« Boëthius (480–524): vers úr ritinu Huggun heimspekinnarJohn Byrom (1692–1763): Þrá (Desiderium) »

19.09.06

  13:45:27, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 481 orð  
Flokkur: Friðarmál og stríðsátök

Fordæmdi Jesús vopnaburð?

Fordæmdi Jesús vopnaburð? Ekki með svo augljósum hætti, að postular hans hafi endurtekið þá meintu kenningu hans. Hann sagði vissulega við Símon Pétur í grasgarðinum, þegar hann hjó eyrað af Malkusi: "Slíðra þú sverð þitt; því að allir þeir, sem grípa til sverðs, munu farast fyrir sverði" (Mt.26.52; sbr. Jóh.18.11: "Sting sverðinu í slíðrin; ætti ég ekki að drekka bikarinn, sem Faðirinn hefur að mér rétt?"). En þetta felur ekki í sér, að hann fordæmi almennt vopnaburð á neinn óvefengjanlegan hátt. Hins vegar er trúlegt, að það feli í sér, að hann fordæmi það, að menn hafi frumkvæði að vopnaðri árás.

Þegar Jóhannes skírari boðaði mönnum iðrun og rétta breytni, komu til hans hermenn og "spurðu hann einnig og sögðu: "Og vér, hvað eigum vér að gjöra?" Og hann sagði við þá: "Kúgið ekki fé út úr neinum, og látið yður nægja mála yðar"" (Lúk.3.14). Þetta felur í sér, að Jóhannes amast ekki við því, að þeir haldi áfram atvinnu sinni – segir þeim ekki að leggja niður vopn (vinna þeirra var einmitt sú að bera vopn); vopnaburður virðist því í sjálfum sér ekki ósiðlegur.

Páll postuli segir um valdstéttina: "hún ber ekki sverðið ófyrirsynju, með því að hún er Guðs þjónn, hegnari til refsingar þeim, er aðhefst til illa" (Róm.3.4; athugið líka, að þetta á allt eins við um þá valdsmenn, sem ekki hafa yfir her að ráða, heldur í mesta lagi vopnaðri "víkingasveit" lögreglunnar).

Í Lúk.22.36 o.áfr. segir Kristur sjálfur: "En nú skal sá, sem hefur pyngju, taka hana með sér, sömuleiðis einnig mal, og sá, sem ekkert hefur, skal selja yfirhöfn sína og kaupa sverð. því að eg segi yður, að þetta, sem ritað er, hlýtur að koma fram við mig: og með lögbrotsmönnum var hann talinn, því að það, er mig snertir, rætist. En þeir sögðu: Herra, sjá, hér eru tvö sverð. Og hann sagði við þá: það er nóg" (22.36–38).

Vitaskuld má svara þessu með þeim orðum, að tilgangurinn með þessu hafi verið að sýna það í grasgarðinum, að Kristur vildi ekki beita vopnum. En sá tilgangur tengdist hans eigin erindi hingað og hans starfsháttum og hlýðni við vilja Föðurins. Hitt á að vera ljóst, að princíperaður pacifismi er ekki kenning Nýja testamentisins.

Ofangreindur pistill er partur af bréfi til vina minna, e.k. viðbragð við skoðun sem ég áleit ekki standast. En hér er frjálst að ræða málin frekar.

17 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Guðspjöllin taka skírt fram að þegar samverjarnir vildu ekki taka á móti Kristi, vildu lærisveinarnir Jakob og Jóhannes kalla eld af himni ofan til að tortíma þeim. En Drottinn ávítaði þá og sagði: „Ekki vitið þið, hvers Anda þið eruð. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum, heldur til að frelsa“ (Lk 11. 55, 56). Og þessa hugsun eina verðum við að gera að okkar – að allir frelsist.

