« Breskir múslimar fordæma hryðjuverkaárásirPílagrímsferðir og suðurgöngur »

23.06.05

  19:22:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1669 orð  
Flokkur: Dulhyggja, Vitranir, Opinberanir, Meðugorje, Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Frá Meðugorje og Króatíu

Frétt þessi birtist í Kaþólska kirkjublaðinu í febrúar 1992.

Sagt er að þeir fyrirburðir hafi orðið í smáþorpinu Meðugorje (framburður: Medsjugorje) sunnarlega í Bosniu-Herzegovinu (áður Júgóslavíu) að María mey hafi birst nokkrum ungmennum reglulega þar síðan að kvöldi 24. júní 1981. Margar bækur hafa verið skrifaðar um vitranir þessar . Margir eru sannfærðir um að vitranirnar í Meðugorje séu af hinu góða, sérstaklega vegna þess mikla fjölda fólks og ungmenna sem leggur leið sína þangað og finnur við það aukinn trúarstyrk.
Kaþólska kirkjan hefur enga formlega afstöðu tekið til Meðugorje, en rannsókn fyrirbæranna er í gangi enda er það regla kirkjunnar að taka ekki afstöðu fyrr en slíkum fyrirburðum lýkur og þá að lokinni ítarlegri rannsókn.

Fjölmörgum vitrunum hefur kirkjan hafnað, en um aðrar t.d. vitranirnar í Lourdes, Fatíma og víðar hefur kirkjan gefið út þá yfirlýsingu að í frásögnum og fyrirburðum tengdum þeim sé ekkert sem gangi móti kaþólskri trú og því geti einstaklingar sótt innblástur til þeirra sér til trúareflingar. Það er einkamál hvort menn trúa því sem þar kemur fram eða ekki og vitranir geta ekki orðið hluti af trúnni sem kaþólskir játa til að öðlast sáluhjálp.

