í Bandaríkjunum. Sem dæmi um það eru nafngiftir jólatrjáa sem víða eru hitamál. Nýlega var greint frá því að tré á vesturflöt þinghússins væri kallað „jólatré“ (e. Christmas Tree) en ekki „hátíðartré“ (e. Holiday Tree) eins og venjan hefur verið að kalla það undanfarin ár. Í Boston varð fjaðrafok vegna þess að tré var kallað „hátíðartré“ (Holiday Tree). Í kjölfar mótmæla tilkynnti borgarstjórinn að tréð væri „jólatré“. Þessi barátta um jólaskreytingar, jólalög og orðaval byrjaði í nóvember í nokkrum löndum.

Wal-Mart verslanakeðjan í Bandaríkjunum var gagnrýnd fyrir að bjóða fólk velkomið með kveðjunni „gleðilega hátíð“ (Happy Holidays) í staðinn fyrir „gleðileg jól“ (Happy Christmas). Keðjan var einnig gagnrýnd fyrir að halda því fram að jólin væru samsuða úr síberískum shamanisma, keltneskum og gotneskum siðvenjum sem og baalsdýrkun. Keðjan dró þessar staðhæfingar til baka en heldur kveðjunni áfram.

Í Ástralíu sneru fylgjendur jólanna ósigrum síðasta árs í sigra. Þar fengu skólar leyfi til að stilla upp jötum, að leyfa jólasálmasöng og til annarra hátíðahalda. Í fyrra var þetta bannað í nokkrum skólum af ótta við að misbjóða þeim sem ekki væru kristnir.

Ýmis hitamál vegna jólanna eru þema nýútkomnar bókar „Stríðið gegn Jólunum“ (The war on Christmas). Í henni lýsir blaðamaðurinn John Gibson því hvernig hömlur á jólahaldi hafa aukist í Bandaríkjunum þrátt fyrir mikinn meirihluta kristinna þar í landi. Í skólum eru jólatré kölluð vinatré, gjafatré eða frídagatré. Börn mega ekki halda jólaboð, en mega halda vetrarboð. Sumir skólar hafa bannað hina hefðbundnu liti rauða og græna til að reyna að breyta jólunum í vetrarhátíð.

Baráttan gegn jólunum er leidd af frjálslyndu kristnu fólki sem stutt er af fólki sem aðhyllist veraldarhyggju og þeim sem aðhyllast menningarlega afstæðishyggju. Oft fá opinberir starfsmenn bréf þar sem allri almennri birtingu jólanna er mótmælt. Af ótta við lögsóknir ákveða skólar og bæjarfélög að banna að jólin séu nefnd á nafn. Gibson leiðir að því rök að sú frjálslynda hugmyndafræði sem reyni að útiloka jólin líti á trú sem einkamál sem ekkert megi bera á, en þrátt fyrir það þá sé kristnin samt eina skotmarkið. Hátíðir gyðinga, hindúa, eða múslima eru boðnar velkomnar sem dæmi um menningarlegan fjölbreytileika.

Árið 2001 var skólabörnum í grunnskóla í Texas bannað að skrifa „Gleðileg jól“ (e. Merry Christmas) á kort samnemenda og bollar, diskar og servíettur máttu ekki vera í rauðum lit eða grænum þar sem litirnir voru taldir kristin tákn. Gibson segir að þetta árlega reiptog um jólin sé ein birting á baráttu sem sé í gangi gegn kristnum. „Þetta er tíminn þegar reynir á stjórnarskrárbundin réttindi kristinna" skrifar hann. „Þeir sem berjast gegn jólunum halda því fram að þeir séu að halda stjórnarskránni á lofti.“ „Það er ekki rétt“ segir Gibson „því það sem þeir eru að reyna að gera gengur lengra en hæstiréttur Bandaríkjanna hefur dæmt. Hæstiréttur hefur til dæmis aldrei lýst því yfir að jólatré brjóti í bága við stjórnarskrána, né heldur hefur hann bannað söng jólasálma.“ „Hæstiréttur hefur aldrei kveðið upp að notkun orðsins 'jól' (e. Christmas) í opinberu skjali brjóti gegn stjórnarskránni.“ Mótmælendur jólanna vilja samt banna þetta því þeir segja að það brjóti gegn aðskilnaði ríkis og kirkju.

RGB þýddi og endursagði. Heimild: Christmas Making a Comeback - Annual Battle Starts With Victories. http://www.zenit.org/english

No feedback yet