« Píslarvottar nú á tímum eru fleiri en í frumkirkjunniJóhannes biskup Gijsen látinn »

05.03.17

  20:13:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 1506 orð  
Flokkur: Ýmsir höfundar

Föstuboðskapur Frans páfa 2017

Orð Guðs er gjöf. Aðrir menn eru gjöf.

Kæru bræður og systur,

Föstutíminn markar nýtt upphaf, leið að öruggu marki: Til framhjágöngu upprisunnar, til sigurs Krists yfir dauðanum. Og ævinlega beinir þessi tími til okkar ákveðnu boði um afturhvarf: Hinn kristni maður er „af öllu hjarta“ (Jl 2,12) hvattur til að snúa sér til Guðs og láta sér ekki nægja að lifa lífi sínu í meðalmennsku, heldur vaxa í vináttunni við Drottin. Jesús er hinn trausti vinur sem yfirgefur okkur aldrei, því að einnig eftir að við höfum syndgað er hann reiðubúinn að fyrirgefa okkur (sbr. Prédikun, Domus Sanctae Marthae, 8. janúar 2016).

Föstutíminn er rétti tíminn til að styrkja líf andans með þeim helgu meðulum sem kirkjan býður okkur: Með föstum, bænum og ölmusugjöfum. Grundvöllur alls þessa er Guðs Orð, og á þessum tíma er okkur boðið að leggja enn betur við hlustir og stunda íhugun. Einkum vildi ég í þessu sambandi benda á dæmisöguna um ríka mann og Lasarus hinn fátæka (sbr. Lúk 16,19-31). Við skulum láta þessa þýðingarmiklu frásögn verða okkur til hvatningar: Hún færir okkur lykilinn svo að við fáum skilið hvað við verðum að gera til þess að öðlast hina sönnu hamingju og eilíft líf, og hvetur okkur til einlægra sinnaskipta.

1. Aðrir menn eru gjöf

Dæmisagan hefst á því kynntar eru til sögunnar báðar höfuðpersónurnar, en fátæka manninum er þó lýst mun nánar: Aðstæður hans eru hörmulegar og hann hefur ekki einu sinni kraft til að rísa á fætur. Hann liggur fyrir dyrum ríka mannsins og vill feginn seðja sig á því sem fellur af borði hans; líkami hans er hlaðinn kaunum og hundarnir koma og sleikja þau (sbr. vers 20-21). Þarna er því dregin upp dökk mynd af smánuðum og niðurlægðum manni.

Þessi sviðsmynd verður enn áhrifaríkari þegar við minnumst þess að fátæki maðurinn heitir Lasarus – en það er heillavænlegt nafn sem þýðir bókstaflega „Guð hjálpar“. Hann er því ekki nafnlaus persóna heldur er hann dreginn skörpum dráttum og á sér sína persónulegu sögu. Þó að hann sé ekki neitt í augum ríka mansins verður hann lifandi fyrir okkur og nánast kunnuglegur, hann öðlast eigið andlit; og sem slíkur verður hann að gjöf, að ómetanlegum fjársjóði, manni sem Guð vildi að birtist, sem hann elskar og hugsar um, jafnvel þó að raunverulegar aðstæður hans séu nánast hörmulegar (sbr. Prédikun, Domus Sanctae Marthae, 8. janúar 2016).

