« Blessunarbæn heil. Jósefs – eftir heil. Jean EudesUm samkynhneigð í Biblíunni – viðtal við föður Jean-Baptiste Edart »

19.03.07

  10:09:51, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 1378 orð  
Flokkur: Fóstureyðingar og vernd, Getnaðarverjasamfélagið

Getnaðarverjasamfélagið – eftir David Prentis

Það var mikið óheillaspor þegar mótmælendakirkjurnar samþykktu getnaðarvarnir athugasemdalaust árið 1930. Frá og með þessari stundu hófst þróunarferli sem enn verður ekki séð fyrir endann á. Með þögn sinni hafa þær einnig stutt fósturdeyðingar með óbeinum hætti og tvær mótmælendakirkjur hafa einnig samþykkt vígslu samkynhneigðra para, það er að segja Biskupakirkjan í Bandaríkjunum og sænska Þjóðkirkjan. Nú þegar þess er skammt að bíða að flóðbylgja lagasetninga um líknarmorð ríður yfir er hætt við að margar mótmælendakirkjur bregðist einnig í þessu mikilvæga máli. Þá er fátt eða ekkert eftir af boðskap kristindómsins um mannhelgi, ef þá nokkuð. Nú á næstunni mun ég fjalla um þetta efni í nokkrum greinum þar sem fjölmargt kristið fólk – og það ekki síður kaþólskt – gerir sér ógnina af getnaðarvörnunum ekki ljósa eða sá stóri þáttur sem þær eiga í hruni kristinna siðferðisgilda og íbúafjöldans á Vesturlöndum (JRJ).

Allar umræður um getnaðarvarnir ganga út frá því að hér sé einungis um einkamál einstaklingsins eða hjónanna að ræða. Engu að síður eru getnaðarvarnir og ófrjósemisaðgerðir stundaðar í miklum mæli í hinu iðnvædda samfélagi nútímans og þannig getum við gengið út frá því að þetta hefur áhrif á samfélagið í heild. Í reynd eru þessi áhrif víðtækari og djúpstæðari en ætla mætti í fyrstu.

ÁHRIFIN Á ÍBÚAFJÖLDANN

Í fyrsta lagi hefur þetta áhrif á fjölda þeirra barna sem fæðast. Við vitum að fyrr á tímum voru fjölskyldur stærri og átta, tíu eða tólf börn var ekki sjaldgæft. Í dag gerum við ráð fyrir að fjölskyldan eigi eitt, tvö eða í mesta lagi þrjú börn. Stórar fjölskyldur eru undantekning. Englendingurinn Andrew Pollard var beðinn um að framkvæma könnun fyrir ísframleiðanda. Þegar hann var beðinn um að áætla fjölda fólks á aldursbilinu 18 til 34 nokkur ár fram í tímann og hverjir væru líklegastir til að neyta gæðaíss fyrirtækisins, þá komst hann að þeirri niðurstöðu í ljósi fyrirliggjandi gagna, að þá væri líklegt að þeim myndi fækka um 20% í samburði við það þegar könnunin væri gerð.

Ástæðan: Áþreifanlegt hrun fæðingartíðninnar. Sumir kynnu að ætla að ástæðuna sem bjó þessu að baki mætti rekja til stóraukinna fósturdeyðinga í kjölfar ensku fósturdeyðingarlaganna árið 1967. En jafnvel ef þau 6 milljón barna sem myrt hafa verið með fósturdeyðingum í Bretlandi síðan þá hefði verið gefið líf, þá væri fæðingartíðnin engu að síður fyrir neðan endurnýjunarmörk. Pollard dróg þá ályktun að fæðingarhrunið mætti rekja til hinnar útbreiddu notkunar getnaðarvarna og lagði fram það sem hann nefnir JÁRNLÖGMÁL ÍBÚAFJÖLDANS. Sérhver þjóð þar sem stór meirihluti íbúanna styðst við virkar getnaðarvarnir og fósturdeyðingar mun deyja út.

En áhrif getnaðarvarnanna eru enn víðtækari. Þetta er ekki einungis spurning um tölfræði. Notkun getnaðarvarna verður þess valdandi að tilfinningin gagnvart því að kynlíf standi í einhverju sambandi við getnað barns fer dvínandi. Gengið er út frá því að þessi möguleiki sé útilokaður. Þegar verjurnar bregðast er líklegt að barnið sé aflífað með fósturdeyðingu. Þetta á einkum við þegar getnaðurinn á sér stað utan hjónabands þegar engar forsendur eru fyrir hendi til að ala barnið upp.

AFSTAÐAN TIL KYNLÍFSINS

Sú afstaða að kynlífið sé ekki samofið getnaði glæðir undir þann skilning að það sé afþreyingarkynlíf. Fyrst og fremst er litið á það sem nautnalíf. Þar sem ekkert getur gerst, það er að segja að ekkert barn verður getið, þá einskorðast kynlífið ekki við hjónabandið. Þetta leiðir til aukins lauslætis, framhjáhalds og vændis og að afskræma kynlífið með hómósexúalisma sem jafnvel er mælt með sem æskilegum vegna þess að hann er 100% ófrjósamur. Allt leiðir þetta til útbreiðslu kynsjúkdóma og þar á meðal EYÐNI.

GERVIFRJÓVGUN

Ef kynlíf án barna er hugsanlegt, geta börn einnig orðið til án kynlífs. Með því að aðskilja getnaðinn frá kynlífinu með getnaðarvörnum hefur leiðinni fyrir gervifrjóvganir verið lokið upp. Fyrsta skrefið fólst í gervifrjóvguninni og næstu skrefin komu svo skjótt í kjölfarið, það er að segja fósturvísaval (þar sem fósturvísarnir eru deyddir þegar gervifrjóvgunin ber meiri árangur en vænst var og móðirin ber mög börn samtímis); ígræðsla fósturvísa frá þriðja aðila, staðgengilsmóðurhlutverkið, tilraunir með umframfósturvísa eða þá framleiðslu á fósturvísum af yfirlögðu ráði, forgreining þeirra og klónanir.

