« EWTN sjónvarpsstöðin næst best á Eurobird 1 gervitunglinu„Getið þið ekki beðið með mér eina stund?“ »

22.04.11

  08:37:37, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 272 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi, Dymbilvika og páskar

Helgihald föstudagsins langa - dags föstu og yfirbótar

Á föstudaginn langa er ekki lesin heilög messa í rómversk-kaþólskum kirkjum heldur er krossfórnar Jesú Krists minnst í sérstakri guðsþjónustu. Guðslíkamahúsið er haft opið og tómt til að minna á að þennan dag steig Jesús til heljar. Krossmörk eru hulin fjólubláu klæði og krossfórnarinnar er minnst með tilbeiðslu krossins. Líkami Krists er veittur hinum trúuðu í mynd brauðs sem helgað var áður.

Þennan dag er venjan að biðja svokallaðar krossferilsbænir en það eru 14 bænir þar sem tekin eru fyrir íhugunarefni um þjáningu Krists frammi fyrir dómstóli Pílatusar, göngu hans eftir píslarveginum Via Dolorosa til Golgatahæðar og loks dauða hans á krossinum og greftrun. Hefð er fyrir því að páfi biðji krossferilsbænirnar í hringleikahúsinu forna Kólosseum í virðingarskyni við hina frumkristnu og þá sem létu lífið á þeim stað.

Föstudagurinn langi er jafnframt sérstakur dagur föstu og yfirbótar. Samkvæmt kirkjulögum er rómversk-kaþólsku fólki frá 18 til 60 ára aldurs skylt að fasta á föstudaginn langa sem er bindandi föstuboðsdagur. Sjúklingar eru þó undanþegnir föstu.
Fasta er það þegar aðeins er neytt einnar fullkominnar máltíðar á dag. Þó er ekki bannað að neyta smávegis af fæðu tvisvar að auki.

Allir trúaðir sem náð hafa 14 ára aldri eiga að gera yfirbót alla föstudaga, einkum á lönguföstu. Velja má um eftirtaldar leiðir:

Forðast neyslu kjöts eða annarrar fæðu.
Forðast áfenga drykki, reykingar eða skemmtanir.
Gera sérstakt átak til að biðja:
* Með þátttöku í heilagri messu.
* Með tilbeiðslu hins alhelga altarissakramentis.
* Með þátttöku í krossferilsbænum á föstudögum í lönguföstu.
Fasta algjörlega oftar en skylt er og gefa fé það sem þannig sparast til þeirra sem þess þurfa.
Sýna sérstaka umhyggju þeim sem fátækir eru, sjúkir, aldraðir, farlama eða einmana.

No feedback yet