Lasarus kennir okkur að aðrir menn eru gjöf. Rétta sambandið við aðra menn felst í því að sjá með þakklæti hið sanna gildi þeirra. Einnig hinn fátæki maður frammi fyrir dyrum hins ríka er ekki óþægileg fyrirstaða heldur öllu fremur ákall um afturhvarf og breytingar á eigin lífi. Fyrsta ákallið sem þessi dæmisaga beinir til okkar er þetta, að við opnum hjarta okkar fyrir öðrum mönnum, því að sérhver maður er gjöf, bæði nágranar okkar sem og hinn óþekkti fátæklingur. Langafastan er hentugur tími til að opna dyrnar fyrir öllum þeim sem eru þurfandi og sjá í honum eða henni andlit Krists. Öll mætum við slíku fólki á vegferð okkar. Sérhver lifandi maður sem verður á vegi okkar er gjöf og á það skilið að tekið sé á móti honum með virðingu og ást. Orð Guðs hjálpar okkur við að opna augun, taka á móti lífinu og elska aðra, einkum þá sem veikburða eru. En til þess að við getum gert þetta verðum við einnig að taka það alvarlega sem fagnaðarerindið opinberar okkur í sambandi við ríka munaðarsegginn.

2. Syndin blindar okkur

Dæmisagan sýnir okkur á hlutlausan hátt andstæðurnar í lífi ríka mannsins (sbr. 19. vers). Íburðarmikill lífsstíll hans birtist í dýrlegum klæðnaði hans. Purpuraklæði voru nefnilega afar verðmæt, dýrari en gull og silfur og þess vegna var hann aðeins ætlaður yfirvöldunum (sbr. Jer 10,9) og hinum konungbornu (sbr. Dóm 8,26). Hið dýra lín var sérstakt og til þess ætlað að sýna menn næstum í heilögu ljósi. Ríkidæmi þessa manns er því næstum yfirgengilegt, einnig vegna þess að hann sýnir jafnan daglega auðlegð sína: Hann „lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði“ (19. vers). Í honum birtist á áhrifamikinn hátt sú spilling syndarinnar sem finna má í eftirtöldum þremur sjálfstæðu skrefum: Ástinni á peningum, hégómaskap og drambi (sbr. Prédikun, Domus Sanctae Marthae, 20. september 2013).

Páll postuli segir: „Fégirndin er rót alls þess, sem illt er“ (1Tím 6,10). Hún er meginástæða spillingar og ein uppspretta öfundar, ágreinings og grunsemda. Peningarnir geta að endingu náð slíkum tökum á okkur að þeir ráða yfir okkur eins og harðstjóri (sbr. Postullegt bréf Evangelii gaudium, 55). Í stað þess að vera meðal sem þjónar okkur við að gera gott og sýna öðrum mönnum samstöðu, geta peningarnir leitt til þess að hugsun okkar verði svo eigingjörn að hún veiti kærleikanum ekkert rými og komi í veg fyrir frið.

Dæmisagan sýnir okkur enn fremur að ágirnd ríka mannsins gerir hann hégómlegan. Persónuleiki hans gengur upp í sýndarmennskunni, í því að sýna öðrum hvað hann geti leyft sér. En þessi sýndarmynd hylur tómið hið innra. Líf hans er í fjötrum hins ytra útlits, yfirborðsins og forgengilegustu sviða tilverunnar (sbr. s.st., 62).

Neðsta stig þessarar siðferðislegu hnignunar er drambið. Ríki maðurinn klæðir sig eins og hann sé konungur, þykist vera Guð og gleymir að hann er bara venjulegur, dauðlegur maður. Hjá þeim sem hefur spillst vegna ástar sinnar á peningunum er ekkert annað til en hann sjálfur og þess vegna missir hann sjónar á þeim sem umgangast hann. Ávöxtur hollustunnar við peningana er því eins konar blinda: Ríki maðurinn sér alls ekki fátæka manninn þar sem hann liggur niðurlægður og máttvana, hlaðinn kaunum.

Þegar við skoðum þessa manngerð skiljum við hvers vegna fégirndin er svo harðlega gagnrýnd í guðspjallinu: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón“ (Matt 6,24).

