« Er eitthvað athugavert við símauglýsinguna?Merki krossins 1. hefti 2007 er komið út »

31.08.07

  17:58:09, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 266 orð  
Flokkur: Kaþólska kirkjan á Íslandi

Fjórði Íslendingurinn gengur í reglu Mölturiddara

Kaþólska kirkjublaðið greinir frá því að formaður Félags kaþólskra leikmanna Gunnar Örn Ólafsson hafi verið tekinn upp í reglu Mölturiddara við messu í Kristskirkju hinn 11. ágúst síðastliðinn en dagana 10.-12. ágúst funduðu Mölturiddarar Norðurlanda á Íslandi. Gunnar er fjórði Íslendingurinn sem gengur í reglu Mölturiddara. Samkvæmt fornri hefð var Gunnar sleginn til riddara en áður vann hann heit um að standa vörð um trú og kirkju og láta sér umhugað um bágstadda skv. kjörorði reglunnar: "tuitio fidei et obsequium pauperum".

Sunnudaginn 12. ágúst tóku allir riddararnir þátt í messu kl. 10.30 og komu í kirkjukaffi að henni lokinni. Í blaðinu segir: "Möltureglan er elst af þeim riddarareglum kirkjunnar sem enn eru til. Hún var stofnuð sem hjúkrunarregla á krossferðatímunum en tók einnig að sér að vernda pílagríma í Landinu helga eða á leiðinni þangað. Hún var staðfest árið 1113 en var þegar til á 10. öld við sjúkrahús hl. Jóhannesar í Jerúsalem og nefndist því Jóhannesarreglan. Hjúkrunarstarfsemi reglunnar varð fyrirmynd allrar starfsemi sjúkrahúsa miðaldanna. Eftir að múslímar lögðu undir sig Landið helga var starfsemin færð til Ródos (1309-1522) og eftir það til Möltu (1530-1798). Eftir það voru aðalstöðvar hennar fluttar til Rómar. Riddarar reglunnar skipuleggja og standa fyrir víðtækri hjálparstarfsemi í flestum kaþólskum löndum. Fáni reglunnar er hvítur með rauðum krossi."

Heimild: Kaþólska kirkjublaðið 17. árg. 9. tbl. sept. 2007 bls. 27.

1 athugasemd

Athugasemd from: Ragnar Geir Brynjólfsson

Vegna fyrirspurnar sem ritara þessa pistils barst um Mölturiddarana þá skal upplýst að flestir Mölturiddarar eru leikmenn, þ.e. karlar eða konur sem ekki hafa gengið í trúarreglu, þ.e. munka eða nunnureglu - þó einnig þekkist að meðlimir trúarreglna gerist Mölturiddarar. Þessar upplýsingar ásamt margvíslegum fróðleik um regluna má finna á enskri útgáfu heimasíðu samtakanna á slóðinni: http://www.orderofmalta.org/index.asp?idlingua=5. Sérstaklega skal bent á tengilinn ‘Spiritual Commitment’.

02.09.07 @ 20:35