« Benedikt XVI páfi rýmir til fyrir nýjum páfa í RómKlaustrin á Íslandi og jarðeignir þeirra »

20.01.13

Fróðlegt sjónvarpsviðtal um Skriðuklaustur og kaþólsk áhrif á Íslandi

 Í nýrri Kilju Egils Helgasonar, endursýndri í gær, átti hann mjög gott viðtal við dr. Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing, sem staðið hefur fyrir víðtækum uppgreftri rústa Skriðuklausturs á Austurlandi, fyrsta heildar-uppgreftri klausturs á Norðurlöndum. Vegna þess að klaustrinu og hjúkrunar-húsnæði þess var einfaldlega lokað með siðaskiptunum og ábúendur á jörðinni (oft sýslumenn) tóku sér búsetu í bæjarhúsunum þar, þá hefur húsaskipan þarna, þótt grotnað hafi niður, varðveitzt í óbreyttri mynd að öðru leyti en því, hvernig náttúran braut þetta niður.

Konungur lagði undir sig þessa klausturjörð eins og allar aðrar, ...

gerði þær upptækar og lét tekjur af þeim renna í sinn eigin vasa, en skipaði klausturhaldara (veraldlega) til innheimtu teknanna, þ.m.t. af útjörðum og hjáleigum þeirra. Skriðuklaustur var hið langyngsta af 11 klaustrum á Íslandi í kaþólskri tíð, stofnað 1493 og var aflagt 1552. Það átti um 37 jarðir og tvær hjáleigur við siðaskiptin.*

Ekki var Skriðuklaustur sett á fót til að skapa þar þægindaaðstöðu né forréttinda, heldur til helgiþjónustu og góðra verka. Þar var haldið uppi mikilli líknarþjónustu við sjúklinga, fatlaða menn, aldurhnigna og lasburða. Uppgröftur á kirkjugarði klaustursins hefur leitt í ljós, að meðal sjúklinga þar má greina alla helztu sjúkdóma sem herjuðu á Evrópumenn á ofanverðum miðöldum. Hafa ýtarlegar rannsóknir farið fram á beinum hinna látnu og margt mjög athyglisvert komið í ljós. Er gerð skýr grein fyrir þeim rannsóknum í hverju einstaklingstilfelli í sýningarsal í Gunnarshúsi á Skriðuklaustri, í hinu fræga og mikla húsi Gunnars Gunnarssonar rithöfundar.

Í viðtalinu við Steinunni var gengið þarna um garða og um sýningarsalinn og brugðið upp mjög áhugaverðum myndum ekki einasta af klaustrinu, kirkju þess og spítalanum, heldur og af almennum áhrifum kaþólskrar trúar á þessa starfsemi alla og á viðhorfin gagnvart meðferð brotamanna hér á landi. Sjálf tilurð klaustursins, gjöf jarðarinnar Skriðu í Fljótsdal til munklífis, kom til sem viðleitni auðugrar konu til að bæta fyrir að hafa gengið í hjónaband sem fjórmenningsmeinbugir voru á skv. lögum kirkjunnar. 

Trúin í kaþólsku á hreinsunarástand (lat. purgatorium, sem oft er nefnt hreinsunareldurinn) eftir dauðann varð áhrifarík um viðhorf manna til refsinga að sögn Steinunnar. Margir líta nú á þessa trú sem neikvæða, en hún hafði einmitt þau áhrif, eins og Steinunn benti á, að draga úr áherzlu manna á harðar refsingar í þessu lífi. Skipti þar sköpum á verri veg, þegar lútherskan kom til. Ekki voru liðin heil 13 ár frá lokasigri siðskiptamanna hér á landi með aftöku Jóns biskups Arasonar og sona hans þegar Stóridómur var samþykktur á Alþingi 1563 að undirlagi guðfræðinga í Kaupmannahöfn og konungsvaldsins. Átti hann eftir að gilda hér í 275 ár sem lög okkar í kynferðismálum, nánar tiltekið um sifjaspell, hórdóm og frillulífi, allt þar til hann var hreinsaður úr íslenzkum rétti árið 1838.**

