« Nýtt biskupsefni kaþólskraPáfinn í Sarajevo »

27.06.15

Franskir sjómenn, franska kirkjan ... spítalar á Íslandi og sjálf kaþólska kirkjan og viðgangur hennar hér

Mjög athyglisverður var Skáldatími, þáttur Péturs Gunnarssonar rithöfundar, á Rás 1 í kvöld. Afar fróðlegur var hann um fiskveiðar Frakka í norðurhöfum og hvernig hinum mikla fjölda sjómanna þeirra hér við land var nauðsyn á tvenns konar liðsinni í landi: læknis- eða sjúkrahúsþjónustu og prestsþjón­ustu, fyrir utan aðstoð björgunarsveita bænda og annarra við Suðurlandið þegar skútur þeirra strönduðu og þeir komust nauðuglega af.

Pétur fjallar framan af um skrif tveggja rithöfunda um mál Franzmanna hér við land, Þórbergs Þórðarsonar og Halldórs Laxness, en síðan um erfiðar lífsaðstæður sjómannanna um borð og byggir þar ekki sízt á franskri skáldsögu, mjög vinsælli á 19. öld, Pecheur d'Islande, eftir Pierre Lothi. Vincent van Gogh og Paul Gaugain þekktu þá skáldsögu, og van Gogh hafði áhuga á að gera myndefni eftir sögunni ...

En frásögninni víkur svo tveimur prestum frönskum sem hingað komu til að þjónusta skútusjómennina og til trúboðs, sem raunar var þá ólöglegt, en Ísland varð síðast Norðurlandanna til að löggilda trúfrelsi  (með stjórnarskrá 1874). Þessir menn voru séra Baudoin og Djunkovski, og þeim að þakka voru kaupin á jörðinni Landakoti í vesturjaðri  Reykjavíkur. Framhaldinu er öllu  lýst í þættinum,  sem er hægt að hlusta  á hér: http://ruv.is/sarpurinn/ras-1/skaldatimi/20150627

Eftir 20 ára hlé á veru kaþólskra presta hér var trúboð þeirra endurnýjað, og ótrúlega hröð verður svo atburðarásin hvað snertir uppbyggingu franskra manna á spítölum hér, m.a. með stofnun slíkra 1902 í Reykjavík, 1904 á Fáskrúðsfirði og 1905 í Vestmannaeyjum, og er þá ekki allt upp talið.

"Franski spítalinn (Lindargata 51) var byggður árið 1903 á Eyjólfsstaðabletti í Reykjavík.  ... Húsið var leigt borginni árið 1920, þegar veiðar Frakka við landið voru að mestu úr sögunni.  Spítalarekstri var hætt 1927.  Þá eignaðist borgin húsið og þar var m.a. mötuneyti fyrir atvinnulausa í kreppunni og barnaheimili.  Gagnfræðaskóli séra Ingimars Jónssonar var rekin í húsinu á árunum 1935-75."  Á seinni árum hefur Tónmenntaskóli Reykjavíkur verið í húsinu. [1]

Menn eru hvattir til að hlusta hér á þennan fjörlega þátt, og ekki spillir frönsk tónlistin fyrir, eftir sjálfan Rameau.

Pétur studdist í erindi sínu einkum við þrjár bækur:  Fransí biskví, eftir Elínu Pálmadóttur blaðamann,  sem  nýlega var sæmd  orðu  frönsku Heiðursfylk­ingarinnar, einnig bókina St Jósefssystur á Íslandi eftir Ólaf H. Torfason og Kaþólskt trúboð á Íslandi eftir Gunnar F. Guðmundsson, cand. mag. (höfund bókarinnar miklu  um Nonna).

[1] http://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_reykjavik_meira.htm

1 athugasemd

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Heill og sæll Jón. Takk fyrir fróðlegan pistil og bestu kveðjur.

28.06.15 @ 07:32
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blog software