« „Friðsæld í dalnum“ - ísl. söngtexti við þekkt lagÁtti Jesús bræður? »

09.04.10

  19:00:18, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 246 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Fyrrum Þrándheimsbiskup hætti vegna ákæru um barnaníð

RÚV greindi frá því í fyrradag að Georg Müller, fyrrverandi biskup kaþólsku kirkjunnar í Þrándheimi í Noregi hefði viðurkennt að hafa beitt dreng kynferðislegu ofbeldi. [1]. Fleiri upplýsingar um þetta mál má finna á vef kaþólsku kirkjunnar í Noregi [2] og á vef blaðsins adressa.no [3 og 4]. Samkvæmt adressa.no átti atvikið sér stað gagnvart kaþólskum dreng, altarisþjóni þegar Müller var prestur í Þrándheimi í byrjun 10. áratugarins.

Fórnarlambið er núna á fertugsaldri og kýs að njóta nafnleyndar. Hann gaf sig fram í febrúar í fyrra og greindi frá málsatvikum. Málið var undir forræði Stjórnardeildar trúarkenninga og var sendiherra Páfagarðs á Norðurlöndum með aðsetur í Svíþjóð falin rannsókn þess. Þegar gengið var á Müller játaði hann brot sitt. Í framhaldinu var Müller sviptur biskupsembætti og mun að því er kemur fram í fréttatilkynningu Bernt Eidsvig núverandi biskups í Þrándheimi ekki fá kirkjulegt embætti framar [5].

Það sætti furðu í Þrándheimi síðasta sumar er Müller biskup sagði skyndilega og óvænt af sér embætti. Ástæðan sem var gefin upp var samstarfsörðugleikar en núna hefur verið opinberað með fréttatilkynningu Eidsvig biskups dagsettri 6. apríl sl. hver hin raunverulega ástæða var. Málið er fyrnt samkvæmt norskum lögum og kirkjan greiddi fórnarlambinu skaðabætur.

Müller fyrrum Þrándheimsbiskup er Íslendingum ekki ókunnur því hann var þriðji meðlimur fastanefndar biskuparástefnu Norðurlandabiskupa sem m.a. fundaði í Reykjavík 9.–14. september 2005. Þá skrifaði hann ásamt öðrum Norðurlandabiskupum undir hirðisbréfið „Kærleikurinn til lífsins“ sem er hirðisbréf biskupa Norðurlanda um hjónabandið og fjölskylduna [6] sem kom út 15. september sama ár.

RGB/Heimildir:
[1] http://www.ruv.is/frett/fyrrverandi-biskup-jatar-barnanid
[2] http://www.katolsk.no/nyheter/2010/04/07-0001.htm
[3] http://www.adressa.no/nyheter/innenriks/article1466901.ece?index=20
[4] http://www.adressa.no/nyheter/innenriks/article1466954.ece
[5] http://www.katolsk.no/nyheter/2010/04/07-0006.htm
[6] http://www.catholica.is/lettice.html

3 athugasemdir

Athugasemd from: Gunnar Ingibergsson
Gunnar Ingibergsson

Já þetta er nú meiri viðbjóðurinn sem viðhefst innan veggja móður kirkjunnar eins og hún er kölluð. En málið er það að er vandinn ekki sá í því að prestar fái ekki að gifta sig eða eignast maka heldur en þurfa að sinna þessu starfi eins og skynlaus skepna og geta ekki sinnt frumþörfum mannsins á eðlilegann máta heldur en látta hann brjótast út á saklausum börnum.

11.05.10 @ 16:11
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Enginn er þvingaður til að gerast prestur Gunnar. Þeir sem ætla að gerast prestar taka þá ákvörðun á sínum forsendum. Hvenær sem er geta prestar óskað eftir því að hætta prestskap og það kemur stundum fyrir.

Það sem er að auki mjög alvarlegt í tilfelli Þrándheimsbiskups og annarra kirkjunnar manna sem verða uppvísir að þessum glæpum er að þeir skuli ekki leita sér hjálpar og draga sig í hlé frá starfi sínu þegar þeir finna að eitthvað er að þeim og áður en í óefni er komið. Það að þeir gera það ekki bendir til að forsendur ákvörðunar þeirra um að gerast prestar standist ekki skoðun. Þ.e. að baki búi einhverjar aðrar ástæður en þær að verja lífi sínu í þjónustu við kirkjuna og að breiða út boðskap Krists.

21.05.10 @ 16:57
Athugasemd from: Gunnar Ingibergsson
Gunnar Ingibergsson

Satt er það Ragnar og gott svar.

24.05.10 @ 13:56