« Fjölskyldubæn"OG EIGI LEIÐ ÞÚ OSS Í FREISTNI" »

04.05.08

  19:44:17, Skrásetjari: Sr. Denis O'Leary   , 951 orð  
Flokkur: Nokkrir gullmolar úr Tkk, Lífsvernd

Fóstureyðing

2270. Mannlegt líf verður að virða og vernda með öllum ráðum frá því andartaki að getnaður á sér stað. Það ber að viðurkenna að mannsbarninu ber réttur einstaklings frá fyrsta andartaki tilveru þess - þar á meðal órjúfanlegur réttur hverrar saklausrar mannveru til lífs. [72] "Áður en ég myndaði þig í móðurlífi, útvaldi ég þig, og áður en þú komst af móðurkviði, helgaði ég þig." [73] "Beinin í mér voru þér eigi hulin þegar ég var gjörður í leyni, myndaður í djúpum jarðar." [74]

2271. Alveg frá fyrstu öld hefur kirkjan lýst því yfir að allar fóstureyðingar væru siðferðisbrot. Þessi kenning hefur ekkert breyst og er hún eftir sem áður óbreytanleg. Bein fóstureyðing, það er að segja fóstureyðing sem annaðhvort er markmið aðgerðar eða leið að því, brýtur með alvarlegum hætti gegn siðalögmálinu: Nýtt líf skalt þú ekki drepa með fóstureyðingu og ekki skaltu stuðla að því að nýfæddu barni sé eytt. [75] Guð, Drottinn lífsins, hefur falið mönnunum það göfuga hlutverk að ………

………vernda líf og mennirnir verða að inna það af hendi eins og þeim sæmir. Líf verður að vernda af fremsta megni frá því andartaki að getnaður á sér stað: Fóstureyðing og barnsmorð eru viðurstyggilegir glæpir. [76]

2272. Allt formlegt samstarf sem miðar að því að eyða fóstri er alvarlegt afbrot. Í samræmi við ákvæði kirkjuréttar beitir kirkjan bannfæringu sem refsingu fyrir þennan glæp gegn mennsku lífi. "Sú persóna sem stuðlar að því að fóstureyðing er fullgerð kallar yfir sig bannfæringu latæ sententiæ," [77] "vegna þess sem í afbrotinu felst". [78] Þetta er háð fyrirvara í skilmálum kirkjuréttar. [79] Þannig er það ekki ætlun kirkjunnar að miskunninni séu takmörk sett. Öllu heldur er hún að gera ljósan alvarleika glæpsins sem framinn er, óbætanlegan skaðann gegn hinum saklausa sem er líflátinn, sem og gegn foreldrum og öllu samfélaginu.

2273. Það er grundvallarþáttur í borgaralegu samfélagi og löggjöf þess að hver saklaus einstaklingur eigi sér óafsalanlegan rétt til lífs: "Óafsalanleg réttindi hverrar persónu verða þjóðfélagið og pólitísk stjórnvöld að viðurkenna og virða. Þessi mannréttindi byggja hvorki á tilteknum einstaklingum eða foreldrum. Og ekki eru þau til merkis um ívilnun af hálfu samfélagsins eða ríkisins. Þau eru hluti af náttúru mannsins og eru eðlisbundin honum fyrir mátt sköpunarinnar þaðan sem maðurinn sækir uppruna sinn. Meðal þeirra grundvallarréttinda sem ber að geta í þessu sambandi er réttur mannsins til lífs og líkamlegs heilleika frá andartaki getnaðar til dauðadags". [80] "Þegar lögin svipta flokk manna þeirri vernd sem borgaraleg löggjöf ætti að veita þeim, er ríkið að hafna því að allir séu jafnir fyrir lögunum. Þegar ríkið kostar ekki kapps um að hlúa að réttindum sérhvers borgara og einkum þeirra sem eru berskjaldaðir, þá grefur það undan þeim lagalega grundvelli sem það byggir á.… Sú virðing og vernd sem tryggja ber hinu ófædda barni frá fyrsta andartaki getnaðar, hefur það í för með sér að lögin verða að kveða á um tiltekin viðurlög við öllum vísvitandi brotum gegn réttindum barnsins". [81]

2274. Þar sem líta ber á fósturvísi sem persónu frá getnaði verður að vernda hann í heilleika sínum, annast hann og græða eins og kostur er líkt og hverja aðra mannlega veru. Sjúkdómsgreining á fósturstigi er siðferðilega lögleg, "ef aðgerðin virðir líf og heilleika fósturvísisins og fóstursins og beinist að því að vernda þá eða græða sem um einstakling væri að ræða.… Það er algjörlega andstætt siðalögmálinu ef þetta er gert með þeim fyrirvara að fóstureyðingu megi framkalla allt eftir því hverjar niðurstöðurnar verða: Sjúkdómsgreining má aldrei jafngilda dauðadómi". [82]

2275. "Telja verður þær aðgerðir á mannlegum fósturvísi lögmætar er virða líf og heilleika hans og fela ekki í sér of mikla áhættu fyrir hann heldur beinast að lækningu hans, að því að bæta heilsu hans eða að einstaklingsbundið líf hans fái þrifist". [83] "Það er siðferðisbrot að framleiða mannlega fósturvísa í þeim tilgangi að nýta þá sem einnota líffræðileg efni". [84] "Vissar tilraunir til að hafa áhrif á arfgenga litninga eða erfðavísa beinast ekki að því að ráða bót á sjúkdómum heldur er markmið þeirra að framleiða útvaldar mannverur samkvæmt kyni eða öðrum fyrirframákveðnum eiginleikum. Slík misnotkun gengur þvert gegn persónulegri reisn mannsins, heilleika hans og séreðli" [85] sem eru einstök og ekki hægt að framkalla á ný.

_________________________
_________________________

#72 Sbr. CDF, Donum vitae, I, 1.
#73 Jer 1:5; sbr. Jb 10:8-12; Sl 22:10-11.
#74 Sl 139:15.
#75 Didache 2, 2: SCh 248, 148; sbr. Ep. Barnabae 19, 5: PG 2, 777; Ad Diognetum 5, 6: PG 2, 1173; Tertúllíanus, Apol. 9: PL 1, 319-320.
#76 GS 51 § 3.
#77 CIC, grein 1398.
#78 CIC, grein 1314.
#79 Sbr. CIC, greinar 1323-1324.
#80 CDF, Donum vitae III.
#81 CDF, Donum vitae III.
#82 CDF, Donum vitae I, 2.
#83 CDF, Donum vitae I, 3.
#84 CDF, Donum vitae I, 5.
#85 CDF, Donum vitae I, 6.

_________________________
_________________________

Hérna er að finna Tkk. http://mariu.kirkju.net/trufraedslurit/index.html

1 athugasemd

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Það er þakkarvert að fá þennan ýtarlega, góða texta birtan hér á Kirkjunetinu á íslenzku. Þýðingin er mjög góð og búningurinn verðugur, en þetta er texti sem krefst íhugunar og yfirlegu; þá skilja menn betur röklega samhengið.

Heimildir #75 eru allar frá fornkirkjunni, jafnvel sumar frá frumkirkjunni. GS = Gaudium et spes (Gleði og von), eitt skjala II. Vatíkanþingsins. CIC = Corpus iuris canonici = kirkjurétturinn, þ.e. lagasafn kaþólsku kirkjunnar.

05.05.08 @ 19:14