Með Stóradómi hófust dauðadómar í stórum stíl um kynferðismál, þótt hægt hafi farið framan af: tvær persónur voru dæmdar til dauða í þessum sökum á Alþingi 1563–95 (þ.e. 1573, í sama málinu). En á 17. öld er refsigleðin komin í algleyming, t.d. greina Alþingisbækur og annálar frá 18 líflátum fyrir þessi brot á Alþingi á einum saman árunum 1641–1650, þar af níu fyrir skírlífisbrot, átta fyrir sifjaspell og einu fyrir hórdóm.*** Þessir dauðadómar voru, eins og Steinunn ræddi um í viðtalinu, stórfelld breyting frá kaþólskri tíð.

Þetta, m.a., höfðu Íslendingar upp úr siðaskiptunum, en jafnframt, að sjúkraþjónusta klaustranna lagðist af með öllu, eins og dr. Steinunn talaði líka um í þessu afar fróðlega viðtali.****

Ora et labora: biðstu fyrir og vinn þitt verk, þetta var boðorð margra munka á miðöldum, og það var svo sannarlega sýnt í verki á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Eru menn hvattir til að sækja staðinn heim til að kynnast þessu betur af eigin raun, og jafnframt má benda hér á þessi ritverk:

  • Hrafnkell Lárusson og Steinunn Kristjánsdóttir (ritstj.): Skriðuklaustur – evrópskt miðaldaklaustur í Fljótsdal. Rit Gunnarsstofnunar I, 2008.
  • Steinunn J. Kristjánsdóttir: Sagan af klaustrinu á Skriðu, Reykjavík: Sögufélag, 2012.

Tengill inn á Kiljuviðtalið verður settur hér inn, þegar hann finnst á Rúv-vefnum! Myndin, sem hér fylgir, er af Steinunni á Skriðuklaustri, en sjálf er hún ættuð frá Breiðalæk á Barðaströnd. HÉR er ritskrá hennar, sem ber iðjusemi hennar, rannsóknarstarfsemi og afköstum ljóst vitni, og hér hennar háskólavefsíða.

* Heimir Steinsson, „Jarðir Skriðuklausturs og efnahagur“. Múlaþing. Rit Sögufélags Austurlands. 1. hefti. (1966), bls. 74-103. 

** Sbr. Davíð Þór Björgvinsson: 'Stóridómur', í Lúther og íslenskt þjóðlíf, Rvík, Hið íslenska Lúthersfélag, 1989, bls. 119–140. Sbr. einnig hér: Af refsingum fyrr og síðar.

*** Sama rit, bls. 133; nánar í ritgerð eftir Þorgeir Kjartansson: 'Stóridómur. Nokkur orð um siðferðishugsjónir Páls Stígssonar', í Sögnum 1982, s. 2–12.

**** Holdsveikraspítalar í smáum stíl (eða öllu heldur athvarfsstaðir fyrir holdsveika) voru þó haldnir á Möðrufelli í Eyjafirði (elztur, stofnaður 1653), í Kaldaðarnesi, á Klausturhólum í Grímsnesi, Hörgslandi á Síðu og Hallbjarnareyri á Snæfellsnesi.

6 athugasemdir

Athugasemd from: Dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson  
Dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson

Sæll Jón Valur,

nú tókst Jesúítum og Rannsóknarréttinum ekki að koma undir sig fótunum á Norðurlöndunum. Ef það hefði gerst, hefði Stóridómur auðvitað orðið svipur hjá sjón.

Sjúka menn í klaustrum á Íslandi höfum við færri heimildir um en um svallveislur munka og saurlífi. Ég gæti nefnt nokkra góða íslendinga sem komnir eru í beinan og stífan karllegg af munkum sem stunduðu sællífi og svall meðan fátæklingar dóu drottni sínum og fengu enga hjálp.

Hinar margfrægu ínúítakonur, fólk með fílamannseinkenni og annað hrjáð fólk höfum við heyrt að að hafi fengið aðhlynningu á Skriðuklaustri. Aðeins of mikið hefur verið gert út úr hlutunum.

