« Benedikt páfi XVI áminnir okkur um „kristnu byltinguna“ Byskup hvetur kaþólska stjórnmálamenn til að verja lífið »

18.02.07

  16:27:43, Skrásetjari: Jón Rafn Jóhannsson, 674 orð  
Flokkur: Hugleiðingar

Fjölskyldan og stofnanauppeldið

Ég sá afar athyglisverða mynd á DRK 2 á fimmtudagskvöldið. Hún fjallaði um það hvernig farið var með frumbyggjana í Ástralíu allt til ársins 1971. Í sem fæstum orðum voru börnin rifin af foreldrunum, helst sem yngst, til að „breyta“ þeim í „Ástrala.“ Þeim var meinað að tala á „wanga“ og miskunnarlaust refsað ef þau tjáðu sig ekki á ensku. Þau fengu aldrei að snúa aftur heim til síns ættarsamfélags og í dag eru þau nefnd „the lost generations“ (hinar glötuðu kynslóðir) í Ástralíu. Þetta eru lífsfirrtir einstaklingar sem búa við afar djúpstæðar persónuleikaraskanir.

Mér hefur skilist að þetta hafi einnig verið tíðkað í Kanada áratugum saman. Börn frumbyggjanna (indíána, eskimóa) voru tekin af foreldrunum og alin upp á „stofnunum“ á vegum ríkisins og reksturinn iðulega falinn ýmsum kirkjudeildum á hendur (þar á meðal kaþólsku kirkjunni).

Í áströlsku myndinni var fjallað um aldraða konu sem var þannig tekin frá foreldrum sínum en strauk að nýju heim, labbaði heilar 1200 mílur með eitt systkina sinna, fjögurra ára gamla stúlku. Hún var ein af þeim heppnu og var aldrei send aftur til „hvítu mannanna.“

Hvað kemur þetta við því upplausnarástandi sem er að skapast meðal barna í hinum vestræna heimi í dag? Hið sama: Stofnanauppeldið er að leysa fjölskylduna af í ótalmörgum tilvikum þar sem foreldrarnir hafa engan tíma lengur til að sinna barnauppeldi. Þetta má í meira eða minna mæli rekja til efnishyggju veraldarhyggjunnar þar sem dauðir hlutir vega þyngra en barnssálirnar. Bæta má því við að þau börn sem alin voru upp á vegum Þriðja ríkis Hitlers á slíkum „stofnanaheimilum“ á vegum Lebensbronn Himmlers eiga við sömu vandamálin að stríða.

Nýlega sá ég einmitt mynd á ARD stöðinni þýsku af samkomu slíks fólks sem alið var upp með þessum hætti í Þriðja ríkinu og nú er orðið rígfullorðið. Allir staðfestu hið sama: Dapurlegt líf sökum alvarlegra persónuleikaraskana!

Allt rennir þetta stoðum undir boðskap kirkjunnar og mikilvægi fjölskyldunnar í barnauppeldi: AÐ FJÖLSKYLDAN SÉ HORNSTEINN VELFERÐAR ÞJÓÐFÉLAGSINS!

Engin stofnun, hvorki barnaheimili eða skólar, geta komið í stað móðurhlýjunnar og föðurhandarinnar. Jafnvel ómálga skepnur virðast skilja þetta betur en sérfræðingastóð tískusveiflna félagsfræðifasismans. Nýlega mátti sjá Rotweilertík í Englandi á Sky sjónvarpsstöðinni sem tók að sér að ala upp tvö lömb sem misst höfðu móður sína. Húsmóðirin á bænum fullyrti að tíkin hefði bjargað lífi beggja lambanna með „móðurhlýju“ sinni.

Undarlegt er það að sérfrótt fólk í upphafi 21. aldar skuli ekki skilja einföldustu staðreyndir lífsins. En ef til vill er það alls ekki svo skrítið þegar bókin er látin leysa brjóstvitið af hólmi. Hinir vansælu drengir í Breiðavík (sem nú eru reyndar orðnir rígfullorðnir menn) bíða þess seint bætur hvaða uppeldi var talið þeim fyrir bestu af hálfu opinberra aðila fyrir 40 árum. Ekkert, ég segi ekkert, getur leyst FJÖLSKYLDUNA af hólmi, hvað sem svo tískusveiflur kennslubóka félagsfasismans boða í þenna tíma eða hinn eða er orð Andrésar Magnússonar blaðamanns ef til vill betra: PILSFALDAFASISMI sérfræðingastóðsins sem þegar til alls kemur er ÁBYRGÐARLAUST FÓLK, samanber Breiðavíkurmálið þar sem hver vísar á annan?

Í Ástralíu voru frumbyggjarnir rifnir upp með rótum úr ættaramfélagi sínu og arfleifð. Hvað er veraldarhyggjan að gera í dag og hefur verið að gera áratugum saman: Að rífa heilar kynslóðir Evrópumanna með rótum úr kristinni arfleifð tvö þúsund ára til að leiða þær inn í tómhyggju níhilisma ördeyðunnar!

No feedback yet