« Látinn sóknarprestur borinn þungum sökumFrásagnir af alvarlegu kynferðisofbeldi - nauðsynlegt að kirkjan bregðist við »

20.06.11

  07:59:40, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 164 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Frásagnir af skírlífisbrotum kaþólsks prests og einelti

Í DV í dag er greint frá því að heimildir séu um að séra Águst George fyrrum skólastjóri Landakotsskóla og Margrét Müller starfsmaður við skólann hafi átt í ástarsambandi:

Samkvæmt heimildum blaðsins voru þau elskendur en Margrét bjó í turni Landakotsskóla frá því hún byrjaði að kenna þar og allt til 1.september árið 2008. Þá svipti hún sig lífi með því að henda sér út um glugga á turninum snemma morguns, rétt áður en börn komu til skóla. [1]

Einnig eru frásagnir af alvarlegu einelti sem hafi viðgengist yfir lengri tíma við skólann:

Andlega ofbeldið viðgekkst í skólanum, samkvæmt viðmælendum DV, og nemendurnir tala um að margir hafi vitað af því en ekkert hafi verið að gert. „Hún niðurlægði oft nemendur fyrir framan alla. Ákveðna einstaklinga. Oft þá sem áttu erfitt uppdráttar. Allir vissu hvernig hún var en enginn gerði neitt,“[1]

Þessar frásagnir koma fram stuttu eftir að fram komu heimildir um alvarlegt kynferðisofbeldi af hálfu parsins eins og bloggað var um hér fyrir helgi.

[1] http://www.dv.is/frettir/2011/6/20/allir-vissu-hvernig-hun-var-en-enginn-gerdi-neitt/

5 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Hér er önnur frásögn úr DV sem bættist við í dag:

http://www.dv.is/frettir/2011/6/20/henti-ser-ur-turni-landakotsskola/

20.06.11 @ 19:51
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það þarf að fjalla betur um þessi mál, Ragnar, leita fleiri vitnisburða þeirra sem gengið hafa í skólann; ég hitti t.d. tvo í dag, sem voru þar, annar 6 vetur (og ekki kaþólskur), hinn kaþólskur og var þar frá 7 ára aldri, báðir sömuleiðis í Riftúni. Báðir töldu umræðuna um hörkuna í kennslunni gera meira úr henni en í raun hefði átt sér stað, þótt þar hefði vissulega ríkt allmikill agi. Hvorugur þeirra varð var við neitt kynferðislegt áreiti, hvað þá meira, þótt það þurfi auðvitað ekki að sanna neitt. Annar þeirra (Páll) hafði eindregin orð um að hann tryði ekki áburðinum um hrikalega kynferðislega barnaáníðslu upp á séra Georg og Margréti.

Elzta dóttir mín var þarna einn vetur, við foreldrarnir fórum að ósk hennar um að hætta, þar sem Margrét Müller lagði hana í nánast “jákvætt einelti” með því að segja hana svo frábæra í hannyrðum, að hún yrði að sitja eftir við þær, en dóttir mín missti þá allan áhuga á hannyrðum! Hún kvartaði einnig yfir strangleika Margrétar.

Með fullri virðingu fyrir blaðamönnum verður að vanda val á fjölmiðlum sem hér er vísað á, a.m.k. ekki gefa sér, að allt standi þar eins og stafur á bók. Yfirlýsing Péturs biskups verðskuldar líka að birtast hér í heild.

Rangt er það, sem sumir telja, að kirkjan hafi á einhvern hátt falið málið. Biskupinn hvatti ásakendur til að fara með það til yfirvaldanna. Þeir hefðu reyndar mátt vera búnir að koma því í verk að kæra miklu fyrr.

21.06.11 @ 23:04
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þessi yfirlýsing herra Péturs biskups Bürcher var reyndar komin hér á næstu vefslóð á undan, það er gott að geta vísað til hennar, HÉR!

21.06.11 @ 23:31
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Sæll Jón, takk fyrir innlitið og athugasemdirnar.

Það er ekki hægt að líta framhjá eða leiða þessi mál hjá sér og það á ekki að gera það heldur.

Það mál að fólk álítur að þau hafi átt í ástarsambandi eitt og sér er mjög alvarlegt fyrir kirkjuna, jafnvel þó að það kæmi á daginn að ekki væri flugufótur fyrir sögunum sem er líklega útilokað að leiða í ljós úr þessu. Vitnisburður mannsins sem segist hafa verið beittur kynferðisofbeldinu af þeim er mjög alvarlegt mál og styður þessar sögur. Við verðum að athuga að þetta gerðist ekki allt í einu heldur erum við að tala um aðstæður sem voru óbreyttar svo áratugum skipti.

Þetta þarf að ræða og skoða og það hefði þurft að taka aðstæður Georgs og Margrétar til skoðunar fyrr innan kirkjunnar og án utanaðkomandi þrýstings eða forsendna.

Varðandi yfirlýsingu Péturs biskups þá var hún komin á vef kirkjunnar á mánudagskvöldið (20.6.). Þá strax afritaði ég hana og birti á vefslóðinni sem þú vísar á. Á þeim þræði er fjallað um ásakanir um kynferðisbrot. Hér er fjallað um meint ástarsamband og einelti í skóla.

22.06.11 @ 06:02
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér, Ragnar. Ég var reyndar alls ekki að amast við því, að skrifað væri um málið á Kirkju.net, því að það er nauðsyn, en taldi óvarlegt að byggja mest (þ.e. í fyrstu pistlunum) á skrifum blaðanna fyrir helgina. Þar sem ég vissi af yfirlýsingu biskups (frá 17. júní) um helgina (hún var lesin upp eftir hámessu á sunnudagsmorgun, 19. þ.m.), var ég einnig orðinn langeygur eftir að sjá hana, þegar hún var ekki komin hér síðdegis í fyrradag. Leitaði ég hennar reyndar sjálfur á vefjum (hefði þá afritað hana til birtingar hér), en fann ekki, fyrr en þú hafðir sett hana inn hér.

Yfirlýsing biskups virðist mér traust og trúverðug, og það sama get ég sagt um bréf lögfræðings kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, Friðjóns Arnar Friðjónssonar hrl., dags. 21. þ.m.

22.06.11 @ 18:42