« Hversu algeng er samkynhneigð á Íslandi?

31.07.05

  21:52:57, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 3765 orð  
Flokkur: Fósturvernd

Fóstureyðingar og samvizkumál

Erindi flutt í Útvarpi Sögu 25. júlí 2005.

Sælir, góðir hlustendur.
Ég heiti Jón Valur Jensson, er guðfræðingur að mennt, frá Háskóla Íslands, og með framhaldsnám í siðfræði og trúarheimspeki við háskólann í Cambridge á Englandi. Með námi vann ég almenna vinnu til lands og sjávar, ekki sízt á togurum úti á landi. Ég væri þó trúlega orðinn prestur í Þjóðkirkjunni, ef ég hefði ekki ákveðið að taka kaþólska trú, áður en námi lauk, en ég starfa nú sem forstöðumaður Ættfræðiþjónustunnar.

Þetta er í 3. sinn, sem ég tala hér í þessum þætti. Ég þakka Arnþrúði útvarpsstjóra þann heiður að fá að kynna viðhorf mín til mála.

Nú væri full þörf á því að ræða hér um miklu fleira en ófædd börn og fóstureyðingar, sem og heilsufarsafleiðingar þeirra, sem ég tók til umfjöllunar í hinum þáttunum. En það vill svo til, að í liðinni viku kom hér upp á Útvarpi Sögu allfjörug umræða um siðferði fóstureyðinga, og ég vil ekki svíkja menn um nokkur svör við andmælum þeirra, enda rennur mér blóðið til skyldunnar, vegna þess að ég lít svo á, að hér sé um að ræða mesta þjóðar- og siðferðismein nútímans, bæði hér á Íslandi, á Vesturlöndum og víðar. Þess vegna þarf það engrar afsökunar með, að ég klári nú fyrstu klukkustund mína í þessari þáttaröð með því að tala einmitt um þetta mál.

Umræðan hér um daginn spannst út frá því, að í liðinni viku tilnefndi George Bush dómarann John Roberts til að skipa sæti í Hæstarétti Bandaríkjanna. Talið er víst, að hann sé hlynntur takmörkun fóstureyðinga, en þær eru nú um 1,3 milljón árlega þar í landi. Það væri þess vegna lífsverndarsinnuðu fólki fagnaðarefni, ef hann hlyti staðfestingu þingsins í þessa stöðu, vegna þess að Hæstiréttur þar er í lykilaðstöðu til að túlka – og endurtúlka – stjórnarskrána á þann veg, sem breyta myndi í reynd öllu lagaumhverfi fóstureyðinga.

Samkvæmt skoðanakönnun, sem birtist í Washington Post í fyrradag, telja 59% Bandaríkjamanna, að þingið ætti að staðfesta þessa skipun Roberts í dómarasætið, 23% voru andvígir því, en 18% tóku ekki afstöðu [sjá heimild 1]. Ég vildi láta þessa getið, vegna þess að í nefndum þætti Gústafs Níelssonar, Bláhorninu, kom fram það sjónarmið, að það yrði aldrei aftur snúið með fóstureyðingarnar hér á Íslandi – það væri "bara pólitískur ómöguleiki". Þessu er ég ósammála. Ekki aðeins vegna þess, að straumurinn er gegn fóstureyðingum í einu helzta lýðræðisríki heims, Bandaríkjunum, heldur af ýmsum öðrum ástæðum sem tengjast framvindu mála í heiminum. Það er t.d. viðblasandi á Vesturlöndum, að mannfjölgun er nálægt því að stöðvast, og í sumum löndum eins og Þýzkalandi, Ítalíu og Svíþjóð eru svo fáar fæðingar á hverja konu, að fólki þar mun fækka í stórum stíl á næstu áratugum. T.d. er talið að Þjóðverjum muni fækka um heilar 23 milljónir til ársins 2050 [heimild 2]. Um leið verður stórfelld aukning á fjölda fólks á lífeyrisaldri, en það leggur síauknar álögur á skattkerfið og vinnandi menn vegna lífeyrisbóta og heilbrigðisþjónustu hinna öldruðu. Bara til þess eins að fara ekki aftur úr í framleiðslu og efnahag þurfa Evrópusambandsríkin að flytja inn um 44 milljónir verkamanna til ársins 2050, skv. Tölfræðistofnun Evrópu [3]. Þó virðist nú einkar ólíklegt, að menn telji það létt verk og einfalt að leysa þetta fólksfækkunar-vandamál með innflutningi fólks af öðrum uppruna, t.d. frá löndum múslima. Félagsleg aðlögun þess fólks hefur reynzt erfiðari en menn óraði fyrir, og upp eru komin illviðráðanleg vandamál í samskiptum við þetta fólk eða öllu heldur: öfgamenn sem leynast meðal samlanda sinna í röðum nýbúa.