Útbreiðsla Íslams með sverði er því röng, rétt eins og sjálfrar kirkjunnar á miðöldum. Annað gildir um veraldleg yfirvöld sem hafa rétt til að verja hendur sínar innan marka siðgæðis og réttlætis ef á þau er ráðist.

Ítölsku nunnunni sem myrt var í Sos-barnaþorpinu í Sómalíu fyrir tveimur dögum gafst tími til að biðja fyrir tilræðismönnum sínum og biðja Guð um að fyrirgefa þeim. Dýr er í augum Drottins dauði tilbiðjenda hans.

Eitt dæmi: Heil. Frans frá Sales vann mörg héruð í Frakklandi að nýju úr höndum mótmælenda íklæddur Heilögum Anda, það er að segja herklæðum Krists.

19.09.06 @ 14:10
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér innleggið, Jón. Ég greip reyndar í tómt í Lúk.11.55–56, af því að sá kafli endar á 54. versi, þú hefur farið þarna kaflavillt. Það undarlega kemur svo í ljós, þegar ég finn þetta í Biblíulyklinum (Rv. 1994, Hið ísl. Biblíufél.) í Lúk.9, að eitt gamalt Nýjatestamenti og þægilegt (með stóru letri), sem ég hef gjarnan hjá mér, hefur ekki þessi orð í 55.–56. versi. Í 1981-útgáfunni er þetta haft innan hornklofa (þ.e. “og sagði: „Ekki vitið þið, hvers anda þið eruð. Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum, heldur til að frelsa"“) og neðanmáls bætt við: “Vantar í sum handrit.” Ennfremur hafði ég einhvern tímann skrifað þar við þessi vers með blýanti: “sbr. DBTh.584(–4),” en þar var ég að vísa til hinnar ágætu bókar Dictionary of Biblical Theology (ritstj. Xavier Léon-Dufour), 2. útg. 1973, reyndar til greinarinnar ‘Storm’ eftir Pierre Grelot, en þar segir hann: “For God is far from being a thundering Jupiter: Jesus makes the “sons of thunder” understand (Mk 3,17) that he takes no delight in throwing thunderbolts upon those who do not accept Him (Lk 9,54f).”

Ég vil bæta því við, að með þessari athugasemd er ég ekki að vefengja textann í Lk.9.55–56, enda er hann afar forn. En eins og þú, Jón Rafn, tel ég þennan texta ekki eiga við um þátttöku manna í varnarstríði.

19.09.06 @ 14:35
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Hér erum við ekki sammála – ég á við hvað áhrærir kirkjuna – en engu að síður sannast þetta í verki. Þetta gerist einmitt í Kína í dag þar sem ógnarstjórnin hefur yfir miklum vopnum og her að ráða og stendur varnarlaus uppi gagnvart útbreiðslu fagnaðarerindsins.

Það er í krafti Heilags Anda sem Kína fellur, en ekki með vopnavaldi, rétt eins og lítill trékross í Novi Sad markaði upphaf hruns Sovétríkjanna sálugu. Stundum er guðfræðingum hollara að leita á vit bænarinnar heldur en flókinna textaskýringa sem grundvallast á mennskum vangaveltum.

Vafalaust bíða sömu örlög veraldarhyggjunnar þegar fólki verða ógnarverk hennar ljós. Ég vísa til mynda af deyddum fóstrum á heimasíðu Lífsverndar.

TENGILL

19.09.06 @ 14:41
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þessi texti í Lúk.9 virðist einmitt eiga við um það, að menn skuli ekki boða Krist með vopnavaldi, það sést ekki aðeins á orðum Pierres Grelot, heldur umfram allt í textanum sjálfum: “Þeir fóru og komu í Samverjaþorp nokkurt til að búa honum (Jesú) gistingu. En þeir (Samverjarnir) tóku ekki við honum, því að hann var á leið til Jerúsalem. Þegar lærisveinarnir, þeir Jakob og Jóhannes, sáu það, sögðu þeir: “Herra, eigum vér að bjóða, að eldur falli af himni og tortími þeim?"” (Lk.9.52–54). Andsvar Jesú sést hér ofar.