Frá Meðugorje og Króatíu
Í Meðugorje eru nú fáir pílagrímar vegna stríðsins. (Meðugorje er u.þ.b. miðja vegu milli Dubrovnik og Mostar.) Eyðileggingin vegna þess er mikil og hafa króatískir biskupar metið það svo að í nóvember hafi um 500 þús. manns verið á flótta 100 þús. heimili eyðilögð 10 þús. fallnir og 20 þús. særðir. 270 kirkjur eyðilagðar, þar af 12 frá Rétttrúnaðarkirkjunni. Í Dubrovnik einni saman voru eyðilagðar 30 kirkjur og 10-15 klaustur. Í ágúst eða september komu 7 sovésk skip með vopn sem send voru til Belgrað.
21. september var serbneskur og svartfellskur herflokkur á leið til árása á Adríahafsborgina Split stöðvaður af almenningi og staðaryfirvöldum við Mostar með vega- og brúartálmum og jarðsprengjum. Því var fjöldi manns á svæði vestan við Neretva tekinn í gíslingu, sumir skotnir og stórskotalið Serba flutt með flugvélum og fallhlífum á hæðirnar tvær milli Mostar og Ljubuski (sem er um 5 km. frá Meðugorje). Mikil spenna er í lofti, vopnaðir héraðsmenn standa vakt dag og nótt og fólkið í þorpunum safnast saman til að biðja.
Margir flóttamenn eru í Meðugorje frá þorpi nálægt Vukovar sem eytt var algerlega.
Séra Slavko Barbaric Fransiskanaprestur og andlegur leiðtogi sjáendanna sagði í viðtali við útvarpsstöð 25. nóv. s.l.: Ég trúi að þetta stríð flytji skilaboð til kaþólskra og kristinna, um að þeir biðji um skilning á skilaboðum meyjarinnar. Ein fyrstu boðin frá henni voru: „Biðjið og fastið, vegna þess að með bænum og föstum getið þið stöðvað stríð og haft áhrif á náttúrleg atvik.“ Séra Slavko og séra Leonardo hafa ferðast mikið um Evrópu til bænahópa því það er svo lítið að gera við þjónustu pílagríma í Meðugorje. Þar eru nú þrír sjáendanna: Vicka, Ivanka og Marjana (sú sem nemur innri rödd.) Ivan, fjórði sjáandinn fór í nóvember til Bandaríkjanna til að heimsækja bænahópa þar. Jelena er í námi við fransiskanaháskólann í Cincinnatti. Jakov og Marija voru á Ítalíu.
Nýlega átti prestur nokkur, séra Livio viðtal við Vicku í Radio Maria á Ítalíu þar sem hún sagði: „Friður er gjöf til þeirra sem biðja og hafa hreint hjarta. Sama má segja um raunverulegan fögnuð, sem er forréttur himna...Meyjan segir margoft að við verðum að biðja fyrir heimsfriði, en ef friðurinn er ekki í hjörtum okkar þá heyrast bænirnar okkar ekki.“
Sp: En ef svo margt fólk er friðlaust hvernig getur nokkur átt frið í hjarta?
Sv: Við höfum öll eitthvað í hjarta okkar sem truflar okkur á einhvern hátt. Við verðum að biðja af öllum mætti og segja: Jesús ég elska þig og ég vil að þú léttir þessu af hjarta mínu. Ég get ekki sagst vilja fá frið í hjarta og gera síðan ekkert til þess. Á þann hátt mun friðurinn aldrei koma. Það er engin þörf á að biðja um þessa gjöf, en þegar þú þráir raunverulega að biðja, kemur hún af sjálfu sér.
Sp: Meyjan talaði um „áætlanir um frið og fögnuð“ Segðu okkur eitthvað um fögnuð.
Sv: Nei, það er ekki hægt að lýsa þessu orði - það er aðeins hægt að upplifa fögnuð, segir meyjan. Það var ekki án ástæðu sem hún sagði „Biðjið fyrir þessum fögnuði.“ Fögnuður er ómælanleg gjöf, eins og trú og friður - við getum upplifað fögnuð í hjörtum okkar. Fögnuður er ekki bara utan hjartans, eins og að gera að gamni sínu... Þessi fögnuður sem við finnum ytra er ekki mikilvægur. Það er miklu betra ef við finnum fyrir fögnuði hjartans, vegna þess að það er raunverulegur fögnuður sem aldrei dvín, hann vex dag frá degi og springur síðan út og verður sjáanlegur.
Sp: Hvers vegna hefur þú þennan fögnuð?
Sv: Ég hef aldrei beðið Guð að gefa mér þennan fögnuð því að Guð og María segja ekki: „Biðjið um að eignast fögnuð“ Ég bað ekki meyjuna „Gefðu mér þennan fögnuð því ég er Vicka.“ Nei, ekki þannig. Meyjan gaf mér möguleika. Hún sagði mér að leita Guðs, og þá myndi ég finna þennan fögnuð.
Sp: Í einum skilaboðum sínum sagði meyjan að fögnuður væri á himnum. Hvaða munur er á jarðneskum fögnuði og fögnuði himna?
Sv: Meyjan segir að við getum byrjað að lifa himnalífi hér og nú á jörðinni. Fyrir mér er enginn munur þar á.
Sp: Himnar byrja á jörðinni...
Sv: Þeir eiga upphaf sitt á jörðinni og síðan halda þeir bara áfram. Jafnvel veikindi eru gjöf Guðs — Ég er reiðubúin að deyja núna (ef Guð vill).
Sp: Við vitum öll að þú hefur verið veik.
Sv: Nú er ég heilbrigð.
Sp: Þetta hefur verið mikilvægur reynslutími fyrir þig! Hvers vegna heldurðu að Guð sendi þér svo mikla raun?
Sv: Ég hef aldrei spurt hvers vegna. Ég segi alltaf ‚verið velkomin‘ við þessi veikindi. Hann veit hvers vegna. Ég reyni að sætta mig við þau í kærleika og það gerir mig hamingjusama. Mér finnst hlægilegt þegar ég heyri einhvern segja að hann sé að bíða eftir krossi eða veikindum — Ég set vilja Guðs ofar öllu og líka mínum vilja, skilurðu? Á þann hátt er sama hvort Guð sendir mér eitthvað gott eða eitthvað sem ekki er gott, það er allt það sama fyrir mér og hlutirnir verða ekkert vandamál. Ég segi alltaf: „Guð ég þakka þér fyrir þessa gjöf, hefurðu eitthvað annað að gefa mér? Ég er alltaf reiðubúin að taka við því sem þú sendir mér, með þinni hjálp...“
Sp: Ég hef heyrt sagt að þú myndir vera hamingjusöm jafnvel þó þú þyrftir að pakka niður og fara til himna nú þegar. En tekurðu þetta í alvöru svona léttilega?
Sv: Það skiptir mig engu máli. Ef Guð kallar á mig og segir „Vicka það er tími til að fara,“ þá er ég tilbúin.
Sp: Jafnvel þó þú sért svona ung?
Sv: Nei, nei fyrir Guði er enginn ungur eða gamall. (...) Kennið ekki kommúnistunum um, verið ekki hrædd við stríðið. (...)
Sp: Eru leyndarmálin ekki dálítið óttaleg?
Sv: Nei, ekki finnst mér það. Þau sem biðja þurfa ekki að vera hrædd. Þú skilur, þegar stríðið byrjaði í okkar landi, voru allir áhyggjufullir og sögðu: „Sjáið, stríðið er líka komið hingað.“ Ég segi margoft: „Talið ekki svona. Stríðið er í hendi Guðs! Við skulum ekki standa hér og tala um það hve nálægt stríðið sé og að kannski á morgun verði það hérna líka og biðja síðan með þennan ótta í hjörtum okkar, vegna þess að óttinn er ævarandi. Við skulum vera róleg og þetta er líka eitthvað sent af Guði til að reyna trú okkar og frið. Við endum á því að trúa meira á óttann en á Guð. Fyrir okkur syni Guðs, ætti ekki að vera neinn ótti. Ef það er ótti til staðar þá er eitthvað að innra með okkur.“ (...)

