« Ritningarlesturinn 18. ágúst 2006„Ég nenni ekki, ég vil ekki, ég hef ekki tíma núna!“ »

17.08.06

  13:49:10, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 242 orð  
Flokkur: Hin heilaga arfleifð

Fögur messa

Meðan það er mér enn í fersku minni langar mig að greina ykkur frá því að kaþólsk messa var haldin í samkomusalnum á níundu hæð í Hátúni 10 (einu húsa Öryrkjabandalagsins) s. l. mánudag, kl. 4 síðdegis. Það var faðir Jakob Rolland sem söng messuna. Salurinn var fullur af fólki og messan markar upphaf vetrarstarfs Kærleikssystra móðir Teresu frá Kalkútta. Í vetur munu þær verða með tómstundastarf fyrir húsfélagið síðdegis á mánudögum.

Hápunktur messunnar fannst mér vera þegar misjafnlega mikið bæklað fólk gekk með fórnargjafirnar upp að altarinu til föður Jakobs. Fullorðinn maður langt leiddur af mænusigð bar þannig vínið og sjaldan hef ég séð svo barnslega gleði lýsa með jafn áþreifanlegum hætti af ásjónu nokkurs manns. Það er einnig gleðilegt til þess að hugsa hversu djúpan samhljóm kaþólska kirkjan á í hjörtum Íslendinga. Rétt eins og gamall heimilisvinur sem brá sér í langt ferðalag, en er nú kominn aftur heim: Ecclesia nostra, Mater dulcifer!

Að messunni lokinni buðu Teresusystur messugestum í kvöldmat sem þær framreíddu sjálfar af mikilli elsku. Sannast sagna minnti þetta mig sjálfan á máltíðir frumkristinna manna; Ubi caritas, ibi Deus est. Fyrirhugað er að halda slíkar messur einu sinni í mánuði á vetri komandi síðdegis á mánudögum.

3 athugasemdir

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir þessa frásögn Jón. Það er ánægjulegt að frétta að messurnar þarna eigi að verða mánaðarlegur viðburður.

17.08.06 @ 16:27
Athugasemd from: Jón Rafn Jóhannsson
Jón Rafn Jóhannsson

Já Ragnar, þetta eru gleðileg tíðindi. Í fyrra gáfu Teresusysturnar mér stóra og undurfagra styttu af Maríu Guðsmóður. Þetta er kraftaverkastytta af hinni blessuðu Mey frá Lourdes.

Hvers vegna? Jú. Ég hef hana á áberandi stað nærri rúminu mínu og eitt sinn þegar ég var að hreinsa til snéri ég henni óvart frá rúminu mínu. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar hún hafði snúið sér að mér á einni viku.

Trúr vísindunum sem fyrrverandi landfræðingur snéri ég henni aftur frá mér og það sama endurtók sig á einni viku. Hún snéri sér aftur að mér. Ég hef það einhvern veginn á tilfinningunni að hin blessaða Mey standi þessu öllu að baki.

17.08.06 @ 17:09
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

—-

Fallegur lestur, nafni, þakka þér.

17.08.06 @ 21:51