19.09.06 @ 14:44
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Ég er sammála þeim orðum þínum, Jón Rafn, að “veraldleg yfirvöld … hafa rétt til að verja hendur sínar innan marka siðgæðis og réttlætis ef á þau er ráðist". Ekkert í texta mínum réttlætir harðstjórnarvald né heldur rangláta eða ósiðlega beitingu hervalds og sízt af öllu árásarstríð að fyrra bragði.

19.09.06 @ 14:47
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Við erum sammála nafni held ég. Það var einmitt þetta sem Benedikt páfi var að hvetja til í Regensburgarræðunni: Dialog.

Í dag má sjá á Zenith og LifeSite.com hvernig bæði BBC og stórblöð eins og New York Times og Guardian notuðu þetta tækifæri til að ala á hatri á páfavaldinu með því að slíta orð hans úr samhengi. Allt varð vitlaust þegar BBC birti þessa frétt matreidda samkvæmt eigin matseðli á arabísku og farsí.

Þessir piltar þola ekki að það afl skuli vera til í heiminum sem stendur af einurð gegn dauðamenningunni.

19.09.06 @ 14:54
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Við Jón Rafn erum líklega báðir komnir á fremsta hlunn með að skrifa greinar um fyrirlestur páfans í Regensburg fyrir réttri viku og um asnaleg viðbrögð sumra fjölmiðla og öfgamanna við honum. En af því að Jón minnist þarna á fréttaflutning BBC, finnst mér rétt að benda á, að þrátt fyrir hæpna fréttamennsku þar hafa hlustendur ekki látið villa sig, a.m.k. ekki þeir, sem taka þátt í “Have your say"-þættinum á BBC-vefsíðunni, en þar var spurt: “Were the Pope´s remarks ‘anti-Islamic’?” – Þið sjáið svörin (977 komin) á http://newsforums.bbc.co.uk/nol/thread.jspa?threadID=3822&&&&&edition=2&ttl=20060918030853.

Það er merkilegt að sjá ráðandi anda í þeim svörum og ekki síður, hve margir lesendur vefsetursins taka undir þau tilsvör sem gagnrýna málflutning og athafnir róttæku islamistanna. Hér eru “readers´ recommended” í réttri röð eftir því hversu margir mæltu með ummælum þeirra sem skrifað höfðu inn á vefsíðuna: http://newsforums.bbc.co.uk/nol/thread.jspa?sortBy=2&threadID=3822&edition=2&ttl=20060918031339&#paginator.

19.09.06 @ 15:19
Athugasemd from: Janus Hafsteinn Engilbertsson
Janus Hafsteinn Engilbertsson

Eftir að hafa fylgst með skoðanaskiptum ykkar Jón Valur, og Jón Rafn, um það hvort Jesús hafi fordæmt vopnaburð, komu mér þessi orð Jesú úr fjallræðunni í hug:
Matt 5:38-48
-38- Þér hafið heyrt, að sagt var: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn.

-39- En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim, sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn, þá bjóð honum einnig hina.

-40- Og vilji einhver þreyta lög við þig og hafa af þér kyrtil þinn, gef honum eftir yfirhöfnina líka.

-41- Og neyði einhver þig með sér eina mílu, þá far með honum tvær.

-42- Gef þeim, sem biður þig, og snú ekki baki við þeim, sem vill fá lán hjá þér.

-43- Þér hafið heyrt, að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn.

-44- En ég segi yður: Elskið óvini yðar, og biðjið fyrir þeim, sem ofsækja yður,

-45- svo að þér reynist börn föður yðar á himnum, er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta.

-46- Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gjöra ekki tollheimtumenn hið sama?

-47- Og hvað er það, þótt þér heilsið bræðrum yðar einum. Gjöra heiðnir menn ekki hið sama?