En manngæska og meðkennd hurfu ekki með kaþólskunni, Jón Valur. Grasakonur og vísir menn, bartskerar og aðrir hjálpuðu fólki í neyð, skáru á kýli og tóku blóð. Á Íslandi var áfram til gott fólk eftir siðbót. Það var m.a. vegna trúarinnar. Menn þurftu ekki lengur að óttast helvíti og vítisloga eins mikið og þeir höfðu gert fyrir siðbót.

Ég er þó ekki með þessu að hallmæla kaþólsku eða lúthersku. En ég veit margt betra!

20.01.13 @ 18:53
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir fróðlegan pistil Jón!

20.01.13 @ 19:22
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér, Ragnar.

Rannsóknarrétturinn spænski var allt annars eðlis en sá, sem starfaði í Róm á 13. öld. Sá spænski laut krúnunni um stefnu sína, ekki páfa, og vandamálin á Spáni voru gerólík kristnu lífi á Norðurlöndum.

Ertu nokkuð sérfróður um Rannsóknarréttinn, Vilhjálmur minn? Ég legg aths. mína hér inn aðeins til bráðabirgða, en hef ekki tíma né aðstöðu nú til langra svara. Mér þykir þú hins vegar einkar vanþakklátur gagnvart því þjónustuhlutverki sem skipti veika menn og lasburða, sem og konur sem misstu börn sín, miklu máli. Ég veit ekki hvaða réttlætisvog það er hjá þér, sem lætur fyllirí og óskírlífi í klaustri norðan lands á vissu hnignunartímaskeiði – og kannski í fleiri en einu – vega þyngra á metaskálunum en líknarverkin sannanlegu.

Það er ekki allt til á pappírum, og þú sem fornleifafræðingur ættir að kunna að meta uppgötvanir Steinunnar og hennar liðs.

Svo er nánast eins og þú gerir grín að sjúkdómunum sem þarna komu í ljós við rannsóknir á beinum fólksins.

Ég hef aldrei haldið því fram, að manngæzka og meðkennd hafi “h[orfið] með kaþólskunni,” en þessi heilsugæzla gerði það, nema hvað (allt of fáir) bartskerar og lækningamenn og yfirsetukonur skiptu áfram miklu máli fyrir heilsufar landsmanna.

Þú ritar: “Á Íslandi var áfram til gott fólk eftir siðbót. Það var m.a. vegna trúarinnar. Menn þurftu ekki lengur að óttast helvíti og vítisloga eins mikið og þeir höfðu gert fyrir siðbót.”

Þetta er guðfræðilega rangt hjá þér. Menn þurftu einmitt áfram að óttast helvíti og vítisloga, því að það er órofa partur af upprunalegri lúthersku, sama hvað fráfallnir prestar nútímans kunna að boða í sínum afvegaleiddu bjartsýnisfræðum.

Og vertu nú blessaður í bili og ævinlega, vinur.

22.01.13 @ 23:09
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

nú tókst Jesúítum og Rannsóknarréttinum ekki að koma undir sig fótunum á Norðurlöndunum. Ef það hefði gerst, hefði Stóridómur auðvitað orðið svipur hjá sjón.

Þetta sjónarhorn þitt dr. Vilhjálmur á Jesúítaregluna er fyrir mér óvænt og sérstakt, þ.e. að telja að Stóridómur hefði bliknað hefði hún náð festu á Norðurlöndum.

Mitt sjónarhorn á hana hefur fyrst og fremst verið á tillegg hennar til mennta- og skólamála, praktískra lausna og lærdóms, sem og endurbóta innan Kaþólsku kirkjunnar. Nálgun Ignatiusar að guðfræðinni og andlegum málefnum er líka stórmerkileg, það litla sem ég hef lesið.

Hefur mér yfirsést eitthvað hvað þetta varðar?