En á sama tíma og þessi fólksfækkun vofir yfir – samanber, að mannfjöldi í ESB mun hrapa úr 13% mannkyns niður í 7% um miðbik þessarar aldar, verði ekkert að gert [4] – þá er afar ólíklegt, að sú pólitíska tækifærisstefna og það gervi-frjálslyndi, sem boðar s.k. "frjálsar fóstureyðingar" og samhliða þeim síaukinn innflutning fólks frá öðrum löndum, allt í nafni framfara, þá er afar ólíklegt, endurtek ég, að sú vanhugsaða stefna haldi óskertum áhrifum sínum eða fylgi meðal þessara þjóða og þeirra sem stýra þar málum.

Þótt umtalsverð þrenging á heimildum til fóstureyðinga í Bandaríkjunum verði hugsanlega ekki fyrr en á árunum 2010–15, þá er víst, að það mun einnig hafa áhrif hér í Evrópu, þótt ekki væri nema vegna þess, að sú fækkun fóstureyðinga mun enn auka á forskot Bandaríkjanna á Evrópubandalagið í mannfjölgun og efnahagskrafti.

Já, hvers vegna ættu ekki að vera horfur á því, að einnig Alþingi komi auga á nauðsyn þess að takmarka verulega heimildir til fóstureyðinga? Hvað mundi t.d. gerast, ef alþingismönnum yrði gert kleift að kynna sér allar þær nýju upplýsingar sem komið hafa fram um undursamlegan þroskaferil fóstursins í móðurkviði? Það eru sífellt að koma fram nýjar upplýsingar, t.d. bara í fyrra með þrívíddar-ómsjármyndum. Þá kom í ljós, að fóstrið opnar ekki í fyrsta skipti augun 26 vikna gamalt, eins og talið hafði verið, heldur ekki seinna en 18 vikna gamalt. Þetta er bara eitt dæmi.

Svo er líka önnur ástæða, sem Alþingi ber að gæta að: Efast nokkur um, að hér séu nú ólíkt betri lífskjör hjá almenningi heldur en fyrir 30 árum, þegar fóstureyðingalögin voru sett? Hvers vegna hefur fóstureyðingum þá ekki fækkað? Hvers vegna eru, þvert á móti, rúmlega 1000 fóstureyðingar að meðaltali hér á landi síðustu fimm árin, en voru nálægt 430 á ári fyrstu fimm árin eftir setningu laganna? Það skyldi þó ekki vera vegna hreinnar efnishyggju, vegna þess að menn séu að flýta sér í lífsgæðakapphlaupi og skeyti ekkert um mannlegt líf, sem enn ber ekki mikið á? En er það siðræn, heilsteypt og heiðarleg afstaða? Eða er það kannski eins og séra Þorbergur Kristjánsson, fyrrv. formaður Prestafélags Íslands, lýsti þessu á fundi Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, árið 1992: að val konunnar eigi m.a. þær rætur í afstöðu umhverfisins, sem fólgin er í lögum landsins – að þau séu tekin sem "nokkur mælikvarði á rétt og rangt" – þau gefi henni "rétt til að hindra fæðingu barnsins, sem hún ber undir belti, og þar með sé henni "óbeint [...] sagt, að barnið hennar hafi ekkert manngildi, fyrr en eftir 12. viku, nema því aðeins, að hún kjósi sjálf að líta svo á, að það eigi að njóta helgi lífsins. Ekki er ólíklegt, að þetta komi til með að móta afstöðu hennar" [5].