-48- Verið þér því fullkomnir, eins og faðir yðar himneskur er fullkominn.

Og svo orð Páls postula:

Róm 12:14-21
-14- Blessið þá, er ofsækja yður, blessið þá, en bölvið þeim ekki.

-15- Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.

-16- Berið sama hug til allra, hreykið yður ekki, en haldið yður að hinum lítilmótlegu. Ætlið yður ekki hyggna með sjálfum yður.

-17- Gjaldið engum illt fyrir illt. Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna.

-18- Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi.

-19- Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að, því að ritað er: Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn.

-20- En ef óvin þinn hungrar, þá gef honum að eta, ef hann þyrstir, þá gef honum að drekka. Með því að gjöra þetta, safnar þú glóðum elds á höfuð honum.

-21- Lát ekki hið vonda yfirbuga þig, heldur sigra þú illt með góðu.

Hér fáum við fagnaðarerindið í hnotskurn. Ég tel því að það sé augljóst af lestri Ritningarinnar, nema að við viljum misskilja hana, að Jesús og Páll hafi ekki hvatt menn til þess að þeir bæru né beittu vopnum. Því svo elskaði Guð heiminn.

Jón Rafn, gott hjá þér þetta:
“Stundum er guðfræðingum hollara að leita á vit bænarinnar heldur en flókinna textaskýringa sem grundvallast á mennskum vangaveltum.”

Og ég vil bæta við: Að stundum er öllum mönnum hollara… Förum ekki lengra en ritað er. Gefum orðinu forgang, því annars er hætta á því að við búum til kenningar, sem svo gera listavel orð Guðs að engu.

Kærleiks kveðjur, bræður í Kristi,
Janus Hafsteinn.

19.09.06 @ 23:59
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þakka þér innlegg þitt, Janus. Trúin verður ekki boðuð með sverði, heldur náðarkrafti Heilags Anda.

Þvi sagði Páll postuli:

Styrkist nú í Drottni og í KRAFTI MÁTTAR HANS. Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þess myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum“ (Ef 6. 10- 12).

Við bóklærða guðfræðinga vil ég segja þetta: Ykkur væri hollara að trúa þeim sem hafa sannreynt þetta. (sjá hugleiðingu heil. Berndars við Ritningarlesturinn 20. september). Eða ætlar einhver bóklærður guðfræðingur að Páll viti ekki um hvað hann var að tala? Svo sannarlega lærðist honum þetta sökum sinnar eigin reynsluguðfræði (Nota bene: Og sjálfur var hann hámenntaður farísei áður en ljósið umvafði hann á veginum til Damaskus). En mennsk speki lítur á slíkt sem fásinnu vegna þess að speki manna er heimska hjá Guði, eins og hann sagði reyndar sjálfur.

20.09.06 @ 07:36
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Eruð þið að tala til mín, bræður? Hafi ég sagt eitthvað vitlaust um þessi mál, viljið þið þá vinsamlega benda mér á þau atriði.

En ég þakka umræðuna. Innlegg þitt, Janus Hafsteinn, var samt óþarflega langt, a.m.k. þetta innihald, sem hér gaf að líta, ef það á að heita umræða um efni síðunnar, þ.e. hugsanlegt siðmæti vopnaburðar. “Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum,” kemur þessu t.d. ekkert við. Ég þarf ekki að segja neinum það hér og heldur ekki ykkur, Jón Rafn og Janus Hafsteinn, að Jesús átti ekki við, að kristnir menn ættu að fagna með þeim sem hertaka borgir þeirra.