23.01.13 @ 06:14
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Jesúítareglan var ekki stofnuð fyrr en 1534 og samþykkt af Páli III páfa árið 1540, og ekki finnast mörg tengsl hennar við Rannsóknarréttinn, þannig að til hvers varstu þá að nefna hana til sögunnar, doktor Vilhjálmur?

Dominikanareglan tengdist hins vegar hinum kaþólska Rannsóknarrétti í Róm og víðar. Ekki hygg ég svartmunkana (dominikana) hafa verið fjarri anda fagnaðarerindisins, enda voru báðar betlimunkareglurnar, þeirra og Franziskanareglan, til orðnar á því skeiði kirkjusögunnar, sem kennt er við evangelíska endurnýjun (e. evangelical revival). Þó er það einmitt ein undantekningin í biskuparöð okkar íslenzkra kaþólikka, Jón Halldórsson (d. 1339), sem sagður er hafa staðið fyrir einu galdrabrennunni í kaþólskri tíð á Íslandi, og svo vill til, að sá hálærði maður var svartmunkur, menntaður í guðfræði í París og í kirkjurétti í Bologna. Jón sá er yfirleitt talinn norskfæddur. En galdrabrenna var þetta sennilega ekki, heldur er talið, að systur tvær (nunnur) – eða ein – í Kirkjubæ á Síðu hafi selt sál sína djöflinum og fengið þennan dóm hans fyrir. Nánar um þetta í bókinni Allt hafði annan róm áður í páfadóm, sem er mér ekki í hendi núna.

Ég er ekkert að reyna að fela óskemmtilega hluti úr kaþólskri tíð á Íslandi, en fram hjá hinu verður ekki gengið, að í íslenzkri sögu tilheyra orð eins og Drekkingarhylur, Stóridómur og galdrabrennuöld lútherskri tíð, ekki kaþólskri.

23.01.13 @ 08:40
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Saga og áhrif Jesúítareglunnar eru reyndar töluverð hér á landi ef betur er að gáð. Jón Sveinsson (Nonni) var t.d. Jesúíti og hann kom hingað til lands 1894 að líkindum til að kanna endurreisn kaþólska trúboðsins.

Árið 1896 beitir sr. Jón sér fyrir fjársöfnun erlendis til að byggja holdsveikraspítala hér. Söfnunarfé Nonna er svo síðar notað til byggingar Landakotsspítala og dugir fyrir nær helmingi stofnkostnaðar.

Árið 1896 koma svo fyrstu St. Jósefssysturnar til Íslands. Það eru ekki allir sem gera sér grein fyrir því að St. Jósefsreglan er afsprengi Jesúítareglunnar því stofnandi hennar var Jesúítinn Jean Paul Médaille sem lesa má um hér:

Um sögu St. Jósefsreglunnar á Íslandi þarf svo varla að fjölyrða en ég læt nægja að taka fram að reglusystur hófu starfsemi við hjúkrun og kennslu strax árið 1896. Þær komu á fót sjúkraskýlum á Fáskrúðsfirði og í Reykjavík (1897) og síðar sjúkrahúsum í Reykjavík (1902) og Hafnarfirði (1926) sem kennd voru við hl. Jósef. Systurnar byggðu Landakotsskóla 1909 og barnaskóla í Hafnarfirði 1938.

Systurnar létu einnig byggja Holtsbúð 87 í Garðabæ sem enn er í eigu Kaþólsku kirkjunnar og þar sem núna er rekið heimili fyrir aldraða og lesa má um hér:

Einnig ber að geta Jesúítans dr. Alfreðs Jolsons sem hingað kom og var vígður biskup kaþólskra í Landakotskirkju í fyrstu kaþólsku biskupsvígslu sem farið hefur fram hérlendis en það var 6. febrúar 1988.

Það má því segja að ef vel er að gáð að áhrif Jesúítareglunnar séu all nokkur hér á landi og ættu þessi dæmi að nægja. En þau eru fengin úr ritinu “Kaþólskur annáll Íslands” sem Ólafur H. Torfason tók saman og gefið var út sem handrit af Þorlákssjóði 1993 auk heimildanna á netinu.

31.01.13 @ 19:36
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

powered by b2evolution