« Biblían virðir hið ófædda líf með orðum sínum og bönnumVakin athygli á Lesbókargrein »

11.10.06

  18:37:47, Skrásetjari: Jon Valur Jensson   , 733 orð  
Flokkur: Fósturvernd, Fólksfækkunarhættan

Fólksfækkun er stærsta vandamál Rússlands, segir Pútín

Í Speglinum á Rás 1 í Ríkisútvarpinu í kvöld var m.a. fjallað um efnið fólksfækkun í Rússlandi. Umsjónarmaður Spegilsins, Friðrik Páll Jónsson, sem ungur að aldri gaf út litla bók [1] um fólksfjölgunarvandamál heimsins, fátækt og hungur, flutti hér hlustendum allt annan veruleika frá Rússlandi. Efni þáttarins má nálgast í heild (næstu vikuna) á þessari Rúv-vefslóð. Þeir, sem misstu af þættinum, eru hvattir til að hlusta á hann á vefnum eða í endurtekningu hans í útvarpinu fljótlega upp úr miðnætti.

Hér er upphaf þessarar fréttaskýringar Friðriks Páls:

"Hvert er alvarlegasta vandamál Rússlands? Látum forsetann svara spurningunni. Vladimír Pútín segir, að það sé fækkun landsmanna. Fækkunin er í raun merkileg í ljósi þess, að í Rússlandi er 5–6% hagvöxtur á ári, aldrei verið eins mikill afgangur í viðskiptum við útlönd, kaupmáttur hefur aukizt til muna, og útlit er gott. Uppgangur í efnahagslífinu ætti við eðlilegar aðstæður að stuðla að auknum barneignum.

Rússneska hagstofan segir, að landsmenn séu nú rúmlega 142 milljónir. Þeir voru 150 milljónir árið sem Sovétríkin liðu undir lok. Sem dæmi má nefna, að á árinu 2004 fækkaði Rússum um 800.000, og fyrstu 8 mánuði þessa árs fækkaði þeim um 350.000. Fæðingartalan er aðeins um 1%, og það nægir ekki til þess að halda í horfinu.

Pútín forseti nefndi þennan mikla vanda í ræðu í vor, og síðan hafa verið samþykktar fjárveitingar sem eiga að örva þjóðina til barneigna. Barnabætur hafa verið tvöfaldaðar og eru nú um 4.000 krónur á mánuði með hverju barni, og sérstakur fæðingarbónus upp á 700.000 kr. er ætlaður konum, sem eignast barn nr. 2. En það verður þó ekki farið að greiða þennan bónus fyrr en árið 2008. Stjórnvöld segja, að þetta sé nú forgangsmál ...."

Friðrik Páll fjallaði einnig um orsakir hárrar dánartíðni í Rússlandi, sem og um innflutning fólks, einkum frá Kína, til að bæta úr vinnuaflsskorti á vissum landsvæðum. [Hér verður innan sólarhrings bætt við fleiri upplýsingum sem fram komu.]

"Á sama tíma fjölgar Bandaríkjamönnum jafnt og þétt. Þeir eru tvöfalt fleiri en Rússar og rúmlega það, verða orðnir 300 milljónir eftir nokkra daga ..." – Þannig lauk þessum fréttapistli Fririks Páls.