Þannig má velta því fyrir sér, hvort við höfum varpað glýju í augu grandalausra kvenna, blekkt þær í raun með þessari löggjöf, sem eigi að vera svo einföld lausn. En þar með var hleypt af stað skriðu, sem við ráðum ekki við – eða öllu heldur: ómanneskjulegu verksmiðju-færibandi, sem liggur út í einhvern öskuhaug, færibandi sem hinum ófæddu er fleygt upp á, blóðugum, lemstruðum, sundurhlutuðum, án þess að geta rönd við reist, ... og allt þetta m.a. vegna þess, að mæðrum þeirra – og jafnvel foreldrum mæðra þeirra – hafði verið talin trú um, að þessi fóstur væru ekki neitt neitt – bara skynlaus vefjahnúður eða frumuköggull ! En ekki er það í samræmi við staðreyndir. Vegna aldurs og þroska eyddra fóstra hér á Íslandi, sem margir halda að séu flest eða öll innan 12 vikna marka, bendi ég á, að 1982–99 var eytt tæplega 500 fóstrum sem voru 13 vikna og þaðan af eldri, þar af 213 sem voru 17-20 vikna og 26 yfir 20 vikna. Skv. annarri rannsókn á 12 ára tímabili (1975–87) fóru einungis um 1,1% allra fóstureyðinga á Íslandi fram á 1–5 vikna fóstrum, en 27,4% á 6–7 vikna fóstrum, 28,9% á 8 vikna og 42,7% á níu vikna fóstrum og eldri [6]. En fegurð og fínleiki 8–12 vikna fósturs og 100% mannlegt útlit þess er þess eðlis, að það lætur engan fara í grafgötur um mennsku þess.

En m.ö.o. fara langflestar fóstureyðingar fram, þegar fóstrið er löngu komið með hjarta, sem slær (í lok 3. viku), heila, sem sendir frá sér heilabylgjur (6 vikna fóstur), útlimi sem hreyfa sig – það stendur jafnvel og gengur 8 vikna gamalt í fósturbelgnum, eins og í ljós kom á þrívíddar-ómsjármyndum, sem próf. Stuart Campbell gerði kunnar í fyrra og sagt er frá á vefsíðum brezka útvarpsins BBC [7].

Samt sem áður skauta margir nokkuð svo léttilega fram hjá því að líta nokkuð til þess, hvort fóstrið eigi ekki sinn eigin lífsrétt. Sú afstaða virðist t.d. liggja því að baki sem grundvallarforsenda, þegar menn halda því fram, að fóstureyðingar séu mál, sem konur eigi bara að ráða sjálfar. Þetta er t.d. skoðun Gústafs okkar Níelssonar, þess ágæta manns, sem ég á oftast gott með að vera sammála, en finnst líka ágætt til tilbreytingar að eiga við hann rökræðu í máli, þar sem á milli ber. Trúlega er þetta í hans huga frjálshyggjuafstaða, út frá þeirri hugsun, að rétt þinn yfir þinni eigin sál og líkama beri ótvírætt að tryggja – hver maður sé bezti gæzlumaður eigin réttinda og eigi að fá að athafna sig eftir vild. En ýmsir frjálshyggjumenn andmæla þó fóstureyðingum, t.d. Hannes Gissurarson, og benda á, að réttur þinn nær þó ekki hársbreidd lengra en að nefi náungans. Fóstrið er ekki móðirin, hún er ekki með tvö ónæmiskerfi, tvö hjörtu, sem slá, fjórar hendur sem hreyfa sig o.s.frv. Fóstrið er sérstök, einstæð og lifandi mannvera og á sín eigin réttindi í krafti þess.

En skoðun Gústafs á valfrelsi kvenna minnir líka á aðra röksemd, sem heyrist oft í þessari umræðu: "Konur eru alveg færar um að taka siðferðislega ákvörðun fyrir eigin hönd um fóstureyðingu – þær þurfa ekkert á öðrum að halda til þess!" Við skulum gefa þessu sjónarmiði fulla áheyrn, – rýna betur í það og reyna svo að finna rökrétta lausn á málinu til að fullnægja öllu réttlæti.