Mér dytti ekki í hug að afneita orðum Jesú í Fjallræðunni, sem J.H. vitnar í. Þar er raunar fátt eða ekkert um eiginlegt stríð, en Páll postuli segir vissulega: “Hafið frið við alla menn, að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi” (Róm.12.18), en ef það vers snertir í raun stríð milli þjóða, þá er alveg ljóst, að síðustu 11 orðin gera ráð fyrir, að stundum sé mönnum það ekki unnt og það ekki á þeirra valdi, að friður haldist. Ef ráðizt er á þjóð (eins og Tékka, Slóvaka og Pólverja 1938–9), þá hefur hún hins vegar, samkvæmt kenningu kaþólsku kirkjunnar, rétt til að verja sig, ef hún á þess einhvern kost að verja sitt land. Lútherska kirkjan hefur til skamms tíma ekki andmælt því og heldur ekki sú orþódoxa. Þess vegna er ég undrandi á því, að Jón Rafn, sem sagði sjálfur hér ofar: “veraldleg yfirvöld … hafa rétt til að verja hendur sínar innan marka siðgæðis og réttlætis ef á þau er ráðist,” skuli óbeint taka undir með (að því er virðist) nánast öllu innleggi þínu, minn ágæti Janus Hafsteinn, og þar með eftirfarandi setningu þinni, sem mér finnst hæpið að taka undir, af því að það getur auðveldlega misskilizt sem algjör pacifismi (sú stefna, að ríki megi aldrei bregða vopni til að verja sig):

“Ég tel því að það sé augljóst af lestri Ritningarinnar, nema að við viljum misskilja hana, að Jesús og Páll hafi ekki hvatt menn til þess að þeir bæru né beittu vopnum.” – Vissulega er rétt, að þeir “hvöttu ekki” til stríðs, en þeir bönnuðu ekki varnarstríð; a.m.k. fæ ég ekki séð það í neinum tvímælalausum yfirlýsingum þeirra. Sum stríð eru réttlætanleg (þ.e. vörn annars aðilans þar), en kannski mikill meirihluti stríða alls ekki. Fjallræðan ávarpar hins vegar fyrst og fremst einstaklinginn, m.a. vegna þess sem hann kann að líta á sem sína eigin hagsmuni, en þegar aftur er komið að því, að einhver vilji löðrunga barn mitt eða þitt, þá segjum við ekki barninu að snúa hinni kinninni að árásarmanninum, heldur verjum það. Hugleiðum það og margt fleira í þessu sambandi með því að renna aftur í gegnum Fjallræðuna.

20.09.06 @ 11:43
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Svo ber að taka fram, að enda þótt a.m.k. sum varnarstríð séu réttlætanleg í princípinu (og í byrjun), þá er siðmæti þeirra stríða samt bundið við fleiri skilyrði, þ.e.a.s. að ekki sé beitt óleyfilegum meðölum, svo sem viljandi árásum á fjölda óbreyttra borgara (eða jafnvel bara einn; en ríkið, sem stendur í hernaðaraðgerðinni, þarf reyndar ekki endilega að vera ábyrgt fyrir slíku einstaklingstilfelli, því að þar getur einfaldlega verið um agabrot að ræða, sem viðkomandi hermaður, gerandinn, ber sjálfur siðferðisábyrgð á – og er a.m.k. í ýmsum tilfellum refsað fyrir, eins og líka réttmætt er).

20.09.06 @ 14:02
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Þegar þú segir, Jón Valur, að það sé ekki ljóst hvort Kristur hafi talað afdráttarlaust og fordæmt notkun vopna og styrjalda sem felast í manndrápum þar sem ákveðinn hópur manns seilist eftir einhverjum gæðum annars hóps eða þjóðarheildar, iðulega undir dulargervi hástemmdra orða vegna þess að illskan (Satan) getur ekki starfað nema að taka á sig mynd hins góða í líki ljósengils, þá vitnað ég í hina víðkunnu grein Evelyn Underhill, Church and War:

Kristindómurinn felur í sér algildar viðmiðanir og kirkjan glatar náðinni í sérhvert sinn sem hún leitast við að ganga veg málamiðlana vegna þess að hún er yfirskilvitlegt samfélag sem samanstendur af þeim sem snúið hafa baki við heiminum til að skipa sér í sveit Guðs. Þeir hafa ákveðið að þjóna undir háleitu merki krossins með öllu því sem felst í þeirri þjónustu. Þrátt fyrir að kirkjan sé óhjákvæmilega í heiminum, getur hún aldrei verið af heiminum.

