« Aðventan er tími bæna til þess að undirbúa jólin33C - Að leita að hinum sönnu verðmætum »

30.11.10

  18:41:24, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 654 orð  
Flokkur: Lífsvernd

Frjósemi hjónabandsins

ÚR TKK 2366-2372

2366. Frjósemi er gjöf, markmið hjónabandsins, því hjúskaparkærleikur er í eðli sínu frjósamur. Barnið kemur ekki utan frá eins og einhver viðbót við gagnkvæman kærleika makanna, heldur sprettur það úr sjálfu hjarta þessarar gagnkvæmu gjafar, sem ávöxtur þess og uppfylling. Því kennir kirkjan, sem "stendur með lífinu," [151] að "hvergi megi hindra náttúrulegan eiginleika til getnaðar í neinum athöfnum hjónabandsins." [152] "Þessi tiltekna kenning, sem kennsluvald kirkjunnar iðulega gerir ljósa, er byggð á þeirri órjúfanlegu samtengingu sem er milli
mikilvægis samlífs og mikilvægis getnaðar en hvort tveggja er
eðlislægur hluti hjónabandsins. Þessa órjúfanlegu samtengingu sem Guð hefur komið á, má maðurinn ekki rjúfa af eigin frumkvæði." [153]

2367. Með köllun sinni að gefa líf eiga makarnir hlutdeild í sköpunarmætti og faðerni Guðs. [154] "Hjón eiga að líta á það sem sitt eiginlega hlutverk að mynda mannlegt líf og uppfræða börn sín. Þau eiga að vita að með því eiga þau samvinnu við kærleika Guðs skaparans og eru að vissu leyti túlkendur hans. Þessa skyldu eiga þau að uppfylla af mannlegri og kristinni ábyrgðartilfinningu." [155]

2368. Sérstakur þáttur þessarar ábyrgðar varðar stjórnun getnaðar.
Sanngjarnar ástæður geta valdið því að makarnir vilji ákvarða lengd milli fæðinga barna sinna. Það er skylda þeirra að sjá til þess að ósk þeirra stafi ekki af eigingirni heldur að hún samræmist því örlyndi sem hæfir ábyrgu foreldrahlutverki. Ennfremur eiga þeir að samræma breytni sína hlutlægum mælikvarða siðferðis: Þegar það er spurning um að samræma kærleika hjónabandsins og ábyrga myndun lífs, ræðst siðferði þess sem gert er ekki einungis af einlægum ásetningi og mati á hvötum, heldur verður það að ákvarðast af hlutlægum undirstöðureglum; undirstöðureglum sem taka mið af eðli og atferli
persónunnar og virða fulla merkingu gagnkvæmrar sjálfsgjafar og mannlegs getnaðar í tengslum við sanna ást. Þetta er einungis mögulegt ef hreinlífisdyggð hjónabandsins er ástunduð af einlægu hjarta. [156]

2369. "Ef hlúð er að þessum ómissandi þáttum, samlífi og getnaði, mun hjónalífið að fullu viðhalda gagnkvæmum kærleika sínum og njóta þeirrar blessunar að öðlast þá miklu ábyrgð sem maðurinn er kallaður til og felst í foreldrahlutverkinu." [157]

2370. Reglubundin sjálfsstjórn, það er, að hafa stjórn á fæðingum með því að fylgjast með og nota ófrjó tímabil, er í samræmi við undirstöðureglur siðferðis. [158] Slík aðferð virðir líkama makanna, hvetur til ástúðar milli þeirra og styrkir þroskann til sanns frelsis.
Aftur á móti er "hver sú aðgerð, sem hefur það að markmiði, eða er leið að því, að hindra getnað fyrir hjúskaparfar, meðan á því stendur eða eftir að þróun náttúrulegrar afleiðingar þess er hafin," í eðli
sínu syndsamleg:159 Með getnaðarvörnum er þannig breitt yfir hið náttúrulega tungumál, sem tjáir fulla og gagnkvæma sjálfsgjöf eiginmanns og eiginkonu, með gagnstæðu tungumáli, það er að segja, með því að gefa sig ekki hvort öðru að fullu og öllu leyti. Þetta leiðir
ekki einungis til afdráttarlausrar höfnunar á því að vera opin fyrir lífi heldur einnig til fölsunar á innri sannleika hjúskaparkærleikans sem ætlað er að vera heildargjöf persónunnar.… Munurinn, bæði mannfræðilegur og siðferðilegur, á því að nota getnaðarvarnir og að nýta sér tíðahringinn… leiðir af sér í endanlegri greiningu tvö ósamrýmanleg hugtök um mannlega persónu og mannlegt kynferðislíf.
[160]

2371. "Megi öllum verða það ljóst að mannlegt líf og skyldan til að mynda það takmarkast ekki einungis við þetta líf: Sannarlegt gildi þess og full merking er einungis hægt að skilja með tilvísun til eilífs hlutskiptis mannsins." [161]

2372. Ríkið ber ábyrgð á velferð borgaranna. Innan þeirra marka er
lögmætt fyrir það að grípa inn í til að hafa áhrif á mannfjöldaþróun.
Það má gera með hlutlægum og tilhlýðilegum upplýsingum en vissulega
ekki með valdboði eða með því að beita þvingunum. Ríkið getur ekki með
lögmætum hætti tekið til sín frumkvæði makanna, því þeir bera frumábyrgð á getnaði og uppfræðslu barna sinna. [162] Á þessu sviði er ekki leyfilegt að leita leiða sem stríða á móti siðalögmálinu.

------------
151 FC 30.
152 HV 11.
153 HV 12; sbr. Píus XI, heimsbréfið Casti connubii.
154 Sbr. Ef 3:14; Mt 23:9.
155 GS 50 § 2.
156 GS 51 § 3.
157 HV 12.
158 Sbr. HV 16.
159 HV 14.
160 FC 32.
161 GS 51 § 4.
162 Sbr. HV 23; PP 37.
-------------

Hérna er að finna Tkk. http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/index.html

No feedback yet