Ýmsir hafa glímt við þessa mótbáru gegn málstað fósturverndarsinna – t.d. var það gert í málgagni 3500 manna lögfræðingasamtaka í Bretlandi, Association of Lawyers for the Defense of the Unborn, sem beita sér fyrir réttarvernd hina ófæddu. Meðal röksemda, sem lögfræðingarnir tína til gegn sínum eigin málstað, er einmitt þessi: "Konur eru færar um að velja það, sem er siðferðislega rétt – og geta farið eftir sinni eigin samvizku" [8].

Svar þeirra er athyglisvert og hljóðar svo: "Þetta er öldungis rétt, – en HÆFILEIKINN til að velja það, sem er siðferðislega rétt, og til að fara eftir samvizku sinni felur alls ekki í sér, að fólk hljóti að velja Í REYND það, sem er siðferðislega rétt. Og HÆFILEIKI manna til að hlýða samvizku sinni þýðir ekki, að menn FARI alltaf eftir samvizku sinni. Og sá hæfileiki þýðir heldur ekki, að samvizka sérhvers manns virki með eðlilegum, áreiðanlegum hætti. Ef einhver efast um þessi orð, þá getur hann litið á dæmin allt í kringum sig."

Þarna eiga þeir að sjálfsögðu við, að ótal-oft hefur samvizka okkar brugðizt. Hún er á stundum illa upplýst og fellir þá rangan dóm, ellegar, að við hlýðum fremur annarri röddu, öðrum sjónarmiðum en rödd samvizkunnar. Hver neitar því?

Fyrrnefndri kröfu um fullt samvizkufrelsi kvenna til að ákveða hlutskipti hinna ófæddu hefur líka verið svarað með öðrum og snaggaralegri hætti: "Ef þú telur það í raun og sann, að konur séu færar um að taka þessa siðferðisákvörðun sjálfar, þá skaltu upplýsa þær um allar staðreyndir um meðgönguna, um þroskastig þess ófædda barns sem þær ganga með, mynd af því eins og það lítur út [eða af öðru fóstri á sama skeiði], veittu þeim upplýsingar um áhættuna, sem fylgir aðgerðinni – og fáðu þeim í hendur skrifleg gögn um allt þetta. Ég veit, að konur geta tekizt á við sannleikann, og þess vegna skulum við hætta að fela fyrir þeim staðreyndirnar" (tilvitnun lýkur) [9]. En því er við að bæta, að einmitt þessi tillaga hefur fallið í grýttan jarðveg hjá þeim félagsráðgjöfum, sem gefa græna ljósið á fóstureyðingar hjá konum (sem þeir gera, undarlegt nokk, í nánast öllum tilvikum). Ráðgjafarnir, þessir voldugu, opinberu leyfisgjafar, vilja ekki, að konum séu kynnt öll gögn, sem málið varða, og telja að myndir af fóstri á því skeiði, sem barnið er á, sem konan ber undir belti, séu bara til að íþyngja konunni við ákvörðun hennar! Þeim finnst sem sé skárra, að hún komist í slíkar myndir eftir á og fái þá sína eftirsjá eða bakþanka! Er þessi stétt kannski bara að hlífa sjálfri sér í starfi með því að láta konur ganga illa upplýstar til fóstureyðingar?

Mitt eigið svar við spursmálinu um samvizkufrelsi mæðra til að láta eyða börnum sínum, er þetta: frelsi mitt eða þitt til fylgja eigin samvizku felur ekki í sér heimild til að þverbrjóta siðalögmálið né heldur mikilvæg og RÉTTLÁT landslög, t.a.m. varðandi virðinguna fyrir mannslífinu.