Það er einmitt þetta sem gerðist á síðmiðöldum þegar menn sem aldrei hefðu átt að gera það komist til valda innan kirkjunnar. Þá hófst dýpsta og lengst niðurlægingarskeið hennar vegna þess að hún glataði náðinni. Ég vitna enn í skrif Underhill:

Við erum neydd til að draga þá beisku niðurstöðu að meðlimir hinnar sýnilegu kirkju sem líkama standa sig ekki nægilega vel. Þeir eru ekki nægilega hugrakkir til að hætta öllu sökum þess sem þeir vita að er Vilji Guðs og kenning Krists. Þetta felur í sér að leggja allt að veði, frelsi, mannvirðingu, vináttu og öryggi – sjálft lífið. Þetta er heimska krossins með þeim sérstaka hætti sem okkar eigin kynslóð er beðin um að samþykkja þetta. Þetta er það algilda val sem ungi og ríki maðurinn gat ekki orðið við. „Ef ég væri enn að þóknast mönnum, þá væri ég ekki þjónn Krists“ segir heilagur Páll við Galatamenn (Gl 1. 10). Enn er kirkjan hugfangin af því að þóknast mönnum. Hún hefur ekki enn samþykkt þá skyldu sína að vera í heiminum en ekki af heiminum, að afneita aðferðum heimsins og viðmiðunum og setja allt sitt traust á aðferðir Guðs og viðmiðanir. Af þessum ástæðum er yfirskilvitlegt líf hennar máttvana og vanmegna og áhrif hennar á þjóðirnar lítil. Það verður einungis þegar hún gefur þetta róttæka samþykki sitt sem hún verður það í fyllsta skilningi sem henni er ætlað að vera: Raust guðdómlegs og ummyndandi kraftar.

Það var þetta sem gerðist á síðmiðöldunum þegar ein ung stúlka, heil. Katrín frá Síena, hóf kirkjuna upp úr niðurlægingu hennar með því að leggja allt í sölurnar: Líf sitt, bænir og verk. Ef kristindómurinn hefði verið trúr köllun sinni, ef prestar hefðu talað af einurð af predikunarstólnum og fordæmt nasimann, ef hinir trúuðu hefðu ákallað Drottin og beðið hann um að úthella náð sinni yfir ásjónu jarðar, þá hefði aldrei orðið stríð. Við brugðumst.

Í dag logar eldur Heilags Anda í kínverskum bræðrum okkar og systrum og þannig endurnýjast ásjóna jarðar í Kína, þrátt fyrir öll vopn ógnarstjórnarinnar. Þau bjóða fram vinstri kinnina þegar sú hægri er slegin! Það gerðu fornkristnir menn einnig og Rómaveldi riðaði til falls með sínum 120 herfylkjum.

20.09.06 @ 16:14
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Góður og vekjandi er Evelyn Underhill, þótt hann sé enginn guðspjallamaður né postuli í mínum augum. En hvar stendur þú í raun, Jón Rafn, í þessu máli? Ertu búinn að hafna þeirri skoðun, sem þú lézt í ljós hér ofar? (”veraldleg yfirvöld … hafa rétt til að verja hendur sínar innan marka siðgæðis og réttlætis, ef á þau er ráðizt“). Hefur þér snúizt hugur? En hvað er svona gott við algeran pacifisma? Þú veizt það eins vel og ég, að hvorki voru Þjóðverjar almennt nógu sterktrúaðir til að koma í veg fyrir ofsóknir og árásarstríð Hitlers, né heldur Frakkar og Bretar til að geta í krafti bæna sinna beðið af sér óværuna, þ.e. þetta yfirgangssama alræðisríki í Mið-Evrópu. Og þá er þetta spurning mín: Höfðu ríkisstjórnir Frakklands og Bretlands o.fl. ríkja rétt til að reyna að stöðva hin stórfelldu landvinningaáform Hitlers-Þýzkalands árið 1939, þegar hersveitir Hitlers og Stalíns óðu yfir Pólverja? – Í mínum augum höfðu Bandamenn ekki aðeins rétt til þess, heldur skyldu – og það m.a.s. löngu fyrr en loks var hafizt handa, t.d. þá skyldu að standa með Tékkum og Slóvökum í stað þess að svíkja þá með Münchenarsamningunum 1938. – Hvað hefðir þú gert í þeim aðstæðum (hefðirðu mátt ráða), kæri bróðir?