Fósturdeyðingar og gervifrjóvganir leiða til fyrirlitningar á lífinu og opna leiðina til líknarmorða. Með notkun getnaðarvarna beita makarnir hvorn annan ofbeldi og taka að líta á hvorn annan sem hverja aðra afþreyingu. Ábyrgð hjónabandsins leiða iðulega til skilnaðar sem fyrir sitt leyti þýðir þjáningar fyrir börnin. Þjóðfélagið fer úr skorðum og ofbeldið verur ríkjandi. Óhefðbundið fjölskyldumunstur líkt og einstæðar og fráskildar konur með börn, fjölskyldur ásamt börnum sem eiga tvenna eða þrenna foreldra og sambönd samkynhneigðra ásamt börnum verður ásættanlegt ástand og grefur þannig undan hinni hefðbundnu fjölskyldu.

TRÚIN HVERFUR SJÓNUM

Eiginmaðurinn og eiginkonan líta ekki lengur á hvort annað af lotningu sem gjöf frá Guði sem falin eru hvort öðru til trausts og halds til lífstíðar, heldur eins og hverja aðra afþreyingu sem umgangast má eftir geðþótta. Ekki er lengur litið á börnin sem gjöf og blessun frá Guði, heldur sem hverja aðra hluti sem við höfum rétt á að tortíma. Gengið er út frá því sem vísu að framleiða megi börn, móta, hafna þeim, deyða, klóna og hanna samkvæmt pöntun. Skaparanum er hafnað og maðurinn hrifsar til sín það sæti sem Guði ber af hroka. Þetta er guðlast sem hrópar til himna og endar með einum hætti eða öðrum með hörmungum.

VEGURINN TIL FRAMTÍÐAR

Græðsla þjóðfélagsins krefst þess að afnema verður notkun getnaðarvarna og ófrjósemisaðgerða. Kaþólska kirkjan er einu aflið sem berst af einurð gegn getnaðarvörnum og því ætti það að vera forgangsmál hjá byskupum og prestum að hvetja til hreinlífis bæði utan og í hjónabandinu. Ef þessu er fylgt eftir af einurð mun það smám saman hafa áhrif á þjóðfélagið í heild. Hafa verður í huga þá staðreynd að getnaðarvörnum er haldið til streitu vegna fjárhagslegs ávinnings og af hugmyndafræðilegum forsendum.

Unnt er að hafa stjórn á getnaði með náttúrlegum aðferðum sem eru afar áreiðanlegar og fela ekki í sér ofannefnda ágalla, heldur glæða þær þvert á móti jákvæða afstöðu til barna, treysta stoðir hjónabandsins og slá vörð um trúna. Allt leggur þetta til grundvallar starfsemi samtaka okkar, Bandalagi kvænts fólks, að hvetja til hreinlífis í hjónabandinu með hjálp náttúrlegra fjölskylduáætlana. [1]

David Prentis vinnur að kynningu á náttúrlegum fjölskylduáætlunum í Tékklandi og þessi samantekt er erindi sem hann flutti á ráðstefnu um fjölskylduna og siðfræðina í Brno.

[1]. Ég vísa til greinar hér á kirkju.net um náttúrlegar fjölskylduáætlanir:

http://www.kirkju.net/index.php/jonrafn/2006/03/14/p271

 

4 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þetta er afar athyglisverð grein og erfitt í raun að óvirða þá fræðslu sem hún hefur að geyma, EF menn einungis fást til að lesa hana í gegn. – Hér er hulunni svipt af þeirri staðreynd, að þjóðfélög Vesturlanda eru á helvegi, ekki aðeins vegna fósturdeyðinga, heldur og takmörkunar barneigna með hverjum þeim ráðum sem fram eru boðin og ríkisvaldinu virðist – furðulegt nokk! – vera þókknanlegt. Fósturdeyðingar eru jafnvel kostaðar af ríkinu, og heilbrigðiskerfið er m.a.s. sett í það hlutverk að skipta sér af barneignum táningsstúlkna, og kostað er miklu til “kynskiptiaðgerða,” jafn ónáttúrlegar og þær mega heita. Veröld fláa sýnir sig, og kristna/kaþólska lausnin má sín lítils í heimi auglýsinga- og yfirborðsmennsku. Þeir trúuðu hafa þó fyrirheiti: þeirra börn geta uppfyllt jörðina, ekki afkvæmi hinna sem elska meira efnisleg gæði en að geta börn.

19.03.07 @ 19:37
Athugasemd from: David Prentis
David Prentis

I was intrigued to discover by accident (but is anything really by accident?) that you had translated my talk in Brno, Czech Republic into Icelandic. Apparently this is a Catholic web site.
How did you find my article? What are your interests? Is the sympto-thermal method of NFP known in Iceland?
I cannot take part in your discussion, not knowing Icelandic.
David Prentis

21.03.07 @ 10:19
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Svarað með persónulegu bréfi. En ef til vill er þetta upphafið að NFP (náttúrlegum fjölskylduáætlunum) á Íslandi?

Replied by a personal e-mail.

21.03.07 @ 11:02
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Síðustu tvær athugasemdir voru hreinsaðar út þar sem viðkomandi aðilar komu ekki fram undir fullu nafni og orðbragðið ekki sæmandi siðuðu fólki.

11.04.07 @ 21:41