Þakka ber það, sem þakkarvert er. Oft hefur sá, er þetta ritar, verið ósáttur við umfjöllun Spegilsmanna um ýmis mál, hvort sem í hlut hafa átt Gunnar Gunnarsson fréttamaður, Hjálmar Sveinsson eða jafnvel sá þaulreyndi fréttamaður Friðrik Páll Jónsson. En hér var ágætlega að verki staðið; eina ávöntunin, sem ég tók eftir – og raunar ekki lítil – var sú, að ekkert var minnzt á fósturdeyðingar sem hluta þess vanda, sem þarna er við að stríða. Þó var þess ekki sízt þörf, enda hefur tíðni þeirra verið óskapleg allt frá síðustu árum Sovét-sambandsins og í Rússlandi á liðnum árum, og jafnt Pútín forseti sem rússnesk-orþódoxa kirkjan hafa með mjög sterkum orðum beint augum landsmanna að þeim vanda og nauðsyn þess, að bætt verði úr. Orþódoxa kirkjan er afar einörð á þessu máli, sjá t.d. um það þessa athugasemd mína, í neðanmálsgrein [1] þar, á annarri Kirkjunetssíðu. En mjög stór hluti af fólksfækkunarvanda Rússa orsakast af fósturdeyðingum, til viðbótar við nátengt vandamál, barnfáar fjölskyldur, auk þess sem meðal-lífaldur rússneskra karlmanna hefur farið lækkandi, úr 64 árum niður í 59 ár skv. þessum Spegilsþætti.

––––––––––––––––
[1] Barn, barn, barn... : á hverjum sólarhring fæðast 300 þúsund börn og búa tvö af hverjum þremur við skertan hlut, Reykjavík: Þing, 1971, 72 s., töflur, línurit, gefin út í ritröðinni Þriðji heimurinn (efnið er í Gegni skilgreint: Börn – Lífskjör – Fólksfjölgun – Þróunarlönd – og á ensku: Population Density). – Annað rit eftir Friðrik Pál er Hungur : það eru mannréttindi að fá að borða Rv. 1971.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Ég varð læs um það bil fimm og hálfs árs. Fyrsta bókin sem ég skjögraðist í gegnum var Palli var einn í heiminum. Þetta var drengur sem fékk martröð þar sem hann var aleinn í heiminum og gat gengið um allt og borðað eins mikið gotterí og hann vildi. Sem betur fer vaknaði hann upp af martröðinni.

Það mun veraldarhyggjan ekki gera. Hún verður að horfast í augu við eigin verk, sjálfsskapaða martröð. Þetta var draumur hennar í upphafi, að myrða sem flest ófædd börn til þess að hinir fáu gætu deilt með sér gæðum jarðar. Þeir hafa verið duglegir, myrt einn milljarð barna á tveimur áratugum. Þetta er draumur malthusaristanna og frú Margrétar Sanger, stofnanda Planned Parenthood: Að myrða og myrða meira!

En er hræsnin (eða kannske óttinn við eigin verk) svo mikil að þeir fara eins og köttur í kringum heitan graut og þora ekki að minnast á raunverulega orsök fólksfækkunarinnar: fósturdeyðingarnar. En mikil verður reiði almennra kjósenda í löndum Evrópubandalagisns þegar þeir draga þessa stjórnmálamenn til ábyrgðar og óðum styttist í það að þessi stund renni upp. Menn sem unnið hafa markvisst að hruni heillar heimsálfu í blindni sinni.

Önnur bókin sem ég las var um hollenskan dreng sem stóð við flóðvarnargarð og hélt fingrinum í gati til að bjarga landinu sínu. Veraldarhyggjan brást þveröfugt við: Hún stækkaði gatið svo að flóðbylgja DAUÐAMENNINGARINNAR helltist yfir.

Ég gerði mér ekki grein fyrir því sem barn að þessar bækur hefðu forspárboðskap að boða um hrun evrópskrar menningar: AVE CAESAR, MORITURI TE SALUTANT – Heill þér keisari [Dauði]! Þeir sem markaðir eru dauðanum heilsa þér! (Keisarakveðja skylmingarþrælanna í Colosseum til forna.)

11.10.06 @ 21:38
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Kærar þakkir, nafni, fyrir vel við eigandi athugasemd, glögga og setta fram með þínum ferska, líflega rithætti.

11.10.06 @ 21:44
Ábyrgðarmaður: Jón Valur Jensson guðfræðingur.

Önnur blogg sama höfundar: [jonvalurjensson.blog.is]
[jvj.blog.is]
[krist.blog.is] (þátttaka)
[lifsrettur.blog.is]

Leit

  XML Feeds

blog software