Hér eru þrjár meginspurningar, sem fróðlegt væri að fá svör við.

20.09.06 @ 16:51
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

1. sem svar við fyrstu spurningunni hafa lögmætt yfirvöld hvers þjóðríkis rétt til að vera hendur sínar samkvæmt mennskum lögum. Í því efni hefur mér ekki snúist hugur. nei. En heimurinn er undarleg lóðatík líkt og pólitíkin. Það er hryggileg staðreynd að áhrifamikil öfl í Bandaríkjunum jafnt og í Englandi studdu nasista vel framan af og veittu þeim m. a. drjúgan fjárstuðning í framkvæmd kynbótastefnunnar og í reynd sá IBM um að halda utan um skráarsafnið með niðurstöðum „læknisfræðilegra rannsókna“ í dauðabúðum Þriðja ríksins allt til stríðsloka.

Hún, Evelyn Underhill, gerði enga kröfu til að vera mannkynsfrelsari, heldur lagði mál sitt fram með skilmerkilegum hætti í ritsmíð sinni sem vakti mikla athygli í Englandi á sínum tíma og sem hún gerir reyndar enn. [Greinin var samin 1940 og Underhill andaðist 1941].

Þegar draugur ófriðar er vakinn upp getur reynst erfitt að kveða hann niður, þar á meðal í Írak. En ef mig rekur rétt minni til, þá voru það Bandaríkjamenn sjálfir sem komu Saddam Hussein til valda til að tryggja olíuhagsmuni sína í Austurlöndum nær. Í okkar eigin þjóðsögum gerðist það iðulega þegar menn settust undir nautshúð til að vekja upp draug að þér trylltust. Ég get ekki betur séð en að það sé þetta sem við sjáum blasa við sjónum í Írak í dag.

2. Ég get ekki sett mig í stöðu ráðamanns á þessum tíma frekar en nú. En ef ég hefði vitað það sem ég veit nú hefði ég eftir bestu getu reynt að vekja meðlimi kirkjunnar til virkari afstöðu gegn nasismanum, með sama hætti og við erum að leitast við að berjast gegn dauðamenningu veraldarhyggjunnar hér á kirkju.net.

Ég fyrirverð mig ekki fyrir að vera friðarsinni samkvæmt boðskap Krists: Sá sem lyftir sverði [eða fóstureyðingarhnífnum] mun falla fyrir sínu eigin vopni.

Hér er um algilt andlegt lögmál að ræða. Er það ekki þetta sem blasir við sjónum í Evrópu í dag. Er Evrópa ekki að drekkja sér í eigin blóði [fósturdeyðinganna]?

Þú leiðréttir mig ef ég hef á röngu að standa og fyrirgefur að ég tala um sverð fósturdeyðinganna í þessu sambandi.

Kristur boðaði aldrei það sem er óframkvæmanlegt og hefði ekki fært okkur friðarboðskap sinn nema hann sé sannleikanum samkvæmt. Það eru Satan og mennirnir sem koma í veg fyrir að friðarríki hans renni upp!

