« Umsögn um lög nr. 25/1975Pílagrímaganga frá Strandarkirkju að Skálholti í sumar »

07.03.16

  18:21:00, Skrásetjari: Ragnar Geir Brynjólfsson   , 118 orð  
Flokkur: Erlendar fréttir úr heimi kirkjunnar

Fjórar nunnur af reglu Kærleiksboðbera féllu í árás á hjúkrunarheimili í Jemen

Asianews greinir frá því að fjórar systur af reglu Kærleiksboðberanna hafi fallið í árás á hjúkrunarheimili sem þær ráku í Aden í Suður-Jemen. Árásarmennirnir drápu öryggisvörð og fimm aðra starfsmenn heimilisins, skutu síðan fjórar nunnur og rændu presti heimilisins. Systurnar hétu systir Anselm frá Indlandi, systir Marguerite frá Rúanda, systir Judit frá Kenía og systir Reginette líka frá Rúanda. Sendiherra páfagarðs á svæðinu segir að árásin hafi haft trúarlega ástæðu. Frans páfi tjáði djúpa sorg vegna atburðarins  og skoraði á vopnaðar fylkingar í Jemen að hafna ofbeldi. 

Systur af reglu Kærleiksboðbera hafa starfað hér á Íslandi síðan í árslok 1996. Þær reka eins og kunnugt er matstofu í Ingólfsstræti 12. Undirritaður vottar þeim samúð vegna þessa atburðar. 

Nunnurnar fjórar í í Jemen

Nunnurnar sem féllu í Aden. Ljósmynd: Asianews. 

Ragnar Geir Brynjólfsson.

Heimildir: [1], [2]

2 athugasemdir

Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Hafðu heilar þakkir fyrir að rita hér um þessa miklu sorgaratburði, Ragnar, um það göfuga hjálparstarfsfólk og aðra sem án minnsta tilefnis urðu fórnarlömb grimmilegra hryðjuverkaárása í Jemen. Heimurinn er sannarlega ekki öruggur staður, meðan slíkir atburðir geta gerzt. Í raun gengur réttlæti heimsins aldrei upp til fulls án réttlætis Guðs og þess fullnaðardóms sem sjálfur Mannsonurinn Jesús Kristur mun kveða upp yfir öllum mönnum á dómsdegi (Mt. 25.41–46).

Þessir atburðir urðu mér, á ferð minni í gærmorgun að aðsetri Kærleiksboðbera Teresusystra á Íslandi að Ingólfsstræti 12, hvöt til að hefja dulítinn brag, sem mér loksins lánaðist að ljúka við nú í nótt, þá einnig eftir samveru með þeim og boðsgestum þeirra í Safnaðarheimilinu í Hávallagötu og á bænastund í Kristskirkju síðdegis í gær.

En varðandi þá miskunn, sem í 3. erindinu er ljáð máls á og talað um, þ.e. að jafnvel svo hatursfullum hryðjuverkamönnum, sem hér um ræðir, geti Guð í fullveldi sinnar náðar fyrirgefið svo óheyrilega höfuðglæpi, þá skal það nánast augljósa tekið fram, að slíkt gerist í 1. lagi ekki án þess, að viðkomandi hafi notið þar fyrirbæna sinna eigin ástvina eða annarra, sem runnið hafi til rifja hyldýpi synda þeirra, og í 2. lagi aldrei án þeirra eigin gagntæku alvöru-iðrunar. Þótt náð Guðs og miskunnsemi veitist sannarlega án verðskuldunar af allra manna hálfu, sbr. Pál sjálfan postula, er hún þó aldrei ódýr í reynd –– es gibt keine “billige Gnade” (D. Bonhoeffer) –– enda kostaði hún Frelsarans blóð og píslir, og henni er aldrei neytt upp á neinn mann óviljugan, þ.e.a.s. iðrunarlausan.

In Memory of the Sisters of Mercy and their friends, martyred in Yemen in March 2016

O those nuns unselfish, pure,
gave their lives, bestowing
acts of mercy … to endure
whatever, willing – but, for sure,
such painful fate unknowing!

Sadness, as it hurts the most,
comes without a warning.
Tragic, how the evil boast
of their malice – will they roast
in Hell each night and morning?

Still, the Lord may even those
hardened souls recapture
by His Mercy – His who rose
from Death’s dominion – once His foes,
may share in Heaven’s rapture!

10.03.16 @ 05:28
Athugasemd from: Jon Valur Jensson

Til viðbótar við hugleiðingar mínar hér á undan er skylt að geta þessa tvenns:

1. Hver maður, sem veit eða telur sér af Guði fyrirgefið ódæðisverk á borð við þetta eða annað manndráp og aðra alvarlega glæpi, hefur þá skýru siðferðisskyldu að gefa sig fram við lögreglu og taka refsingu þeirri, sem dómstólar setja honum, en jafnframt að bæta eftir öllu megni fyrir brot sitt, með fébótum sem öðru.

2. Hver sá, sem fremur dauðasynd (þá synd sem varpar honum úr náðarstöðu gagnvart Guði og lokar honum hliði himnaríkis), en hlotnast síðar iðrun (sem fæst ekki án verkunar náðar Guðs) og fyrirgefning, hann er eftir það, sé iðrunin alger og hreinsun hans fullkomin, eins og endurfætt barn Guðs og getur þá borið ávexti samboðna iðruninni (Mt.3.8, Post.26.20), þ.e. unnið kærleiksverk með hjálp Guðs. Þau verk eru þá líka öðrum til marks um, að iðrun hans hafi í raun átt sér stað. Án hennar verður hann aldrei Guði þókknanlegur.

Meðal kaþólskra manna, þ.m.t. austurkirkjumanna, er hinn eðlilegi (en ekki einasti) farvegur og vettvangur iðrunar slíkra syndara í gegnum skriftir, enda hefur presturinn vald til að halda eftir syndunum (Mt.16.19, 18.18, Jóh.20.22–23), en það fellur einnig í hans hlut að leggja hinum iðrandi þá skyldu á herðar að gefa sig fram við lögreglu, en tjái maðurinn sig óviljugan til þess, er iðrun hans ónýt og aflausn hans ekki í boði.

10.03.16 @ 15:13