« Pílagrímsferð til Maríulindar 10. júlíFrans páfi er saklaus af ásökunum um þjónkun við herforingjastjórnina »

27.03.13

  19:53:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 252 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Fasta og yfirbót, Fastan

Föstudagurinn langi - samstöðudagur með þjáðum

Til eru þeir sem líta á Föstudaginn langa sem leiðinlegan dag því þá sé litla þjónustu eða skemmtanir að fá og storka jafnvel helgidagalöggjöfinni en hún er sett til að tryggja sem flestum næði og kyrrð þennan dag. Það er löng hefð fyrir því í okkar menningu að leita kyrrðarinnar til að leggja stund á innri skoðun. Þetta er fyrir trúarleg áhrif kristninnar en margir þekkja sögurnar af Kristi sem fór út í eyðimörkina til að fasta.

Á föstudaginn langa er þess minnst að þann dag þjáðist Kristur á krossinum og því er tíminn notaður til að rannsaka hugann og samviskuna, horfa inn á við og reyna að finna það sem aflaga hefur farið í eigin ranni. Flestir ættu að hafa gott af þannig innri skoðun hvort sem hún er gerð á trúarlegum forsendum eða ekki. Þennan dag ganga menn því á hólm við vanræksluverk, lesti, stórar eða litlar yfirsjónir eða jafnvel afbrot og einsetja sér að gera betur.

Frá sjónarhóli bæði trúaðra og trúleysingja má einnig allt eins líta á Föstudaginn langa sem samstöðudag með þeim sem þjást eða sem hafa þjáðst og þeirra þarf ekki að leita langt. Þjáning og sorg er víða í okkar samfélagi en margir bera harm sinn í hljóði. Út um víða veröld eru svo næg athugunarefni. Það er gott og sjálfsagt að taka frá einn dag á ári til að rannsaka samviskuna og sýna þeim sem þjást samstöðu. Allt víðsýnt og góðviljað fólk ætti að geta tekið undir nauðsyn þess að huga að þeim málum.

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Þakka þér góðan pistilinn, Ragnar.

Á þessa samstöðu með þeim, sem glíma við sorg og þjáningu, minnir páfinn okkar nýkjörni, Franz, með fótaþvotti sínum í gær. Frá honum er sagt frá hér á Mbl.is (með myndbandi), þar sem segir m.a.:

Frans páfi hóf embættisverk páskahátíðarinnar með því að þvo og kyssa fætur tólf ungra fanga í gær, en það er aldagömul páskahefð páfa af þvo fætur og er til marks [minningar] um þegar Jesús þvoði fætur lærisveina sinna. En núna gerðist það í fyrsta skiptið í sögunni að páfi þvær fætur sakamanna.

Meðal fanganna var múslimsk kona, og er það sagt í fyrsta sinn sem páfinn þvær fætur konu, en vanalega hafa það verið prestar, sem hann fæturna á. En þessi siður tíðkast miklu víðar, t.d. var ég við slíka athöfn í í svartmunkaklaustri (konventu) í Cambridge, þar sem prestvígðir munkar þvoðu fætur fólks, og var ég einn þeirra sem fengu þar fótaþvott.

Nánar um fréttina frá Róm HÉR! – En páskavaka í dómkirkju Krists konungs í Landakoti hefst kl. 22.00 á laugardagskvöld; upprisumessa á pólsku verður þar kl. 6.00 á páskadagsmorgun, en hámessa á íslenzku kl. 10.30; messa verður þar aftur kl. 13.00 á pólsku á páskadag, og á ensku verður páskamessan kl. 18.00. Annan dag páska verður þar messa á íslenzku kl. 10.30, á pólsku kl. 13.00 og á ensku kl. 18.00. Messan langa í dag, föstudaginn langa, í Landakoti var áhrifarík og falleg.

Geta má þess hér, að það er skortur á fleiri karlmönnum í kórinn í Landakoti.

Svo óska ég öllum gleðilegra páska.

29.03.13 @ 13:30
Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Takk fyrir innlitið og fróðlega athugasemd Jón! YouTube myndskeið af þessum atburði sem þú minnist á er að finna hér: http://www.youtube.com/watch?v=IRPjSI-vIzg

Ég horfði á útsendingu EWTN frá páskaguðsþjónustu Frans páfa úr Péturskirkjunni í gær. Því miður vantaði hljóð en athöfnin var falleg. Faðir Cantalamessa predikaði að venju og er predikun hans að finna hér: http://www.news.va/en/news/vatican-passion-of-our-lord-sermon-full-text

Guðsþjónustan í Riftúni í gærkvöldi var einföld en einnig áhrifarík. Á eftir voru skriftir. Í Riftúni verður svo páskamessa kl. 16 á morgun páskadag. Þar er ekki kór og ekki alltaf orgelundirleikur undir safnaðarsöng nema þegar Teresusystur koma því þær koma bæði með orgel og orgelleikara. Þær aðstoða við kvertíma barna og koma því ekki nema þegar kvertímar eru. Á morgun verður því einn maður með fiðlu sem fiðlar í gegnum Gloria, Sanctus og Agnus Dei og gefur tóninn í hinu.

Sömuleiðis óskir til þín og allra lesenda um gleðilega páska.

30.03.13 @ 10:29