20.09.06 @ 19:25
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Sælir eru friðflytjendur, segir hann í sæluboðunum (í 7. setningu hans í Fjallræðunni, vel að merkja), og víst hlýtur það að vera rétt. En hvernig flytjum við heiminum þann frið? Nú ætla ég að láta vera að grípa bara til orða Jesú: “Frið læt ég eftir hjá yður, minn frið gef ég yður; ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur …", og gera þetta að andlegu fyrirbæri eingöngu, heldur taka á þessu í raun og sjá þetta sem konkret möguleika. Vissulega sér Jesaja fyrir slíkan frið og tengir hann Guðsríkinu: “Og hann mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar” (2.4), en við gerum ekki ráð fyrir slíkum heimsfriði hér og nú, vitandi hvernig mennirnir eru – misjafnir og skiptir upp í þjóðir og hagsmunasamfélög sem brynja sig fyrir öðrum og hafa ómælda reynslu að baki fyrir því, að betra er að vera var um sig og bjóða ekki hættunni heim.

Já, hvað er að flytja heiminum frið? Getur verið að Atlantshafsbandalagið hafi lengst af a.m.k. reynzt friðarbandalag? Getur verið, að varnir tryggi einhverju ríki frið? Eða fæst friður með einhliða afvopnun? Hugleiðum það.

En ég er ekki fremur en Jón Rafn reiðubúinn til að hafna sjálfsvarnarrétti ríkja, sé sanngjarnlega með þann rétt farið. Og friðarsinnarnir í Frakklandi og Stóra-Bretlandi milli heimsstyrjaldanna tveggja stýrðu landi sínu ekki á gæfuveg með “árangursríkri” baráttu sinni gegn varnarviðbúnaði eigin ríkja. Um það gæti trúbróðir okkar og ágætur rithöfundur, Arnold Lunn, upplýst Jón Rafn betur en ég, en hann lifði þá tíma.

Þegar friðarsinnarnir birtast – sumir hverjir gjarnan með ýmsar óviðkunnanlegar, hálffaldar forsendur í farteskinu (svo sem ‘herstöðvaandstæðingar’ með sína Bandaríkjaandúð og sumir enn með kommúnistískan þankagang) – þá mun ég a.m.k. ekki óvirða þessa viðvörun postulans: “Þegar menn segja: “Friður og engin hætta,” þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu, og þeir munu alls ekki undan komast” (I.Þess.5.3). Þetta er reyndar talað um efsta “dag Drottins,” sem “kemur sem þjófur á nóttu” (5.2), en ég fæ ekki varizt þeirri hugsun, að hliðstæða þessa geti átt við um værukærð og andvaraleysi margra á 20. og 21. öld.

20.09.06 @ 20:56
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Svo var ég þarna ofar að slá saman Evelyn Underhill og rithöfundinum fræga Evelyn Waugh, sem var, þegar ég síðast vissi, karlmaður (höf. Brideshead Revisited) og það kaþólskur í þokkabót (d. 1966). – Evelyn er eitt af þessum viðsjálu nöfnum í ensku, sem geta verið bæði karlkyns og kvenkyns.

20.09.06 @ 21:33
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

En ég held ég þurfi ekkert að leiðrétta þig, Jón bróðir, um sverðið og fósturdeyðingahnífinn: þeir sem reiða sverðið til höggs að fyrra bragði, munu á einhvern hátt falla fyrir sverði, og hinir, sem beita síðarnefnda vopninu, eiga eftir að mæta dómara lifenda og dauðra, Kristi sjálfum, til að heyra hans dóm upp kveðinn yfir þeim, sem gjörðu slíkt óhæfuverk “einum þessara minnstu” bræðra hans. “Og þessir skulu fara burt til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs” (Mt.25.45–46). – Enn er þó tími til að iðrast og verða fyrirgefið og hlotnast náðin og eilíft líf. Menn óvirði það ekki!

20.09.06 @ 21:42
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blog software