« Helgaðu sókn þína hinu heilaga og Flekklausa Hjarta Maríu Guðspjall dagsins í rafpósti »

27.12.06

  13:56:32, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 385 orð  
Flokkur: Kraftaverk, Kraftaverk tengd Guðsmóðurinni

Frásögnin af blessuðum Joskíusi


Þann 30. nóvember 1186 á hátíð heilags Andrésar komu munkarnir í Délos saman til morguntíðanna. Í flöktandi kertaljósunum gekk ábótinn um kórinn til að ganga úr skugga um, að allir væru á sínum stað. Að eftirlitsferðinni lokinni og rétt í þann veginn sem hann ætlaði að gefa merkið um að tíðagjörðin hæfist, tók hann eftir auðu sæti á kórbekkjunum.

„Hvar er bróðir Joskíus?“ spurði hann. Undrunarhróp heyrðust og hvískur fór um kórinn, en engin gat svarað spurningu ábótans. „Eitthvað alvarlegt hefur borið að höndum. Það er best að ég fari sjálfur til að kanna málið.“ Og hann hvarf úr kórnum í fylgd nýnema.

Í reynd var Joskíus kunnur fyrir dyggðir sínar, guðrækni og samviskusemi í að uppfylla skyldur sínar. Að nokkrum mínútum liðnum snéri ábótinn til baka og ásjóna hans var tekin og föl og hann sagði: „Bræður! Okkur hefur verið auðsýnd mikill heiður. Bróðir Joskíus er á himnum. Komið og sjáið það undraverða kraftaverk sem gerst hefur með líkama hans.“

Munkarnir hlupu á eftir ábótanum og gengu inn í klefann með honum og hversu furðuleg var ekki sú sýn sem blasti við sjónum þeirra. Joskíus kraup dáinn á strámottunni sinni umvafinn svartri skikkju sinni og hendurnar samanklemmdar í bæn og ásjóna hans beindist til himins. Sjá mátti tvær blómgaðar silfurrósir í augum hans, aðrar tvær í eyrunum og þá fimmtu í munni hans og nafn „Maríu“ ritað á allar blómkrónurnar.

Henri de Sully erkibyskup var furðu lostinn sökum þessa undurs og íklæddur embættiskápu sinni í fylgd presta sinna hugðist hann taka eina kraftaverkarósina af líkamanum. En hver rósanna af annarri fölnaði þegar hún var fjarlægð, nema sú sem blómstraði í munninum. Þessi síðasta rós hélt ferskleika sínum og lit í langan tíma á helgiskríninu þar sem hún var látin standa ásamt hvítu rósunum.

Samkvæmt franskri frásögn J. Veillat – © The MARY OF NAZARETH Project.

No feedback yet