Ítalska dagblaðið il Sabato greindi frá því 14. september að séra Slavko hefði átt einkafund með Ratzinger kardínála í Austurríki þá nýlega. Það virðist vera ljóst að kardínálinn, sem er í forsæti fyrir Stjórnardeild trúarkenninga hafi staðfest að kaþólska kirkjan muni ekki kæfa neitt sem beri góðan ávöxt, að það sem yfirnáttúrlegt sé talið í Meðugorje sé ekki enn hægt að viðurkenna opinberlega en ekki sé heldur hægt að afneita því.

Hér koma að lokum skilaboð meyjarinnar frá 25. október, 25. nóvember og 25. desember.
25. Október: „Kæru börn, biðjið, biðjið , biðjið.“
25. Nóvember: „Kæru börn! Einnig í þetta skipti bið ég ykkur að biðja. Biðjið til að geta skilið hvað Guð óskar eftir að segja með nærveru minni og í skilaboðunum sem ég ber ykkur. Ég þrái að færa ykkur enn nær Jesú og hins særða hjarta hans, svo að þið getið skilið hinn takmarkalausa kærleika sem hverju og einu ykkar er gefinn.
Biðjið því, kæru börn, svo að uppsprettur kærleika megi flæða frá hjörtum ykkar til sérhvers manns og til þeirra sem hata ykkur og fyrirlíta, svo að með kærleika Jesú getið þið sigrað ömurleikann í sorgarheiminum sem enga von á fyrir þá sem ekki þekkja Jesúm. Ég er með ykkur og ég elska ykkur með kærleika Jesú sem er takmarkalaus.
Með þökk fyrir allar fórnir ykkar og bænir. Biðjið að ég geti hjálpað ykkur jafnvel enn meira. Ég þarfnast bæna ykkar. Með þökk til ykkar fyrir að bregðast við kalli mínu.“
25. desember: „Kæru börn!
Í dag færi ég ykkur Jesú litla á sérstakan hátt svo að hann blessi ykkur með friðar- og kærleiksblessun sinni.
Kæru börn, gleymið ekki að þetta er náð sem margt fólk hvorki skilur né vill þiggja.
Því segi ég: Þið sem sagt hafið að séuð mín, og væntið hjálpar minnar, gefið sjálf ykkur. Framar öllu gefið kærleika ykkar og fordæmi í fjölskyldum ykkar. Þið segið að jólin séu fjölskylduhátíð, hafið því kæru börn Guð í fyrsta sæti í fjölskyldum ykkar, svo að hann gefi ykkur frið og verndi ykkur ekki aðeins frá stríði heldur einnig sérhverri satanískri árás meðan friðurinn er.
Þegar Guð er með ykkur, þá hafið þið allt. En þegar þið viljið hann ekki, eruð þið aumkunarverð og villuráfandi, og vitið ekki hvorn flokkinn þið fyllið. Ákveðið því að fylgja Guði í öllu, kæru börn og þá munuð þið öðlast allt.
Með þökk til ykkar fyrir að bregðast við kalli mínu.“
RB/Echo of Medjugorje nr. 87 og 88 1991.

No feedback yet