Það er engin afsökun fyrir fóstureyðingu, að konan eigi erfitt með þessa ákvörðun – að hún velkist í vafa og gangi þungum skrefum til þessarar aðgerðar. Hafi konan, barnsfaðir hennar eða foreldrar slíkar samvizkukvalir, ættu þau einmitt að taka mark á þeim – til þess er samvizkan! Eigi það við að segja, að það sé þung ákvörðun fyrir konu að fara í fóstureyðingu, hvað má þá segja um útburð barna að fornu? Var það ekki ennþá erfiðari ákvörðun? En er sú staðreynd einhver ástæða til þess að leyfa útburð barna? – kvöl konunnar sé bara það verð, sem hún þurfi að greiða? Nei, að sjálfsögðu ekki. Hvort tveggja, fóstureyðing og barnaútburður, er valdbeiting sem sæmir ekki siðuðu þjóðfélagi.

Með þessu er ég ekki á neinn hátt að dæma þær konur, sem hafa það á baki sér að hafa farið í fóstureyðingu, eins og einn viðmælandi Gústafs taldi þó í þættinum. Ég er einfaldlega að setja fram þá kröfu, að fóstureyðingar verði bannaðar, þetta á ekki að vera leyfilegt. Það á að leysa vandamálin með öðrum hætti en þessum, og þar að auki kennir lífið sjálft fólki að fást við erfiðleikana. Mér er t.d. í ljósu minni bráðung kona sem í viðtali í BBC sagði, að það sé náttúrlega ekki um annað að ræða en að standa með barni sínu. Hafa þó konur hér á landi miklu betri aðstöðu til fæðingarorlofs og ódýrra leikskóla en í Englandi. En okkar ungu konum er att út í fóstureyðingu á grundvelli vanþekkingar, og það gerir það vissulega afsökunarvert, eftir á að hyggja, hjá mörgum konum, sem hafa ekki vitað betur. Þær eru líka þannig fórnarlömb fóstureyðinga, og það er engin tilviljun, að víða um lönd eru til félög þeirra, t.d. Women for Life – og Rachel, sem kennir sig við Rakel í Biblíunni, sem saknaði barna sinna sem frá henni höfðu verið tekin. En það er ekki einungis andleg áþján, þunglyndi og jafnvel sjálfsvígshugsanir, sem hrjá sumar þessara kvenna, heldur einnig líkamleg eftirköst af ýmsu tagi, eins og ég rakti hér í þætti mínum 4. júní. Þar kom t.d. fram, að skv. mati fyrrv. yfirlæknis fæðingardeildar Landspítalans, dr. Gunnlaugs Snædal, hafa á bilinu 700 til 1530 konur orðið ófrjóar af völdum hefðbundinna fóstureyðinga hér á landi frá júní 1975 til marzloka á þessu ári [10]. Spyrja má, í framhaldi af því: Eru ekki þar á meðal ýmsar þeirra kvenna, sem nú standa í biðröð eftir því að fá að ættleiða barn eða eru í tímafrekum tilraunum til að verða þungaðar, tilraunum sem eru jafnframt afar kostnaðarmiklar fyrir heilbrigðiskerfið? Sjáið þið nokkra vitglóru í þessu?

Ugglaust eru ekki allir sannfærðir um réttmæti fósturverndarstefnunnar. En ég vil þá benda þeim á myndirnar á vefsíðunni www.lifsvernd.com/fosturtroski.html .

Eitt aðaleinkenni þeirra hryðjuverkaárása, sem nýlega voru gerðar á fjölda fólks í London og Sjarm-el-sjeik í Egyptalandi, er það, að þeim var beint gegn SAKLAUSUM. Nánast allir eru því sameinaðir í hryllingi sínum og fordæmingu á þvílíkum ódæðisverkum. En einmitt þetta sama einkenni á við um fóstureyðingar: að þeim er beint gegn SAKLAUSUM og þeim sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér. Það rennur kannski upp ljós fyrir einhverjum, að það sé ekki svo fráleitt, sem haft er eftir Mahatma Gandhi, – þessi orð hans: "Það virðist deginum ljósara, að fóstureyðing væri glæpur" [11]. Þetta var afstaða hans, en við getum a.m.k. ályktað út frá því, sem hér er fram komið, að það er okkur ekki til neinnar vegsemdar að bjóða konum steina fyrir brauð – að svíkja þær um upplýsingar um sitt ófædda barn og aðstoð í bágindum þeirra, heldur freista þeirra til fóstureyðingar, sem síðar kemur í bakið á mörgum þeirra með heilsuspjöllum og sektarkennd. Því síður ætti Alþingi að ætla heilbrigðisstéttinni að vinna þessi heilsuspillandi verk, oftast á alheilum konum sem ganga með alheil börn. Slíkt gengur þvert á móti þeim tilgangi þeirrar stéttar að starfa fyrir lífið og heilbrigði kvenna sem karla, mæðra sem barna. Því ætti með löggjöf að leysa bæði konur, lækna og hjúkrunarfólk undan þessari áþján, fóstureyðingunum.

