« „Chairete – Heilar þið!“Píslir Jesú rangfærðar í fjölmiðlum »

15.04.06

  13:54:35, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 794 orð  
Flokkur: Ritningarlestur dagsins

Páskaásjóna himnesks fagnaðar

Guðspjall Jesú Krists á Páskadag þann 16. apríl er úr Jóhannesarguðspjalli 20. 1-9 (sjá einnig Lk 24. 13-35 og Mk 16. 1-8)

Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma, að enn var myrkur, og sér steininn tekinn frá gröfinni. Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins, sem Jesús elskaði, og segir við þá: „Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann.“ Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn, og þeir komu til grafarinnar. Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni. Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi, en fór samt ekki inn. Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn, sem verið hafði um höfuð hans. Hann lá ekki með línblæjunum, heldur sér samanvafinn á öðrum stað. Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn, sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði. Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum.

Hugleiðing
Alltaf kemur það kaþólskum jafn undarlega fyrir sjónir þegar kvennaguðfræðin kvartar sífellt yfir því, hvað konum er gert lágt undir höfði í kirkjunni. Fyrsta skal telja Maríu Guðsmóður sem kemur Kristi næst. Og það eru konurnar sem fóru fyrstar til grafarinnar á páskadagsmorgunn, rétt eins og það var hún Lýdía sem lauk Evrópu upp fyrir hl. Páli með því að skjóta skjólshúsi yfir hann. Ísidor frá Sevilla (á sjöundu öld) komst svo að orði: „Þar sem konan (Eva) var sú fyrsta til að bragða dauðann, þá var það kona (María Magdalena) sem smakkaði fyrst á lífinu. Kona var það við syndafallið og enn að nýju kona sem sá dag endurlausnarinnar þegar bölvun Evu var aflétt.“ Biblían hefst á frásögn af konunni og víkur enn að nýju að henni í lokaorðum sínum (Opb 12). Stelpur, lesið Biblíuna ykkar betur!

Hvað er svo merkilegt við þetta veltibjarg fyrir grafhýsinu? Það var afar þungt! Það hefði tekið nokkra fíleflda karlmenn dágóðan tíma að velta bjarginu frá og auk þess stóðu rómverskir hermenn þarna á verði! Enski kirkjufaðirinn Beda komst svo að orði: „Engillinn velti bjarginu frá, ekki svo að Drottinn gæti gengið út, heldur til að gera fólki kleift að sjá að hann var þegar farinn.“ Og Pétur Chrysologus (5. öld) sagði: „Til að koma auga á upprisuna verður fyrst að velta bjarginu frá hjarta okkar.“

Eitt er víst. Ef Jesús hefði ekki risið upp frá dauðum og birst lærisveinum sínum, hefði okkur aldrei borist spurnir af honum. Það er eitt atriði sem er afar athyglisvert í þessu sambandi eins og sérfræðingar hafa vakið athygli á. Það er alls ekki svo fágæt að fólk sjái látna ástvini sína birtast sér og það ÞEKKIR þá þegar í stað. En þessu var á öfugan veg farið hjá lærisveinunum á leiðinni til Emmaus: ÞEIR ÞEKKTU JESÚ EKKI Í FYRSTU!

Hvað annað en sjálf upprisan hefði getað umbreytt skelfingu losnum lærisveinunum og konunum í fólk sem ljómaði af gleði á þessari mestu sorgarstund í lífi þess? Raunveruleiki upprisunnar er kjarni kristindómsins. Í náð Heilags Anda gerir Drottinn okkur kleift að sjá með auga trúarinnar yfir aldanna djúp til að þekkja sig og kraft upprisu sinnar. Mesta gleði sem nokkur manneskja getur öðlast hér á jörðinni er að standa frammi fyrir lifandi Drottni með persónulegum hætti og sjá hann, rétt eins og hl. Páll, sem öfugt við Júdas, sá hann aldrei í holdi. Ljómar ásjóna þín af sannri Páskagleði eða er hún mörkuð depurð og angist verðbréfahruna og gengisfellinga? Snúðu þér þá til Jesú og hann mun gefa þér hina sönnu Páskagleði vegna þess að hún felst í eilífu lífi, PÁSKAÁSJÓNU HIMNESKS FAGNAÐAR.

„Drottinn Jesú Kristur! Þú hefur unnið sigur yfir helsi grafarinnar og áunnið okkur lífið eilífa. Gef okkur augu trúarinnar til að geta séð þig í dýrð þinni. Hjálpaðu okkur til að nálgast þig og vaxa í þekkingunni um elsku þína og kraft.“

GLEÐILEGA PÁSKA!

No feedback yet