3. Orð Guðs er gjöf

Guðspjallið um ríka manninn og hinn fátæka Lasarus hjálpar okkur að búa okkur vel undir páskahátíðina, sem nálgast nú óðfluga. Helgisiðir öskudagsins sýna okkur svið sem líkist því sem ríki maðurinn reyndi á svo áhrifamikinn hátt. Þegar presturinn útdeilir öskunni segir hann: „Minnst þú þess maður að þú ert mold og að mold munt þú aftur verða.“ Þeir báðir – ríki maðurinn og Lasarus – munu nefnilega deyja og meginhluti dæmisögunnar gerist handan þessa heims. Báðir uppgötva þeir skyndilega ákveðinn grundvallarsannleika: „Ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan“ (1Tím 6,7).

Augu okkar opnast einnig fyrir lífinu fyrir handan, þar sem ríki maðurinn á langt samtal við Abraham, sem hann kallar „föður“ (Lúk 16,24.27) og sýnir með því að hann tilheyrir Guðs lýð. Þetta atriði gerir líf hans enn mótsagnakenndara, því að fram að þessu andartaki hafði samband hans við Guð ekki borist í tal. Í rauninni átti Guð engan sess í lífi hans, því að eini guðinn sem hann átti var hann sjálfur.

Fyrst við kvalirnar í næsta lífi sér ríki maðurinn Lasarus og vill að fátæklingurinn svali þorsta hans með ofurlitlu vatni. Það sem hann biður Lasarus um jafngildir því sem ríki maðurinn hefði sjálfur getað gert, en gerði aldrei. En Abraham útskýrir málið fyrir honum: „Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði, meðan þú lifðir, og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður, en þú kvelst“ (25. vers). Í næsta lífi er réttlætið á vissan hátt endurreist og hið slæma í lífinu jafnað út með hinu góða.

Dæmisagan gengur enn lengra og miðlar þannig boðskap til allra kristinna manna. Því að ríki maðurinn, sem átti bræður sem enn voru á lífi, bað Abraham að senda Lasarus til þeirra að vara þá við. En Abraham svaraði: „Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum, láta þeir ekki heldur sannfærast, þótt einhver rísi upp frá dauðum“ (31. vers).

Í þessu birtist hinn raunverulegi vandi ríka mannsins ljóslega: „Rætur vandans felast í því að hann hlustar ekki á Guðs orð; og það verður til þess að hann hættir að elska Guð og fer þess vegna að fyrirlíta náungann. Orð Guðs er lifandi kraftur sem er þess megnugur að leiða hjarta mannsins til afturhvarfs og beina honum aftur á vegu Guðs. Loki menn hjarta sínu fyrir þessari gjöf hins talandi Guðs, verður afleiðingin sú að þeir loka hjarta sínu einnig fyrir meðbræðrum sínum.

Kæru bræður og systur, langafasta er rétti tíminn til að endurnýja kynni sín af Kristi, sem er lifandi í Orði sínu, sakramentum og náunganum. Drottinn, sem sigraðist á tálsnörum freistarans í óbyggðinni á fjörutíu dögum, vísar okkur veginn sem við verðum að feta. Megi Heilagur Andi leiða okkur eftir brautum sannrar iðrunar, svo að við fáum enduruppgötvað gjöf Guðs Orðs, hreinsast af syndinni sem blindar okkur og þjónað Kristi í þurfandi meðsystkinum okkar. Ég hvet alla trúaða að sýna þetta afturhvarf með þátttöku í atburðum föstunnar, sem margar stofnanir kirkjunnar um heim allan standa fyrir í því skyni að styrkja þá menningu sem safnar öllum mönnum saman í eina fjölskyldu. Við skulum biðja hvert fyrir öðru, að við megum öðlast hlutdeild í sigri Krists og opnum dyr okkar fyrir þeim sem veikburða eru og fátækir. Þá getum við til fulls lifað gleði páskanna og borið henni vitni.

Úr Vatíkaninu, 18. október 2016, á hátíð heilags Lúkasar

Frans páfi

---

Efni af vefnum catholica.is. Birt með leyfi kaþólsku biskupsstofunnar. 

No feedback yet