« Gaudete, gaudete! Christus est natus„Í hellinum í Betlehem“ »

30.12.09

  08:17:44, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 410 orð  
Flokkur: Trúarleg tónlist og textar

Gloria eftir Vivaldi

Ítalska tónskáldið Antonio Vivaldi (1678 – 1741) er líklega einna best þekktur fyrir verk sitt Árstíðirnar. Hann samdi einnig kirkjutónlist enda hafði hann tekið prestvígslu þó svo hann starfaði sem tónlistarkennari. Eitt þekktasta verk hans á því sviði er líklega verkið Gloria.

Verkið sækir nafn sitt í upphaf dýrðarsöngsins til Jesú Krists sem lesinn er eða sunginn í kaþólskum kirkjum á tímum kirkjuársins utan föstunnar. Á tíma Vivaldi og allt þangað til eftir Annað Vatíkanþingið (1962-1965) var þessi texti lesinn eða sunginn á latínu sem var alþjóðlegt messutungumál kaþólsku kirkjunnar fram yfir miðja síðustu öld.

Mörg tónskáld hafa spreytt sig á þessum texta sem og öðrum föstum liðum messunnar. Þessi útgáfa af Gloria (RV 589) hefur þó orðið einkar vinsæl eftir að verk Vivaldi urðu þekkt að nýju á síðustu öld og hefur það verið flutt nokkrum sinnum hér á landi.

Í inngangskafla verksins er athyglisvert hvernig tónskáldið leikur sér að hrynmynd þar sem þrjár d' áttundapartsnótur, sem jafnframt mynda frumtón tónstigans, koma fyrir ítrekað, hópaðar saman í fjórar setningar. Segja má að þessar þrjár frumtónsnótur undirstriki hið þríeina eðli Guðs, sem frumtónninn tákni.

Til gamans má einnig geta þess að frumtónninn heitir do á ítölsku. Aðeins þarf að skjóta inn einu 'e' til að fá út 'deo' (Guð). Í upphafsorðum kórsins er orðið Gloria sungið tvisvar sinnum tvisvar og því næst fjórum sinnum. Sá fjöldi orða getur táknað það að maðurinn getur ekki séð Guð föðurinn sem talan 3 táknar, né litið auglit hans á þessari jörð. Kórinn sem táknar mennina segir ekki Gloria þrisvar heldur tvisvar og því næst fjórum sinnum. Þannig er ósýnileiki en jafnframt hin ævarandi nærvera Guðs túlkuð, því tveir og fjórir eru alltaf næstu tölur við þrjá.

Þegar hlustað er á tónlistina og textann má því segja að verkið birti þannig samtvinnun guðfræðilegrar hugsunar og túlkunar á nálægð Guðs eins og Vivaldi skynjaði hana og skildi. Óhætt er að segja að fáum hefur tekist þetta jafn vel. Ef einhverjir hafa náð að knýja dyra himinsala með list sinni er næsta víst að Antonio Vivaldi er í þeim hópi. Hvað svo sem því líður þá má gera ráð fyrir að fátt hljómi betur að lokinni langri föstu en klukknahljóðið sem boðar enda föstutímans þegar því er fylgt er eftir með vel fluttri Gloria eftir Vivaldi.

Við skulum að lokum hlýða á innganginn að Gloria eftir Vivaldi. Hér fyrir neðan er YouTube tengill á inngangskaflann í flutningi Coral da Comunidade Evangélica Luterana da Cruz, Petrópolis, Porto Alegre, RS í Brasilíu.

[youtube]c5uYrQjPM8k[/youtube]

No feedback yet