Nú getur einhver sagt: "En hefur Alþingi nokkuð viljað gera í þessu máli? Er þá ekki vonlaust að búast við einhverri breytingu fyrr en eftir áratugi?" – Svarið er fólgið í þínu eigin brjósti: frumkvæði verður að koma í þessu réttlætismáli frá ÞÉR, sem hlustar og tekur þetta til þín – og frá þér, sem hefur séð myndir af hinum ófæddu í móðurkviði og látið vitundina um sorglegt hlutskipti sumra þeirra – fimmta hvers ófædds barns – snerta þig, vekja þig til meðaumkunar. Og eigum við ekki, hægt og bítandi, að snúa þeirri meðaumkun okkar upp í miskunnarverk: upp í aðgerðir til að tala máli hins ófædda barns? Aðgerðarleysi stjórnvalda hingað til er engin afsökun fyrir OKKUR, að við gerum ekki neitt í málinu. Knýr ekki samvizkan okkur, og erum við ekki fullveðja fólk, með sjálfsvirðingu til að fylgja eftir sannfæringu okkar?

Við getum þá haft í huga það, sem mikill mannréttindafrömuður, Martin Luther King, sagði eitt sinn á ferli sínum: "Sá tími kemur, að maður HLÝTUR að taka afstöðu, sem gefur hvorki ÖRYGGI né PÓLITÍSK ÁHRIF né VINSÆLDIR, heldur byggir á því, að samvizkan segi manni, að það sé hin RÉTTA afstaða" [12].

Góðir hlustendur, ég þakka áheyrnina. Ég heiti Jón Valur Jensson, og þeim, sem áhuga hafa á þessu málefni, er velkomið að hafa samband við mig.

HEIMILDIR:
1. http://www.washingtonpost.com/wp-dyn/content/article/2005/07/22/AR2005072201430.html?referrer=email&referrer=email
2. ALDU News and Comment, Spring 2004, No. 101, bls. 1. Þetta tölublað (101) má nálgast gegnum vefsíðuna http://www.aldu.org.uk/newsletters.htm
3. Eurostat, sbr. frétt á vefsíðunni http://english.pravda.ru/society/2001/04/10/3472.html
4. Sama heimild.
5. Lífsvon, fréttabréf Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, IX/i, marz 1993, bls. 1–3: 'Helgi lífsins', ræða sr. Þorbergs Kristjánssonar á Lífsvonarfundi 12. des. 1992.
6. Sbr. Lífsvon, fréttabréf Lífsvonar, samtaka til verndar ófæddum börnum, IX/i, marz 1993, bls. 10.
7. Sjá grein á vefsíðu BBC: http://news.bbc.co.uk/2/hi/health/3846525.stm – ennfremur tíu mynda röð af hinum ófæddu, sem hefst á vefsíðunni http://news.bbc.co.uk/2/hi/in_pictures/3847319.stm
8. ALDU News and Comment, Summer 2002, No. 94, bls. 2.
9. David Six, í svari sem nálgast má gegnum vefsíðuna http://www.spectator-online.com/vnews/display.v/ART/2003/04/17/3e9f64379ed24?in_archive=1
10. Ég geri betri grein fyrir forsendum þessa mats læknisins i 2. útvarpserindi mínu um þessi mál, 4. júní 2005, sem birtast á hér á þessari heimasíðu.
11. Tilvitnað hér skv. www.ohiolife.org/fetal/index.asp
12. Tilvitnað hér skv. www.ohiolife.org/abortion/index.asp

No feedback yet

Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

multiblog